90 þúsund króna launahækkun á tæpum fjórum árum en lítil hækkun í ár
Í kjarasamningum sem undirritaðir voru á ellefta tímanum, og eru til tæplega fjögurra ára, er uppsagnarákvæði sem virkjast ef Seðlabanki Íslands lækkar ekki stýrivexti. Launahækkanir sem koma til framkvæmda í ár verða mjög lágar. Það er framlag verkalýðshreyfingar vegna gjaldþrota og uppsagna í ferðaþjónustu.
Þeir sem starfa á töxtum munu fá 90 þúsund króna launahækkanir á næstu þremur árum og átta mánuðum. Þessar hækkanir munu koma í fjórum skrefum. Hækkunin á árinu 2019 verður lág vegna þeirra aðstæðna sem eru í íslensku hagkerfi sem stendur, en það hefur kólnað verulega á skömmum tíma vegna loðnubrests og gjaldþrots WOW air sem leitt hefur af sér fordæmalausar uppsagnir. Auk þess á hófsöm launahækkun í ár að skapa skilyrði fyrir Seðlabanka Íslands til að lækka stýrivexti.
Þetta er meðal þess sem samið var um í kjarasamningum milli samflotsfélaganna Eflingar, VR, Framsýnar, Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og verkalýðsfélaga Akraness og Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins sem undirritaður var í dag.
Þær krónutöluhækkanir sem náðust eru lægri en stefnt var að samkvæmt framlögðum kröfugerðum verkalýðsfélaganna, en þar var stefnt að því að ná fram 125 þúsund króna hækkunum á þremur árum. Allar launahækkanir sem samdist um eru hins vegar krónutöluhækkanir og við þær bætast sérstakar krónutöluhækkanir á taxta.
Til viðbótar hefðbundnum nafnlaunahækkunum koma til ýmis atriði sem munu auka ráðstöfunartekjur og eru þannig ígildi launahækkana. Í samningnum er til að mynda ákvæði sem á að tryggja að hagvaxtaraukning skili sér til launafólks í formi krónutöluhækkana. Miðað við meðalhagvöxt síðustu 30 ára gæti ábati af slíkum hækkunum skilað 10-24 þúsund krónum til viðbótar á mánuði í heildarhækkun launa á samningstímanum.
Mikla athygli vekur að ein af forsendum samningsins er að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti, en samningsaðilar voru sammála um að kjarasamningurinn skapi aðstæður til þess. Það muni leiða til þess að útgjöld skuldsettra heimila muni lækka. Það muni leiguverð líka gera í ljósi þess að fjármagnskostnaður verði minni. Í samningnum er sérstakt forsenduákvæði um uppsögn hans ef vaxtalækkanir verða ekki að veruleika.
Seðlabanki Íslands er ekki aðili að gerð kjarasamninga og nýtur fulls sjálfstæðis í störfum sínum samkvæmt lögum. Meginmarkmið hans er stöðugt verðlag og til að ná því markmiði skilgreinir Seðlabanki Íslands hlutverk sitt þannig að hann eigi að reyna að halda verðbólgu að jafnaði sem næst 2,5 prósent verðbólgumarkmiði. Ekkert er að finna um hlutverk hans við að liðka fyrir gerð kjarasamninga með vaxtalækkunum í lögum um starfsemi Seðlabankans.
Samið um styttri vinnuviku
Í kjarasamningunum er einnig samið um styttri vinnuviku með því að taka upp það sem er kallað „virkan vinnutíma“ sem verður að jafnaði 36 stundir á viku. Hana á að innleiða með því að gera vinnutíma fólks sveigjanlegri með því að bjóða því að kjósa sjálft um hvaða fyrirkomulag henti best á hverjum vinnustað.
Lykilatriði að því að ná kjarasamningunum saman var svo aðkoma stjórnvalda með aðgerðarpakka sem telur marga tugi aðgerða. Sumar þeirra hafa þegar verið lagðar fram, aðrar eru nýjar útfærslur á gömlum hugmyndum og sumar eru einfaldlega endurunnar hugmyndir annarra stjórnmálaflokka. En hluti aðgerðarpakkans, sem ríkisstjórnin verðlagði í gær á 100 milljarða króna, en er nú sagður 80 milljarða króna virði, er vissulega nýr.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, hefur stýrt viðræðum við stjórnvöld í kjarasamningum. Kjarninn greindi frá því í morgun að samkvæmt þeim tillögum sem til stóð að kynna á blaðamannafundi í gær klukkan 18:30, en hætt var við á síðustu stundu, felst meðal annars í aðgerðunum þróun Keldnalands undir íbúðabyggð, hækkun ráðstöfunartekna lægsta tekjuhópsins um tíu þúsund krónur á mánuði með skattalækkunum, úrræði fyrir fyrstu kaupendur húsnæðis um að fá sérstök lán eða til að nýta hluta af lífeyrisiðgjaldagreiðslum sínum til að komast inn á húsnæðismarkað og framlenging á nýtingu séreignarsparnaðar til að greiða niður húsnæðislán til sumarsins 2021.
Ósamræmi er á milli þeirra gagna sem Kjarninn hefur undir höndum um hvort að skattkerfisbreytingarnar muni skila níu eða tíu þúsund krónum til lægstu tekjuhópanna en í þeim pakka sem til stóð að kynna í gær var talan tíu þúsund krónur.
Skattkerfisbreytingar og hækkuð skerðingarmörk
Ríkisstjórnin kynnti skattabreytingartillögur í febrúar sem féllu í grýttan jarðveg hjá verkalýðsforystunni. Þær fól í sér nýtt skattþrep fyrir lægstu tekjurnar og að skattleysismörk og persónuafsláttur og tekjumörk skattþrepa verði látin fylgja þróun breytinga á vísitölu neysluverðs og þróun framleiðni. Þessar breytingar áttu að leiða til þess að jöfn krónutölulækkun á skattbyrði myndi eiga sér stað upp allan tekjustigann, en væntingar verkalýðshreyfingarinnar voru að meira yrði gert fyrir lægri tekjuhópa.
Þær breytingar sem gripið verður til varðandi tekjuskatt eru að uppistöðu í samræmi við áður fram settar tillögur ríkisstjórnarinnar en í stað þess að ráðstöfunartekjur tekjulægsta hóp landsmanna verði auknar um 6.750 krónur á mánuði verða þær auknar um tíu þúsund krónur á mánuði.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er einnig á borðinu vilyrði um að hækka skerðingarmörk barnabóta í 325 þúsund krónur á mánuði á næsta ári. Samkvæmt þeim tillögum munu barnabætur einstæðra foreldra til að mynda hækka um allt að 9.500 krónur á mánuði og fyrir foreldra í sambúð geta þær hækkað um allt að 14 þúsund krónur á mánuði. Þær tölur miða við að viðkomandi eigi tvö börn og að annað þeirra sé yngra en sjö ára.
Vert er að taka fram að Samfylkingin lagði fram tillögur um að hækka barnabætur á haustþingi sem voru felldar.
Þá eru áður kynntar tillögur um að lengja fæðingarorlof úr níu í tíu mánuði á árinu 2020 og í tólf mánuði frá byrjun árs 2021 hluti af pakkanum sem lagður hefur verið fram.
„Tilgreind séreign“ og fyrstu kaupendur
Fjölmargar tillögur sem snúa að húsnæðismálum er að finna í pakka ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Ein stærsta húsnæðisaðgerðin felst í því að ríkið og Reykjavíkurborg eiga að komast að samkomulagi um að hefja skipulagningu Keldnalands, risastórs landsvæðis innan borgarmarkanna sem er í eigu íslenska ríkisins. Vert er að taka fram að uppbygging í Keldnalandi var einnig hluti af áætlunum aðgerðarhóps síðustu ríkisstjórnar sem sat í nokkra mánuði á árinu 2017.
Þá á að veita heimild til þess að skipta upp lögbundnu iðgjaldi, sem er 15,5 prósent, þannig að 3,5 prósent þess verði skilgreint sem „tilgreind séreign“. Þann hluta verður hægt að nota til húsnæðiskaupa. Þessi leið er í samræmi við frumvarp sem þingmenn frá Viðreisn, Pírötum og Flokki fólksins lögðu fram fram í haust og Þorsteinn Víglundsson er fyrsti flutningsmaður af.
Sú heimild sem er við lýði nú um að nota séreignarsparnað til að greiða inn á lán, en á að renna út í júlí næstkomandi, mun verða framlengd í tvö ár, eða fram á mitt ár 2021.
Takmörkun á veitingu verðtryggðra lána
Þá fór hluti forystumanna verkalýðsfélaganna fram á að takmarkanir á vægi verðtryggingar lána yrðu hluti af framlagi stjórnvalda inn í kjaraviðræður. Á meðal þess sem stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að gera í þeim málaflokki er að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán frá byrjun næsta árs.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áform í þessa veru hafa verið kynnt. Sambærilegt bann var í frumvarpi sem lagt var fram í ágúst 2016 af þáverandi ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Ýmsar undanþágur áttu þá að vera frá banninu, sem gerðu það að verkum að 75 prósent landsmanna gætu í raun tekið lánin áfram. Sömuleiðis verður lágmarkslánstími verðtryggðra lána lengdur úr fimm árum í tíu ár.
Þeir sem taka 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán eru þeir hópar sem ráða við lægstu afborganir af húsnæðislánum, þ.e. lægstu tekjuhóparnir.
Þá á að grundvalla verðtryggingu við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar frá og með árinu 2020. Húsnæðisverð hefur hækkað skarpt á undanförnum árum en þrátt fyrir það hefur verðbólga verið um eða undir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands. Í síðasta mánuði lækkaði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu og því virkaði húsnæðisliðurinn til lækkunar á vísitölu neysluverðs.
Í pakkanum er einnig vilyrði um að klára skoðun á því hvort að banna eigi alfarið verðtryggð húsnæðislán fyrir lok árs 2020.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði