miðflokkur svart hvítt.jpg

Hentistefnuflokkur íslenskra stjórnmála

Miðflokkurinn er að marka sérstöðu í íslenskum stjórnmálum með getu sinni til að taka flókin mál, smætta þau niður í einfaldar lausnir og stilla sér upp sem varðmanni fullveldis og almennings í þeim. Leiðtogi flokksins hefur náð góðum tökum á skynhyggjustjórnmálum og virðist geta staðið af sér ótrúlegustu hneykslismál. Það síðasta, Klausturmálið, hefur flýtt för flokksins á jaðar stjórnmálanna. Þar virðist hann kunna vel við sig.

„Fyrir Sig­mund Davíð skiptir mjög miklu máli að koma þremur helstu mál­efnum flokks hans á fram­færi. Sem eru Sig­mund­ur, Davíð og Gunn­laugs­son.“ Þetta sagði Andrés Magn­ús­son, blaða­maður á Við­skipta­blað­inu sem hefur starfað fyrir Sjálf­stæð­is­flokk­inn í síð­ustu kosn­inga­bar­áttum hans, í sjón­varps­þætti á Hring­braut í byrjun októ­ber 2017.

Til­efnið var að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra og for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, hafði ákveðið að segja sig úr Fram­sókn í 3.500 orða bréfi til flokks­manna og stofna nýjan flokk í kringum sjálfan sig. Sá flokkur fékk á end­anum nafnið Mið­flokk­ur­inn og náði að bjóða fram í öllum kjör­dæmum í hinum skyndi­legu alþing­is­kosn­ingum sem boð­aðar um mið­bik sept­em­ber mán­að­ar, og fóru fram 28. októ­ber 2017.

Stefna hins nýja flokks var loð­in. Í fyrstu við­töl­unum sem for­mað­ur­inn fór í eftir stofnun hans var mest talað um að vilja fram­hald af því „hvernig við unnum hlut­ina á árunum 2009-2016,“ en það er sá tími sem Sig­mundur Davíð gegndi for­mennsku í Fram­sókn­ar­flokkn­um. Helsta stefnu­málið var því að spóla til baka til þess tíma sem var áður en að Sig­mundur Davíð þurfti að segja af sér vegna Wintris og Panama­skjal­ana.

Hóp­ur­inn sem stóð að flokknum sam­an­stóð að mestu af helstu banda­mönnum Sig­mundar Dav­íðs úr Fram­sókn­ar­flokknum og öðrum fylg­is­mönnum hans sem fylgt höfðu honum að málum árum sam­an. Á meðal þeirra sem skiptu um lið voru Gunnar Bragi Sveins­son og Vig­dís Hauks­dóttir auk þess sem Berg­þór Óla­son, sem gegnt hafði trún­að­ar­störfum fyrir Sjálf­stæð­is­flokk­inn, kom um borð.

Þá greindi Björn Ingi Hrafns­son, sem hafði til­kynnt um fram­boð undir hatti Sam­vinnu­flokks­ins, að hann ætl­aði að ganga til liðs við Sig­mund Davíð með sína liðs­menn. Björn Ingi, sem var þá nýlega hættur sem helsti stjórn­andi Pressu­sam­stæð­unn­ar, sagði þá í stöðu­upp­færslu á Face­book að hann fagn­aði því „mjög að við Íslend­ing­ar fáum aft­ur tæki­­færi til að kynn­­ast fram­tíð­ar­­­sýn hans sem stjórn­­­mála­­for­ingja, enda geta flest­ir verið sam­­mála um þann mikla ár­ang­ur sem náð­ist fyr­ir land og þjóð und­ir hans for­ystu á sín­um tíma.“

Vertu með á miðj­unn­i! ­Fyrir fáeinum dögum lýsti ég því að úrlausn­ar­efni sam­fé­lags­ins og ástandið í íslensk­um...

Posted by Björn Ingi Hrafns­son on Thurs­day, Sept­em­ber 28, 2017


Lyk­il­fólk í Mið­flokknum hóf sam­stund­is, bæði opin­ber­lega og í einka­sam­töl­um, að sverja Björn Inga af flokknum og á end­anum fékk hann ekk­ert form­legt hlut­verk í kosn­inga­bar­áttu hans. Þess í stað snéri hann aftur í fjöl­miðla og stofn­aði vef­mið­il­inn Vilj­ann síðla árs 2018.

Unnu stór­sigur

Tæpum tveimur vikum fyrir kosn­ingar 2017 var kosn­inga­stefna Mið­flokks­ins kynnt. Helsta stefnu­málið snérist um að íslenska ríkið ætti að kaupa Arion banka að fullu, en það átti þá 13 pró­sent í bank­an­um. Svo vildi Mið­flokk­ur­inn að þriðj­ungur yrði seldur í opnu útboði, að ríkið myndi halda eftir um þriðj­ungi og að þriðj­ungur yrði gefin lands­mönn­um. Hug­myndin þótti illa ígrunduð af flestum sér­fræð­ing­um, enda átti að nota skattfé almenn­ings til að kaupa hlut í banka sem átti síðan að gefa almenn­ingi aftur að hluta. Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, kall­aði hug­mynd­ina til að mynda „inni­halds­laust blað­ur“.

Þrátt fyrir að vera ekki með nán­ast neina stefnu, að vera nýstofn­aður og keyra kosn­inga­bar­áttu sína að meg­in­stefnu á lof­orði sem gagn­rýndur gátu auð­veld­lega tætt í sig með skyn­sam­legum rök­um, þá vann Mið­flokk­ur­inn stór­sigur í Alþing­is­kosn­ing­unum haustið 2017.

Alls fékk Mið­flokk­ur­inn 10,9 pró­sent atkvæða í síð­ustu Alþing­is­kosn­ing­um, sem er mesta fylgi sem nýr stjórn­mála­flokkur hefur nokkru sinni fengið í fyrstu þing­kosn­ing­unum sem hann hefur boðið fram í. Flokk­ur­inn fékk alls 21.335 atkvæði, og það sem meira var, 316 atkvæðum fleiri en Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn. Sig­ur, og end­ur­koma Sig­mundar Dav­íðs, var algjör. Per­sónu­fylgi hans náði eitt og sér að nið­ur­lægja gamla flokk­inn hans og ýta þeim nýja inn á þing sem fjórða stærsta flokki lands­ins.

Engar líkur voru hins vegar á því að Mið­flokk­ur­inn næði inn í rík­is­stjórn. Frjál­syndu miðju­flokk­arnir Sam­fylk­ing, Við­reisn og Pírat­ar, voru aldrei að fara að starfa með þeim. Það voru Vinstri græn ekki heldur að fara að gera og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn virk­aði heldur ekki sér­stak­lega spenntur fyrir því að end­ur­vekja kynnin við Sig­mund Davíð á þessum tíma.

Flokk­ur­inn sett­ist því í stjórn­ar­and­stöðu sem næst stærsti stjórn­ar­and­stöðu­flokk­ur­inn og hóf að móta innra starf sitt.

Varð­menn full­veldis

Á fyrsta lands­þingi flokks­ins sem haldið var fyrir tæpu ári síðan glitti meira í hvar flokk­ur­inn ætl­aði að stand­setja sig. Allt mynd­mál og orð­ræða sýndi að þjóð­ern­is­legar áherslur yrðu ofar­lega á baugi, að alþjóða­sam­starf yrði tor­tryggt, og að mörg af gömlum málum Sig­mundar Dav­íðs frá tíma hans í Fram­sókn­ar­flokknum sem gáfu vel yrðu end­ur­nýtt. Helsta bar­áttu­málið yrði að verja full­veldi Íslands og lýð­veldið með því að færa völdin frá emb­ætt­is­mönnum til sterkra leið­toga sem hefðu hið raun­veru­lega lýð­ræð­is­lega umboð.

Á fyrsta landsfundi Miðflokksins var myndmálið allt afar þjóðlegt og skilaboðin skýr. Tilurð Miðflokksins átti að marka upphaf nýrra tíma.
Mynd: Miðflokkurinn

Á meðal þess sem kom fram í lands­fund­ar­á­lyktun flokks­ins var að RÚV, sem Sig­mundur Davíð hefur gagn­rýnt harð­lega fyrir umfjöllun um sig, ætti að fara af fjár­lög­um, að lög­reglu­mönnum í land­inu yrði fjölg­að, að þak yrði sett á vexti af nýjum verð­tryggðum lán­um, að fjár­mála­kerfið yrði end­ur­skipu­lagt og að Lands­bank­inn yrði lát­inn leiða þá vinnu.

