Undanþága frá upplýsingalögum fyrir Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) og dótturfélög bankans, er runnin út.
Það gerðist 15. desember síðastliðinn, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, veitti félögunum undanþágu frá upplýsingalögum 27. nóvember 2015.
Eftir fyrirspurn Kjarnans, og beiðni um upplýsingar um rekstur ESÍ, hefur umsögn um málið á vef stjórnaráðsins nú verið breytt, og stendur að beiðni um áframhald undanþágu sé „í vinnslu“.
ESÍ og Hilda hafa ekki svarað fyrirspurnum Kjarnans varðandi félögin, og aðgengi að upplýsingum um starfsemi þeirra, mánuðum saman, þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum um að veita svör við fyrirspurnum sem þessum. Meginregla stjórnsýslulaga er sú, að stjórnsýslan skuli vera gagnsæ og fyrirspurnum svarað fljótt og vel, er varða almannahagsmuni.
Efnisleg svör hafa ekki borist við fyrirspurnum, meðal annars um yfirlit um kaup á lögfræðiþjónustu hjá félögunum.
Kjarninn sendi forsætisráðuneytinu fyrirspurn 11. desember þar sem óskað var eftir afstöðu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, til þess hvort það stæði til að hafa undanþáguna áfram í gildi, þar sem hún væri um það bil að renna út.
Fyrirspurn var einnig send til Seðlabanka Íslands og óskað eftir upplýsingum um starfsemi ESÍ, þar á meðal yfirlit yfir aðkeypta þjónustu félagsins, og fleira.
Í ársreikningum félagsins hafa ekki komið fram ítarlegar upplýsingar um starfsemi félaganna, og var beiðnin meðal annars send af þeim ástæðum, enda miklir almannahagsmunir í húfi þar sem félögin hafa stundað eignaumsýslu bak við luktar dyr leyndar, árum saman, með mörg hundruð milljarða króna eignir almennings.
Hefur starfsemin meðal annars verið að miklu leyti utan sjóna almennings, þar sem starfsemin hefur hangið saman við umfangsmikla vinnu við uppgjör á slitabúum föllnu bankanna, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis, sem nú er lokið.
ESÍ er í slitameðferð en Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl. og Haukur Benediktsson eru í skilanefnd félagsins en Steinar Þór Guðgeirsson hrl. og fyrrnefndur Haukur eru í skilanefnd Hildu, að því er fram kemur í ársskýrslu Seðlabanka Íslands fyrir árið 2017, sem kom út í apríl á síðasta ári.
Spurt og svarað
Páll Þórhallsson, hjá forsætisráðuneytinu, svaraði fyrirspurn Kjarnans í gærmorgun fyrir hönd ráðherra, og upplýsti þar um að Samkeppniseftirlitið hefði það nú til umsagnar, hvort rök stæðu til þess að ESÍ og dótturfélög yrðu áfram undanskilið upplýsingalögum. „Vísað er til fyrirspurnar þinnar frá 11. des. sl. Hinn 13. des. sl. barst ráðuneytinu beiðni frá Seðlabanka Íslands um áframhaldandi undanþágu til handa Eignasafni SÍ ehf. og Hildu ehf. frá gildissviði upplýsingalaga. Ráðuneytið hefur sent Samkeppniseftirlitinu þessa undanþágubeiðni til umsagnar, sbr. 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, og óskaði eftir viðbrögðum eigi síðar en 15. febrúar næstkomandi. Þegar umsögn Samkeppniseftirlitsins hefur borist verður tekin afstaða til þess af hálfu ráðuneytisins hvort áframhaldandi undanþága verði veitt,“ sagði í svari Páls, fyrir hönd ráðherra.
Hvaða félög eru þetta?
Starfsemi ESÍ og Hildu varðar almenning miklu. Í kjölfar falls fjármálafyrirtækja á Íslandi haustið 2008 varð Seðlabanki Íslands stór kröfuhafi í bú innlendra fjármálafyrirtækja. Kröfurnar voru tryggðar með veðum af ýmsum toga.
Hluti þessara krafna var færður til ríkissjóðs í árslok 2008, en Seðlabankinn hafði umsýslu með þeim.
Kröfurnar voru svo færðar til Seðlabankans á ný á fyrri hluta ársins 2010. Í lok árs 2009 voru umræddar eignir fluttar í sérstakt félag í eigu Seðlabankans, sem er Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ).
Í árslok 2017 átti ESÍ tvö dótturfélög, Hildu ehf., sem ESÍ tók yfir á miðju ári 2011, og SPB ehf., sem ESÍ tók yfir á miðju ári 2016. Í lok árs 2017 nam efnahagur ESÍ um 8,2 ma.kr. og hafði dregist saman um ríflega 33,6 ma.kr. frá því í lok árs 2016 sem að mestu leyti má rekja til arðgreiðslu til Seðlabankans. Hagnaður ESÍ á árinu 2017 nam um 1,9 ma.kr. eftir skatta.
Skipuð var skilanefnd yfir ESÍ í október 2017. Innköllun félagsins lauk í desember 2017, en slitum á félaginu er ekki lokið. Í skilanefnd SPB ehf., sem er dótturfélag ESÍ líkt og Hilda, eru fyrrnefndir Guðmundur Ingvi og Haukur.
Sigurður Ingi spyr og Bjarni svarar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og núverandi samgönguráðherra, spurði Bjarna Benediktsson út í málefni ESÍ þegar sá síðarnefndi var forsætisráðherra. Sigurður Ingi tók við forsætisráðuneytinu af Sigmundi Davíð í kjölfar afhjúpunar Panamaskjalanna, og var því með málefni seðlabankans undir sínu ráðuneyti.
Fyrirspurn Sigurðar Inga var ítarleg, og snéri að starfsemi ESÍ. Hann spurði eftirtalinna spurninga:
1. Hversu margar eignir/kröfur hefur Seðlabanki Íslands selt, beint eða í gegnum dótturfélög, svo sem ESÍ, frá því að honum var falin umsjón þeirra eftir bankahrunið árið 2008, hvert var söluandvirðið í heild og sundurliðað eftir árum, hverjir keyptu og á hvaða kjörum, sundurliðað ár fyrir ár?
2. Í hvaða tilvikum var lánað fyrir kaupunum, við hversu hátt lánshlutfall var miðað, hvaða skilyrði voru sett um tryggingar fyrir greiðslu kaupverðs, hver var stefnan um vaxtakjör, var í einhverjum tilvikum vikið frá henni og ef svo er, hvers vegna?
3. Hefur Seðlabankinn, beint eða í gegnum dótturfélög, keypt eignir/kröfur eða fengið framseldar með öðrum hætti, svo sem í skiptum fyrir aðrar eignir/kröfur, frá bankahruni, hvaða eignir/kröfur voru það, sundurliðað ár fyrir ár, voru þær skráðar á markaði, hvaða ástæður voru fyrir kaupunum og á hvaða lagaheimild byggði Seðlabankinn eða dótturfélög kaupin?
4. Hafa eignir/kröfur verið seldar aftur og ef svo er, hver er munurinn á kaup- og söluverði, hverjir voru kaupendur og seljendur í þeim viðskiptum og hefur Seðlabankinn eða dótturfélög fengið framseldar til sín eignir sem rýrnað hafa í verði eða jafnvel tapast frá því að þeirra var aflað?
5. Fyrir hvaða sérfræðiþjónustu, hverjum og hve mikið, hefur Seðlabanki Íslands, beint eða í gegnum dótturfélög, greitt vegna sölu á eignum/kröfum frá og með árinu 2013 til dagsins í dag, var þjónustan auglýst og/eða boðin út, hvernig var staðið að ráðningu á þjónustuaðilum, hver voru sjónarmið til grundvallar ráðningum og hvernig skiptust greiðslur milli aðila?
6. Var sala á eignarhlutum/kröfum Seðlabanka Íslands eða dótturfélaga bankans ávallt auglýst, hvernig var staðið að útboði/sölu í þeim tilvikum, við hvaða reglur var miðað, voru viðmiðin sambærileg í öllum tilvikum og ef ekki, hvers vegna?
Bjarni svaraði fyrirspurn Sigurðar Inga með ítarlegu svari, en þó var ekki svarað efnislega og sértækt, þeim atriðum sem spurt var út í. Í svarinu var vísað til þagnarskyldu Seðlabankans um verkefni ESÍ og að bankinn myndi skila af sér skýrslu um ESÍ og starfsemi þess, þegar vinnu við slit væri lokið. Í svarinu var fullyrt að það yrði gert fyrir lok árs 2018 en það hefur ekki verið gert enn.
Samantekin svör Bjarna við fyrirspurninni, voru meðal annars þessi.
„1. Starfsemi ESÍ og dótturfélaga þess, utan Hildu, hefur að litlu leyti snúist um eignasölu en að mestu leyti um innheimtu útistandandi krafna, aðallega á slitabú og endurreistar fjármálastofnanir. Frá stofnun ESÍ hefur félagið þó gert fimm stóra samninga um sölur á verulegum eignum sem greint hefur verið opinberlega frá. Þessir samningar skýra m.a. lækkun eigna á efnahagsreikningi félagsins. Í fyrsta lagi sölu á hlutabréfum í danska bankanum FIH til hóps fjárfesta sem samanstóð af dönsku lífeyrissjóðunum ATP og PFA, sænska tryggingafyrirtækinu Folksam og fyrirtækinu CPDyvig (sjá meðfylgjandi tilkynningu, dags. 19. september 2010). Seðlabanki Íslands vinnur nú að skýrslu um veitingu neyðarláns til Kaupþings og endurheimtur þess. Þar verður m.a. fjallað ítarlega um söluna á FIH. Ráðgert er að skýrslan verði kynnt bankaráði fyrir áramót. Í öðru lagi sölu á hlutabréfum í Sjóvá – Almennum tryggingum hf. til fagfjárfestasjóðsins SF1 (sjá meðfylgjandi tilkynningar, dags. 28. júlí 2011 og 30. ágúst 2011). Í þriðja lagi samkomulag á milli ESÍ/Hildu, Dróma og Arion banka sem greint var frá hér að framan, en í því tilfelli voru lánasöfn í eigu Hildu notuð til að gera upp kröfur Arion banka á Dróma (sjá meðfylgjandi tilkynningu, dags. 30. desember 2013). Í fjórða lagi sölu (í tvennu lagi) á samningsbundnum sértryggðum skuldabréfum útgefnum af Arion banka hf. til Íbúðalánasjóðs (sjá meðfylgjandi tilkynningar, dags. 23. október 2015 og 4. mars. 2016). Í fimmta lagi sölu á veðtryggðu skuldabréfi útgefnu af Íslandsbanka hf. til Íbúðalánasjóðs (sjá meðfylgjandi tilkynningu, dags. 19. september 2016).
Til að varpa frekara ljósi á þetta eru í fylgiskjali I yfirlit sem sýna þróun efnahags- og rekstrarreiknings ESÍ auk sjóðsstreymis frá stofnun félagsins og til ársloka 2016. Þar kemur fram að uppsafnaður hagnaður ESÍ á tímabilinu 2010 til ársloka 2016 nemur 74.453 millj. kr. og án vaxta og gengismunar af láni frá Seðlabankanum nemur hagnaðurinn 125.192 millj. kr. Í yfirliti efnahagsreiknings kemur fram að félagið var stofnað í árslok 2009 með eignir upp á 490.615 millj. kr. sem eru fjármagnaðar með láni frá Seðlabanka Íslands upp á 490.614 millj. kr. auk 1 millj. kr. í hlutafé. Í árslok 2016 var þessi efnahagsreikningur kominn niður í 42.729 millj. kr. og þar af eru 35.965 millj. kr. í handbæru fé og lánið frá bankanum er uppgreitt. Í sjóðsstreymisyfirlitinu sést síðan ár fyrir ár undir liðnum fjárfestingarhreyfingar hvernig hinir ýmsu eignaflokkar eru seldir og innheimtir samtals að fjárhæð 547.255 millj. kr. og þeim fjármunum að mestu leyti varið til að greiða Seðlabanka Íslands upp fjármögnunarlánið og greiða arð að auki.
2. ESÍ hefur ekki lánað fyrir kaupum þegar eignir félagsins hafa verið seldar að frátalinni sölu á FIH bankanum, sbr. nánari umfjöllun í meðfylgjandi fréttatilkynningu. Í tilviki Hildu eru einstaka dæmi um að veitt hafi verið lán við sölu þeirra fasteigna sem félagið eignaðist með samkomulagi milli ESÍ/Hildu, Dróma og Arion banka, sbr. framangreint. Með samkomulaginu yfirtók Hilda um 550 fastanúmer fasteigna frá Dróma til að vinna úr, þ.e. að koma í verð. Í slíkum tilvikum hafa lán verið veitt á markaðskjörum og með veði í viðkomandi fasteign, enda má starfsemi félaganna ekki verða til þess að rýra virði eignasafnsins.
3. Seðlabanki Íslands ítrekar að ESÍ og dótturfélög þess eru félög um fullnustu eigna. Í því felst að félögin hafa þurft að ganga að tryggingum, umbreyta þeim og ráðast í ýmsar aðgerðir til varnar hagsmunum sínum. Þetta felur óhjákvæmilega í sér umsýslu og úrvinnslu eigna sem miðar að því að hámarka virði trygginga og lágmarka tap Seðlabanka Íslands af hruninu. Þá leiðir það beinlínis af heimildum Seðlabanka Íslands til viðskipta, gegn framlögðum tryggingum, sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001, að bankanum er heimilt að stýra og að endingu koma í verð fullnustueignum/tryggingum sem kunna að falla til bankans. Seðlabanki Íslands þarf ekki sérstakar heimildir til þess að takmarka tjón sitt í tilvikum þar sem hann þarf að koma í verð eignum sem lagðar hafa verið fram til tryggingar í viðskiptum bankans. Skiptir í því sambandi ekki máli hvers eðlis eignin er, enda er grundvallaratriðið hið sama í öllum tilvikum: að löggjafinn hefur gert ráð fyrir slíku fyrst hann veitir bankanum lögbundnar heimildir til útlána gegn tryggingum.
4. Eignum sem ESÍ og dótturfélög þess eignuðust í kjölfar hrunsins hefur að mestu leyti verið umbreytt í reiðufé, enda er meginmarkmið félaganna að selja þær, sbr. framangreint. Um virði eigna Seðlabankans er almennt upplýst í ársreikningi, sem staðfestur er af bankaráði, og geta einstakir bankaráðsmenn gert athugasemdir þar að lútandi, en ársreikningurinn er loks staðfestur af ráðherra, allt skv. 33. gr. laga nr.36/2001. Að lokum má nefna að upplýsingar um kaupendur og seljendur einstakra eigna getur Seðlabanki Íslands ekki látið af hendi með vísan til sjónarmiða um þagnarskyldu, sbr. framangreint.
5. Vegna úrvinnslu og stýringar þeirra eigna sem stafa frá bankahruninu hafa bæði ESÍ og dótturfélög þess aflað sér þjónustu utanaðkomandi sérfræðinga. Fjármálafyrirtækjum, og eftir atvikum lögmannsstofum, hefur verið greidd þóknun vegna sölu á markaðsverðbréfum, skuldabréfum og hlutabréfum auk þess sem fasteignasölum hefur verið greidd þóknun vegna sölu fasteigna. Þjónustan hefur ekki verið boðin út. Eins og áður kom fram eru ESÍ og dótturfélög þess félög um fullnustu eigna, þar sem meginsjónarmiðið er að hámarka virði eigna, hvort sem það er við ákvörðun á úrvinnslu tiltekinna eigna eða til grundvallar samningum við utanaðkomandi sérfræðinga. Upplýsingar um hvaða sérfræðinga hefur verið leitað til, hversu mikið þeir hafa fengið greitt fyrir sérfræðiþjónustu sína og skilmála ráðningarsamninga að öðru leyti getur Seðlabanki Íslands ekki veitt með vísan til sjónarmiða um þagnarskyldu, sbr. framangreint.
6. Almennt hafa ESÍ og dótturfélög þess auglýst þær eignir til sölu sem stafa frá bankahruninu. Hér má þó benda á að sala skuldabréfa til Íbúðalánasjóðs sem fjallað var um í 1. tölul. var niðurstaða beinna viðræðna sjóðsins og ESÍ að undangengnu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið og var sá háttur hafður á í ljósi umfangs viðskiptanna og hagsmuna beggja aðila. Þá hefur þess einnig verið gætt að persónugreinanlegar upplýsingar verði ekki opinberar. Fyrirkomulag við sölu eigna hefur eðli máls samkvæmt verið mismunandi eftir þeim eignum sem til sölu hafa verið hverju sinni. Þótt fyrirkomulag við sölu á eignasöfnum sé mismunandi hafa starfsmenn bankans, ESÍ og dótturfélaga þess leitast við að auglýsa útfærsluna hverju sinni og hafa söluferlin opin, m.a. með tilliti til jafnræðisjónarmiða. Við úrvinnslu eigna hefur meginmarkmiðið þó, eftir sem áður, verið að hámarka endurheimtur eigna og þannig takmarka það tjón sem bankahrunið mun á endanum valda Seðlabanka Íslands.“
Umboðsmaður Alþingis gagnrýndi
Í október 2015, rúmum mánuði áður en Sigmundur Davíð samþykkti undanþáguna frá upplýsingalögum fyrir ESÍ, þá birti Umboðsmaður Alþingis ítarlega umfjöllun sína um ESÍ. Í bréf hans var meðal annars fjallað um það að ekki hafi verið fyrir hendi lagaheimild fyrir stofnun félagsins í upphafi. „Ég fæ ekki séð að ótvíræður lagagrundvöllur hafi verið til staðar þegar verkefni Seðlabanka Íslands á sviði umsýslu og fyrirsvars tiltekinna krafna og annarra eigna bankans voru færð til einkahlutafélags í eigu bankans. (…) Ég tel mikilvægt að ef það er á annað borð vilji stjórnvalda að viðhalda því fyrirkomulagi að verkefni Seðlabanka Íslands séu falin sérstöku einkahlutafélagi í eigu bankans verði leitað eftir afstöðu Alþingis til þess hvort setja eigi slíka heimild í lög,“ segir meðal annars í bréfinu.
Seðlabanki Íslands svaraði þessu bréf Umboðsmanns, og taldi þessa athugasemd ekki eiga við rök að styðjast. Réttilega hefði verið staðið að stofnun félagsins.