Krónutöluhækkanir og gildir til 2022
Kjarasamningarnir ná til 110 þúsund manns á íslenskum vinnumarkaði en um er að ræða verslunar-, skrifstofu- og verkafólk. Þeir gilda frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022. Launahækkanir sem í honum felast eru taldar í krónum. Almenn laun eiga að hækka um 17 þúsund krónur frá 1. apríl síðastliðnum. Þau hækka síðan aftur um 18 þúsund krónur 1. apríl 2020, um 15.750 krónur 1. janúar 2021 og 17.250 krónur 1. janúar 2022. Þá var samið um eingreiðslu til allra almennra launamanna upp á 26 þúsund krónur sem er til útgreiðslu um næstu mánaðamót.
Með því að hafa launahækkanir í krónutölum en ekki hlutfallstölum er tryggt að þeir sem hafi hæstu launin hækki ekki um fleiri krónur en þeir sem eru með þau lægstu.
Lægstu laun hækka mest
Sérstaklega var samið um auknar hækkanir fyrir þá sem vinna á taxtalaunum. Alls munu laun þeirra sem eru með kauptaxta hækka um 90 þúsund krónur á samningstímanum. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf verða 368 þúsund krónur 1. janúar 2022. Auk þess hækkar desemberuppbót úr 89 þúsund krónum í 98 þúsund krónur á samningstímanum og orlofsuppbót úr 48 þúsund krónum í 53 þúsund krónur.
Launaauki sem getur hækkað laun enn meira
Á árunum 2020 til 2023 getur komið til framkvæmda launaauki ef hagvöxtur verður hérlendis. Þetta er gert til að tryggja launafólki hlutdeild í verðmætasköpun samfélagsins.
Óvenjulegar forsendur
Þrjár meginforsendur eru fyrir gerð kjarasamninganna. Í fyrsta lagi þarf kaupmáttur launa að aukast á samningstímabilinu. Sá vöxtur verður metin út frá launavísitölu Hagstofu Íslands. Í öðru lagi er sú óvenjulega forsenda sett til grundvallar gerð kjarasamninga að vextir lækki „verulega“ og haldist lágir út samningstímann. Það þýðir að Seðlabanki Íslands þarf að lækka stýrivexti til að forsendur kjarasamninga haldi, en hann er samkvæmt lögum sjálfstæð stofnun og hefur það meginhlutverk að viðhalda verðstöðugleika.
Í þriðja lagi verða stjórnvöld að standa við að framkvæma þann pakka sem þau komu með að borðinu til að liðka fyrir gerð kjarasamninga.
Forsendurnar verða metnar tvisvar á samningstímanum, í september á næsta ári og í september 2021. Þrír fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni og þrír fulltrúar atvinnurekenda skipa svokallaða forsendunefnd. Ef vextir hafa ekki lækkað nægilega mikið að mati þeirrar nefndar þegar fyrsta endurskoðun fer fram haustið 2020 þá er hægt að segja upp kjarasamningum.
Stytting vinnuviku
Í kjarasamningunum er einnig samið um styttri vinnuviku með því að taka upp það sem er kallað „virkan vinnutíma“ sem verður að jafnaði 36 stundir á viku. Hana á að innleiða með því að gera vinnutíma fólks sveigjanlegri með því að bjóða því að kjósa sjálft um hvaða fyrirkomulag henti best á hverjum vinnustað.
Aðkoma stjórnvalda
Stjórnvöld lofa því að ráðast í alls 42 aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum, eða því sem þau kalla „lífskjarasamningum“. Ríkið metur heildarumfang aðgerðanna á 80 milljarða króna, en í gögnum sem átti að kynna á þriðjudag var umfangið reyndar metið á 100 milljarða króna.
Sumar aðgerðirnar eru þegar fram komnar, eins og lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði, aðrar hafa verið lagðar fram áður, eins og uppbygging í Keldnalandi, heimildir til að ráðstafa 3,5 prósent lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðiskaupa og áframhaldandi nýting séreignarsparnaðar til að greiða skattfrjálst niður íbúðalán, en það úrræði verður framlengt fram á mitt ár 2021.
Það er einnig margt nýtt í pakka stjórnvalda. Það á að gera breytingar á tekjuskattskerfinu með því að bæta við þriðja skattþrepinu sem tryggja m.a. lægstu launahópunum tíu þúsund króna skattalækkun á mánuði. Þá verða barnabætur hækkaðar og skerðingarmörk þeirra fara úr 242 þúsund krónum í 325 þúsund krónur á mánuði. Ráðast á í fjölmargar aðgerðir í húsnæðismálum, halda aftur af öllum gjaldskrárhækkunum og ráðast í markvissar aðgerðir til að draga úr félagslegum undirboðum.
Vægi verðtryggingar minnkað
Á meðal þess sem stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að gera er að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán frá byrjun næsta árs. Þá á að grundvalla verðtryggingu við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar frá og með árinu 2020.
Í pakkanum er einnig vilyrði um að klára skoðun á því hvort að banna eigi alfarið verðtryggð húsnæðislán fyrir lok árs 2020.
Ljóst er að finna þarf annan valkost fyrir tekjulægstu og viðkvæmustu hópa samfélagsins á lánamarkaði ef 40 ára jafngreiðslulánin verða bönnuð. Í pakka stjórnvalda stendur að unnið verði með aðilum vinnumarkaðarins að því að finna skynsamlegar leiðir og útfærslur á þeim til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu fasteignakaup. Ein mögulegra leiða er að veitt verði sérstök lán, til dæmis frá Íbúðalánasjóði, með þeim skilmálum að höfuðstóllinn geti svarað til tiltekins hlutfalls af markaðsvirði eignarinnar. „Slík „hlutdeildarlán“ bæru lægri vexti og afborganir fyrstu árin og gerðu tekjulágum kleift að komast yfir útborgunarþröskuldinn þar sem krafa um eigið fé væri lægri. Hlutdeildareigandi fengi endurgreitt þegar eigandi seldi viðkomandi íbúð eða greiddi lánið upp á matsvirði.“