Stjórnmálamenn telja að RÚV sé sá fréttafjölmiðill sem sýni mest hlutleysi í umfjöllun sinni um kosningar. Þeir fjölmiðlar sem stjórnmálamenn telja hlutdrægasta í umfjöllun sinni eru Morgunblaðið og Viðskiptablaðið. Kjarninn er sá einkarekni fjölmiðill sem flestir stjórnmálamenn telja að sýni mest hlutleysi í umfjöllun sinni um kosningar.
Þetta er á meðal niðurstaðna í könnun sem Birgir Guðmundsson, dósent við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, framkvæmdi í kringum síðustu nokkrar kosningar sem haldnar hafa verið hérlendis.
Birgir ræddi þessar niðurstöður á Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands sem fram fór síðastliðinn föstudag.
RÚV og Kjarninn sögð sýna mest hlutleysi
Í könnun Birgis voru stjórnmálamenn beðnir um að gefa fjölmiðlum einkunn á skalanum 1-5 þar sem einkunnin 1 þýddi að viðkomandi taldi þann fjölmiðil vera alveg hlutlausan og 5 að fjölmiðillinn væri alveg hlutdrægur. Því lægri sem einkunn fjölmiðils var, því hlutlausri töldu stjórnmálamenn þá vera í umfjöllun sinni.
Í síðustu kosningum, sem voru annars vegar sveitarstjórnarkosningarnar 2018 og hins vegar Alþingiskosningunum 2016/2017, þá töldu stjórnmálamenn fréttastofu RÚV vera þá sem sýndi af sér mest hlutleysi í umfjöllun. Í þingkosningunum fékk hún einkunnina 2,7 og í sveitarstjórnarkosningunum í vor fékk hún einkunnina 2,6.
Þar á eftir kom Kjarninn, sem er þar af leiðandi sá einkafjölmiðill sem stjórnmálamenn telja að gæti mest hlutleysis í umfjöllun sinni um kosningar. Hann fékk einkunnina 2,8 í síðustu tveimur þingkosningum og 3,0 í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru fyrr á þessu ári.
Frambjóðendur til þings telja fagleg vinnubrögð vera að aukast
Þegar stjórnmálamenn voru spurðir um fagmennsku blaðamanna, þ.e. hvort umfjöllun landsdekkandi fjölmiðla um stjórnmál (önnur en leiðaraskrif) ráðist af almennum faglegum sjónarmiðum blaðamennsku er niðurstaðan sú að í síðustu tveimur þingkosningum sögðu 27 prósent þeirra sem voru þar í efstu sætum framboðslista að þeir teldu vinnubrögð vera fagleg. Það er þrefalt fleiri en í þingkosningunum 2013 þegar einungis níu prósent stjórnmálamanna töldu að umfjöllun fjölmiðla hefði ráðist af almennum faglegum sjónarmiðum.
Þegar kemur að sveitarstjórnarstjórnmálamönnum snýst þessi þróun hins vegar við. Árið 2014 sögðust 23 prósent þeirra telja að blaðamenn sýndu fagmennsku í umfjöllun sinni en einungis 17 prósent þeirra sem voru í framboði í kosningunum sem fóru fram í vor voru þeirrar skoðunar.
Þessi þróun sést einnig þegar stjórnmálamenn voru spurðir um hæði eða óhæði fjölmiðla gagnvart stjórnmálaflokkum. Í þingkosningunum 2013 töldu 80 prósent aðspurðra að fjölmiðlar væru háðir stjórnmálaflokkum en í síðustu tveimur þingkosningum var það hlutfall komið í 70 prósent. Í sveitarstjórnarkosningunum 2014 sögðust 62 prósent frambjóðenda telja að fjölmiðlar væru háðir flokkum en í síðustu sveitarstjórnarkosningum var það hlutfall komið upp í 67 prósent.
Kjósendur spurðir um valda prent- og ljósvakamiðla
Í umfjöllun Birgis á föstudag fjallaði hann einnig um aðrar kannanir sem gerðar hafa verið á fjölmiðlum, þar á meðal könnun sem Félagsvísindastofnun gerði á meðal kjósenda í desember 2015. Þar var einungis spurt um stærstu prent- og ljósvakafjölmiðla. Niðurstöður þeirrar könnunar voru þær að 68 prósent aðspurðra kjósenda töldu Morgunblaðið vera hlutdrægt og 65 prósent töldu DV vera slíkt. Vert er að taka fram að DV var á þessum tíma í annars konar eignarhaldi en blaðið er í dag.
Fæstir töldu RÚV vera hlutdrægt í umfjöllun, eða 24 prósent aðspurðra og RÚV var einnig sá fjölmiðill sem spurt var um í könnuninni sem var talin óhlutdrægastur. Aðrir miðlar sem spurt var um voru Fréttablaðið, Viðskiptablaðið og Stöð 2.
Þegar kjósendur voru spurðir um fagmennsku blaðamanna sögðust 41 prósent vera því ósammála að umfjöllun ofangreindra miðla um stjórnmál réðist af almennum faglegum sjónarmiðum blaðamennsku en einungis 24 prósent sögðust vera því sammála.
Þriggja ára gömul könnun
Mikill munur var á milli afstöðu kjósenda til þessa eftir því hvaða flokk þeir kusu. Könnunin var gerð í desember 2015, fyrir tæpum þremur árum síðan, þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, saman sett af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, sat enn við völd og Sigmundur Davíð var enn formaður Framsóknarflokksins.
Kjósendur Sjálfstæðisflokks voru ólíklegastir til að telja umfjöllun fjölmiðla faglega, en einungis 16 prósent þeirra voru á slíkri skoðun. Þar á eftir komu kjósendur Vinstri grænna en 18 prósent þeirra töldu umfjöllun ofangreindra prent- og ljósvakamiðla vera að starfa faglega. Kjósendur Bjartrar framtíðar (58 prósent), sem þá var á þingi, og Samfylkingar (50 prósent) voru hins vegar þeir sem töldu umfjöllun fjölmiðla vera faglegasta. Það er athyglisvert í ljósi þess að fylgi hvorugs þessara flokka mældist mikið á þessu tíma. Í könnun sem MMR gerði í desember 2015 var fylgi Samfylkingar undir tíu prósent og fylgi Bjartrar framtíðar mældist undir fimm prósent.
Í þeirri könnun fóru Píratar með himinskautunum og mældust með um 35 prósent fylgi. Á sama tíma sögðust 26 prósent kjósenda þeirra telja að umfjöllun ofangreindra fjölmiðla væri fagleg og 23 prósent kjósenda Framsóknarflokksins.