Útgáfufélag Stundarinnar og fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media unnu fullnaðarsigur í hinu svokallaða lögbannsmáli Glitnis HoldCo, félags utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, í Hæstarétti í dag.
Dómurinn í dag snérist í raun ekki um gildi lögbannsins sem sett var á umfjöllun miðlanna tveggja um fjármál Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og fjölskyldu hans sem unnin var upp úr gögnum frá Glitni, enda hefur lögbannið ekki verið í gildi síðan að Landsréttur hafnaði því að staðfesta það í október í fyrra, tæpu ári eftir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti lögbannið á. Það hélt þó gildi sínu allan þann tíma og Stundin gat ekki haldið áfram umfjöllun sinni uppúr gögnunum fyrr en að dómur Landsréttar lá fyrir.
Í lok nóvember féllst Hæstiréttur hins vegar á beiðni Glitnis HoldCo um að taka málið fyrir á efsta dómsstígi landsins, en þar var lögbannið sjálft ekki til umfjöllunar heldur krafa GlitnisHoldCo um að viðurkennt yrði að Stundinni og Reykjavik Media væri óheimilt að byggja á umræddum gögnum í fréttaflutningi sínum og að þeim bæri að afhenda félaginu gögnin. Kröfur GlitnisHoldCo byggðu á því að gögnin væru varin bankaleynd.
Þessu hafnaði Hæstiréttur með dómi í dag og sýknaði þar með Stundina og Reykjavík Media af kröfum Glitnis HoldCo sem taldi að miðlunum væri óheimilt að birta fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum sem stafi frá Glitni.
Vernd heimildarmanna tryggð
Hæstiréttur hafnaði öllum kröfum GlitnisHoldCo í málinu. Aðalkrafa félagsins var byggð á því að héraðsdómur hefði með úrskurðum 5. janúar 2018, sem Landsréttur staðfesti í október í fyrra, ranglega synjað að leggja fyrir þrjú tilgreind vitni, allt blaðamenn sem unnu að umfjölluninni, að svara spurningum sem lutu að tilvist, efni og vörslum þeirra gagna sem dómkröfur áfrýjanda taka til. Með þeirri niðurstöðu hefði GlitnirHoldCo verið sviptur rétti til að viðhafa lögmæta sönnunarfærslu og ætti sá annmarki að leiða til ómerkingar héraðsdóms.
Í dómi Hæstaréttar segir að eins og mál þetta sé vaxið væri fyrirfram útilokað að tryggja að svör við spurningunum geti ekki mögulega veitt vísbendingar um það frá hverjum umrædd gögn hefðu stafað, en allan vafa þar að lútandi yrði að túlka heimildarmanni í hag. „Verður ekki gerður greinarmunur þar að lútandi með tilliti til einstakra spurninga áfrýjanda, sem þess utan eru þannig vaxnar að óljóst er af efni þeirra hvaða þýðingu svör við þeim gætu haft fyrir sakarefni málsins. Með hliðsjón af þeirri ríku vernd heimildarmanna að lögum sem hér hefur verið gerð grein fyrir verður að ætla blaðamanni verulegt svigrúm til þess að meta hvort að svör við spurningum tengdum tilvist slíkra gagna kunni hugsanlega að veita vísbendingar um hver heimildarmaðurinn sé.“
Umfjöllunin breyttist ekki eftir að lögbanni var aflétt
Varakrafa GlitnisHoldCo snéris um að fá viðurkenningu á því að Stundinni og Reykjavík Media væri óheimilt að birta fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð væri á gögnum frá Glitni sem félagið teldi að féllu undir bankaleynd.
Í niðurstöðu Hæstaréttar, þar sem hann tekur afstöðu til þeirrar kröfu, segir að við mat á því hvort ganga skuli framar tjáningarfrelsi fjölmiðlanna sem stefnt var í málinu eða friðhelgi þeirra aðila sem nefnd gögn lúti að yrði að hafa í huga að þegar lögbannið var lagt á 16. október 2017 voru einungis 12 dagar í að kosið yrði til Alþingis og því sýnu brýnna en ella að upplýst fréttaumfjöllun yrði ekki skert meira en nauðsyn bar. „Verður jafnframt að líta til þess að meginþungi fréttaumfjöllunar stefndu laut að viðskiptum þáverandi forsætisráðherra og aðila honum tengdum við Glitni banka hf. í aðdraganda falls íslensku viðskiptabankanna þriggja í október 2008. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að fréttaumfjöllun stefndu hafi breyst að þessu leyti eftir að lögbannið féll niður. Hefur hún eftir sem áður einkum beinst að viðskiptaumsvifum þáverandi forsætisráðherra og aðilum tengdum honum í aðdraganda og kjölfar falls bankanna haustið 2008 með sömu áherslum og verið hafa frá upphafi umfjöllunar stefndu.“
Uppgjör sem fari fram á grundvelli fréttaumfjöllunar
Í dómi Hæstaréttar segir að almennt sé viðurkennt að rétturinn til að fjalla opinberlega um málefni kjörinna stjórnmálamanna sé rýmri en ella, og að þeir sem gegni slíkum opinberum trúnaðarstörfum þurfi að þola það að þeir kunni eftir atvikum að njóta lakari verndar samkvæmt stjórnarskrár heldur en aðrir. Hvað varði fréttaumfjöllun miðlana yrði að hafa í huga stöðu þeirra beggja sem fjölmiðla og það hlutverk sem þeir gegna í lýðræðisþjóðfélagi sem slíkir. „Þá verður jafnframt að líta til þess sem áður greinir varðandi væntanlegar alþingiskosningar, sem og þess að um er að ræða umfjöllun um viðskiptasamband eins af æðstu embættismönnum þjóðarinnar við einn af þremur stærstu viðskiptabönkum landsins, í aðdraganda þeirra atburðarrásar sem lauk með því sem kallað hefur verið hið íslenska bankahrun haustið 2008. Eðli máls samkvæmt hefur öll opinber umræða undanfarin ár litast mjög af þeim atburðum og meðal annars lotið að því að greina orsakir þeirra og eftirmála. Í ljósi þeirra stórfelldu almennu áhrifa sem bankahrunið hafði á íslenskt samfélag er og eðlilegt að slíkt uppgjör fari fram á grundvelli opinberrar fréttaumfjöllunar og þeirrar almennu umræðu sem henni að jafnaði fylgir. Verður að líta svo á að umfjöllun stefndu um viðskipti þáverandi forsætisráðherra sé liður í því uppgjöri og eigi sem slík erindi við almenning.“
Þá má fjalla um umsvifamikla leikendur í hruninu
Hæstiréttur gengur lengra en að einskorða þá afstöðu við stjórnmálamanninn Bjarna Benediktsson. Í dómnum segir að hvað varði aðra aðila sem greint var frá í umfjöllun miðlana þá sé fallist á þá ályktun héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, að ekki yrði annað séð en að þar hafi í flestum tilvikum verið um að ræða einstaklinga og lögaðila sem tengdust þáverandi forsætisráðherra með einum eða öðrum hætti, ýmist viðskipta- eða fjölskyldutengslum, og viðskiptum við bankann á þeim tíma er um ræðir. „Er fallist á að málefni þeirra hafi verið svo samofin umfjöllunarefni stefndu að ekki verði skilið þar á milli.“
Í dómnum segir að í þeim tilvikum þar sem slík tengsl við Bjarna Benediktsson hafi ekki verið augljós þá sýnist „allt að einu“ um að ræða aðila sem voru umsvifamiklir eða áberandi í aðdraganda og eftirleik hruns bankanna haustið 2008 eða tengjast þeim aðilum með augljósum hætti. „Að breyttu breytanda á það sama við um þá fréttaumfjöllun sem birst hefur eftir að lögbannið féll niður, en ítrekað skal að meta verður umfjöllun stefndu heildstætt að þessu leyti.
Ennfremur er til þess að líta, og þá ekki síst hvað varðar möguleg áhrif viðurkenningakrafna áfrýjanda á banni við miðlun gagnanna og upplýsinga úr þeim til framtíðar litið, að þær eru settar fram án frekari afmörkunar á því um hverja kann að verða fjallað. Ná kröfur áfrýjanda því jafnt til þeirra sem vegna starfa sinna eða stöðu að öðru leyti þurfa að sæta því að búa við skertari friðhelgi einkalífs heldur en aðrir, svo sem áður hefur verið fallist á að meðal annars eigi við um kjörna fulltrúa, og svo á hinn bóginn þeirra sem rétt eiga á slíkri friðhelgi óskertri. Útilokar þessi framsetning áfrýjanda á kröfugerð sinni að unnt sé að fallast á hana.“