Vond staða sem þarf að vinda ofan af
WOW air stendur fjárhagslega afar illa. Skuldabréfaútboð upp á 50 milljónir dala (um sex milljarða króna á gengi dagsins í dag) sem fyrirtækið fór í í september 2018 dugði ekki til að laga stöðu WOW air. Síðan þá hefur verið reynt að selja fyrirtækið til Icelandair (tvisvar) og Indigo Partners. Þau áform hafa ekki gengið eftir. Síðasta tilraun með Icelandair, sem stóð yfir um liðna helgi, fór fram á þeim forsendum að WOW Air væri fyrirtæki á fallandi fæti. Til að slíkar forsendur haldi, en þær heimila til dæmis að samkeppnislegum áhrifum samruna er vikið til hliðar, þá þarf að liggja fyrir að enginn raunhæfur möguleiki sé á því að aðrir kaupendur séu til staðar.
Mikið tap og háar skuldir
Morgunblaðið greindi frá því á mánudag að WOW air hefði tapað 22 milljörðum krónum í fyrra, að eigið fé fyrirtækisins sé neikvætt um 13 milljarða króna og að lausafjárstaðan sé neikvæð upp á 1,4 milljarða króna. Fréttablaðið greindi frá því sama dag að heildarskuldir WOW air væru um 24 milljarðar króna.
Það sem þarf að gera: skref 1
Til þess að lifa af þarf WOW air að skrifa niður allt núverandi hlutafé (í eigu Skúla Mogensen), að semja um að breyta skuldum í nýtt hlutafé og fá inn nýtt fjármagn til að vera rekstrarhæft.
- Kröfuhafar WOW air eru ýmiss konar. Þeir kröfuhafar sem eru líklegastir til að breyta kröfum í hlutafé eru annars vegar þeir sem tóku þátt í skuldabréfaútboði WOW air í fyrrahaust. Þar er meðal annars um að ræða bandaríska fjárfestingasjóðinn Eaton Vance, Skúla Mogensen sjálfan (sem keypti fyrir 770 milljónir króna og veðsetti meðal annars húsið sitt), Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóra Airport Associates (stærsta þjónustuaðila WOW air á Keflavíkurflugvelli) og fjárfestingasjóðir í stýringu hjá GAMMA. Alls tóku nokkrir tugir aðila þátt í að lána WOW air peninga í útboðinu.
- Hins vegar þarf WOW air að semja við Arion banka, helsta viðskiptabanka sinn, sem hefur lánað fyrirtækinu umtalsverða fjármuni í vandræðum þess síðustu misseri. Ef það er rétt sem haft er eftir Sigþóri Kristni, forstjóra Airport Associates, á vef RÚV um að það standi til að breyta um 15 milljörðum króna af skuldum í hlutafé þá er augljóst að allir ofangreindir eru með í því.
Það sem þarf að gera: skref 2
Aðrar skuldir WOW air eru rekstrarskuldir við t.d. leigusala sem eiga vélarnar sem fyrirtækið notað og Isavia sem WOW air skuldar umtalsverðar fjárhæðir, tæpa tvo milljarða króna, vegna vangoldinna lendingargjalda. Þá skuldar WOW air einnig lífeyrissjóðum vegna iðgjalda starfsmanna og ýmsum öðrum þjónustuaðilum eins og eldsneytissölum. Stærsti eldsneytissali WOW air eru Festar, skráð félag í Kauphöll Íslands sem áður hét N1. Afar ólíklegt er að einhver þessarra muni breyta kröfum í hlutafé og því þarf að semja við þá um greiðslur eða niðurfellingar.
Það sem þarf að gera: skref 3
Takist þetta allt saman þá þarf að finna aðila sem er tilbúinn að koma með að minnsta kosti fimm milljarða króna í nýtt hlutafé inn í WOW. Sá aðili, sem Arctica Finance hefur umsjón með að finna, myndi þá eignast meirihluta í WOW air fyrir það fé sem hann legði á borðið. Minnihlutinn, 49 prósent, yrði í eigu þeirra kröfuhafa sem breyta kröfum sínum í nýtt hlutafé. Það verður töluvert erfiðari brekka að finna þann aðila en að fá kröfuhafa, sem horfa hvort eða er á að tapa annars öllum sínum kröfum, til að breyta kröfum í nýtt hlutafé.
Það sem þarf að gera: skref 4
Yfir öllu saman vaka síðan Samgöngustofa, sem veitir WOW air flugrekstrarleyfi og getur þar af leiðandi afturkallað það, og stjórnvöld.Það þarf líka að sannfæra þá aðila um að áætlun um endurreisn WOW air sé trúverðug og að fyrirtækið verði ekki bara komið í sömu vandræði innan nokkurra vikna eða mánaða.