Mynd: Skjáskot/Efling

„Við eigum Ísland, það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það“

Lífeyrissjóðir landsins eiga stóran hluta af íslensku atvinnulífi. Hávær krafa er um að þeir verði virkari eigendur og nýti sér þau völd sem í því felast til að beita sér fyrir lífsgæðum sjóðsfélaga í nútíð ekki síður en í framtíð. Sú krafa kemur fyrst og fremst frá fulltrúum launafólks, verkalýðshreyfingum landsins.

Stundum þegar ég vil fá jarðtengingu við hvað ég er að gera þá fer ég í bækur sem hafa verið skrifaðar, t.d. saga verkalýðsfélaganna. Fyrsta verkalýðsfélagið fyrir austan er stofnað 1896. Þegar maður les fundargerðir frá fyrstu fundunum ... þetta er fólk sem bjó í nánast moldarkofum, áhyggjuefnin voru hvort að börnin fengu mat daginn eftir. Menn voru settir út á kaldan klaka og fengu ekki atvinnu ef þeir voru í forystu fyrir verkalýðsfélagið. Í dag, félögin sem þetta fólk stofnaði, við eigum Ísland. Það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það.“

Þetta sagði Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinasambands, og annar þeirra sem boðið hafa sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ) á fundi sem Efling stóð fyrir með forsetaframbjóðendum um síðustu helgi. Mótframbjóðandi Sverris, Drífa Snædal, sagðist vera honum sammála.

Auglýsing

Ummælin féllu í umræðum um hvort að lífeyrissjóðir ættu að taka að sér stærra samfélagslegt hlutverk. Ástæðan fyrir umræðunum er sú að stærstu eigendur íslensks atvinnulífs eru íslenskir lífeyrissjóðir. Og eigendur lífeyrissjóðanna er almenningur í landinu.

Höft kenna nöktum sjóðum að spinna

Hlutur lífeyrissjóðakerfisins í heild íslensku atvinnulífi hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Fyrir því eru þrjár ástæður. Sú fyrsta er að þeir tóku virkan þátt í endurreisn íslensks atvinnulífs eftir bankahrunið, þegar lítið var um stóra sjóði til að taka að sér slíka endurreisn. Til að setja það verkefni í samhengi var það mat Samkeppniseftirlitsins að um 70 prósent allra fyrirtækja í landinu hefði þurft á einhverskonar fjárhagslegri endurskipulagningu að halda eftir hrunið. Og á meðal þeirra voru mörg mikilvægustu þjónustufyrirtæki landsins.

Önnur ástæðan er sú að lífeyrissjóðirnir voru, eins og aðrir sem búa og starfa á Íslandi, fastir innan fjármagnshafta frá haustinu 2008 og fram á síðustu ár. Þeir máttu því ekki ráðast í nýfjárfestingar utan landssteinanna.

Þriðja ástæðan er sú að inngreiðslur í lífeyrissjóðina hafa aukist umtalsvert á undanförnum árum og eignir þeirra ávaxtast vel samhliða. Í lok árs 2010 átti kerfið allt 1.920 milljarða króna. Í lok júlí síðastliðins námu eignir lífeyrissjóða 4.093 milljörðum króna. Þær hafa því rúmlega tvöfaldast á átta og hálfu ári.

Laun forstjóra hækka þótt markaðsvirði dragist saman

Flest félög sem skráð eru í Kauphöll Íslands eru að stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Í vor, þegar flest skráðu félögin voru að birta ársreikninga sína, kom í ljós að umtalsverðar hækkanir höfðu orðið á launum þeirra flestra. Þar vakti mesta athygli launahækkun forstjóra N1 sem hækkaði í launum um eina milljón króna á mánuði í fyrra og var með 5,9 milljónir króna í mánaðarlaun. Það jafngilti, að sögn verkalýðsforkólfa, 22 launum afgreiðslumanna hjá N1. Drífa Snædal, frambjóðandi til embættis forseta ASÍ, sagði á áðurnefndum frambjóðendafundi um síðustu helgi að það þyrfti í alvöru að fara að eiga sér stað umræða um að skilyrða hæstu laun við lægstu laun. „Þannig að við skilgreinum það sem er ásættanlegt.[...]Ræðum launabilið. Ég held að við komumst ekkert áfram í þessari umræðu án þess.“ Aðspurð sagði Drífa að í sínum huga mættu hæstu laun ekki vera meira en þrefalt hærri en lægstu laun innan hverrar stofnunar eða fyrirtækis.

Það eru alls 18 forstjórar yfir félögunum sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað. Þeir eru allir karlar. Kjarninn tók saman launakjör þeirra úr birtum ársreikningum og hvernig þau hafa þróast á undanförnum árum. Niðurstaðan er sú að meðal Kauphallar-forstjórinn er með 4,7 milljónir króna í mánaðarlaun. Það eru tæplega 16földlágmarkslaun, sem eru 300 þúsund krónur á mánuði.

Þrýstingur hefur skapast á sjóðina að grípa inn í launaþróun æðstu stjórnenda félaga sem þeir eiga stóran hlut í, þar sem hún sendi verstu mögulegu skilaboð sem hægt sé að senda inn í komandi kjaraviðræður venjulegs launafólks.

Það hefur aukið enn á þann þrýsting að laun forstjóranna hafa hækkað umtalsvert á árunum 2015 og út 2017 þrátt fyrir að markaðsvirði margra félaga hafi dregist saman. Því sé verið að verðlauna fyrir slakan árangur.

Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands lækkaði t.d. um 15 prósent frá byrjun árs 2016 og fram að síðustu áramótum. Á sama tíma hækkuðu laun nær allra forstjóra, og sumra um tugi prósenta.

Sjónvörp og þvottavélar

Á umræðu­fundi um eign­ar­hald á at­vinnu­fyr­ir­tækj­um, hlut­verki líf­eyr­is­sjóða og áhrif á sam­keppni sem haldinn var á Hilton Reykja­vik Nor­dica í maí 2016 á vegum Samkeppniseftirlitsins náði Flóki Hall­dórs­son, fram­kvæmda­stjóri ­sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Stefnis, að kjarna þá stöðu sem var uppi ágætlega. Þar sagði hann að ef lífeyrissjóðunum yrði ekki bráðum heimilað að fjárfesta utan Íslands væru þeir farnir að kaupa „sjón­vörp og þvotta­vél­ar“ eftir nokkur miss­eri. Allir aðrir fjár­fest­inga­kostir verð­i ­upp­urn­ir.

Nokkrum dögum síðar var lífeyrissjóðunum veitt heimild til að versla utan hafta og í fyrravor var höftum að mestu lyft. Síðan þá hefur áhersla þeirra verið á að kaupa erlendar eignir.

Úr sex prósentum í 41 prósent

Tæpur áratugur innan hafta skilaði hins vegar því að lífeyrissjóðir landsins urðu allt um lykjandi í íslensku atvinnulífi. Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann um þá stöðu, og birt var í janúar síðastliðnum, kom fram að á árinu 2006 hafi sjóðirnir átt um sex prósent allra skráðra hlutabréfa í íslensku kauphöllinni. Áratug síðar áttu þeir 41 prósent slíkra.

Lífeyrissjóðirnir voru líka búnir að kaupa upp nær öll skuldabréf á markaði. Árið 2006 áttu þeir 41 prósent slíkra en 2016 var hlutfall þeirra í markaðsskuldabréfum komið í 71 prósent.

Morgunljóst var, eftir margra ára gjaldeyrishöft, að íslensku lífeyrissjóðirnir voru búnir að kaupa nær allt sem þeir gátu keypt á Íslandi.

Nýr forseti ASÍ verður kosinn í október. Aðkoma sambandsins að lífeyrissjóðakerfinu er umtalsvert.
Mynd: Bára Huld Beck

Í skýrslunni kom líka fram að ef lífeyrissjóðirnir skili 3,5 pró­sent raun­á­vöxtun á ári mun hlutur þeirra í heild­ar­fjár­muna­eign á Íslandi fara í 35 pró­sent árið 2030. 30 árum síðar, árið 2060, er reiknað með að sjóðirnir muni eiga 40 pró­sent af heildarfjármunum á Íslandi.

Þannig á þjóðin óbeint þessar eignir þótt hún hafi ekki beinan ráðstöfunarrétt yfir því fjármagni sem er inni í lífeyrissjóðakerfinu þar til að það er greitt út sem lífeyrir.

Nútíð eða framtíð?

Mörg þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir eru stórir eigendur selja vöru eða þjónustu sem flestir eigendur lífeyrissjóðanna þurfa að nýta sér nær daglega. Má þar nefna dagvöruverslanir, eldsneytissala, tryggingafélög og flutningafyrirtæki, hvort sem er í lofti eða á láði. Því eru sjóðirnir í þeirri  vandasömu stöðu að þeir þurfa að velja á milli þess að hámarka arðsemi fjárfestinga sinna, sjóðsfélögum til langtímaheilla, eða beita sér fyrir því að sjá þeim fyrir sem lægstu verði á vörum og þjónustu, sem gagnast sömu sjóðsfélögum sannarlega betur til skammstíma. Hingað til hefur áherslan verið á hið fyrrnefnda. En þrýstingur er á að lífeyrissjóðirnir einbeiti sér ekki síður að því að bæta lífsgæði landsmanna í nútíð.

Launafólk og atvinnurekendur stýra saman

En hvernig tengist þetta allt saman ASÍ og fjöldahreyfingum launafólks? Jú, vegna þess að stjórnir flestra lífeyrissjóða eru samansettar af annars vegar fulltrúum atvinnurekenda og hins vegar fulltrúum launafólks. Þeir fulltrúar skiptast svo á formennsku í stjórnunum. Ástæðan er sú að tilvera þeirra grundvallast af kjarasamningi milli ASÍ og því sem nú heitir Samtök atvinnulífsins (SA) árið 1969.

Auglýsing

Á grundvelli þessa fyrirkomulags eru nú níu lífeyrissjóðir á samningssviði ASÍ og SA. Þar á meðal eru tveir af stærstu sjóðum landsins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi lífeyrissjóður, sem báðir eru á meðal stærstu eigenda margra stórra fyrirtækja á Íslandi.

Verkalýðshreyfingin hefur því umtalsverð áhrif innan lífeyrissjóðakerfisins. Hún hefur hins vegar legið undir gagnrýni, meðal annars frá nýjum og róttækari forystumönnum stéttarfélaga á borð við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar. Þau hafa til að mynda gagnrýnt harðlega launakjör stjórnenda skráðra félaga sem lífeyrissjóðirnir eiga hlut í og hvatt til aukinnar aðkomu lífeyrissjóða að lausnum á húsnæðismarkaði.

Allt á fleygiferð

Guðrún Hafsteinsdóttir, er stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir að hluthafastefnur lífeyrissjóðanna séu síkvikar stefnur sem taki mið af samfélaginu hverju sinni.Slíkt ferli sé á fleygiferð og nú séu nær allir sjóðir með endurskoðun á þeirri stefnu í gangi þar sem verið sé að ramma inn þætti sem snúa að meiri samfélagslegri ábyrgð. „Hluti af því er til dæmis krafa um að tilnefningarnefndir séu starfandi innan þeirra skráðu félaga sem sjóðirnir eiga hluti í.“

Guðrún Hafsteinsdóttir er stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
Mynd: Skjáskot

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti sjóður landsins á eftir Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR). Guðrún bendir á að sjóðurinn sé aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment). Þær reglur voru samdar af leiðandi lífeyrissjóðum og eignavörslufyrirtækjum víða um heim í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og hafa margir af stærstu lífeyrissjóðum Vesturlanda undirgengist reglurnar. Þær fela í sér að að þátttakendur skuldbinda sig til að taka tillit til umhverfislegra og félagslegra þátta við fjárfestingar sínar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórnarhætti fyrirtækja sem fjárfest er í. „Þessar reglur leggja þá skyldu á lífeyrissjóðina sem undirgangast þær að þeir séu virkir eigendur með góða eigendastefnu,“ segir Guðrún.

Lánakjör hafa batnað hratt

Mikil og stanslaus krafa er um að lífeyrissjóðir beiti sér til að bæta aðstæður á húsnæðismarkaði. Á fundi forsetaframbjóðenda hjá ASÍ um síðustu helgi sagði Drífa að þeir mættu beita sér mun meira á þeim markaði. „Lífeyrissjóðirnir eru stofnaðir til að auka lífsgæði okkar í nútíð og framtíð. Ef það er hægt að gera það í nútíð líka með tilkomu lífeyrissjóðanna þá á sannarlega að nýta þessa sameiginlegu sjóði okkar í það án þess að það komi illa niður á framtíðarlífeyrssparnaði.“

Lífeyrissjóðir eru þó stór þáttakandi á húsnæðismarkaði nú þegar. Þeir eiga til að mynda mikinn hluta af þeim skuldabréfum sem Íbúðalánasjóður hefur gefið út og frá haustinu 2015 hafa þeir aukið bein útlán til sinna sjóðsfélaga gríðarlega. Samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands námu útlán þeirra 17,5 prósent af öllum lánum til heimila í lok mars síðastliðins. Til samanburðar voru þau 9,5 prósent í ársbyrjun 2016.

Ástæðan er einföld: Líf­eyr­is­sjóðir bjóða mun betri kjör en bankar á hús­næð­is­lánum til heim­ila, og vegna þess leitar fólk frekar til þeirra en banka þegar kemur að hús­næð­is­lán­um. Lægstu verðtryggðu breytilegu vextir sem fást í dag eru nú 2,51 prósent og alls bjóða níu lífeyrissjóðir sjóðsfélögum sínum upp á slíka vexti undir þremur prósentum. Þótt vextirnir séu enn háir í alþjóðlegum samanburði, og auðvitað verðtryggðir, þá eru þetta samt sem áður lægstu vextir sem hafa boðist á Íslandi. Stóru bankarnir þrír eru að bjóða sambærileg lán á 3,65-2,98 prósent vöxtum.

Vandamálið við lífeyrissjóðslánin er að þau eru að hámarki 75 prósent af fasteignamati. Það þýðir að þeir sem eiga lítið eða ekkert eigið fé geta ekki nýtt sér þau og þurfa að leita í dýrari lán hjá fjármálafyrirtækjum sem bjóða hærra lánshlutfall.

Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar