Skýrsla starfshóps sem vinnur að gerð hvítbókar um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið á Íslandi er í lokavinnslu. Fjármála- og efnahagsráðuneytið vonast til þess að hægt verði að kynna efni hennar í þessari viku. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Í skipunarbréfi hópsins kom fram að hann ætti að skila skýrslu fyrir 15. maí síðastliðinn en þau skil töfðust umtalsvert. Kjarninn greindi frá því í byrjun september að starfshópurinn hefði ekki hafið störf fyrr en í febrúar og því hafi ekki verið raunhæft að skila skýrslunni um miðjan maí. Hópurinn óskaði eftir umsögnum margra aðila og hafi þær síðustu borist í júlí. Síðan hefur verið unnið úr þeim. Í september stóð til að skýrslan myndi verða opinberum í nóvember en nú liggur fyrir að það verður, að öllum líkindum, í fyrstu viku desembermánaðar.
Verður stefnumótandi fyrir framtíð ríkisbankanna
Í yfirlýsingu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem send var út í febrúar síðastliðnum kom fram að markmiðið með vinnu hópsins sé að skapa traustan grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni er varða fjármálakerfið, framtíðargerð þess og þróun.
Kveðið var á um stofnun hópsins í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð var áhersla á að stefnumarkandi ákvarðanir um fjármálakerfið verði teknar eftir umfjöllun Alþingis um framtíðarsýn fjármálakerfisins á Íslandi sem byggi á þessari hvítbók um efnið. Hvítbókin hafi að leiðarljósi aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði, aukið gagnsæi og fjármálastöðugleika.
Niðurstaða starfshópsins getur haft veruleg áhrif á næstu skref í þróun íslensks fjármálakerfis, enda á íslenska ríkið tvo af þremur stærstu bönkum landsins, Landsbankann og Íslandsbanka. Heimild hefur verið í fjárlögum til að selja allt að 30 prósent í Landsbankanum og allt hlutafé í Íslandsbanka. Ákvörðun um hvort og hvernig bankarnir verða seldir verður tekin á grundvelli hvítbókarinnar.
Ýmsir bíða því birtingu hennar með óþreyju, enda mikill áhugi víða að losa um eignarhald ríkisins á bönkunum. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, sagði til að mynda í þættinum 21 á Hringbraut í síðustu viku að hún líti mjög til skráningu Íslandsbanka og Landsbankans á markað sem lykilþátta í því að tvöfalda markaðsvirði félaga sem skráð eru hérlendis.
Mismunandi greiðslur
Í svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, um ráðgjöf og störf við tímabundin eða afmörkuð verkefni, sem birt var í byrjun mánaðar, kom fram að sundurliðun varðandi greiðslur til meðlima í starfshópnum sem vinna að hvítbókinni séu mjög misjafnar.
Samkvæmt svarinu hafði Kristrún hefur fengið tæpar 9,2 milljónir og Lárus tæplega 7,5 milljónir. Guðjón hafði fengið greiddar 2,8 milljónir og þær Guðrún og Sylvía 1,3 milljónir hvor. Þá hafði fyrirtækið STC fengið þrjár milljónir fyrir efnisvinnu við gerð hvítbókarinnar og Arnaldur Hjartarson, sem skipaður var héraðsdómari í febrúar, fengið greidda eina milljón króna.
Ólíkar greiðslur milli þeirra sem vinna að hvítbókinni skýrast af mismunandi vinnuframlagi, samkvæmt svari ráðuneytisins.