Mynd: HS Orka hsorka

Virði HS Orku hefur tvöfaldast frá því að Magma keypti

Eina orkufyrirtækið á Íslandi sem er í eigu einkaaðila hefur skipt um meirihlutaeigendur. Fjárfesting hins kanadíska Ross Beaty í HS Orku virðist hafa margborgað sig en hann greiddi um 33 milljarðar króna fyrir nær allt hlutafé þess á árunum 2009 og 2010. Miðað við verðmiðann sem er á sölu á 53,9 prósent hlut í HS Orku sem greint var frá í gær er virði fyrirtækisins 69 milljarðar króna. Einkavæðing HS Orku hefur þó verið þyrnum stráð. Hér er sagan öll rakin.

Fjár­fest­ing­ar­sjóður í stýr­ingu hjá Macquarie Infrastructure and Real Assets (MIRA) hefur und­ir­ritað kaup­samn­ing á 53,9 pró­sent hlut Magma Energy Sweden í íslenska orku­fyr­ir­tæk­inu HS Orku á 304,8 millj­ónir dala, eða um 37 millj­arða króna.

Gangi kaupin eftir líkt og við er búist, lýkur áratugalangri, og um tíma afar umdeildri, aðkomu Kanadamannsins Ross Beaty og fyrirtækja sem hann hefur komið að að þessu þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins.

Beaty, sem hefur verið stjórnarformaður HS Orku árum saman, leiddi uppkaup sænska skúffufyrirtækisins Magma Energy Sweden á hlutum í HS Orku á árunum 2009 og 2010. Þrátt fyrir mikinn pólitískan mótþróa, og umræður um hvort ríkið gæti gengið inn í kaupin eða komið í veg fyrir þau á annan hátt, þá náði hann að kaupa alls 98,53 prósent hlut í orkufyrirtækinu á alls um 33 milljarða króna.

Miðað við verðmiðann sem er á sölunni til MIRA þá er heildarvirði HS Orku nú tæplega 69 milljarðar króna. Fyrirtækið hefur því reynst ágætis fjárfesting fyrir þá sem keyptu það á sínum tíma.

Ákveðið að einkavæða orkufyrirtæki

Í aðdraganda bankahrunsins fór af stað vegferð sem í fólst að einkavæða hluta af íslensku orkufyrirtækjunum. Eitt þeirra var Hitaveita Suðurnesja, sem síðar var skipt upp í HS Orku og HS Veitur, en var á þeim tíma að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Í mars 2007 ákvað íslenska ríkið að auglýsa 15,2 prósent hlut sinn í fyrirtækinu til sölu. Öðrum orkufyrirtækjum á Íslandi, sem voru líka í opinberri eigu, var meinað að bjóða í hann.

Mánuði síðar lá fyrir að fjögur tilboð höfðu borist í hlutinn. Langhæsta tilboðið var frá félagi sem kallaðist Geysi Green Energy (GGE), og bauð 7,6 milljarða króna, um 40 prósent hærra en næsti bjóðandi.  Geysir Green Energy var orkuútrásarfyrirtæki sem þá hafði nýverið verið stofnað af FL Group, Glitni og Mannviti. Aðrir eigendur Hitaveitunnar áttu forkaupsrétt sem þeir ákváðu að nýta sér í þeim tilgangi að reyna að halda fyrirtækinu í opinberri eigu, við litlar vinsældir bjóðenda.

Þann 11. júlí 2007 náðist málamiðlun í baráttunni um Hitaveituna með gerð hluthafasamkomulags. Það fól í sér að Reykjanesbær (34,7 prósent), Orkuveita Reykjavíkur (16,5 prósent), Hafnarfjörður (15,4 prósent) og Geysir Green Energy (32 prósent) yrðu eigendur að Hitaveitu Suðurnesja. Hafnafjörður mátti selja hlut sinn til Orkuveitu Reykjavíkur, sem bærinn ákvað síðar að gera. Minni sveitafélög á Suðurnesjum áttu síðan saman um eitt prósent hlut.

Í október 2007 var tilkynnt um samruna Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest (REI), útrásararms Orkuveitu Reykjavíkur. Við það átti hlutur Orkuveitunnar og Geysis Green Energy í Hitaveitu Suðurnesja að renna að renna inn í REI. Með hlut Hafnarfjarðar, sem Orkuveitan mátti kaupa, hefði hið sameinaða REI átt 64 prósent í Hitaveitu Suðurnesja. REI-samruninn gekk hins vegar til baka með látum líkt og frægt er orðið. Í desember 2007 ákvað Hafnarfjörður svo að selja nánast allan eignarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til Orkuveitu Reykjavíkur.

Bláa lónið með sem skiptimynt

Í byrjun árs 2008 höfðu níu af þeim tíu sveitarfélögum sem áttu í Hitaveitu Suðurnesja ári áður selt sig út úr fyrirtækinu eða áttu undir eitt prósent eignarhlut. Þessi blokk hafði átt 84,8 prósent hlut í fyrirtækinu í byrjun árs 2007. Eina sveitarfélagið sem enn átti umtalsverðan hlut var Reykjanesbær með 34,74 prósent hlut.

Í apríl 2008 úrskurðaði Samkeppniseftirlitið hins vegar að Orkuveita Reykjavíkur mætti einungis eiga þrjú prósent hlut í Hitaveitu Suðurnesja, og fyrirtækið reyndi að skila hlut sem keyptur var af Hafnarfirði, sem vildi ekki sætta sig við þá niðurstöðu. Málið var síðar leyst fyrir dómstólum.

Þann 1. desember 2008 var ákveðið að skipta Hitaveitu Suðurnesja upp í tvö fyrirtækið, Orku og Veitur. Á meðal eigna sem fóru til HS Orku við uppskiptinguna var eignarhlutur í Bláa lóninu, en Hitaveitan hefur verið stór hluthafi í fyrirtækinu frá því að uppbygging nýrrar aðstöðu hófst þar á tíunda áratug síðustu aldar. Eignarhlutur HS Orku í Bláa lóninu nemur í dag um 30 prósentum.

Eignarhluturinn í Bláa lóninu var bókfærður á 217,8 milljónir króna í lok árs 2008, skömmu eftir að uppskipting Hitaveitunnar hafði gengið í gegn. Hann var, með öðrum orðum, algjört aukaatriði í bókhaldi hins nýja fyrirtækis HS Orku. Árið síðar hafði bókfært virði eignarhlutarins verið hækkað í 846 milljónir króna. Í lok árs 2017 var búið að færa virði hlutarins í bókum HS Orku upp í 2,7 milljarða króna. Sumarið 2017 hafnaði fyrirtækið ellefu milljarða króna tilboði í hann.

Magma mætir

Á fyrri hluta ársins 2009 áttu sér stað ýmsar væringar innan HS Orku. Orkuveita Reykjavíkur vildi selja sinn hlut en Héraðsdómur Reykjavíkur skikkaði fyrirtækið skömmu síðar til að standa við kaup á hlut Hafnarfjarðar í HS Orku sem það hafði skuldbundið sig til að kaupa. Þegar þarna var komið var staðan því þannig að Orkuveita Reykjavíkur, Hafnarfjörður og Reykjanesbær, sem samtals áttu samtals 67 prósent hlut í HS Orku, vildu öll selja sinn hlut.


Í maímánuði var greint frá því í fjölmiðlum að erlendir fjárfestar hefðu áhuga á að kaupa hlut í Geysi Green Energy, sem átti 32 prósent í HS Orku. Síðar kom í ljós að umræddur fjárfestir var fyrirtækið Magma Energy frá Kanada. 25. júní 2009 voru gerð drög að samkomulagi milli Reykjanesbæjar og Geysis Green Energy um sölu bæjarins á 34,7 prósent hlut hans í HS Orku. Tveimur dögum síðar var greint frá því að Magma ætlaði sér að kaupa hlut í HS Orku af Geysis Green Energy og að fyrirtækið hefði áhuga á eignarhlut Orkuveitu Reykjavíkur líka, sem þá var í söluferli.

Þann 14. júlí 2009 seldi Reykjanesbær allan eignarhlut sinn í HS Orku til Geysis Green á 13 milljarða króna og nokkrum dögum síðar keypti Magna 10,8 prósent hlut í HS Orku af Geysi Green. Um miðjan ágúst hóf stjórn Orkuveitu Reykjavíkur viðræður  við Magma um að selja fyrirtækinu 32,2 prósent hlut sinn í HS Orku. Á sama tíma var tilkynnt að Sandgerði ætli að selja sinn hlut í HS Orku til Magma.

Þáverandi stjórnvöldum hugnaðist þessi þróun ekki og í fjármálaráðuneytinu, sem þá var stýrt af Steingrími J. Sigfússyni, voru uppi hugmyndir um að íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og Rarik myndu ganga inn í viðskiptin til að tryggja áframhaldandi opinbert eignarhald. Í lok ágúst var greint frá því að ríkið, sveitarfélög (m.a. Grindavík) og lífeyrissjóðir myndi reyna að eignast 55 prósent hlut í HS Orku. Ekkert varð af áformunum eftir að lífeyrissjóðirnir neituðu að taka þátt í kaupunum. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti svo að selja hlut OR til Magma þann 15. september 2009. Hávær mótmæli voru á borgarstjórnarfundi þegar salan var samþykkt og þrír af áhorfendapöllum voru handteknir.

Alls átti Magma eftir þetta 41 prósent hlut í HS Orku.

Ódýrar aflandskrónur og uppkaup á rest

Í byrjun árs 2010 var greint frá því að Magma hefði keypt ódýrar aflandskrónur í október 2008 og notað þær til að fjármagna hluta af staðgreiðslu Magma fyrir hluti sem fyrirtækið hafði keypt í HS Orku.

Magma stofnaði um þetta leyti dótturfélag á Íslandi og réð Ásgeir Margeirsson, fyrrverandi forstjóra Geysi Green Energy, til að stýra því.

Í lok mars 2010 komst nefnd um erlenda fjárfestingu að þeirri niðurstöðu að kaup Magma á 41 prósent hlut í HS Orku, í gegnum sænska skúffufyrirtækið Magma Energy Sweden, væru í samræmi við lög og yrðu ekki stöðvuð af stjórnvöldum. Lauk þar með tilraunum opinberra aðila að ganga inn í kaupinn.

Ein verðmætasta eign HS Orku er 30 prósent hlutur í Bláa lóninu. Virði hennar hefur tekið stakkaskiptum á örfáum árum.
Mynd: Bláa lónið

Þann 17. maí var síðan tilkynnt um að Magma hefði keypt 52,3 prósent hlut Geysis Green Energy í HS Orku á tæplega 16 milljarða króna. Eftir kaupin átti Magma 98,5 prósent hlut í HS Orku. Ýmsir ráðherrar úr flokki Vinstri grænna, sem þá sátu í ríkisstjórn með Samfylkingunni, vildu setja bráðabirgðalög á kaupin til að koma í veg fyrir að orkufyrirtæki yrði nánast að öllu leyti í eigu erlends aðila.

Eftir háværar deilur greindi Ross Beaty, forstjóri og stjórnarformaður Magma, frá því að fyrirtækið hefði hug á því að selja fjórðung í því til íslenskra fjárfesta til að skapa frið um eignarhaldið. Sáttatilboðið gerði lítið til að lægja öldurnar og í lok janúar 2011 útilokaði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, ekki að ríkið myndi taka eignarhlut Magma í HS Orku eignarnámi. Af því varð ekki.

Magma Energy gekk skömmu síðar í gegnum samruna og hét eftir það Alterra Power. Það félag var skráð á markað í Kanada og Ross Beaty var helsti stjórnandi þess.

Vorið 2011 átti Alterra Power 98,53 prósent hlut í HS Orku og sveitarfélögin Reykjanesbær, Grindavík, Garður og Vogar samanlagt 1,47 prósent hlut.

Heildarkaupverð Alterra/Magma á hlutum í HS Orku var um 33 milljarðar króna.

Lífeyrissjóðirnir kaupa sig inn

Síðasta dag maímánaðar 2011 var send út tilkynning um að Jarðvarmi, félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, hefði keypt 25 prósent hlut í HS Orku á 8,1 milljarð króna. Auk þess fékk félagið kauprétt á hærra gengi og rétt til að skrá sig fyr­ir allt að helm­ingi heild­ar­hluta­fjár HS Orku með kaup­um á nýj­um hlut­um sem HS Orka kann að gefa út í framtíðinni. Jarðvarmi fékk tvo menn af fimm í stjórn HS Orku. Rík minni­hluta­vernd, virk þátt­taka í stjórn fé­lags­ins og form­leg aðkoma að öll­um meiri­hátt­ar ákvörðunum á veg­um fé­lags­ins voru á meðal skil­mála viðskipt­anna. Sú minnihlutavernd, sem tilgreind var í hluthafasamkomulagi sem ferð var samhliða viðskiptunum, átti eftir að reynast afdrifarík síðar.

Ári eftir að upphaflegu viðskiptin gengu í gegn nýtti Jarðvarmi kaupréttinn sinn og greiddi 4,7 milljarða króna fyrir viðbótarhlut. Eftir kaupin var hluti Jarðvarma 33,4 prósent og samtals höfðu lífeyrissjóðirnir 14 greitt 12,8 milljarða króna fyrir hann. Miðað við þann verðmiða var HS Orka í heild metið á um 38,3 milljarða króna.

2012 varð síðan enn einn vendingin í eignarhaldi á HS orku. Þegar Magma Energy Sweden keypti upphaflega hluti í orkufyrirtækinu af Reykjanesbæ þá var meðal annars greitt fyrir með skuldabréfi. Reykjanesbær ákvað að selja það skuldabréf árið 2012 til Fagfjárfestasjóðsins ORK sem fjármagnaður var af líf­eyr­is­sjóðum og fag­fjár­fest­um. Sölu­verðið var þá sagt 6,3 millj­arða króna. Ástæðan var sú að Reykjanesbæ vantaði reiðufé vegna mjög vondrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og átti ekki margar aðrar eignir eftir til að selja en umrætt skuldabréf.

Ross Beaty er stjórnarformaður HS Orku og hefur leitt uppkaup erlendra aðila í fyrirtækinu. Hans aðkomu er nú senn að ljúka.
Mynd: Skjáskot

Það var með breytirétti, sem þýddi að hægt var að breyta því í hlutafé ef þannig á stæði. Það var gert árið 2017 og eftir það átti fjárfestingarsjóðurinn 12,7 prósent í HS Orku.

Sá hlutur var svo seldur til sviss­neska fjár­fest­inga­fé­lagsins Disruptive Capital Renewable Energy AG seint á síðasta ári.  Móður­fé­lag DC Renewable Energy AG, Disruptive Capital Finance er skráð í kaup­höll­ina í Sviss. Eigandi félagsins er Bretinn Edmund Truell sem hefur unnið lengi að því að koma á sæstreng milli Íslands og Bretlands. Hann greiddi rúmlega níu milljarða króna fyrir hlutinn, en hluti kaupverðsins er árangurstengdur.

Eignarhaldið á HS Orku í dag, gangi boðuð kaup eftir, er því þannig að MIRA á 53,9 prósent hlut, Jarðvarmi í eigu íslenskra lífeyrissjóða á 33,4 prósent og félag Truell á 12,7 prósent.

Losnuðu undan Helguvíkurmartröðinni

Undanfarin ár hafa að öðru leyti verið nokkuð róleg hjá HS Orku, sérstaklega í samhengi við óróan sem var í kringum fyrirtækið á árunum fyrir og eftir hrun. Fyrirtækið hefur helst ratað í fréttir vegna tilrauna til að losna undan orkusölusamningi sem það gerði við Norðurál í apríl 2007, vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Til þess að byggja stærri útgáfu þess álvers þurfti rúm­lega 600 megawött af orku. Um 150 megawött áttu að koma frá HS Orku. Orku­veita Reykja­víkur skuld­batt sig einnig til að selja orku til verk­efn­is­ins og hóf raunar afhend­ingu á henni á árinu 2011, þótt ekk­ert álver væri ris­ið.

Samningurinn var, vægast sagt óhagstæður fyrir HS Orku. Fyrirtækið hefur nánast allan þann tíma sem liðin er frá undirritun hans reynt að losna undan samningnum. Fyrir því voru tvær ástæður. Sú fyrri er að hann var einfaldlega það slakur að samningurinn gat ekki skilað HS Orku arðsemi. Ef HS Orka myndi selja Norð­ur­áli orku til verk­efn­is­ins sam­kvæmt samn­ingnum væri verðið sem fyrir feng­ist langt frá því að skila við­un­andi arð­semi fyrir orku­fyr­ir­tæk­ið. Hin síðari sú að Norðurál var ekkert að flýta sér við að klára að byggja álverið í Helguvík og taka við orkunni.

Samningurinn batt nánast alla þá orku sem mögu­legt var að fá út þeim virkj­ana­kostum sem eru í nýt­ing­ar­flokki, og HS Orka gæti nýtt.

HS Orka stefndi Norð­ur­áli fyrir gerð­ar­dóm í sumarið 2014 til að reyna að slíta samn­ingnum.

Niðurstaðan kom 1. desember 2016. Hún var á þá leið að sökum til­tek­inna kring­um­stæðna sé samn­ing­ur­inn ekki lengur í gildi og að lok samn­ings­ins séu ekki af völdum HS Orku. Þá var kröfum Norð­ur­áls Helgu­víkur í mál­inu hafn­að.

Í ávarpi forstjóra HS Orku í ársskýrslu fyrirtækisins vegna ársins 2016 sagði að HS Orka hefði unnið fullnaðarsigur í málinu. „Það er gríðarlegt fagnaðarefni fyrir félagið en óvissa um gildi samningsins og um það hvort álver yrði byggt í Helguvík hefur í fjölmörg ár heft framtíðaruppbyggingu félagsins.“

Falið virði og líkur á auknum rekstrarhagnaði

HS Orka er eina íslenska orku­­fyr­ir­tækið sem er í eigu einka­að­ila. Það á og rekur orku­ver í Svarts­engi og á Reykja­­­nesi auk þess sem virkj­ana­­­kostir sem fyr­ir­tækið á eru í nýt­ing­­­ar­­­flokki ramma­á­ætl­­­un­­­ar.

Rekstur HS Orku virðist vera í mjög góðu standi um þessar mundir. Í árslok 2017 átti fyrirtækið eigið fé upp á 35,5 milljarða króna og skilaði hagnaði umm á 4,6 milljarða króna. Þar voru eignir HS Orku metnar á 48,4 milljarða króna en flestir sérfræðingar eru sammála um að þær séu verulega vanmetnar. Í þeim sama ársreikningi var nefnilega 30 prósent eignarhlutur fyrirtækisins í Bláa lóninu bókfærður á 2,7 milljarð króna, sem er líkast til umtalsvert undir markaðsvirði í ljósi þess að boði upp á ellefu milljarða króna í hlutinn var hafnað fyrir tveimur árum og að Bláa lónið var verðlagt á um 50 milljarða króna alls í viðskiptum sem áttu sér stað tengt því í lok árs í fyrra.

Í fjárfestakynningu sem notast var við vegna söluferilisins sem lauk með kaupum MIRA, og bar nafnið „Project Thor“, sagði að áætlaður EBITDA-hagnaður HS Orku (hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta) á árinu 2019 væri 31 milljón dala, eða tæplega 3,8 milljarðar króna. Þar er hins vegar einnig gert ráð fyrir að EBITDA-hagnaður HS Orku muni nánast tvöfaldast á árinu 2023 og verða um 60 milljónir dala, eða um 7,3 milljarðar króna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar