Hvað?
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti þann 31. janúar drög að frumvarpi um breytingar á fjölmiðlalögum.
Meginefni frumvarpsins snýst um að veita stjórnvöldum heimild til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta ritstjórnarkostnað einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir styrknum verða að viðtakendur uppfylli ýmis skilyrði fjölmiðlalaga, efni þeirra sé fjölbreytt og fyrir allan almenning og byggist á fréttum, fréttatengdu efni og samfélagsumræðu í víðum skilningi.
Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2020 og endurgreiðslur miðist við síðastliðið ár.
Gert er ráð fyrir endurgreiðsluhæfur kostnaður verði bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf, í frumvarpsdrögunum.
Í frumvarpsdrögunum segir að lagt er til framlag ríkisins nemi 300 til 400 milljónum á ári. Um þau er hægt að lesa hér.
Af hverju?
Rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur kúvenst vegna tækni- og upplýsingabyltingarinnar sem hefur gerbreytt neytendahegðun og gengið nánast frá hefðbundnum tekjumódelum fjölmiðla. Fyrir vikið vilja færri greið fyrir fréttir og fréttavinnslu og hefur gert það að verkum að nýjar tegundir miðla, sérstaklega samfélagsmiðlar, eru farnir að taka til sín sífellt stærri sneið af tekjum sem áður runnu til íslenskra miðla.
Í skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi, sem skipuð var í lok árs 2016 kom fram að rekstur einkarekinna fjölmiðla sé svo erfiður að það gefi stjórnvöldum tilefni til að stuðla að bættu rekstrarumhverfi þeirra.
Það rekstrarumhverfi sem íslenskum einkareknum fjölmiðlum er sniðið er auk þess í andstöðu við það sem tíðkast víðast hvar í Evrópu. Þannig eru beinir ríkisstyrkir til einkarekinna fjölmiðla á öllum Norðurlöndunum, í Frakklandi, Lúxemborg, Lettlandi og Ítalíu.
Á hinum Norðurlöndunum, sem eru þau samfélög sem Ísland ber sig mest saman við, má rekja rekstrarstuðning hins opinbera til einkarekinna fjölmiðla aftur til ársins 1990. Í Noregi og Svíþjóð hefur stuðningurinn verið aukinn umtalsvert undanfarin misseri. Dönsk stjórnvöld kynntu einnig aðgerðir til að bregðast við rekstrarstöðu fjölmiðla í fyrra, sem fólust meðal annars í því að draga saman umfang DR, danska ríkissjónvarpsins.
Gagnrýnendur þess að ríkið styrki einkarekna fjölmiðla halda því fram að slíkir styrkir geti grafið undan sjálfstæði fjölmiðlanna. Að þeir muni ekki bíta hendina sem fóðrar þá og þar af leiðandi muni þeir ekki sinna aðhaldshlutverki sínu nægilega vel.
Hver var niðurstaðan?
Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í janúar og fjölmargar athugasemdir bárust við það, meðal annars frá flest öllum fjölmiðlum landsins. Margar voru jákvæðar en athygli vakti að tvö af stærstu fjölmiðlafyrirtækjum landsins, Torg sem gefur út Fréttablaðið, og Árvakur sem gefur m.a. út Morgunblaðið, gerðu miklar athugasemdir við að stærri fjölmiðlar fengu ekki meira og vildu að minni miðlar fengu ekkert.
Lilja sagði í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í mars síðastliðnum að það væri stjórnarmeirihluti fyrir frumvarpinu þrátt fyrir að það hefði verið gagnrýnt úr ýmsum áttum, meðal annars af hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans stóð til að leggja frumvarpið fram í ríkisstjórn í þessari viku en ákveðið var að bíða með það fram að næsta ríkisstjórnarfundi, sem verður haldinn 26. apríl. Mikið samráð hefur verið á milli fulltrúa allra ríkisstjórnarflokkanna þriggja til að tryggja samstöðu um frumvarpið svo hægt verði að leggja það fram á þingi á allra næstu vikum. Heimildir Kjarnans herma að það muni taka einhverjum breytingum frá því sem kynnt var í samráðsgátt en þær séu ekki þess eðlis að grunnur aðgerðanna raskist.