Þegar orðin skortir – bókin um Kim Wall

Fyrir réttri viku kom út, í Svíþjóð, og fleiri löndum, bók sem foreldrar sænsku blaðakonunnar Kim Wall hafa skrifað. „Við óskum þess að heimurinn muni eftir dóttur okkar, en ekki bara manninn sem tók hana frá okkur.“

Hjarta Kim Wall
Auglýsing

Þeir Vesturlandabúar sem á annað borð fylgjast með fréttum og kannast ekki við nafnið Kim Wall eru vandfundnir. Síðan hún lést 10. eða 11. ágúst í fyrra, um borð í dönskum kafbát, hafa birst í fjölmiðlum um það bil 100 þúsund fréttir um Kim Wall málið, eins og það er iðulega kallað. Foreldrar Kim Wall, þau Ingrid og Joachim Wall hafa fram til þessa nánast ekkert tjáð sig um dótturmissinn. Nú hafa þau sent frá sér bók sem ber heitið „Bókin um Kim Wall - þegar orðin skortir“.

Wall hjónin, þau Ingrid og Joachim búa í útjaðri Trelleborgar á Skáni, örstutt frá sjónum og þar ólst Kim upp. Hjónin ganga iðulega með heimilishundinn niður að sjó og um kvöldmatarleytið 10. ágúst í fyrra var Ingrid á ströndinni með hundinn. Veðrið var eins og það gerist best og Ingrid talaði drjúga stund í síma við dótturina Kim. Mæðgurnar höfðu um margt að spjalla en kvöldið áður höfðu þau Ingrid og Joachim í fyrsta sinn hitt kærasta Kim, Ole Stobbe. Hann er danskur, frá Kolding. Kærustuparið ætlaði nokkrum dögum síðar að halda til Kína en Ole Stobbe hafði komist inn í háskóla í Peking. Kim ætlaði hinsvegar að starfa þar sem blaðamaður. Þótt hún væri ung að árum, nýorðin þrítug, hafði hún getið sér gott orð og í Kína biðu hennar fjölmörg spennandi verkefni. Þau Kim og Ole, sem bjuggu á Refshaleøen í Kaupmannahöfn, höfðu þetta kvöld boðið til sín nokkrum vinum í eins konar kveðjuhóf.

Auglýsing
Örskammt  frá heimili þeirra Kim og Ole hafði aðsetur maður sem Kim hafði lengi haft áhuga á að hitta og taka við hann viðtal fyrir tímaritið Wired. Þetta var Peter Madsen, kallaður Raket Madsen. Viðurnefnið fékk hann af því að hann hafði árum saman unnið að tilraunum með eldflaugamótora og síðar beindist áhugi hans að kafbátum og hafði þegar smíðað þrjá slíka. Verkstæði Peters Madsen var á Refshaleøen, og þar var nýjasti kafbáturinn UC3 Nautilus geymdur. Kafbáturinn var stærsti heimasmíðaði kafbátur í heimi, 17.5 metra langur.

Afdrifaríkt símtal

Skömmu áður en von var á gestum þeirra Kim og Ole hringdi síminn. Sá sem hringdi var Peter Madsen. Kim hafði þá fyrir nokkru látið hann hafa númerið vegna greinarinnar og viðtalsins sem hún var að vonast eftir að taka við hann. Erindi Peter var að tilkynna að nú væri hann tilbúinn að hitta hana og bauð henni jafnframt í siglingu á kafbátnum. Kim var hikandi, þetta var ekki heppilegur tími því von var á gestunum á hverri stundu. Hún tímdi þó ekki að sleppa tækifærinu en vildi helst fá kærastann til að fara með sér. Endirinn varð þó að hún færi ein, hann yrði heima svo gestirnir kæmu ekki að tómu húsi. Kim gerði ráð fyrir að viðtalið og siglingin tækju um það bil tvo tíma. Eins og áður sagði var veðrið mjög gott og til er mynd af kafbátnum skammt undan landi við Refshaleøen og þar sjást Kim og Peter standa í turninum.

Kom ekki til baka  

Þegar kærastann, Ole Stobbe tók að lengja eftir að Kim Wall sneri heim hafði hann samband við lögregluna. Var þá árangurslaust búinn að reyna að hringja í Kim og fara niður að kajanum þar sem Peter var vanur að hafa bátinn.  

Lögreglan hóf þegar að svipast um eftir kafbátnum en formleg leit hófst að morgni 11. ágúst 2017.

Símtalið

Klukkan hálf sex að morgni 11. ágúst hringdi Ole til foreldra Kim. Ingrid svaraði og þótt hún þekkti Ole ekki vel merkti hún á rödd hans að hann var ekki eins og hann átti að sér. Hann sagði að erindið væri mjög mikilvægt og af því að hann talaði ekki sænsku  spurði hann hvort þau geti talað saman á ensku, til að koma í veg fyrir allan misskilning. Svo sagði hann að Kim væri horfin, hún hefði farið með kafbát í siglingu. Enginn vissi hvað orðið hefði af kafbátnum en leit væri hafin. Ingrid trúði vart því sem Ole sagði en taldi sig merkja á rödd hans að alvara væri á ferðum. Þau hjónin, Ingrid og Joachim, ætluðu reyndar að bregða sér til Berlínar síðdegis þennan sama dag en það fór á annan veg.Kim Wall og Peter Madsen. Hjónin ákváðu strax eftir að símtalinu var lokið að fara til Kaupmannahafnar frá Trelleborg en það eru sextíu kílómetrar. Þau fóru beina leið til Ole á Refshaleøen og skömmu eftir komuna þangað hringdi síminn: Kafbáturinn var fundinn og allt í lagi með alla (eins og það var orðað). Foreldrunum og Ole var létt, en brátt hringdi síminn aftur og þá tilkynnti lögreglan að kafbáturinn hefði sokkið og einum hefði verið bjargað. Maður á skemmtibát hefði bjargað Peter í þann mund sem kafbáturinn sökk og hann yrði settur í land í Dragør. Ekki orð um hvar Kim væri niðurkomin.

Hjónin ákváðu að aka þegar í stað til Dragør. Þangað komu þau í þann mund sem Peter Madsen steig á land og settist inn í lögreglubíl. Fjöldi fréttamanna var þá kominn á staðinn. Ingrid og Joachim spurðu hvort þau mættu tala við Peter Madsen og spyrjast fyrir um dóttur sína „lögregluþjónarnir, sem voru mjög kurteisir, sögðu að það mættum við ekki,“ sagði Ingrid. Andartaki síðar fór þyrla lögreglunnar í loftið, „eru þeir að fara að leita,“ spurði Joachim. Lögregluþjónarnir sögðu að svo væri ekki og sögðust, þegar hjónin spurðu, ekki vita hvar Kim væri. „Við vissum ekki okkar rjúkandi ráð,“ sagði Joachim.

Sáu í sjónvarpinu að Peter Madsen væri grunaður um morð

Lögreglan bað nú hjónin að koma með á lögreglustöðina til yfirheyrslu. Tom Wall, bróðir Kim var í millitíðinni kominn til Dragør og fór með foreldrum sínum á stöðina. Þegar þau höfðu verið nokkra stund í setustofu lögreglunnar birtist skyndilega neðst á skjánum ný frétt (textafrétt), þar stóð að lögreglan hefði handtekið Peter Madsen og hann væri grunaður um að hafa myrt Kim Wall. „Á þessu augnabliki stöðvaðist heimurinn, við höfðum ímyndað okkur að dóttir okkar hefði farið í land einhvers staðar. En morð, það hljómaði sem fjarstæða, óhugsandi,“ sagði Ingrid.

Auglýsing
Næstu daga sátu hjónin heima og fylgdust með fréttum. Að heiman heyrðu þau í þyrlum sem leituðu úr lofti og sáu til báta sem leituðu í nágrenni Kaupmannahafnar.

Tíu dögum eftir hvarf Kim hringdi síminn á heimili hjónanna í Trelleborg. Í símanum var yfirmaður rannsóknarinnar Jens Møller Jensen. Hann sagði að fundist hefði lík í sjónum við Amager og hann vildi að þau fréttu af því frá lögreglunni en ekki úr fjölmiðlum. Stuttu seinna hringi Jens Møller aftur og sagði að hann væri búinn að sjá líkið. „Ég spurði, er það Kim, sérðu litinn á hárinu,“ sagði Joachim. „Þetta er bara torso (búkur),“ var svarið. Ég skildi ekki hvað hann meinti með torso, það vantar höfuðið, það eru hvorki handleggir né fætur sagði Jens Møller. Þeim orðum gleymi ég aldrei,“ sagði Joachim. „Við áttuðum okkur á því að nú væri engin von lengur.“  

Fylgdust með réttarhöldunum og ákváðu að skrifa bók

Nokkrum dögum eftir lát Kim ákváðu foreldrar hennar að skrifa bók um dótturina, og atburðarásina í kringum dauða hennar. Þau ákváðu líka að vera viðstödd réttarhöldin. „Við vildum vera fulltrúar dóttur okkar í réttarsalnum og við vildum sjá manninn sem framdi þennan hræðilega verknað. Við vildum þó fyrst og fremst að hann sæi okkur, horfast í augu við Peter. Hann forðaðist hins vegar að horfast í augu við okkur.“ Bæjarréttur í Kaupmannahöfn dæmdi Peter Madsen í lífstíðarfangelsi og Landsréttur staðfesti síðar þann dóm.  

Af hverju bók?

Á þeim fimmtán mánuðum sem liðnir eru frá dauða Kim Wall hafa birst í fjölmiðlum um það bil 100 þúsund fréttir um málið. Að sögn foreldra Kim hafa þær nær allar snúist um málið sjálft og manninn sem myrti dóttur þeirra. „Við viljum reyna að segja sögu Kim, bæði um hana sem manneskju og dóttur okkar. Þótt það sé ekki til nein uppskrift fyrir foreldra til að takast á við að barn þeirra hafi fallið fyrir hendi morðingja finnst mér að það að skrifa um Kim hafa hjálpað mér,“ segir Ingrid, sem hefur skrifað stærstan hluta bókarinnar. Hún segir að næturnar séu erfiðastar, þá sæki hugsanirnar á og þá sé gott að skrifa. „Þess vegna er þessi bók orðin til.“ Kim fékk ekki að lifa en með bókinni vonumst við til að minning hennar lifi.

Minningarhlaup og sjóður

10. ágúst síðastliðinn, þegar ár var liðið frá dauða Kim Wall fór fram sérstakt minningarhlaup í Trelleborg þar sem Kim hljóp gjarna þegar hún dvaldi hjá foreldrum sínum. Þar voru um 600 þátttakendur en einnig var hlaupið í 14 öðrum borgum, þar á meðal Kaupmannahöfn, Beijing, San Francisco, Istanbul og New York. Þátttakendur í hlaupunum greiddu lítils háttar þátttökugjald sem rann óskipt í sérstakan minningarsjóð, sem foreldrar Kim hafa stofnað. Hlutverk sjóðsins er að styrkja árlega unga blaðakonu og gera viðkomandi kleift að að ferðast á fjarlægar slóðir. Úthlutun fer fram á fæðingardegi Kim Wall, 23. mars.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar