Í síðustu Alþingiskosningum, sem fram fóru 28. október 2017, fékk Miðflokkurinn, þá nokkurra vikna gamall stjórnmálaflokkur sem stofnaður var utan um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, 10,9 prósent atkvæða.
Það var ívið meira fylgi en spár höfðu gert ráð fyrir í aðdraganda kosninganna þótt ekki skeikaði miklu.
Fylgi Miðflokksins dalaði síðan í kjölfar kosninganna og fór niður í 5,8 prósent í lok árs 2017. Í fyrra óx það síðan jafnt og þétt og var orðið 8,7 prósent samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup í lok sumars og heil tólf prósent í lok nóvember það ár. Flokkurinn var á flugi.
Þá kom Klausturmálið upp. Það snerist um upptöku af drykkju og niðurlægjandi orðræðu fjögurra þingmanna Miðflokksins, þar á meðal allri stjórn hans, og tveggja þingmanna Flokks fólksins, um meðal annars aðra stjórnmálamenn, fatlaða og samkynhneigða. Auk þess heyrðist á upptökunni umræður um að fá þingmenn Flokks flokksins yfir í Miðflokkinn og umræður um greiðasemi við sendiherraskipan þegar formaður og varaformaður Miðflokksins sátu í ríkisstjórn á sínum tíma.
Klausturmálið rúmlega helmingaði fylgi Miðflokksins og það mældist 5,7 prósent í lok desember. Síðan þá hefur það risið jafnt og þétt og í Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í gær mældist það níu prósent.
Miðflokkurinn er því að nálgast kjörfylgi sitt og mælist nú stærri en hann gerði í lok ágúst í fyrra.
Framsókn og Sjálfstæðisflokkur standa í stað
Miðflokkurinn er klofningsflokkur úr Framsóknarflokknum. Flestir lykilmenn hans fylgdu Sigmundi Davíð þaðan í kjölfar þess að hann missti forystuhlutverk sitt þar. Framsóknarflokkurinn naut góðs af Klausturmálinu í könnunum fyrst um sinn, bætti við sig tæplega fjórum prósentustigum og mældist með 11,4 prósent fylgi um síðustu áramót. Það var mesta fylgi sem hann hafði mælst með á árinu 2018 í könnunum. Síðan þá hefur fylgið dalað eilítið en stendur í stað milli síðustu tveggja kannana og mælist níu prósent. Því mælist fylgi Framsóknar nákvæmlega það sama og klofningsflokksins Miðflokksins eins og er.
Hinn flokkurinn sem Miðflokkurinn þykir líklegastur til að kroppa fylgi af er Sjálfstæðisflokkurinn. Fylgi hans stendur hins vegar í stað á milli kannana, mælist slétt 25 prósent, sem er nánast kjörfylgi flokksins í síðustu kosningum. Því er ljóst að aukið fylgi við Miðflokkinn virðist vera að koma annars staðar að en frá Framsókn og Sjálfstæðisflokki.
Þrír tapa fylgi
Þeir flokkar sem tapa fylgi á milli síðustu kannana Gallup eru Samfylking, Vinstri græn og Sósíalistaflokkur Íslands. Samfylkingin mældist með 19,1 prósent fylgi í janúar en mælist nú 15,9 prósent, Vinstri græn mældust með 12,3 prósent fylgi í lok febrúar en mælast nú með prósentustigi minna og Sósíalistaflokkurinn hefur verið að mælast með um eða yfir fimm prósent fylgi í síðustu könnunum, en er nú með 3,5 prósent.
Allt eru þetta flokkar sem eru ansi ólíkir Miðflokknum, bæði í áferð og stefnu.
Viðreisn bætir lítillega við sig milli kannana og fengi 10,3 prósent atkvæða ef kosið væri í dag og Píratar standa í stað með stuðning 11,6 prósent kjósenda.
Flokkur fólksins er sá eini þeirra átta flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi í dag sem mælist ekki með mann inni. Fylgi hans mælist einungis 3,7 prósent, en stutt er síðan að tveir brottreknir þingmenn úr flokknum, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, gengu til liðs við Miðflokkinn. Þeir voru báðir á meðal þeirra sex þingmanna sem sátu á Klausturbarnum seint í nóvember í fyrra.
Erfitt að sjá ríkisstjórn í kortunum
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír: Vinstri græn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mælast samanlagt með 45,6 prósent fylgi sem myndi líkast til ekki duga til að mynda meirihlutastjórn. Líkt og áður sagði er Sjálfstæðisflokkurinn að mælast nánast í kjörfylgi og Framsóknarflokkurinn er rétt undir sínu. Vinstri græn er áfram sem áður sá flokkur sem tapar mestri pólitískri innistæðu á ríkisstjórnarsamstarfinu samkvæmt mælingum, en fylgi flokksins mælist nú 5,3 prósentustigum undir kjörfylgi. Það þýðir að tæplega þriðji hver kjósandi hefur yfirgefið Vinstri græn frá því í síðustu þingkosningum.
Frjálslynda miðjublokkinn, sem samanstendur af Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn, mældist með 40,9 prósent sameiginlegt fylgi í janúar og hefði við slíkar aðstæður getað myndað ríkisstjórn með annað hvort Framsóknarflokki eða Vinstri grænum ef kosið hefði verið á þeim tíma, þótt sá meirihluti yrði með tæpasta móti. Síðan þá hefur sameiginlegt fylgi flokkanna lækkað og mælist nú 37,8 prósent. Það er til marks um hversu flókin hin pólitíska staða er um þessar mundir að þeir þrír flokkar gætu ekki myndað ríkisstjórn með meirihluta atkvæða á bak við sig án aðkomu Sjálfstæðisflokks nema að að slík myndi innihalda tvo aðra flokka.
Mörg atkvæði á flokka sem næðu ekki inn
Sósíalistaflokkur Íslands hafði verið á umtalsverðri siglingu í könnunum upp á síðkastið og mælst með nægjanlegt fylgi til að ná inn manni í tveimur Þjóðarpúlsum Gallup í röð. Fylgi hans lækkar nú um 1,5 prósentustig og stendur í 3,5 prósentum sem myndi ekki duga til að ná inn þingmanni ef kosið yrði nú.
Skammt fyrir ofan Sósíalistaflokkinn í nýjustu könnun Gallup er Flokkur fólksins með 3,7 prósent fylgi sem myndi heldur ekki duga til að ná inn manni.
Það þýðir að ef kosið yrði í dag gætu um 7,6 prósent atkvæða þeirra sem taka afstöðu fallið niður dauð. Af öllum sem svöruðu könnuninni sögðust þó rúmlega 13 prósent að þeir myndu skila inn auðu eða ekki kjósa og tæplega tíu prósent neituðu að gefa upp afstöðu sína. Slík staða gæti haft veruleg áhrif á það hvernig þingmenn myndu raðast á aðra flokka.
Það er þó erfitt að sjá, úr þeim fylgistölum sem birtast í könnunum um þessar mundir, að nokkur flokkur ætti að vera spenntur fyrir því að fara í kosningar í bráð. Sitjandi ríkisstjórn myndi ekki ná meirihluta atkvæða á bak við sig, sú blokk stjórnarandstöðunnar sem hefur áhuga á að mynda kjölfestu í næstu ríkisstjórn nýtur ekki nægjanlegs fylgis til að láta þann draum rætast og enginn möguleiki virðist vera fyrir Miðflokkinn að mynda ríkisstjórn þar sem nær allir flokkar með mælanlegt fylgi, utan Sjálfstæðisflokks, hafa opinberlega eða í einkasamtölum útilokað samstarf við hann.
Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 31. mars 2019. Heildarúrtaksstærð var 6.705 og þátttökuhlutfall var 55,4 prósent. Vikmörk á fylgi við flokkanna í könnuninni eru 0,2-1,6 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.