Þótt áætlanagerð þyki í dag sjálfsagður hlutur hefur það ekki alltaf verið þannig. Það þótti nýlunda þegar sovétmenn settu fram sína fyrstu fimm ára áætlun árið 1928, samtals urðu þær þrettán talsins og náðu því yfir 65 ár.
Sú áætlun sem danska ríkisstjórnin kynnti nýlega er ekki jafn stórtæk og þær sovésku en Danir horfa hins vegar mun lengra fram í tímann, en áætlun þeirra spannar hálfa öld.
Þrískipt fimmtíu ára plan
Fimmtíu ára Kaupmannahafnarplanið, eins og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Dana hefur kallað áætlunina er í raun þrískipt: í fyrsta lagi landfylling út í Eyrarsund. Þetta svæði milli Norðurhafnarinnar og Refshaleøen fær nafnið Lynetteholmen. Í öðru lagi níu eyjar við Avedøre Holme, fyrir botni Køge bugtar, fast við E20 hraðbrautina (Amagermotorvejen). Þriðji hluti áætlunarinnar hefur verið nefndur Hafnargöngin eða Østre Ringvej, jarðgöng sem liggja frá Sjálandsbrúnni, upp í gegnum Amager, Refshaleøen og Norðurhöfnina og tengist Helsingør hraðbrautinni. Með þessu er gert ráð fyrir að bílaumferð um miðborg Kaupmannahafnar, um Kóngsins Nýjatorg og Ráðhústorgið minnki verulega.
Lynetteholmen
18. október í fyrra (2018) tókust þeir í hendur, á fundi með fréttamönnum, Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og Frank Jensen yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar. Það höfðu þeir auðvitað oft gert áður en þetta handaband innsiglaði samkomulag ríkisins og borgarstjórnar Kaupmannahafnar um uppbyggingu svæðis sem fengið hefur nafnið Lynetteholmen. Svæðið verður um það bil 200 hektarar á stærð, og tengist Refshaleøen. Lynetteholmen verður landfylling (eins og t.d Kristjánshöfn), allt efnið verður því að flytja að. Á þessari tilbúnu eyju er gert ráð fyrir um það bil 20 þúsund íbúðum og jafnframt verður hluti eyjunnar ætlaður fyrirtækjum.
Ráðherrann og borgarstjórinn nefndu töluna 35 þúsund þegar fréttamenn spurðu um hugsanlegan fjölda starfa. Lars Løkke Rasmussen lagði áherslu á að þetta samkomulag sem nú hefði verið staðfest væri einungis fyrsta skrefið og öll vinnan væri eftir, fyrst skipulagsvinna og síðan þessi risaframkvæmd, eins og hann komst að orði. „Þetta er fimmtíu ára plan“ sagði ráðherrann, ef allt gengi eftir yrði þessu verkefni lokið árið 2070.
Til viðbótar er ætlunin að byggja 15 þúsund nýjar íbúðir á Refshaleøen , þar sem skipasmíðastöðin Burmeister & Wain var á árunum 1872 – 1996. Starfsmenn þar voru um áratugaskeið fleiri en 10 þúsund. Margar stórar byggingar frá tíma B&W standa enn, þar á meðal skemman sem notuð var fyrir Eurovison söngvakeppnina árið 2014. Á Refshaleøen er líka skólphreinsunar- og frárennslisstöðin Lynetten sem var tekin í notkun árið 1980 og var þá sú stærsta sinnar tegundar í Norður- Evrópu. Í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir á Refshaleøen hefur verið rætt um að flytja starfsemi Lynetten annað en það er „stórverkefni“ eins og Frank Jensen yfirborgarstjóri orðaði það. Þegar fréttamenn spurðu um hugsanlegan kostnað nefndi danski forsætisráðherrann töluna 20 milljarða danskra króna (371 milljarð íslenskan). Sérfræðingum sem danskir fjölmiðlar hafa talað við telja það mjög varlega áætlað. Ætlunin er að sala á landi, á svæðinu, standi að öllu leyti undir kostnaðinum við landfyllinguna.
Níu hólmar við Avedøre
Fyrir nokkrum dögum kynnti danski vinnumálaráðherrann Rasmus Jarlov og Helle Adelborg, borgarstjóri í Hvidovre, áætlun um miklar framkvæmdir við Avedøre hólmann, fast við E20 hraðbrautina (sem liggur við Kastrup flugvöll til Svíþjóðar) og Kalvebod brúna. Áætlunin sem ráðherrann og borgarstjórinn kynntu er í stuttu máli sú að við Avedøre hólmann komi níu nýir hólmar. Hólminn sem fyrir er var að miklu leyti gerður úr landfyllingum milli margra smáhólma á sjöunda áratug síðustu aldar og er 450 hektarar að stærð. Þar eru tæplega 400 fyrirtæki, með um 9 þúsund starfsmenn. Lang stærst er Avedøre hreinsunar-, fjarvarma-og raforkuverið, fyrsti hluti þess var tekinn í notkun árið 1990.
Nýju hólmarnir níu verða samtals um 300 hektarar að stærð. Þar er gert ráð fyrir 380 nýjum fyrirtækjum með allt að 12 þúsund starfsmönnum. Ekki er gert ráð fyrir neinum íbúðarhúsum en hinsvegar opnum útivistarsvæðum. Ætlunin er að framkvæmdir hefjist árið 2022. Kostnaðarmat liggur ekki fyrir en tekna vegna landfyllinganna á að afla með sölu lóða á svæðinu.
Hvaðan kemur efnið?
Hólmarnir níu verða eingöngu gerðir með landfyllingum, eins og Lynetteholmen og í þá þarf gríðarlega mikið jarðefni. Og það liggur ekki beinlínis á lausu. Ráðherrar og borgarstjórar sögðu aðspurðir að búast mætti við að mikið efni fengist frá byggingasvæðum annars staðar í Kaupmannahöfn en sérfræðingar hafa bent á að alls óvíst sé að það efni sem þannig fellur til dugi til þessara miklu landfyllinga.
Á Sjálandi er jarðefni af skornum skammti og vel gæti svo farið að flytja þyrfti mikið efni frá Jótlandi (þar er nægt efni til) en slíkir flutningar kosta mikið fé.
Göngin
Umferð bíla í og við miðborg Kaupmannahafnar hefur aukist mikið á undanförnum árum þrátt fyrir að sífellt fleiri noti reiðhjól og sömuleiðis Metro- lestirnar til að komast leiðar sinnar. Árum saman hefur verið rætt um leiðir til að draga úr umferðinni, ekki síst stórra bíla. Mörgum þykir óviðundandi að helstu umferðaræðar miðborgarinnar liggi um tvö aðaltorg bæjarins, Kóngsins Nýjatorg og Ráðhústorgið.
Margt hefur verið rætt í þessu sambandi en nýjasta hugmyndin og sú sem nú er einkum horft til er að gera göng frá svæðinu við Sjálandsbrúna, upp í gegnum Amager, Refshaleøen og Norðurhöfnina sem tengist svo Helsingør hraðbrautinni. Þetta yrði mikil framkvæmd sem kosta myndi tugi milljarða danskra króna. Ríkisstjórnin og borgarstjórn Kaupmannahafnar ákváðu í fyrra að láta kanna kostnað við slíka framkvæmd og ennfremur koma með tillögur um nákvæma legu ganganna.
Í umræðum hefur komið fram að innheimt yrði gjald fyrir að aka um göngin. Rétt er að nefna að nyrsti bútur þessarar framkvæmdar, Nordhavnsvejen, hefur þegar verið tekinn í notkun, hluti hans eru tæplega eins kílómetra löng göng. Nordhavnsvejen var lagður til að létta á umferð til Norðurhafnarinnar en myndi tengjast göngunum sem nú eru í bígerð. Sömuleiðis stendur nú yfir athugun á möguleikum þess að leggja nýja Metro lestalínu um Refshaleøen en sú vinna er skammt á veg komin.
Ekki allir jafn hrifnir
Eftir að „fimmtíu ára áætlunin“ var kynnt hafa nokkrir bæjarstjórar á Sjálandi(Danir kalla bæjarstjórana borgarstjóra) gagnrýnt fyrirætlanir stjórnvalda. Borgarstjórarnir segja að með þessari áætlun sé algjörlega litið fram hjá öðrum svæðum á Sjálandi og einblínt á Kaupmannahöfn. Víða á Sjálandi sé nægt landrými þar sem ekki þurfi að eyða stórfé í landfyllingar.
Mikael Smed, borgarstjóri í Vordingborg sagði í viðtali við DR, danska útvarpið, að sér finnist skjóta skökku við að ríkisstjórnin leggi nú svo mikla áherslu á að byggja upp atvinnusvæði í og við Kaupmannahöfn. Þessi sama ríkisstjórn hafi tekið ákvarðanir um um flytja þúsundir starfa frá Kaupmannahöfn, þeir flutningar standi nú yfir og „eins og öllum sé kunnugt séu margar stofnanir ríkisins nánast óstarfhæfar vegna þessara ákvarðana“ sagði borgarstjórinn. Tók jafnframt fram að hann hefði ekkert á móti Kaupmannahöfn.
Rasmus Jarlov vinnumálaráðherra sagði í viðtali að það væri full þörf á að styrkja atvinnuuppbyggingu í Kaupmannahöfn og með þessari áætlun væri stigið stórt skref í þeim efnum.