En stærsta málið sem sam­þykkt var þar, og mun marka stefnu flokks­ins mest í kom­andi fram­tíð, var að í álykt­un­inni var sam­þykkt að fram ætti að fara „óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátt­­­töku í EES sam­­­starf­inu og sækj­­­ast eftir breyt­ingum á samn­ingnum eða segja sig frá hon­­­um.“

Næsta mál á dag­skrá voru sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingar í lok maí 2018. Þar vann Mið­flokk­ur­inn enn einn sig­ur­inn á lands­vísu þar sem flokk­ur­inn náði að skjóta rótum mjög víða. Í höf­uð­borg­inni tókst honum að koma hinni afar umdeildu Vig­dís Hauks­dóttur í borg­ar­stjórn.

End­ur­koma Sig­mundar Dav­íðs gekk vel. Hann hélt áfram að finna nýja bún­inga fyrir sitt helsta póli­tíska vopn, að stilla sér upp með Íslend­ingum í óskil­greindri bar­áttu þeirra við strá­menn, helst vonda útlend­inga. Sú leikja­fræði og orð­ræða hafði gef­ist mjög vel í Ices­a­ve-­mál­inu þar sem and­stæð­ing­ur­inn var Evr­ópu­sam­bandið og þáver­andi rík­is­stjórn, við upp­gjör á þrota­búum föllnu bank­anna þar sem and­stæð­ing­arnir voru „hrægamma­sjóð­ir“ og þegar Sig­mundur Davíð fékk í gegn Leið­rétt­ing­una, sem í fólst til­færsla á 72 millj­örðum króna úr rík­is­sjóði að mestu til eign­ar­mestu og tekju­hæstu hópa sam­fé­lags­ins, þegar and­stæð­ing­ur­inn varð meðal ann­ars Seðla­banki Íslands fyrir að hafa greint áhrif aðgerð­ar­innar rétti­lega í ritum sínum áður en hún var fram­kvæmd.

Virðist geta staðið flest allt af sér

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er án efa umdeildasti stjórnmálamaður samtímans. Hann kom mjög ungur inn í stjórnmál þegar hann var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á skrautlegan hátt í byrjun árs 2009. Hann hafði skráð sig í flokkinn tveimur vikum áður en flokksþingið fór fram. Upphaflega var greint frá því að Höskuldur Þórhallsson hefði verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins þar en síðar reyndist talning hafa verið röng og var tilkynnt um að Sigmundur Davíð væri réttkjörinn formaður. Hann vantaði þá enn tvo mánuði í að vera 34 ára gamall.

Fjórum árum síðar var hann orðinn yngsti forsætisráðherra lýðveldissögunnar eftir mikinn kosningasigur Framsóknarflokksins í apríl 2013.

Sigmundur Davíð sagði af sér því embætti 5. apríl 2016 eftir að Panamaskjölin höfðu opinberað hann sem eiganda aflandsfélagsins Wintris og kröfuhafa í bú föllnu bankanna sem ríkisstjórn hans hafði verið að semja við. Viðtal þar sem Sigmundur Davíð sagði ósatt þegar hann var spurður út í Wintris fór sem eldur um sinu út um allan heim. Daginn áður en hann sagði af sér fóru fram fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar á Austurvelli þegar 26 þúsund manns mótmæltu Sigmundi Davíð, öðrum ráðherrum sem voru í Panamaskjölunum og ríkisstjórninni sem þeir sátu í.

Í könnun Félags­vís­inda­stofn­unar sem gerð var á þeim tíma sem leið frá því að sér­stakur Kast­ljós­þáttur um skjölin var sýndur og þar til Sig­mundur Davíð steig til hliðar kom fram að 78 pró­sent lands­manna vildi að hann myndi segja af sér.

Þetta var ekki staða sem margir stjórnmálamenn hefðu snúið aftur úr.

Eftir nokkurra mánaða frí vildi Sigmundur Davíð, þá enn formaður Framsóknarflokksins, taka aftur við stjórnartaumunum. Hann var sannfærður um að vera fórnarlamb samsæris og að hann hefði ekki gert neitt rangt. Síðar opinberaði Kjarninn að Wintris hefði ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur og óskað eftir því að fá að gera þá rétt upp við skattayfirvöld.

Sigmundur Davíð tapaði svo í formannsslag við Sigurð Inga Jóhannsson í Framsóknarflokknum í aðdraganda kosninganna 2016 og sat í nokkurs konar sjálfskipaðri útlægð sem þingmaður flokksins næsta tæpa árið. Á þeim tíma tók hann lítinn þátt í þingstörfum en einbeitti sér að því að stofna Framfarafélagið, vettvang utan um hugmyndir hans sem stjórnmálamanns sem átti að nýtast til að fleyta honum aftur til valda innan Framsóknarflokksins.

Þegar kosningar skullu skyndilega á haustið 2017 breyttust þau áform. Sigmundur Davíð og nokkrir tryggir fylgismenn gengu úr Framsóknarflokknum, stofnuðu Miðflokkinn og buðu fram út um allt land. Einu og hálfu ári eftir Panamaskjölin vann hann kosningasigur.

Þegar Klausturmálið kom upp voru áhrifin ekki ósvipuð og eftir Panamaskjalahneykslið. Í könnun sem birt var 3. desember 2018 kom fram að á milli 74 og 91 pró­sent Íslend­inga eru hlynnt afsögn alþing­is­mann­anna sex. Flestum fannst að Gunnar Bragi ætti að segja af sér en næstum jafn háu hlut­falli fannst að Berg­þór ætti einnig að gera það. Þá töldu 86 prósent landsmanna að Sigmundur Davíð ætti að víkja. Þessa stöðu virðast Miðflokksmenn nú hafa staðið af sér.

Á meðal ann­arra sem Sig­mundur Davíð hefur talið til óvina sinna eru þeir sem hann kall­aði póli­tíska kross­fara innan háskóla­sam­fé­lags­ins og flest allir fjöl­miðlar lands­ins. Hann hefur talið að þessir aðilar ynnu leynt og ljóst gegn hon­um, rík­is­stjórn hans á meðan að hún sat og þar af leið­andi almenn­ingi sem hafði kosið hann til valda.  

Fleyga­mál sem hent­aði full­kom­lega

Þegar Alþingi hófst í haust virt­ist Mið­flokk­ur­inn vera að finna veru­lega takt­inn sinn. Hann var enn með annan fót­inn inn í meg­in­straumnum en hinn kyrfi­lega í jað­ar­fylgi þeirra sem eru með veru­lega fyr­ir­vara gagn­vart alþjóða­væð­ingu og þeim breyt­ingum sem hún hefur haft í för með sér. Þ.e. þeim hópum sem eru ósátt­astir með stöðu sína í sam­fé­lag­inu, leita að söku­dólgum fyrir þeirri stöðu og eru því mót­tæki­legri fyrir lýð­skrumi.

Nýtt mál sem smellpass­aði fyrir fleygapóli­tík Sig­mundar Dav­íðs var komið fram, inn­leið­ing þriðja orku­pakka Evr­ópu­sam­bands­ins inn í íslensk lög. Málið er nægi­lega flókið til þess að fæstir kynna sér meg­in­at­riði þess og því er hægt að stýra umræðu um það með upp­hróp­unum og hræðslu­á­róðri. Hart hafði verið tek­ist á um málið í Nor­egi, sem er tengt við orku­markað Evr­ópu­sam­bands­ins í gegnum sæstrengi, áður en að inn­leið­ing pakk­ans var sam­þykkt þar af and­stæð­ingum EES-­samn­ings­ins.

Eftir að sú nið­ur­staða lá fyrir fór sá hópur að ein­beita sér að Íslandi. Allt í einu varð þriðji orku­pakk­inn hita­mál á Íslandi, sem teng­ist ekki evr­ópskum orku­mark­aði í gegnum strengi. Guð­laugur Þór Þórð­ar­son utan­rík­is­ráð­herra sagði í við­tali við 21 á Hring­braut í jan­úar að gagn­rýnin á þriðja orku­pakk­ann væri eitt­hvað sem við værum að fá frá Nor­egi um að fram ætti að fara „óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátt­­­töku í EES sam­­­starf­inu og sækj­­­ast eftir breyt­ingum á samn­ingnum eða segja sig frá hon­­­um.“

Málið hent­aði íslenska Mið­flokknum líka vel vegna þess að það var vand­ræða­mál innan Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks, þeirra tveggja flokka sem Mið­flokk­ur­inn tekur mest fylgi frá. Því fóstr­aði flokk­ur­inn snemma and­stöðu við þriðja orku­pakk­ann og naut þar stuðn­ings rit­stjóra Morg­un­blaðs­ins, Dav­íðs Odds­son­ar, sem hefur í rit­stjórn­ar­greinum und­an­far­inna ára hallað sér mun meira að Sig­mundi Davíð en sínum gamla flokki, Sjálf­stæð­is­flokkn­um.

Klaust­ur­málið reyndi á til­veru­rétt­inn

Svo kom Klaust­ur­mál­ið. Það er rakið hér í auka­efni hér að neðan en snérist um drukkna orð­ræðu sex þing­manna úr Mið­flokki og Flokki fólks­ins á Klaust­ur­bar þann 20. nóv­em­ber 2018, sem var tekin upp og send til fjöl­miðla. Þar átti sér einnig stað aug­ljós til­raun til að fá þing­menn­ina Karl Gauta Hjalta­son og Ólaf Ísleifs­son til að yfir­gefa Flokk fólks­ins og ganga til liðs við Mið­flokk­inn.

Málið olli Mið­flokknum sam­stundis miklum skaða. Í fyrstu könnun sem gerð var á fylgi flokka eftir að það kom upp, sem var birt í Frétta­blað­inu að morgni 5. des­em­ber, kom fram að Mið­flokk­ur­inn myndi ein­ungis fá 4,3 pró­sent fylgi ef kosið yrði þá og þar með falla með öllu út af þingi.

Sex þingmenn á Klausturbar

Þriðjudaginn 20. nóvember 2018 fóru sex þingmenn – fjórir úr Miðflokki og tveir úr Flokki fólksins – á barinn Klaustur, í námunda við Alþingishúsið. Þar settust þeir niður, drukku áfengi og töluðu með niðrandi og meiðandi hætti um samstarfsfólk sitt í stjórnmálum.

Þeir stærðu sig einnig að pólitískum hrossakaupum með sendiherrastöður, þingmenn Miðflokksins reyndu að telja þingmenn Flokks fólksins um að ganga til liðs við sig auk þess sem niðurlægjandi orð eru látin falla um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann og þekktan baráttumann fyrir auknum réttindum fatlaðra sem glímir við sjaldgæfan beinsjúkdóm, og þekktan samkynhneigðan tónlistarmann. Það sem þingmennirnir sex, þeir Sig­­mundur Dav­íð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins , Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður hans, Anna Kol­brún Árna­dótt­ir, ritari flokksins, Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og Karl Gauti Hjalta­­son og Ólafur Ísleifs­­son úr Flokki fólksins, vissu ekki var að í nálægð við þá sat einstaklingur sem upphaflega kallaði sig bara „Marvin“.Sá tók upp það sem fram fór. Og sendi á valda fjölmiðla.

Marvin hét í raun Bára Halldórsdóttir, 42 ára fötluð og hinsegin kona sem kom inn á barinn á eftir þingmönnunum. Hún sagði síðar í viðtali að sér hefði einfaldlega blöskrað orðfæri fólksins og ákveðið að taka það upp.

Einn þeirra stjórnmálamanna sem mikið var rætt um á Klaustursupptökunni, á kynferðislegan og niðrandi hátt, var Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra. Á upptökunum heyrðist Gunnar Bragi Sveinsson meðal annars segja: „Hjólum í helvítis tíkina“ þegar rætt var um Lilju.

Lilja fór í viðtal í Kastljósi 5. desember síðastliðinn sem mæltist afar vel fyrir þvert á pólitískar línur. Þar var hún mjög afgerandi í afstöðu sinni gagnvart framferði Klausturfólksins., sagði tal þeirra vera „algjört ofbeldi“ og að hún væri „ofboðslega“ ósátt við það. Lilja sagði enn fremur að „ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi“.

Miðflokksmenn telja málið samsæri, að Bára hafi brugðið sér í dulargervi, hafi átt sér samverkamann og að upptökurnar hafi verið undirbúnar en ekki tilviljun.

Þegar þarna var komið við sögu voru Gunnar Bragi Sveins­son og Berg­þór Óla­son farnir í leyfi frá þing­störfum og búið var að reka Karl Gauta Hjalta­son og Ólaf Ísleifs­son úr Flokki fólks­ins.

Upp­haf­lega reyndu Mið­flokks­menn að setja fók­us­inn á að um ólög­legar upp­tökur væri að ræða og að eitt­hvað hefði verið átt við þær. Sá mál­flutn­ingur hlaut engan hljóm­grunn. Gunnar Bragi og Berg­þór fóru fljót­lega í leyfi frá þing­störfum og áherslur Sig­mundar Dav­íðs og ann­arra Mið­flokks­manna sner­ust um að þrauka fram í jóla­frí og fá þá skjól frá óvæg­inni umræðu í þeirra garð.

Það tókst.

Þróun Mið­flokks­ins flýtt

Í lok jan­úar snéru Gunnar Bragi og Berg­þór óvænt aftur til starfa. Ljóst var að Mið­flokks­menn ætl­uðu ekki að skamm­ast sín meira fyrir Klaust­ur­málið heldur að spyrna fast við fótum og útmála sig sem fórn­ar­lömb þess, ekki ger­end­ur. Skömmu síðar gengu Karl Gauti og Ólafur til liðs við Mið­flokk­inn og gerðu hann þar með af stærsta stjórn­ar­and­stöðu­flokknum í land­inu með níu þing­menn. Klaust­urs­veg­ferðin skil­aði á end­anum til­ætl­uðum árangri.

Ljóst var að flokk­ur­inn hafði misst mögu­leik­ann á því, að minnsta kosti tíma­bund­ið, að ná í atkvæði í meg­in­straumnum og því hafði Mið­flokk­ur­inn tekið mjög skýr skref í átt að jaðr­inum og því að vera meira í ætt við sam­bæri­lega flokka í nágranna­lönd­unum okk­ar. Stymir Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins, sagði í blogg­færslu um síð­ustu helgi að staða Mið­flokks­ins minnti á Danska þjóð­ar­flokk­inn, sem skap­aði sér stöðu til hægri við danska íhalds­flokknum á sínum tíma með góðum árangri. Árangur Danska þjóð­ar­flokks­ins var ekki síst vegna harðrar afstöðu hans í mál­efnum inn­flytj­enda, góðum árangri hans við að tefla stöðu við­kvæmra hópa í sam­fé­lag­inu sem and­stæð­um, full­veld­is­t­ali og tor­tryggni gagn­vart alþjóða­væð­ingu.

Það hefur sýnt sig á síð­ustu vikum að Mið­flokk­ur­inn er að fara hraðar í þessa átt en áður, og spilar staðan sem skap­að­ist við Klaust­ur­málið þar ugg­laust lyk­il­hlut­verk. For­svars­menn Mið­flokks­ins hafa engu að tapa.

Flokk­ur­inn stóð til að mynda fyrir mál­þófi til að hindra fram­göngu frum­varps sem heim­il­aði eft­ir­stand­andi aflandskrónu­eig­endum að fara með þær úr landi. Seðla­bank­inn hafði sagt að ef frum­varpið yrði ekki sam­þykkt gæti það aukið umfang aflandskrónu­eigna í lausu fé um 70 pró­sent.

Mál­þófið hafði tví­þættan til­gang. Í fyrsta lagi að end­ur­vekja þá hug­mynd að Sig­mundur Davíð og fylg­is­menn hans væru þeir einu sem stæðu upp í hár­inu á erlendum fjár­magns­eig­end­um. Í öðru lagi að sýna hvers hinn nýi stærsti stjórn­ar­and­stöðu­flokkur væri megn­ugur nú þegar hann teldi níu manns.  

Ná vopnum sínum aftur

Eitt þeirra mörgu umræðu­efna sem sex­menn­ing­arnir ræddu á Klaustri í nóv­em­ber var hversu mót­tæki­legir kjós­endur í Suð­ur­kjör­dæmi væru fyrir kyn­þátta­hyggju og útlend­inga­andúð. Ólafur Ísleifs­son sagði þar að það væri „aug­ljós mark­aður fyrir þessi sjón­ar­mið í Suð­ur­kjör­dæmi.“

Það sæist meðal ann­ars á því að Ásmundi Frið­riks­syni, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks hefði gengið vel í próf­kjörum þar þrátt fyrir að hann hefði verið að skrifa það sem „and­stæð­ingar hans kalla ras­ista­grein­ar“.

Í mars hafa þing­menn Mið­flokks­ins prófað sig áfram á þessum mark­aði. Gunnar Bragi mærði til að mynda fram­göngu lög­regl­unnar á mót­mælum sem áttu sér stað á Aust­ur­velli í mars þar sem hún spraut­aði piparúða á mót­mæl­andi hæl­is­leit­end­ur. Sú yfir­lýs­ing féll í mjög góðan jarð­veg í lok­uðum hópum á Face­book þar sem útlend­inga­andúð er alls­ráð­andi. Ólafur Ísleifs­son gagn­rýndi svo þjóð­kirkj­una fyrir það að hinir mót­mæl­andi hæl­is­leit­endur hefðu fengið að pissa í dóm­kirkju lands­ins. Sá mál­flutn­ingur mælt­ist líka vel fyrir í áður­nefndum hópum en var gagn­rýndur harka­lega af þing­mönnum ann­arra flokka.

Sig­mundur Davíð sjálfur hefur farið mik­inn síð­ustu vik­ur. Hann sagði í við­tali við Útvarp Sögu fyrir rúmum mán­uði að að ýmis­legt benti til þess að djúp­ríki stjórni á Íslandi bak­við tjöld­in. Emb­ætt­is­manna­kerfið hefði tekið völdin af ráð­herrum og nefndi aflandskrónu­frum­varpið sem dæmi um það.

Það kom engum á óvart sem fylgist með stjórmálum að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason hafi gengið í Miðflokkinn snemma árs 2019.
Mynd: Miðflokkurinn

Á vetr­ar­fundi Mið­flokks­ins um síð­ustu helgi var svo sam­þykkt stjórn­mála­á­lyktun sem gaf mjög skýrt til kynna hvert flokk­ur­inn ætlar að stefna í sinni póli­tík.

Þar kom fram að flokk­­ur­inn vilji þjóð­­legar áhersl­­ur, og að hann hafni með öllu þriðja orku­­pakk­an­­um. Að horfið verði frá inn­flutn­ingi á ófrosnu kjöti og eggj­um, sem dóm­stólar hafa þegar sagt að sé brot á alþjóða­samn­ing­um. Að afnema eigi verð­trygg­ingu hús­næð­is­lána án þess að til­greint sé hvernig eigi að gera það. „Mið­flokk­ur­inn vill standa vörð um menn­ingu og arf­leifð þjóð­ar­inn­ar,“ stóð neðst í álykt­un­inni.

Sig­­mundur Davíð sagði í ræðu sinni á fund­inum að þriðji orku­­pakk­inn væri „stór­hætt­u­­leg­­ur“ og hann sé eitt „tann­hjól kerf­is­ins“ sem Mið­­flokk­­ur­inn vilji berj­­ast gegn. Flokk­­ur­inn hafi þá stefnu að ráða eigin örlögum en ekki láta það í hendur and­lits­­lausra stofn­anna út í heim­i.

Fyrir liggur að þessi stefna á sér stuðn­ings­menn hér­lend­is. Þrátt fyrir Panama­skjöl­in, allar sam­sær­is­kenn­ing­arnar og Klaust­ur­málið þá er Mið­flokk­ur­inn að ná vopnum sínum að nýju sam­kvæmt könn­un­um. Í síð­asta Þjóð­ar­púlsi Gallup mæld­ist fylgi hans níu pró­sent, eða jafn mikið og fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar