Húsaleiga þeirra 20 leigufélaga sem eru með lán frá Íbúðalánasjóði, og voru krafin um upplýsingar um verðlagningu leiguíbúða sinna með bréfi sem sent var í maí síðastliðnum, er annað hvort í samræmi við markaðsleigu á viðkomandi svæði eða aðeins lægri.
Í bréfinu voru félögin, sem sum hver eru hagnaðardrifin leigufélög, spurð hvernig þau séu rekin með sem hagkvæmustum hætti með hagsmuni íbúa að leiðarljósi.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið segir þó að í ljósi þess ástands sem nú ríkir á leigumarkaði sé það hins vegar mat Íbúðalánasjóðs að markaðsleiga geti ekki talist réttmætt viðmið um það hvort leigufjárhæð sé viðráðanleg í skilningi laga um húsnæðismál annars vegar og reglna sem gilda um leiguíbúðalán sjóðsins hins vegar. „Því vinnur Íbúðalánasjóður nú að því að skilgreina ný viðmið um hæfilegt leiguverð þar sem horft verði til annarra þátta, líkt og hversu hátt hlutfall húsnæðiskostnaður er af ráðstöfunartekjum íbúa á viðkomandi svæði.“
Ný skilgreind viðmið Íbúðalánasjóðs myndu taka tillit til viðmiða Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, um að húsnæðiskostnaður teljist verulega íþyngjandi ef hann er yfir 40 prósent af ráðstöfunartekjum, sem og ákvæða íslenskra laga um almennar íbúðir þar sem viðmiðið til að hljóta stofnframlög er að húsnæðiskostnaður leigjenda íbúðanna nemi að jafnaði ekki meira en 25 prósent af ráðstöfunartekjum þeirra. „Niðurstöður kannana sem Íbúðalánasjóður hefur látið framkvæma hafa leitt í ljós að hlutfall ráðstöfunartekna sem lágtekjuhópar verja til leigu hér á landi er hærra en í nágrannalöndunum. Einnig er fjárhagsstaða leigjenda mun verri en fjárhagsstaða annarra á húsnæðismarkaði og flestir landsmanna gefa þau svör að óhagstætt sé að vera á leigumarkaði í dag. Meirihluti leigjenda segist í könnunum sjóðsins ekki upplifa að þeir búi við húsnæðisöryggi en telja þrátt fyrir það líklegt að þeir verði áfram á leigumarkaði á næstunni.“
Tvöfaldast á átta árum
Leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur tvöfaldast á átta árum. Á síðustu tveimur árum hefur það hækkað um meira en 30 prósent. Í könnun sem gerð var fyrr á árinu fyrir Íbúðalánasjóð kom fram að þriðji hver leigjandi borgi meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir þeirra geta safnað sér sparifé vegna hás leigukostnaðar. Einungis 14 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar.
Stærstu hagnaðardrifnu leigufélög landsins hafa varið hækkanir sínar með þeim rökum að þau hafi eingöngu verið að „aðlaga“ leigusamninga fasteignasafna sem þau hafi keypt af ríkinu að markaðsverði.
Lán til að stuðla að framboði á viðráðanlegum kjörum
Kjarninn greindi frá því í maí að Heimavellir, stærsta hagnaðardrifna leigufélag landsins sem á um tvö þúsund íbúðir, sé að stærstum hluta fjármagnað með lánum frá Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður og Kadeco, annað félag í eigu ríkisins, eru líka þeir aðilar sem hafa selt Heimavöllum flestar eignir.
Lánin eru að hluta til veitt í samræmi við reglugerð Íbúðalánasjóðs frá árinu 2013 til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Markmið þeirrar reglugerðar er að „stuðla að framboði á leiguíbúðum fyrir almenning á viðráðanlegum kjörum“.
Til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar mega félög sem fá slík lán ekki vera rekin í hagnaðarskyni né má greiða úr þeim arð. Heimavellir voru skráðir á markað í síðustu viku og ætla sér í kjölfarið að endurfjármagna lán sín hjá Íbúðalánasjóði, sem nema 18,6 milljörðum króna og eru rúmlega helmingur af skuldum félagsins, svo það geti greitt út arð.
Frá því að Heimavellir voru stofnaðir í febrúar 2015 hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um meira en 40 prósent.