Mynd: Bára Huld Beck

Ef skipan dómara hefði verið lögmæt hefðu Eiríkur og Jón verið skipaðir í Landsrétt

Héraðsdómur samþykkti að greiða tveimur mönnum sem urðu af embætti dómara í landsrétti vegna saknæmrar og ólögmætrar ákvörðunar dómsmálaráðherra um að skipa þá ekki í Landsrétt. Annar gerði kröfu um 31 milljónir króna í skaðabætur en fékk fjórar milljónir. Hinn sóttist eftir viðurkenningu á bótaskyldu.

Í dómi Hér­aðs­dóms Reykja­víkur í málum sem Eiríkur Jóns­son og Jón Hösk­ulds­son höfð­uðu á hendur íslenska rík­inu vegna athafna Sig­ríðar Á. And­er­sen dóms­­­­­mála­ráð­herra þegar hún skip­aði dóm­­­­­ara í Lands­rétt er kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að bæði Eiríkur og og Jón hefðu verið skip­aðir í Lands­rétt ef með­ferð máls­ins hefði verið lög­mæt. Því væri ekki „unnt að horfa fram hjá því að af hálfu stefnda hefur ekki verið gerð við­un­andi grein fyrir því hvaða sam­an­burður fór fram á stefn­anda og öðrum umsækj­endum og hvernig inn­byrðis mati þeirra var hátt­að.“

Þá yrði heldur ekki dregin fjöður yfir það að dóm­nefnd hafði þegar raðað Eiríki í 7. sæti á lista yfir hæf­ustu umsækj­end­ur, og Jóni í 11. sæti á list­an­um. Auk þess búi þeir báðir yfir meiri reynslu af dóms­störfum en nokkrir þeirra umsækj­enda sem lagt var til að skip­aðir yrðu dóm­arar við Lands­rétt, Sig­ríður not­aði dóm­ara­reynslu sem rök fyrir því að breyta röðun á list­ann yfir þá sem skip­að­ir.

Hér­aðs­dómur vísar enn fremur til þess að Hæsti­réttur hafi þegar hafnað þeim sjón­ar­miðum að slíkir ann­markar hafi verið á dóm­nefnd­ar­á­liti að til­efni hafi verið fyrir ráð­herra að víkja frá því. Það var gert í des­em­ber 2017.

Í dómum í báðum mál­unum stendur því orð­rétt: „Með vísan til þess­ara atriða verður að telja að stefn­andi hafi leitt nægi­lega sterkar líkur að því að lög­mæt með­ferð máls­ins og for­svar­an­legt mat á umsókn og sam­an­burður á hæfni hans og ann­arra umsækj­enda hefði leitt til þess að hann hefði verið skip­aður dóm­ari við Lands­rétt. Er því fall­ist á máls­á­stæðu stefn­anda um við­ur­kenn­ingu á skaða­bóta­skyldu stefnda vegna þess fjár­hags­lega tjóns sem hann varð fyrir vegna ákvörð­unar ráð­herra.“

Engir ann­markar á dóm­nefnd­ar­á­liti

Hér­aðs­dómur segir að engir ann­markar hafi verið á því dóm­nefnd­ar­á­liti sem Sig­ríður ákvað að víkja frá.

Þeirri skýr­ingu dóms­mála­ráð­herra að henni hefði verið ljóst að listi dóm­nefnd­ar­innar myndi ekki hljóta sam­þykki á Alþingi óbreytt, vegna þess að for­svars­menn sam­starfs­flokka hennar í rík­is­stjórn hefðu gert það ljóst, er auk þess hafnað sem mál­efna­legri. Dóm­ur­inn bendir á að dóms­mála­ráð­herra fór í reynd með vald til skip­unar dóm­ara við Lands­rétt í sam­ræmi við stöðu hennar sem æðsta hand­hafa fram­kvæmd­ar­valds og bar að stjórn­lögum sér­staka ábyrgð á þeirri skip­un. Í báðum dómunum segir sam­hljóma að ekki sé „unnt að fall­ast á máls­á­stæðu stefnda sem felur efn­is­lega í sér að ráð­herra hafi ekki megnað að koma í veg fyrir þá atburða­rás sem átti sér stað með að gengið var fram hjá stefn­anda, enda var það hún sem tók þá ákvörðun að taka hann út af list­anum frekar en aðra umsækj­end­ur. Ráð­herra fór enn fremur bæði með það vald að leggja til umsækj­endur og eins að ákveða hvort til­laga um skipun þeirra umsækj­enda sem Alþingi hafði sam­þykkt yrði borin undir for­seta Íslands til stað­fest­ing­ar.“

Fór fram á 30,7 millj­ónir en fékk fjórar

Jón fór fram á alls 30,7 millj­ónir króna í skaða­bætur vegna máls­ins. Sú krafa var rök­studd með því að mis­munur á launum lands­rétt­ar­dóm­ara og hér­aðs­dóm­ara frá 1. jan­úar 2018 og þangað til að Jón myndi láta af störfum sjö­tugur að aldri væri 25,6 millj­ónir króna. Auk þess fór hann fram á 5,1 milljón króna vegna mis­munar á þeim líf­eyr­is­rétt­indum sem vænta megi að hann hefði aflað ef Jón hefði verið skip­aður í Lands­rétt umfram það sem hann haldi áfram að starfa sem hér­aðs­dóm­ari.

Hér­aðs­dómur féllst á að slíkur útreikn­ingur gæti haft þýð­ingu við mat á fjár­hæð skaða­bóta í mál­inu en að það yrði að taka til­lit til þess að „að­stæður stefn­anda eru um margt háðar óvissu og tjón hans kann að tak­markast, til dæmis ef hann yrði síðar skip­aður dóm­ari við Lands­rétt eða tæki við öðru starfi þar sem laun og líf­eyr­is­rétt­indi eru hærri en hjá hér­aðs­dóm­ara. Í ljósi þessa verður að telja að bætur til stefn­anda fyrir fjár­hags­legt tjón séu hæfi­lega ákveðnar 4 millj­ónir króna að álit­u­m.“

Auk þess fór Jón fram á að fá greiddar 2,5 millj­ónir króna í miska­bætur en fékk dæmdar 1,1 milljón króna í slík­ar.

Telur árlegt tjón sitt vera 11,3 millj­ónir

Eiríkur Jóns­son, hinn umsækj­and­inn sem dóm­nefnd hafði metið á meðal þeirra hæf­ustu en hlaut ekki náð fyrir augum dóms­mála­ráð­herra, setti ekki fram kröfu um skaða­bætur heldur fór fram á að fá við­ur­kennda bóta­skyldu. Sú bóta­skylda var við­ur­kennd.

Eiríkur er fæddur árið 1977 og átti því allt að 30 ár eftir af starfsæv­inni þegar skipað var í Lands­rétt.

Í dómnum kemur fram að Eiríkur telur sig hafa orðið fyrir „aug­ljósu og auð­sann­an­legu“ fjár­hags­legu tjóni vegna sak­næmar og ólög­mætrar ákvörð­unar ráð­herra að skipa hann ekki sem dóm­ara í Lands­rétt. „Hefði stefn­andi fengið skipun í emb­ætti lands­rétt­ar­dóm­ara hefði fylgt því umtals­verð tekju­aukn­ing fyrir hann. Stefn­andi starfar sem pró­fessor við laga­deild Háskóla Íslands með kr. 745.318 í grunn­laun á mán­uði. Mán­að­ar­laun lands­rétt­ar­dóm­ara verði sam­kvæmt ákvörðun kjara­ráðs 14. des­em­ber 2017 sam­tals kr. 1.692.155. Mun­ur­inn nemi kr. 946.837 á mán­uði, eða kr. 11.364.044 á árs­grund­velli. Þannig sé ljóst að grunn­laun lands­rétt­ar­dóm­ara séu umtals­vert hærri en grunn­laun stefn­anda og tjónið því mik­ið.“

Verði málunum áfrýjað verða þau næst til meðferðar í Landsrétti.
Mynd: Bára Huld Beck

Eiríkur lagði fram nýjasta launa­seðil sinn, skatt­fram­töl sem sýndu tekjur áranna 2015 og 2016 og stað­greiðslu­yf­ir­lit árs­ins 2017 til að sýna enn frekar fram á tjón sitt. Í dómi hér­aðs­dóms segir að þegar litið sé til með­al­tals heild­ar­tekna Eiríks á mán­uði síð­ast­liðin þrjú ár, upp­reiknuð með hlið­sjón af launa­vísi­tölu, sé ljóst „að sú fjár­hæð er mun lægri en grunn­laun lands­rétt­ar­dóm­ara. Þannig séu með­al­tekjur stefn­anda síð­ustu þrjú alm­an­aks­ár, að teknu til­liti til allra auka­tekna og upp­reikn­aðar sam­kvæmt vísi­tölu, því kr. 513.793 lægri á mán­uði en grunn­laun lands­rétt­ar­dóm­ara, eða sem nemur kr. 6.165.516 á árs­grund­velli. Áréttað skal að hluti af heild­ar­tekjum stefn­anda – þ.e. tekjur sem eru umfram grunn­laun – sé vegna starfa sem stefn­andi hefði áfram getað sinnt sam­hliða störfum sem lands­rétt­ar­dóm­ari.“

Auka­tekjur hans umrædd ár voru fyrst og fremst til komnar vegna for­mennsku Eiríks í Úrskurð­ar­nefnd um Við­laga­trygg­ingu Íslands. Því starfi hélt Eiríkur áfram þegar hann var settur hér­aðs­dóm­ari í um eitt ár, með sam­þykki nefndar um dóm­ara­störf, og hefði því getað haldið því starfi áfram sam­hliða Lands­rétti. „Þá vísar stefn­andi til þess að þegar hann var settur hér­aðs­dóm­ari var hann sam­hliða í 30% stöðu við laga­deild Háskóla Íslands, sem hann hefði jafn­framt getað gegnt sam­hliða störfum í Lands­rétti. Hann hefði sam­kvæmt því áfram getað haft nokkrar auka­tekjur sem lands­rétt­ar­dóm­ari, rétt eins og í starfi sínu sem pró­fess­or, og eðli­leg­ast að horfa til mis­munar á grunn­launum í hvoru starfi fyrir sig. Allt að einu sé ljóst að með­al­tal heild­ar­tekna stefn­anda á mán­uði síð­ast­liðin þrjú ár sé umtals­vert lægri fjár­hæð en grunn­laun lands­rétt­ar­dóm­ara og tjón stefn­anda því aug­ljóst.“

Bóta­skylda rík­is­ins gagn­vart Eiríki var við­ur­kennd. Eiríkur þarf nú að höfða skaða­bóta­mál til að þær bætur sem hann á rétt á geti verið ákvarð­að­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar