Alls fengu 185 fyrrverandi þingmenn eða varaþingmenn lífeyrisgreiðslur vegna þingsetu upp á 479 milljónir króna á síðasta ári. Þá fengi 41 fyrrverandi ráðherrar slíkar greiðslur upp á 129 milljónir króna vegna ráðherrastarfa. Því nema samanlagðar lífeyrisgreiðslur til hópsins 608 milljónum króna.
Þetta kemur fram í svari frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Þar segir einnig að enginn fyrrverandi þingmaður greiði iðgjald til sjóðsins af föstu starfi á vegum ríkisins eða stofnana þess. Fimm fyrrverandi þingmenn hafi þó nýverið greitt iðfjald til sjóðsins af launum fyrir tilfallandi verkefni eða nefndarstörf.
Greiðslurnar sem raktar eru hér að ofan eru samkvæmt réttindum sem áunnin voru vegna laga sem samþykkt voru árið 2003 um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara eða eldri laga um lífeyrissjóði alþingismanna og ráðherra.
Lögin, sem voru afar umdeild og juku eftirlaunaréttindi þingmanna og ráðherra stórkostlega, voru afnumin með lögum 25. apríl 2009. Því er starfandi þingmaður eða ráðherra lengur að vinna sér inn réttindi samkvæmt gömlu og umdeildu eftirlaunalögunum. Í dag greiða þingmenn og ráðherrar einfaldlega í A-deild LSR og ávinna sér þar samskonar réttindi og allir aðrir sjóðsfélagar.
Þeir sem höfðu áunnið sér rétt til töku lífeyris áður en eftirlaunalögin voru afnumin halda þó sínum áunnu réttindum.
Gert til að stjórnmálamenn þyrfti ekki að hætta fjárhagslegri afkomu
Frumvarp sem tryggði helstu ráðamönnum þjóðarinnar umtalsvert betri eftirlaun en flestum þegnum landsins standa til boða varð að lögum í desember 2003. Það hefur alla tíð verið gríðarlega umdeilt. Fyrir utan að það fæli í sér mun rýmri eftirlaunaréttindi fyrir forseta Íslands, ráðherra, þingmenn og hæstaréttadómara en tíðkaðist almennt þá var einnig kveðið á um það að fyrrverandi ráðherrar sem höfðu setið lengi gætu farið á eftirlaun við 55 ára aldur.
Flutningsmenn frumvarpsins voru upphaflega úr öllum stjórnmálaflokkum sem þá sátu á Alþingi. Eftir að innihald þess komst í umræðuna snérist hluti flutningsmanna gegn því. Halldór Blöndal mælti fyrir frumvarpinu, en hann hafði lengi verið þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Þá sagði einnig að það væri mikilsvert í lýðræðisþjóðfélagi að ungt efnisfólk gæfi kost á sér til stjórnmálastarfa og þyrfti ekki að tefla hag sínum í tvísýnu með því þótt um tíma byðust betur launuð störf á vinnumarkaði. „Svo virðist sem starfstími manna í stjórnmálum sé að styttast eftir því sem samfélagið verður opnara og margþættara og fjölmiðlun meiri og skarpari. Við því er eðlilegt að bregðast, m.a. með því gera þeim sem lengi hafa verið í forustustörfum í stjórnmálum kleift að hverfa af vettvangi með sæmilega örugga afkomu og án þess að þeir þurfi að leita nýrra starfa seint á starfsævinni.“
Afnumin eftir hrun
Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem mynduðu ríkisstjórn þess tíma, greiddu atkvæði með frumvarpinu. Aðrir greiddu ýmist atkvæði á móti eða sátu hjá, nema Guðmundur Árni Stefánsson, þá þingmaður Samfylkingarinnar, en hann var einn flutningsmanna frumvarpsins. Guðmundur Árni greiddi atkvæði með því að frumvarpið yrði að lögum.
Í desember 2008, fimm árum og einum degi eftir að eftirlaunalögin voru samþykkt, breytti Alþingi þeim og hækkaði meðal annars lágmarksaldur við eftirlaunatöku úr 55 árum í 60.
Farið að fækka aftur í þiggjendahópnum
Fjöldi þeirra fyrrum þingmanna eða varaþingmanna sem þiggja eftirlaun samkvæmt lögunum frá 2003 fjölgaði töluvert ár frá ári eftir að lögin voru samþykkt. Árið 2007 voru þeir 129 talsins og voru orðnir 218 árið 2013.
Undanfarið hefur þeim hins vegar fækkað, enda bráðum liðin níu ár frá því að eftirlaunalögin voru afnumin. Þeir voru 189 í fyrra.
Ráðherrar sem fengu greidd eftirlaun samkvæmt lögunum voru 35 árið 2007 og voru orðnir 49 árið 2013. Í fyrra voru þeir hins vegar 41 talsins.