Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir hefur einungis stuðning 37,9 prósent landsmanna samkvæmt nýrri könnun MMR. Stuðningur við hana hefur aldrei mælst lægri og þetta er í fyrsta sinn sem hann fer undir 40 prósent í könnunum. Þessi niðurstaða er nokkuð önnur en í nýjustu könnunum Gallup sem sýnt hafa að stuðningur við stjórnina hafi braggast lítillega eftir mikið fall frá því að hún var mynduð. Þar mælist stuðningur við ríkisstjórnina 49,8 prósent.
Í desember sögðust 66,7 prósent styðja stjórnina. Sá stuðningur minnkaði með hverri könnun fram í byrjun október þegar hann skyndilega reis að nýju í 47,5 prósent. Á þeim mánuði sem er liðinn frá þeim tíma hefur stuðningur þjóðarinnar við ríkisstjórnina minnkað um tæp tíu prósentustig.
Sjálfstæðisflokkurinn með undir 20 prósent fylgi
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mælst með lægra fylgi í næstum þrjú ár í könnunum MMR, eða frá því í janúar 2016. Fylgi flokksins mælist nú 19,9 prósent og er það í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili sem flokkurinn fer undir 20 prósent fylgi.
Niðurstaða nýjustu könnunar fyrirtækisins er raunar í einungis þriðja sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist með undir 20 prósent fylgi. Hin tvö skiptin voru í aðdraganda síðustu þingkosninga, þegar ein könnun mældi fylgi flokksins 19,9 prósent, og könnun sem birt var 20. janúar 2016, þegar fylgi flokksins mældist 19,5 prósent.
Hinir tveir stjórnarflokkarnir, Vinstri græn og Framsókn, bæta lítillega við sig milli kannana. Fylgi Vinstri grænna, flokks forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, mælist nú 11,5 prósent en fylgi Framsóknarflokksins 8,8 prósent.
Fylgi allra ríkisstjórnarflokkanna er þó umtalsvert frá kjörfylgi þeirra. Í kosningunum fyrir rúmu ári fengu þeir samanlagt 52,8 prósent fylgi. Saman mælast flokkarnir þrír nú með 40,1 prósent fylgi, sem myndi líkast til einungis skila þeim 25 til 26 þingmönnum ef kosið yrði í dag. Því væri ómögulegt að mynda meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks við þær aðstæður.
Allir stjórnarandstöðuflokkar með meira fylgi en í kosningum
Bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins mælast nú með fylgi sem er yfir því sem þeir fengu í kosningunum í fyrra. Alls segjast 12,1 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa Miðflokkinn og 6,9 prósent að þeir myndu kjósa Flokk fólksins.
Nokkur fylgni virðist vera á milli dalandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og aukningar á fylgi þessara tveggja stjórnarandstöðuflokka, þegar þróunin er skoðuð yfir lengra tímabil. Því virðast flokkarnir fjórir vera að fiska eftir atkvæðum á svipuðum slóðum.
Athygli vekur að fjöldi þeirra sem myndu kjósa eitthvað annað er mun hærri nú, 4,7 prósent, en í síðustu könnun var hún 2,3 prósent. Fjöldi þeirra sem ætlar ekki að kjósa þá flokka sem eru með fulltrúa á þingi hefur því tvöfaldast milli mánaða.