Á borgarráðsfundi í gær var lögð fram umsögn borgarlögmanns um þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi um um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Flutningsmenn þeirrar tillögu á Alþingi koma úr fimm stjórnmálaflokkum og fyrstu flutningsmaður hennar er Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Auk hans eru sex aðrir þingmenn flokksins á meðal flutningsmanna hennar.
Umsögn staðgengils borgarlögmanns í málinu var á þann veg að Reykjavíkurborg leggist eindregið gegn því að tillagan verði samþykkt, meðal annars vegna þess að hún skerðir stjórnskrárvarðan sjálfstjórnarrétt borgarinnar, að slík lagasetning gengi gegn skipulagsáætlun sveitarfélagsins og væri í andstöðu við óskráða meginreglu stjórnskipunar um meðalhóf.
Ólíkar bókanir
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram sameiginlega bókun vegna málsins. Í henni segir að viðræður um framtíð Reykjavíkurflugvallar séu í góðum farvegi milli ríkisins og Reykjavíkurborgar þar sem verið sé að kanna aðra kosti undir staðsetningu innanlandsflugs. „Það vekur því furðu að slík þingsályktunartillaga liggi fyrir þinginu á meðan verið er að vinna í málinu. Undirskriftir íbúa um allt land urðu til þess að niðurlagningu flugvallarins var frestað. Niðurstaða Rögnunefndarinnar var afdráttarlaust að besta staðsetningin væri í Hvassahrauni. Um langa hríð hefur það verið stefna Reykjavíkurborgar að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýri og er það jafnframt stefna þeirra flokka sem mynduðu meirihluta eftir kosningar sl. vor. Stór flugvöllur í miðborg er tímaskekkja en betur færi á að hafa hann á eða við höfuðborgarsvæðið. Þá gengur þessi tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu í berhögg við ákvæði stjórnarskrárinnar um að sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum. Löggjafinn getur með engu móti einhliða samþykkt verulega skerðingu á stjórnarskrárvörðum rétti Reykjavíkurborgar.“
Þrír áheyrnarfulltrúar eru í borgarráði, frá Sósíalistaflokki Íslands, Miðflokknum og Flokki fólksins. Vigdís Hauksdóttir, áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, lagði fram eigin bókun í málinu þar sem sagði meðal annars að það væri misskilningur að áframhaldandi vera flugvallarins í Vatnsmýrinni væri skipulagsmál í Reykjavík. „Markmið tillögunnar er að landsmenn allir fái tækifæri til þess að segja hug sinn um málið og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna. [...]Það skal áréttað hér að það er skoðun borgarfulltrúa Miðflokksins að skipulagsvald þeirra sveitarfélaga sem hafa alþjóðaflugvelli verði fært til ríkisins.“
Fulltrúi flokks fólksins andvígur þingsályktunartillögu formanns
Marta Guðjónsdóttir lagði ein borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks fram sérstaka bókun þar sem hún minnti á að 70 þúsund manns hefðu skrifað undir í undirskriftasöfnun á vegum félagsins Hjartað í Vatnsmýrinni 2013, sem vildi að flugvöllurinn yrði áfram þar sem hann er. „Meirihluti borgarstjórnar virti þau sjónarmið sem þar komu fram að vettugi og sópuðu undirskriftasöfnuninni undir teppi og hefur haldið áfram að fara gegn vilja meirihluta borgarbúa og landsmanna í þessu máli. Nú setur meirihlutinn sig upp á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og leggur til að þjóðin fái ekki að segja álit sitt á málinu á lýðræðislegan hátt. Þessi framganga er til marks um það að allt tal meirihlutans um íbúalýðræði og lýðræðisleg vinnubrögð er markleysa. Það getur ekki talist réttlætanlegt að einungis 23 borgarfulltrúar taki endanlega ákvörðun í þessu mikilvæga máli sem snertir ekki bara borgina heldur alla landsbyggðina.“
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er einn flutningsmanna tillögunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um veru flugvallarins í Vatnsmýrinni.
Sjúkrahús við Hringbraut notað sem rök
Þingsályktunartillagan sem lögð var fram í fyrra gerir ráð fyrir því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Sambærilegar tillögur voru fluttar haustið 2016 og vorið 2017 en fengu ekki brautargengi á þingi.
Í greinargerð segir að markmið tillögunnar sé að „ þjóðin fái tækifæri til þess að segja hug sinn um málið og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna. Ljóst er að ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innan lands og að staðsetning flugvallarins, sem er miðstöð innanlandsflugs, hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs svo og sem varaflugvöllur. Þá gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu hlutverki í almannavarnakerfi landsins.“
Á að víkja í áföngum eftir 2022
Ekki hefur verið einhugur um hvort að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík eða verði færð annað. Ráðandi öfl í Reykjavíkurborg hafa lengi viljað að flugvöllurinn verði færður svo hægt sé að byggja í Vatnsmýrinni og þétta þar með höfuðborgina. Um sé að ræða verðmætasta byggingarlandið innan marka hennar sem sé auk þess afar mikilvægt fyrir þróun hennar.
Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir að flugvöllurinn verði þar sem hann er til 2022 en aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að hann víki í áföngum eftir það ár. Sumarið 2016 komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þyrfti að standa við samkomulag sitt við Reykjavíkurborg um loka norðaustur/suðvestur-flugbrautinni, sem stundum hefur verið kölluð neyðarbrautin, á Reykjavíkurflugvelli.
Fyrsta þingsályktunartillagan um þjóðaratkvæðagreiðsluna var lögð fram í kjölfarið.