Mynd: Hringbraut

Nefnd um dómarastörf hefur rætt ráðgjöf Davíðs Þórs Í Landsréttarmálinu

Davíð Þór Björgvinsson landsréttardómari hefur upplýst nefnd um dómaramál um ráðgjafastörf sín í Landsréttarmálinu. Það gerði hann sama dag og bréf var sent til ríkislögmanns þar sem spurst var fyrir um aukastörf hans. Forsætisráðuneytið segir að hann hafi ekki enn fengið greitt fyrir ráðgjöfina þar sem reikningur hafi ekki borist.

Davíð Þór Björgvinsson, dómari í Landsrétti, upplýsti nefnd um dómarastörf um ráðgjafarstörf sín fyrir íslenska ríkið í tengslum við Landsréttarmálið svokallaða með bréfi 9. október síðastliðinn. Málið var enn fremur rætt á fundi nefndarinnar sem fór fram 23. október síðastliðinn en vinnslu þess er ekki lokið. Þegar henni verður lokið munu upplýsingar um aukastörf Davíðs Þórs verða færðar í opinbera skrá á vef nefndarinnar. Þetta kemur fram í svari Hjördísar Bjarkar Hákonardóttur, formanns nefndar um dómarastörf, við fyrirspurn Kjarnans um málið.

Davíð Þór var dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í níu ár. Hann var á meðal þeirra 15 sem skipaðir voru í embætti dómara við Landsrétt í júní 2017. Þegar Landsréttur tók til starfa í byrjun árs 2018 var Davíð Þór veitt leyfi frá dómarastörfum þar sem hann gegndi embætti setts saksóknara í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Davíð Þór tók síðan til starfa við réttinn 1. október 2018.

Veitti ráðgjöf við ritun greinargerðar

Áður en að hann tók til starfa hafði Davíð Þór sinnt ráðgjöf vegna ritunar greinargerðar af hálfu ríkislögmanns til Mannréttindardómstóls Evrópu í svokölluðu Landsréttarmáli. Í því máli vill íslenskur maður meina að Arnfríður Einarsdóttir sé vanhæf til að dæma í Landsrétti. Það mál er nú í flýtimeðferð fyrir Mannréttindadómstólnum og íslenska ríkið skilaði nýverið greinargerð sinni í málinu. Kjarninn greindi frá innihaldi hennar á mánudag en greinargerðinni var skilað 27. september 2018, nokkrum dögum áður en að Davíð Þór hóf störf í Landsrétti.

Arn­­fríður var einn fjög­­urra umsækjenda um embætti dómara vil Landsrétt sem Sigríður Á. Andersen dóms­­mála­ráð­herra lagði til að yrði skipuð í stað þeirra fjög­­urra sem sér­­­stök dómnefnd mat hæfasta. Hæstiréttur Íslands komst svo að þeirri niðurstöðu í desember 2017 að dómsmálaráðherra hefði brotið stjórnsýslulög með því að sinna ekki rannsóknarskyldu sinni með nægjanlegum hætti þegar hún ákvað að skipta út þeim umsækjendum sem metnir höfðu verið hæfastir af dómnefndinni.

Telur Davíð Þór vanhæfan

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður mannsins í málinu sem er fyrir Mannréttindadómstólnum, hefur farið fram á að Davíð Þór taki ekki sæti í málum sem Vilhjálmur ræki fyrir Landsrétti í ljósi þess að hann hefði gert sig vanhæfan með því að veita ríkislögmanni ráðgjöf.

Þann 9. október sendi Vilhjálmur bréf til Einars Karls Hallvarðssonar ríkislögmanns. Þar sagði meðal annars að Vilhjálmur fengi ekki betur séð en að „í þessum aukastörfum Davíðs Þórs fyrir ríkislögmann felist hagsmunagæsla fyrir Arnfríði Einarsdóttur landsréttardómara og þá um leið hina þrjá landsréttardómarana sem dómsmálaráðherra tók fram fyrir röð við stofnun Landsréttar. Að mínu mati er ljóst að Davíð Þór hefur gert sig vanhæfan til þess að taka sæti í dómi í Landsrétti með einhverjum af þessum fjórum „umbjóðendum“ sínum“.

Í bréfinu segir Vilhjálmur einnig að Davíð Þór hafi „látið hjá líða að upplýsa nefnd um dómarastörf[...]um aukastörf sín og eftir atvikum vanrækt að fá leyfi nefndarinnar til þess að sinna þessum aukastörfum.“ Þá fór hann fram á að vita hvort Davíð Þór hefði fengið greitt fyrir ráðgjafastörf sín.

Sama dag og Vilhjálmur sendi bréfið á ríkislögmann greindi Davíð Þór nefnd um dómarastörf frá þeim störfum sem hann hafði unnið fyrir ríkislögmann vegna greinargerðar sem skilað hafði verið inn til Mannréttindadómstólsins tólf dögum fyrr.

Sagði engar greiðslur hafa verið inntar af hendi

Þann 16. október birti RÚV frétt um það að Vilhjálmur hefði krafist þess að Davíð Þór viki sæti í Landsrétti. Þar var rætt við Davíð Þór þar sem hann staðfesti að hafa veitt ráðgjöf í málinu en að greinargerð ríkisins væri ekki undirrituð af honum né bæri hann ábyrgð á henni á nokkurn hátt. Þá sagði hann að engar greiðslur hefðu verið inntar af hendi fyrir ráðgjöfina.

Ríkislögmaður svaraði bréfi Vilhjálms 19. október og staðfesti þar að Davíð Þór hefði veitt ráðgjöf „í tengslum við það mál sem um ræðir“. Þar sagði enn fremur að Davíð Þór hefði verið í leyfi frá störfum sem dómari við Landsrétt þegar ráðgjöfin var veitt. Spurningu Vilhjálms um hvort Davíð Þór hefði fengið greitt var ekki svarað.

Áður en Davíð Þór veitti ríkinu ráðgjöf í málinu hafði hann tjáð sig opinberlega um hvað niðurstaða Mannréttindadómstólsins í því myndi þýða. Það gerði hann í pistli sem hann birti á vefsíðu sinni 1. júlí 2018. Í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 daginn eftir sagði hann enn fremur að ef dómstólinn myndi dæma íslenska ríkinu í óhag myndi það ekki þýða að dómarar við réttinn missi stöðu sína eða að dómar þeirra verði ógildir. „Þetta er ekki jafndramatískt og hefur verið teiknað upp,“ sagði Davíð.

Almennt greitt fyrir ráðgjöf en engin reikningur hefur borist

Dómurum er almennt óheimilt að veita lögfræðilega ráðgjöf gegn endurgjaldi. Í svari Katrínar Jakobsdóttur við við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um veitta ráðgjöf störf við tímabundin eða afmörkuð verkefni, sem birt var á vef Alþingis 16. október, kemur fram að Davíð Þór hafi sinnt ráðgjöf vegna ritunar greinargerðar af hálfu ríkislögmanns til Mannréttindadómstóls Evrópu. Síðan sagði: „Greiðslur hafa enn sem komið er ekki verið inntar af hendi til verktakans.“

Kjarninn sendi fyrirspurn á forsætisráðuneytið og bað um að þetta yrði skýrt frekar. Í svari þess sagði að ritun greinargerðarinnar af hálfu ríkislögmanns var unnin í samráði við forsætisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. „Óskaði forsætisráðuneytið eftir því að leitað yrði ráðgjafar færustu sérfræðinga á þessu sviði og var í samráði við ríkislögmann m.a. leitað til Davíðs Þórs Björgvinssonar, sem er fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstólinn, og reyndist hann reiðubúinn til að veita ráðgjöf. Ráðuneytið tekur fram að á þeim tíma sem ráðgjöfin var veitt var Davíð Þór í leyfi frá störfum sem dómari við Landsrétt og tók ekki til starfa við réttinn fyrr en í byrjun þessa mánaðar.“

Forsætisráðuneytið sagði að greiðslur fyrir ráðgjöfina hafi enn sem komið er ekki verið inntar af hendi til Davíðs Þórs. „Ráðuneytið greiðir almennt fyrir utanaðkomandi ráðgjöf en reikningur vegna þeirrar ráðgjafar sem að ofan greinir hefur ekki borist ráðuneytinu.“

Rætt á fundi nefndarinnar

Kjarninn sendi í kjölfarið fyrirspurn á nefnd um dómarastörf og spurði hvort að nefndin hafi tekið ráðgjafastörf Davíðs Þórs til skoðunar. Í svari Hjördísar Bjarkar Hákonardóttur, formanns nefndarinnar, sagði að Davíð Þór hefði upplýst nefndina um aukastörf sín þegar hann var settur hæstaréttardómari í tvo mánuði árið 2017, í byrjun árs 2018 og með bréfi 9. október síðastliðinn. „Þar sem hann var í leyfi frá upphafi skipunar sinnar í Landsrétt voru upplýsingar um aukastörf hans ekki settar í þá skrá yfir aukastörf dómara sem birt er opinberlega. Hann er nú tekinn til starfa og eru aukastörf hans í vinnslu hjá nefndinni samkvæmt erindi hans frá 9. þessa mánaðar. Málið var rætt á fundi nefndarinnar 23. október, en formaður nefndarinnar og annar nefndarmaður voru erlendis frá 8. október til 18. október. Þegar vinnslu er lokið verða upplýsingar færðar í hina opinberu skrá á vef nefndarinnar.“

Þar sagði enn fremur að rétt væri að taka fram að „upplýsingar um aukastörf sem er lokið eru ekki geymdar í hinni opinberru skrá. Samkvæmt 9. gr. reglna nr. 1165/2017 er að finna sérstaka heimild til handa aðila dómsmáls sem getur, vegna málsóknar, átt hagsmuna að gæta að því er varðar upplýsingar um þann dómara sem fer með málið. Markmiðið er að aðilinn geti fullvissað sig um óhlutdrægni dómarans. Öðrum eru ekki veittar upplýsingar umfram það sem kemur fram í hinni opinberu skrá.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar