Fylgið flakkar milli flokka sem tilheyra sömu hólfum stjórnmála
Eftir Klaustursmálið hækkaði fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um 7,7 prósent á sama tíma og fylgi Miðflokks og Flokks fólksins lækkaði um 7,6 prósent. Nú þegar fylgi Miðflokksins er að aukast lækkar fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Á meðan virðist fylgi miðju- og vinstriflokkanna í íslenskum stjórnmálum stöðugt síðustu mánuði.
Það eru níu flokkar á norska þinginu, fjórir í stjórn en fimm í stjórnarandstöðu. Þar af tveir með sitt hvorn þingmanninn. Í Danmörku eru líka níu flokkar á þingi, auk þess sem fjórir þingmenn koma frá Færeyjum og Grænlandi.
Í Svíþjóð eru átta flokkar með fulltrúa á þingi auk þess sem einn þingmaður er skilgreindur utan flokka. Í nýafstöðunum kosningum í Finnlandi, sem fóru fram um liðna helgi, náðu tíu flokkar inn manni, þótt tveir þeirra hafi reyndar einungis náð inn einum hvor.
Í öllum þessum nágrannalöndum okkar tíðkast því samstarf margra stjórnmálaflokka við myndum ríkisstjórna, sem sumar hverjar eru minnihlutastjórnir.
Íslenskt stjórnmálalandslag hefur á síðustu árum færst frá því að vera þannig að fjórir flokkar hafa iðulega haft um og yfir 90 prósent fylgi og að ríkisstjórnir séu tveggja flokka stjórnir. Í síðustu kosningum náðu átta flokkar inn manni á Alþingi og hafa þeir aldrei verið fleiri. Síðustu mánuði, samhliða miklu umróti í íslenskum stjórnmálum, virðist vera að færast umtalsvert festa í hólfaskiptingu þessa nýja landslags. Þ.e. fylgi hvers hólfs fyrir sig: til hægri, á miðju og til vinstri, virðist haldast nokkuð stöðugt þótt að tilfærsla verði fylgi milli þeirra flokka sem tilheyra hverju hólfi fyrir sig.
Það sést mjög vel með því að skoða breytingar á fylgi fyrir og eftir hið svokallaða Klausturmál.
Hið íhaldsama hægra hólf
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru þeir tveir flokkar sem oftast hafa ráðið á Íslandi, oftast saman en stundum líka í sitthvoru lagi. Þeir eru hönnuðir flestra þeirra kerfa sem við búum við og mikil vigt er lögð á það í stjórnmálum beggja að viðhalda þeim kerfum. Að því leytinu til eru þeir klassískir íhaldsflokkar, sem vilja litlar eða engar stórtækar breytingar á stjórnkerfum landsins eða stjórnarskrá þess.
Miðflokkurinn er klofningsflokkur úr Framsóknarflokknum. Hann og Flokkur fólksins reka meðal annars þjóðernispopúlíska stefnu sem byggir á áherslum á stór og kostnaðarsöm kosningaloforð, fullveldi þjóðar og mikilli tortryggni gagnvart alþjóðavæðingu og alþjóðasamstarfi. Báðir flokkar leggja auk þess áherslu á að bæta hag aldraðra, öryrkja og landsbyggðar og stilla aðstæðum þeirra oft upp upp sem andstæðum við aðra tiltekna hópa.
Þetta hægra hólf stjórnmálanna, hið íhaldssama eða popúlíska, var sigurvegari kosninganna haustið 2017. Þá fengu þessir fjórir flokkar samtals 53,7 prósent atkvæða, sem var algjör viðsnúningur frá kosningunum árið áður þegar þeir fengu 44 prósent atkvæða. Nú mælist það með stuðning 46 prósent kjósenda og myndi tapa 7,7 prósentustigum frá kosningunum 2017 ef kosið yrði í dag, og niðurstaðan yrði í samræmi við könnun MMR.
Það virðist vera sem að nær öll tilfærsla sem verður á fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Miðflokks og Flokks fólksins eigi sér stað á milli þeirra. Það sást ágætlega í kosningunum 2017, þeim fyrstu sem Miðflokkurinn og Flokkur fólksins náðu mönnum á þing í. Sameiginlegt fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lækkaði marktækt milli kosninganna 2016 og 2017. Framsókn fékk sína verstu niðurstöðu í rúmlega hundrað ára sögu sinni. Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína næst verstu niðurstöðu. Sú versta var 2009, í fyrstu kosningunum eftir bankahrunið.
Það má líka sjá þessa tilfærslu á fylgi milli flokka innan hólfsins í könnunum MMR. Í lok nóvember 2018 mældist sameiginlegt fylgi þeirra 49,3 prósent en í könnun sama fyrirtækis um miðjan febrúar mældist það 49,2 prósent, eða nánast nákvæmlega jafn mikið. Í nóvember mældist fylgi Miðflokks og Flokks fólksins samanlagt 20,7 prósent en í febrúar 13 prósent. Á sama tíma mældist sameiginlegt fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar 28,6 prósent í nóvember 2018 en 36,2 prósent í febrúar 2019. Það sem gerðist í millitíðinni var Klaustursmálið þar sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins voru gerendur. Á ofangreindu tímabili lækkaði sameiginlegt fylgi Miðflokksins og Flokks fólksins um 7,7 prósent en sameiginlegt fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hækkaði um 7,6 prósent.
Í síðustu könnunum MMR, sem birtar voru í mars og apríl, hefur Miðflokkurinn náð vopnum sínum aftur. Hann mælist nú með 10,2 prósent fylgi, sem er nánast kjörfylgi hans. Flokkur fólksins á enn nokkuð í land með að ná fyrri hæðum en mælist samt með 5,4 prósent fylgi, sem myndi tryggja honum inn á þing ef kosið yrði í dag. Sameiginlega taka þessir flokkar því til sín 15,6 prósent atkvæða. Afleiðingin fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk er sú að báðir myndu setja nýtt met í lágu fylgi ef kosið yrði í dag, Framsókn með 8,7 prósent atkvæða og Sjálfstæðisflokkur með 21,7 prósent.
Vert er að taka fram að bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa ríka tilhneigingu til að ganga betur í kosningum en kannanir hafa bent til, enda búa flokkarnir af reynslumiklu flokkskipulagi sem gerir þeir kleift að reka árangursríkar kosningabaráttur. Þannig fengu þeir samanlagt rúmlega fjögur fleiri prósentustig í kosningunum 2017 en síðasta könnun MMR fyrir þær hafði spáð þeim.
Hin sjálfskilgreinda frjálslynda miðja
Sú blokk í hinu nýja landslagi íslenskra stjórnmála sem er að auka fylgi sitt mest frá síðustu kosningum samkvæmt könnunum er það sem má kalla hina frjálslyndu miðju. Þar eru flokkar (Samfylking, Viðreisn og Píratar) sem teygja sig til vinstri eða hægri í ákveðnum málaflokkum en leggja áherslu á hin svokölluðu fínni blæbrigði stjórnmála á borð við jafnrétti, aukið alþjóðasamstarf, mannréttindi, frjálslyndi í innflytjenda/hælisleitendamálum og umfangsmiklar og jafnvel róttækar kerfisbreytingar. Oft eru kjósendur þessarar blokkar kallaðir „góða fólkið“ og ásakaðir um elítuisma.
Þessir flokkar njóta mest stuðnings á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega í Reykjavík. Forsvarsmenn bæði Viðreisnar og Samfylkingar hafa rætt það opinberlega að vilji sé til þess að mynda næstu ríkisstjórn í kringum þessa þrjá flokka, með þeim viðbótum sem til þyrfti. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í viðtali við Mannlíf í febrúar að hann vildi gera slíkt með Viðreisn, Pírötum og Vinstri grænum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræddi málið í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í nóvember í fyrra og sagði þar tvo ása vera til staðar í íslenskum stjórnmálum, frjálslynda og íhaldssama ásinn. Ekki fór milli mála hvaða flokkum hún raðaði á ásana.
Þessi blokk fékk 28 prósent fylgi í síðustu kosningum, haustið 2017. Það var algjör viðsnúningur á fylgi flokka sem skilgreina sig helst sem frjálslynda miðjuflokka frá kosningunum 2016, þegar þegar þeir fengu 37,9 prósent atkvæða, en þá var Björt framtíð enn að mælast með stuðning kjósenda.
Fylgi flokkanna þriggja hefur verið mjög stöðugt undanfarna mánuði í könnunum MMR, það var 36,2 prósent í nóvember en mældist 37,9 prósent í síðustu könnum, sem birt var 9. apríl. Ef það yrði niðurstaða kosninga myndu þessir flokkar bæta við sig 9,9 prósentustigum frá síðustu kosningum.
Það vekur athygli að það er nákvæmlega sama hlutfall stuðnings og frjálslyndu flokkarnir fengu í atkvæðum í kosningunum 2016, sem þóttu miklar sigurvegarakosningar fyrir þær stjórnmálalegu áherslur.
Vinstra hólfið
Síðasta hólfið er vinstrahólfið. Þar hafa Vinstri græn náð að að sitja nær ein undanfarin misseri þótt að atkvæði flæði þaðan bæði yfir til Samfylkingar og Pírata, og að mikil samlegð sé milli þeirra flokka í mörgum áherslumálum. Þar má nefna mál sem snerta jöfnuð, loftlagsmál, jafnréttismál og önnur jafnréttismál. Það sem aðskilur þó er hin ríka íhaldstaug Vinstri grænna og andstaða við ýmsar kerfisbreytingar og andstaða við ýmis konar alþjóðasamstarf, til að mynda við veru Íslands í NATO og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Þótt Vinstri græn leiði nú afar óvenjulega ríkisstjórn með flokkum sem þau hafa aldrei áður viljað vinna með þá eru Samfylkingin og Píratar mun náttúrulegri bandamenn þeirra en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Við blasti hins vegar eftir síðustu kosningar að ómögulegt var að mynda ríkisstjórn með þessum þremur flokkum einvörðungu og Framsóknarflokkurinn var afhuga fimm flokka stjórn. Þá ríkir umtalsverð tortryggni gagnvart Viðreisn innan Vinstri grænna, þar sem mörgu lykilfólki finnst Viðreisn vera allt of langt til hægri í sinni pólitík.
Vinstri græn hafa liðið fyrir veru sína í ríkisstjórn á þessum kjörtímabili, samkvæmt könnunum MMR. Flokkurinn fékk 16,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017 en hefur verið að mælast með 12,9 til 10,3 prósent fylgi síðasta tæpa hálfa árið.
Þar skiptir líka máli að mun róttækari vinstri flokkur, með náið samband við nýja verkalýðsforystu, er komin fram á sjónarsviðið. Þ.e. Sósíalistaflokkur Íslands sem náði inn manni í síðustu borgarstjórnarkosningum, sem fóru fram í fyrravor, og fékk 6,4 prósent atkvæða, á sama tíma og Vinstri græn guldu afhroð og fengu einungis 4,3 prósent atkvæða í kjördæmi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Samkvæmt könnunum þá fer hluti þess fylgis sem Vinstri græn fengu í síðustu kosningunum nokkuð augljóslega yfir á flokka sem eru vinstra megin á miðjunni en Sósíalistaflokkurinn er sífellt að gera sig breiðari á vinstri vængnum. Hann mælist nú með 4,5 prósent fylgi í könnunum MMR og hefur verið að mælast með mann inni í ýmsum öðrum könnunum. Það vekur líka athygli að frá því að MMR fór að mæla fylgi Sósíalistaflokksins í febrúar síðastliðnum þá hefur fylgi vinstri flokkanna tekið lítinn kipp upp á við. Það mælist nú 14,9 prósent en mældist t.d. 10,3 prósent í nóvember.
Vert er þó að taka fram að þeir sem ætluðu sér að kjósa „annað“ en tilgreinda flokka í könnuninni í nóvember voru fjögur prósent. Afar líklegt er að fylgi við Sósíalistaflokkinn hafi verið uppistaðan þess fylgis og ef tekið er tillit til þess þá er breytingin á fylgi vinstri flokkanna síðustu mánuði lítil sem engin.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars