Allir stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi skiluðu ársreikningum sínum til ríkisendurskoðunar fyrir 1. október síðastliðinn, en lögbundinn frestur þeirra til að gera slíkt rann út þá.
Ríkisendurskoðun er þegar búin að birta útdrátt úr reikningumsjö flokka. En á eftir að birta útdrátt úr ársreikningi eins flokks sem á kjörna þingmenn, Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu var ársreikningi flokksins þó skilað á réttum tíma og ástæða þess að ekki hefur verið birtur útdráttur sé sá að það vantaði svör við viðbótarspurningu sem hafa ekki borist. Búast má við því að útdrátturinn verði birtur strax og þau svör berast, sem ætti að verða í nánustu framtíð samkvæmt upplýsingum frá ríkisendurskoðun.
Miðflokkurinn og Vinstri græn
Árið 2017 var kosningaár og en rekstrarkostnaður flokkanna er þá vanalega mun hærri en á árum þar sem ekki er kosið. Árið 2016 var reyndar líka kosningaár. Tekjur flokkanna samanstanda að mestu af framlögum úr ríkissjóði, framlögum lögaðila (sem hver má gefa upp að 400 þúsund krónum) og framlögum einstaklinga (sem hver má gefa upp að 400 þúsund krónum).
Vinstri græn fengu alls framlög upp á 79,9 milljónir króna. Þar af komu 55,9 úr ríkissjóði, 3,6 milljónir frá sveitarfélögum og 5,4 milljónir króna voru framlög lögaðila. Einstaklingar lögðu flokknum til 14,8 milljónir króna og aðildarfélög 420 þúsund krónur. Þetta dugði þó ekki til að skila flokknum á sléttu því rekstrargjöld námu 94,6 milljónum króna. Tap flokksins, að meðtöldum fjármagnsgjöldum, var 13,8 milljónir króna. Eigið fé Vinstri grænna var neikvætt um 18 milljónir króna í árslok 2017 og flokkurinn skuldaði 37,5 milljónir króna.
Flokkur fólksins, Viðreisn og Samfylking
Flokkur fólksins fékk 13,3 milljónir króna í ríkisframlög, 100 þúsund krónur frá lögaðila, og tæplega 1,1 milljón króna frá einstaklingum. Samtals námu því tekjur flokksins 14,5 milljónum króna en rekstur hans kostaði 18,5 milljónir króna. Því var um fjögurra milljón króna tap á rekstrinum á árinu 2017 og eigið fé flokksins var neikvætt um 5,8 milljónir króna um síðustu áramót.
Viðreisn fékk 38,7 milljónir króna í ríkisframlög og 11,8 milljónir króna frá lögaðilum. Einstaklingar gáfu flokknum 9,7 imlljónir króna og tekjur hans voru því samtals 60,2 milljónir króna. Rekstrarkostnaður var 58,6 milljónir króna og því var hagnaður á rekstri Viðreisnar upp á 1,5 milljón króna. Alls skuldar flokkurinn samt sem áður 10,2 milljónir króna sem er tilkomið vegna kostnaðar við rekstur hans árið áður, þegar hann var formlega stofnaður og bauð fram í fyrsta sinn.
Samfylkingin fékk um 23 milljónir króna í ríkisframlög á árinu 2017, sem var rúmlega helmingur þess sem flokkurinn fékk í slík árið áður. Ástæðan er afhroð flokksins í þingkosningunum 2016. Framlög sveitarfélaga í fyrra námu 11,5 milljónum króna og flokkurinn fékk 6,7 milljónir króna frá lögaðilum. Framlög einstaklinga margfölduðust hins vegar á milli ára. Nánar tiltekið nánast þrefölduðust þau, fóru úr tæplega 13 milljónum króna í 37 milljónir króna. Rekstrargjöldin námu 55 milljónum króna og því var 26,7 milljón króna hagnaður af rekstrinum í fyrra þegar búið var að taka tillit til fjármagnsgjalda. Samfylkingin er þó töluvert skuldsett, en skuldir hennar nema alls 114,4 milljónum króna. Á móti á flokkurinn eignir upp á 191 milljón króna.
Framsókn og Píratar
Framsóknarflokkurinn fékk 44,3 milljónir króna í ríkisframlag á árinu 2017, sem var rúmlega helmingi minna en hann fékk 2016. Ástæðan er, líkt og hjá Samfylkingunni, afleit útkoma í kosningunum 2016. Sveitarfélög létu Framsókn fá 5,7 milljónir króna og lögaðilar 8,4 milljónir króna. Framlög einstaklinga námu 6,4 milljónum króna. Þá var flokkurinn með „aðrar rekstrartekjur“ upp á 12,2 milljónir króna. Rekstur Framsóknar kostaði hins vegar 107,5 milljónir króna á árinu 2017 og að meðtöldum fjármagnskostnaði var tap flokksins 39,1 milljón króna. Framsókn á, líkt og flestir eldri flokkar landsins, töluverðar eignir. Þær eru samtals metnar á 183,8 milljónir króna. Skuldir flokksins eru þó langt umfram það, eða 242,3 milljónir króna og eigið fé hans var því neikvætt um 58,5 milljónir króna um síðustu áramót. Eiginfjárstaðan versnaði um tæpar 40 milljónir króna í fyrra.
Stóraukin ríkisframlög
Allir flokkarnir átta sem eiga fulltrúa á þingi geta þó horft björtum fjárhagslegum augum til framtíðar. Á milli jóla og nýárs 2017 var samþykkt að hækka framlög ríkissjóðs til stjórnmálaflokka um 127 prósent, í 648 milljónir króna árlega. Þetta var gert með vegna sameiginlegs erindi sex stjórnmálaflokka. Fulltrúar Pírata og Flokks fólksins skrifuðu sig ekki á erindið.
Erindið bar yfirskriftina „Nauðsynleg hækkun opinberra framlaga til stjórnmálasamtaka“. Í því er farið fram á að framlög til stjórnmálaflokka verði „leiðrétt“.
Í greinargerð sem fylgdi erindinu segir að sú upphæð sem stjórnmálaflokkum sé ætluð á fjárlögum hafi lækkað um helming á raunvirði frá árinu 2008. Nú eigi átta flokkar fulltrúa á Alþingi. „Hver þeirra stendur fyrir eigin rekstri og á að reka virkt og ábyrgt stjórnmálastarf um allt land, jafnt á sviði landsmála og sveitarstjórna, árið um kring.
Til samanburðar má nefna að dómsmálaráðuneytið hefur sagt að kostnaður vegna alþingiskosninganna á síðasta ári hafi verið rétt tæpar 350 milljónir, og að gera mætti ráð fyrir að hann yrði svipaður í ár. Stjórnmálasamtök starfa í þágu almannahagsmuna en hafa hvergi nærri bolmagn á við helstu hagsmunasamtök. Flestir flokkar eru reknir með 0-5 starfsmönnum í dag og samtals eru 13 fastráðnir starfsmenn hjá þeim átta flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Til samanburðar má geta að Samtök atvinnulífsins eru með 30 starfsmenn, Samtök iðnaðarins 16, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi 15, ASÍ með 22 og VR 62 starfsmenn. Í þessu umhverfi er stuðningur við nýsköpun, þróun, sérfræðiþekkingu og alþjóðatengsl enginn inni í stjórnmálasamtökunum; endar ná ekki saman til að sinna grunnþörfum í rekstri stjórnmálaflokka og að uppfylla markmið laganna. Lýðræðið á Íslandi á betra skilið.“