Ríkisstjórnin metur framlag sitt til „lífskjarasamninga“ á 100 milljarða króna
Tíu þúsund króna aukning á ráðstöfunartekjum lægsta tekjuhóps, hækkun skerðingarmarka barnabóta, nýjar leiðir til stuðnings við fyrstu íbúðakaupendur með nýtingu lífeyrisgreiðslna og uppbygging í Keldnalandi eru á meðal þeirra aðgerða sem stjórnvöld leggja til svo að hægt verði að ná „lífskjarasamningum“.
Ríkisstjórnin verðleggur framlag sitt við hina svokölluðu „lífskjarasamninga“, sem stóð til að kynna í gærkvöldí en var frestað á síðustu stundu, á 100 milljarða króna á gildistíma kjarasamninga, sem stefnt er að því að gildi fram í nóvember 2022. Framlagið er til þess fallið að greiða fyrir gerð kjarasamninga en rammi að slíkum var undirritaður af fulltrúum stærstu verkalýðsfélaganna og Samtökum atvinnulífsins á miðnætti í gær og vonir stóðu til þess að hægt verði að ganga frá samningum milli aðila vinnumarkaðarins í gærkvöldi eða nótt. Það tókst ekki en stefnt er að því að skrifa undir kjarasamninganna í dag.
Aðgerðarpakkinn sem ríkisstjórnin hefur komið með á borðið inniheldur tugi aðgerða sem snerta marga og ólíka fleti samfélagsins. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kallaði pakkann „meiriháttar plagg“ sem muni þýða að Ísland komist á „annan stað í þróun samfélagsins í betri átt“ í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi.
Á meðal þeirra aðgerða sem pakkinn nær til, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, er þróun Keldnalands undir íbúðabyggð, hækkun ráðstöfunartekna lægsta tekjuhópsins um tíu þúsund krónur á mánuði, úrræði fyrir fyrstu kaupendur húsnæðis um að fá sérstök lán eða til að nýta hluta af lífeyrisiðgjaldagreiðslum sínum til að komast inn á húsnæðismarkað og framlenging á nýtingu séreignarsparnaðar til að greiða niður húsnæðislán til sumarsins 2021.
Nýjar leiðir til að hjálpa við kaup á húsnæði
Fjölmargar tillögur sem snúa að húsnæðismálum er að finna í pakkanum. Ein stærsta húsnæðisaðgerðin felst í því að ríkið og Reykjavíkurborg eiga að komast að samkomulagi um að hefja skipulagningu Keldnalands, risastórs landsvæðis innan borgarmarkanna sem er í eigu íslenska ríkisins.
Þá á að veita heimild til þess að skipta upp lögbundnu iðgjaldi, sem er 15,5 prósent, þannig að 3,5 prósent þess verði skilgreint sem „tilgreind séreign“. Þann hluta verður hægt að nota til húsnæðiskaupa.
Sú heimild sem er við lýði nú um að nota séreignarsparnað til að greiða inn á lán, en á að renna út í júlí næstkomandi, mun verða framlengd í tvö ár, eða fram á mitt ár 2021.
Í pakkanum er auk þess, samkvæmt heimildum Kjarnans, fjölmargar tillögur um að bæta stöðu leigjenda og sem eru ætlaðar til þess að auka svigrúm til að leigja út fasteignir.
Á meðal annarra tillagna eru aukin framlög inn í almenna íbúðakerfið, að kannað verði að veita sérstök hlutdeildarlán til fyrstu íbúðarkaupenda sem bæru lægri vexti og afborganir fyrstu árin og gerðu tekjulágum sem ættu ekki fyrir útborgun mögulegt að komast inn á eignarmarkað og að stuðningur stjórnvalda vegna fyrstu kaupa nái líka til þeirra sem hafa ekki átt húsnæði í fimm ár.
Breytingar á skattkerfi og barnabótum
Ríkisstjórnin kynnti skattabreytingartillögur í febrúar sem féllu í grýttan jarðveg hjá verkalýðsforystunni. Þær fól í sér nýtt skattþrep fyrir lægstu tekjurnar og að skattleysismörk og persónuafsláttur og tekjumörk skattþrepa verði látin fylgja þróun breytinga á vísitölu neysluverðs og þróun framleiðni. Þessar breytingar áttu að leiða til þess að jöfn krónutölulækkun á skattbyrði myndi eiga sér stað upp allan tekjustigann, en væntingar verkalýðshreyfingarinnar voru að meira yrði gert fyrir lægri tekjuhópa.
Þær breytingar sem gripið verður til varðandi tekjuskatt eru að uppistöðu í samræmi við áður fram settar tillögur ríkisstjórnarinnar en í stað þess að ráðstöfunartekjur tekjulægsta hóp landsmanna verði auknar um 6.750 krónur á mánuði verða þær auknar um tíu þúsund krónur á mánuði.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er einnig á borðinu vilyrði um að hækka skerðingarmörk barnabóta í 325 þúsund krónur á mánuði á næsta ári. Þá eru áður kynntar tillögur um að lengja fæðingarorlof úr níu í tíu mánuði á árinu 2020 og í tólf mánuði frá byrjun árs 2021 hluti af pakkanum sem lagður hefur verið fram.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði