Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þrír flokkar myndu tapa fylgi í öllum kjördæmum ef kosið yrði í dag

Tveir stjórnarflokkar og Miðflokkurinn mælast nú með minna fylgi í öllum kjördæmum landsins en í kosningunum í október 2017. Tveir stjórnarandstöðuflokkar bæta hins vegar við sig fylgi í öllum kjördæmum. Hvorki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson né Lilja Alfreðsdóttir yrðu kjördæmakjörnir þingmenn ef kosið yrði í dag.

Miðflokkurinn, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur myndu tapa fylgi frá síðustu kosningum í öllum kjördæmum ef kosið yrði í dag. Mestur yrði skellurinn fyrir Miðflokkinn í kjördæmi formanns flokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þar sem nánast tveir af hverjum þremur kjósendum hafa yfirgefið flokkinn.

Samfylkingin og Píratar bæta hins vegar við sig fylgi í öllum kjördæmunum sex og Viðreisn eykur fylgi sitt í fimm þeirra. Þótt Framsóknarflokkurinn mælist nú með meira fylgi í fjórum kjördæmum en flokkurinn fékk í kosningunum fyrir 14 mánuðum þá myndi hann samt sem áður fá einum færri þingmenn kjörna. Sá þingmaður yrði Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, en Framsókn hefur misst 40 prósent kjósenda í kjördæmi hennar, Reykjavík suður. Það er eina kjördæmið þar sem Framsóknarflokkurinn hefur marktækt tapað fylgi.

Þetta er meðal þess sem mál lesa út úr niðurbroti á fylgi íslensku stjórnmálaflokkanna eftir kjördæmum samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup sem birt var á vef RÚV í lok síðustu viku.

Miðflokkurinn helmingast og ríkisstjórnin héldi ekki velli

Niðurstaða hans var meðal annars sú að fylgi Miðflokksins nánast helmingast frá kosningum og mælist nú 5,7 prósent. Áhrif Klaustursmálsins á Flokk fólksins voru ekki jafn alvarleg en fylgi hans fer úr 6,9 prósent í 5,3 prósent.

Vinstri græn hafa tapað umtalsverðu fylgi frá kosningunum, en alls kusu 16,9 prósent landsmanna flokkinn þá. Nú mælist fylgið 11,6 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá 22,7 prósent fylgi í dag sem er 2,5 prósentustigum undir kjörfylgi hans og Framsóknarflokkurinn myndi bæta lítillega við sig frá síðustu kosningum og fá 11,4 prósent atkvæða. Samanlagt hefur staða stjórnarflokkanna því versnað umtalsvert á fyrstu 14 mánuðum kjörtímabilsins og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur héldi ekki velli ef kosið yrði nú.

Þeir þrír stjórnarandstöðuflokkar sem áttu ekki fulltrúa á Klausturbar þann 20. nóvember í fyrra bæta við sig umtalsverðu fylgi frá kosningum. Samfylkingin mest, en fylgi hennar hefur vaxið úr 12,1 prósent í 18,4 prósent á 14 mánuðum. Viðreisn hefur einnig bætt vel við sig og myndi nú fá 10,5 prósent atkvæða, en fékk 6,7 prósent í október 2017. Viðbót Pírata er hóflegri. Þeir fengu 9,2 prósent þegar talið var upp úr kjörkössunum haustið 2017 en mælast nú með 10,5 prósent fylgi.

Þetta allt þýðir að ef kosið yrði nú myndi Sjálfstæðisflokkurinn tapa einum þingmanni og fá 15, Vinstri græn myndi tapa þremur og fá átta og Framsókn myndi tapa einum og fá sjö. Samanlagt væri stjórnarflokkarnir þrír því með 30 þingmenn, eða fimm færri en nú. 

Miðflokkurinn myndi tapa fjórum þingmönnum og fengi þrjá líkt og Flokkur fólksins sem myndi þá tapa einum. 

Samfylkingin myndi bæta flestum þingmönnum við sig, færi úr sjö í 13, og þingflokkur Viðreisnar mydni vaxa úr fjórum í sjö. Píratar myndu bæta einum þingmanni við sína þingsveit og fá sjö slíka. Samanlagt myndi þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar því bæta við sig tíu þingmönnum ef kosið yði í dag.

Norðausturkjördæmi

Miðflokkurinn fékk 18,6 prósent atkvæða í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum. Nú mælist fylgi hans þar 7,2 prósent.  Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn eru þeir flokkar sem bæta mestu við sig í því kjördæmi. Samfylkingin fékk 13,9 prósent atkvæða í Norðausturkjördæmi, sem er kjördæmi formannsins Loga Einarssonar,  2017 en mælist nú með með 24,2 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn hefur vaxið úr 14,3 prósentum í 21 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn, sem var stærsti flokkurinn í kjördæminu 2017, mælist nú sá þriðji stærsti með 17 prósent fylgi. Vinstri græn hrynja einnig niður í fylgi í Norðausturkjördæmi, sem hefur sögulega verið eitt sterkasta vígi flokksins, enda kjördæmi fyrrverandi formannsins Steingríms J. Sigfússonar. Nú mælist fylgi flokksins þar 13,9 prósent en hann fékk 19,9 prósent í kosningunum fyrir rúmu ári.

Ef kosið yrði í dag myndi samsetning þeirra níu kjördæmakjörnu þingmanna sem koma úr Norðaustri breytast umtalsvert. Þannig myndi Miðflokkurinn, sem fékk tvo kjördæmakjörna þingmenn í kosningunum 2017, ekki fá neinn þingmann nú, sem þýðir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, myndi að öllum líkindum falla af þingi. Samfylkingin myndi hins vegar fá þrjá kjördæmakjörna þingmenn eftir að hafa einungis haft einn slíkan eftir síðustu kosningar, en Vinstri græn einungis einn. Þá myndi Píratar einnig ná inn manni.

Norðvesturkjördæmi

Í Norðvesturkjördæmi er uppi sama sagan: Miðflokkurinn bíður afhroð. Flokkurinn fékk 14,2 prósent atkvæða þar í kosningunum 2017 en fengi nú 4,9 prósent. Bergþór Ólason, einn þingmanna Miðflokksins sem hafði sig mest frammi á Klaustri, leiddi fyrir flokkinn í kjördæminu í síðustu kosningum.

Mest af fylginu sem Miðflokkurinn tapar fer yfir á Samfylkinguna, sem nær tvöfaldar stuðning sinn í kjördæminu. Flokkurinn fékk 9,7 prósent atkvæða í október 2017 en fengi nú 17 prósent.

Vinstri græn myndu vinna varnarsigur í kjördæminu þar sem Lilja Rafney Magnúsdóttir leiðir lista flokksins. Hún þykir vera sá þingmaður flokksins sem sé næstur Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki í pólitískum áherslum. Vinstri græn fengu 17,8 prósent í Norðvesturkjördæmi fyrir rúmum 14 mánuðum síðan en myndu nú fá 16,3 prósent. Framsóknarflokkurinn, sem sögulega hefur alltaf verið sterkur í kjördæminu, myndi bæta við sig fylgi og fá 20,3 prósent atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn myndi hins vegar tapa 2,8 prósentustigum frá síðustu kosningum og fá 21,7 prósent atkvæða, sem dygði þó til þess að flokkurinn yrði áfram stærstur í kjördæminu. Þá myndu Píratar bæta lítillega við sig fylgi en bæði Viðreisn og og Flokkur fólksins yrðu á svipuðum slóðum og í kosningunum 2017.

Reykjavík norður og suður

Í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur eru það Vinstri græn sem eru að upplifa mesta fylgistapið. Í kosningunum fyrir rúmu ári síðan voru þetta sterkustu vígi flokksins. Í Reykjavík norður, þar sem Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra, leiddi lista Vinstri grænna fengu þau 21,5 prósent fylgi. Í Reykjavík suður var það fylgi 18,9 prósent.

Í könnun Gallup blasir önnur mynd við. Í norðri mælist fylgið 12,6 prósent, sem þýðir að 41 prósent þeirra kjósenda kjördæmisins sem kusu Vinstri græn síðast myndu ekki gera það í dag. Í suðrinu er staðan sambærileg, fylgið mælist 10,6 prósent og fylgistapið því um 44 prósent.

Allir stjórnarflokkarnir þrír tapa umtalsverðu í höfuðborginni. Sjálfstæðisflokkurinn myndir fá 18,9 prósent(suður) og 17,3 prósent (norður) ef kosið yrði í dag sem myndi þýða að flokkurinn yrði ekki lengur stærsti stjórnmálaflokkurinn í Reykjavík. Í kosningunum í október fékk Sjálfstæðisflokkurinn 22,8 og 22,6 prósent atkvæða í kjördæmunum tveimur.

Framsóknarflokkurinn myndi líka tapa umtalsverðu fylgi og Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins og ein helsta vonarstjarna, næði ekki inn sem kjördæmakjörinn þingmaður ef kosið yrði nú. Í október 2017 fékk Framsókn 8,1 prósent atkvæða í kjördæmi hennar, Reykjavík suður. Nú fengi flokkurinn hins vegar 4,9 prósent. Í hinu höfuðborgarkjördæminu fer fylgið úr 5,8 í 5,3 prósent.

Sósíalistar stærri í Reykjavík norður en þrír flokkar

Sósíalistaflokkur Íslands hefur aldrei boðið fram í Alþingiskosningum. Flokkurinn bauð í fyrsta sinn fram í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í fyrravor og vann mikinn kosningasigur, fékk 6,4 prósent atkvæða og náði Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, 26 ára oddvita, sínum inn í borgarstjórn.

Flokkurinn bætir töluvert við sig milli kannana hjá Gallup, eða rúmlega tveimur prósentustigum. Alls segjast nú um þrjú prósent kjósenda ætla að kjósa Sósíalistaflokkinn ef kosið yrði í dag. Flokkurinn mælist með stuðning í öllum kjördæmunum sex.

Mestur mælist hann í Reykjavík norður þar sem 5,9 prósent kjósenda segja að þeir myndu kjósa Sósíalistaflokkinn. Það gerir flokkinn stærri í kjördæminu en þrjá flokka sem eiga nú fulltrúa á Alþingi: Framsókn, Flokk fólksins og Miðflokkinn.

Þeir flokkar sem sækja mest á í Reykjavík eru Samfylkingin og Viðreisn. Samfylkingin yrði stærsti stjórnmálaflokkurinn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum ef kosið yrði í dag. Alls segjast 21,2 prósent kjósenda í suðurhluta borgarinnar að þeir myndu kjósa flokkinn og 20,6 prósent í norðurhlutanum. Það er rúmlega 60 prósent fleiri en gerðu slíkt fyrir rúmu ári síðan.

Viðreisn rúmlega tvöfaldar fylgi sitt í Reykjavík suður. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 8,5 prósent atkvæða þar en myndi nú fá 18,2 prósent, sem myndi gera hann að þriðja stærsta flokki kjördæmisins. Viðreisn bætir líka við sig í hinu höfuðborgarkjördæminu og fengi nú 10,5 prósent atkvæða í stað 8,4 prósent. Píratar, sem eiga samleið með Samfylkingu og Viðreisn í mörgum málum, bæta einnig við sig umtalsverðu fylgi í Reykjavík, sérstaklega í norðurhlutanum þar sem flokkurinn myndi fá 17 prósent greiddra atkvæða ef kosið yrði í dag.

Bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins  tapa fylgi í höfuðborginni frá kosningum og hvorugur næði inn kjördæmakjörnum þingmanni.

Suðvesturkjördæmi

Í Suðvesturkjördæmi virðast litlar breytingar á yfirburðum Sjálfstæðisflokksins, sem mælist með 28,8 prósent fylgi í kjördæmi formannsins Bjarna Benediktssonar. Sterk staða flokksins í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur endurspeglast einnig í því að hann heldur um stjórnartaumana í öllum sveitarfélögunum sem mynda Kragann. Fylgið hefur þó dalað smávægilega frá síðustu kosningum og er nú komið undir 30 prósent.

Samfylkingin yrði næst stærsti flokkurinn í Kraganum með 16,1 prósent atkvæða sem yrði bæting um fjögur prósentustig frá því síðast. Viðreisn bætir sömuleiðis við sig, fengi 14 prósent í stað 9,5 prósenta og yrði þriðji stærsti flokkur kjördæmisins, þar sem flokksformaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir leiðir listann. Framsóknarflokkurinn bætir einnig lítillega við sig og fengi 9,6 prósent fylgi. Píratar eru á mjög svipuðum slóðum og þegar talið var upp úr kjörkössunum í október 2017.

Vinstri græn tapa í Kraganum eins og annars staðar og myndu fá 11,4 prósent atkvæða eftir að hafa fengið 13,6 prósent haustið 217.  Klausturflokkarnir tveir, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, tapa einnig miklu. Miðflokkurinn fer úr 9,5 prósent fylgi í 4,9 prósent og Flokkur fólksins úr 6,5 í 3,8 prósent.

Suðurkjördæmi

Suðurkjördæmi sker sig út úr örðum hvað varðar þróun á fylgi frá kosningum. Það er eina kjördæmið þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með meira fylgi en hann fékk þegar talið var upp úr kjörkössunum, í október 2017. Fylgi flokksins mælist nú 27,6 prósent en var 25,2 prósent fyrir 14 mánuðum síðan. Sjálfstæðisflokkurinn er langstærsti flokkur kjördæmisins.

Þótt Miðflokkurinn tapi fylgi í Suðurkjördæmi – hann fékk 14,3 prósent þar í síðustu kosningum – þá er kjördæmið þó það sem fylgi hans mælist langmest í, eða 9,2 prósent.

Annað er nokkurn veginn eftir bókinni. Framsóknarflokkurinn heldur sínum styrk í kjördæmi formannsins Sigurðar Inga Jóhannssonar og fengi 18 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag, sem er innan skekkjumarka minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Samfylkingin bætir við sig fylgi og Vinstri græn tapa umtalsverðu. Viðreisn myndi tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum og fá 6,2 prósent á meðan að Flokkur fólksins myndi tapa og ekki ná inn kjördæmakjörnum þingmanni.

Þjóðarpúls Gallup var gerður dag­ana 3. des­em­ber 2018 til 1. jan­úar 2019, eða eftir að hið svo­kall­aða Klaust­ur­mál kom upp. Heild­ar­úr­taks­stærð var 4.899 og þátt­töku­hlut­fall var 58,0 pró­sent.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar