Ríkisútvarpið (RÚV) fær 222 milljóna króna framlag á fjáraukalögum ársins 2018. Í skýringum á framlaginu í frumvarpi til fjáraukalaga segir að þetta sé til samræmis við tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi. „Um er að ræða leiðréttingu á lögbundnu framlagi til RÚV en í fjárlögum ársins 2018 var fjárveiting 222 m.kr. lægri en tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi gerði ráð fyrir.“
RÚV hafði verið úthlutað tæplega 4,2 milljörðum króna úr ríkissjóði á fjárlögum ársins 2018. Gera má ráð fyrir því að samkeppnistekjur RÚV, sem felast fyrst og síðast í sölu auglýsinga og kostunar, séu nálægt 2,5 milljörðum króna í ár, ef miðað er við að fyrirtækið hafi haft sömu tekjur af þeirri starfsemi og árið 2017 að viðbættum 200 milljóna króna viðbótartekjum vegna HM í knattspyrnu, sem sýnt var á RÚV í sumar. Alls vinna á annan tug manns í fullu starfi hjá RÚV við að sinna sölu á auglýsingum, sölu á efni og leigu á dreifikerfi.
Framlagið hækkar enn á næsta ári
Í fjárlögum næsta árs er gengið út frá því að framlag ríkissjóðs til fjölmiðlunar muni hækka um 534 milljónir króna á milli ára, eða um 12,8 prósent. Breytinguna má rekja til 175 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis og 360 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV „í samræmi við tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.“
Ljóst er að miðað við þetta munu tekjur RÚV aukast umtalsvert á næsta ári og fara yfir sjö milljarða króna.
RÚV hefur getað aukið rekstrarhæfi sitt með öðrum leiðum en auknum tekjum og framlögum á síðustu árum. Í fyrra var afkoma RÚV jákvæð um 321 milljón króna og þar skipti hagnaður af sölu á byggingalóðum í Efstaleiti sköpum, en heildarsöluverð þeirra var um tveir milljarðar króna.
Auk þess samdi RÚV í maí við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) um að breyta skilmálum á skuldabréfi í eigu sjóðsins sem er tilkomið vegna ógreiddra lífeyrisskuldbindinga. Í samkomulaginu fólst að verulega er lengt í greiðsluferli bréfsins, en lokagjalddagi þess er nú 1. október 2057 í stað 1. apríl 2025. Samhliða er höfuðstóll hækkaður og vextir lækkaðir úr fimm prósentum í 3,5 prósent. Þetta mun gera það að verkum að greiðsla skuldarinnar mun teygja sig til nýrra kynslóða en fjármagnsgjöld sem RÚV greiðir árlega munu lækka umtalsvert. Þau voru 282,5 milljónir króna í fyrra.
350 milljónir í endurgreiddan ritstjórnarkostnað
Í samræmi við markmið um að bæta starfsumhverfi fjölmiðla og á grundvelli úttekta og skýrslna er unnið að aðgerðum til að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur boðað frumvarp í janúar um stuðning við rekstur einkarekinna fjölmiðla.
Í aðgerðunum felst m.a. að endurgreiða hluta ritstjórnarkostnaðar rit- og ljósvakamiðla um 20-25 prósent og er áætlaður kostnaður vegna þeirra um 350 milljónir króna á ári. Ráðgert er að fyrsta endurgreiðslan komi til endurgreiðslu vegna rekstrarársins 2019, og rati því ekki til þeirra miðla sem rétt eiga á henni fyrr en á árinu 2020.
Þá á að lækka virðisaukaskatt á rafrænar áskriftir sem á að skila um 40 milljón króna í árlegan ábata, samræma skattlagningu á auglýsingum svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum og með því að auka gagnsæi í opinberum auglýsingakaupum.
Auk þess stendur til að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði og skapa með því svigrúm fyrir aðra til að auka sínar tekjur. Alls er búist við því að umsvif RÚV á samkeppnismarkaði muni dragast saman um 560 milljónir króna á ári með því að kostun dagskrárliða verði hætt og með lækkun hámarksfjölda auglýsingamínútna úr átta í sex á klukkustund. Lilja hefur þó sagt að til standi að bæta RÚV upp það tekjutap með öðrum hætti.