Hvað?
Eftir mikinn uppgang árum saman lenti íslenska lágfargjaldarflugfélagið WOW air í verulegum vandræðum. Skuldabréfaútboð upp á 50 milljónir dala (um sex milljarða króna á gengi dagsins í dag) sem félagið fór í í september 2018 dugði ekki til að laga stöðuna.
Í kjölfarið var reynt að selja WOW air til Icelandair (tvisvar) og Indigo Partners. Þau áform gengu ekki eftir. Síðasta tilraun með Icelandair, sem stóð yfir seint í mars 2019, fór fram á þeim forsendum að WOW Air væri fyrirtæki á fallandi fæti.
Til að slíkar forsendur haldi, en þær heimila til dæmis að samkeppnislegum áhrifum samruna er vikið til hliðar, þá þarf að liggja fyrir að enginn raunhæfur möguleiki sé á því að aðrir kaupendur séu til staðar.
Íslenska ríkið taldi sig ekki hafa neinar forsendur til að ganga inn í rekstur WOW air. Og að morgni 28. mars 2019 fór félagið í þrot.
Af hverju?
Ástæður þess voru nokkrar. Mikil og skörp hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu, áframhaldandi styrking krónunnar og gríðarlega hörð samkeppni gerði öllum sem kepptu á markaðnum erfitt fyrir. En til viðbótar hafði WOW air vaxið mjög hratt á skömmum tíma og átti ekki sjóðsstöðu til að takast á við þær sveiflur sem félagið lenti í.
Frá haustið 2018, þegar íslenskir fjölmiðlar birtu gögn um verulega dapra fjárhagsstöðu WOW air, var félagið í lífróðri. Í raun hafði starfsemi félagsins dregist saman um helming áður en það hætti loks starfsemi, frá því hún var umfangsmest, en þá var félagið að flytja til landsins 600 til 700 þúsund erlenda ferðamenn á ári. Flugvélunum sem það notaði hafði fækkað úr 24 í 11.
Þetta dugði ekki til og WOW air vantaði enn mikið fjármagn til að lifa af. Þrátt fyrir margra mánaða leit og óteljandi fundi með fjárfestum fékkst enginn til að leggja WOW air til það fé sem vantaði upp á. Á endanum voru það leigusalar WOW air sem kyrrsettu vélar félagsins sem leiddu til þess að það fór í þrot.
Mikill þrýstingur myndaðist á stjórnvöld um að stiga inn í og leggja félaginu til fé en mat þeirra var að það væri ekki forsvaranlegt. Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngumála, sagði í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut 6. apríl síðastliðinn að það hefði verið rétt ákvörðun að láta WOW air falla.
Það mat hefði byggt á umfangsmikilli ráðgjöf, meðal annars erlendis frá. „Ég held að það hafi verið rétt, ekki síst í ljósi þess að tvö fyrirtæki á markaði, Icelandair í tvígang og Indigo Partners, fóru í nákvæmlega sömu skoðun um hvort þeir ættu að fara inn í þetta. En mátu að það væri ekki skynsamlegt og of mikil áhætta fólgin í því fyrir þau fyrirtæki.“
Skynsamlegra hefði verið fyrir ríkið, ef það vildi fara í flugrekstur, að stofna sitt eigið flugfélag frá grunni en að taka yfir WOW air.
Hver var niðurstaðan?
Þótt WOW air hafi farið í þrot er síðasti kaflinn í sögu þessa flugfélags ekki enn að fullu skrifaður. Skúli Mogensen, sem stofnaði, stýrði og átti WOW air, hefur ásamt öðrum fyrrverandi lykilstjórnendum farið víða að undanförnu með viðskiptaáætlun sem felur í sér endurreisn WOW air. Eina sem vantar er umtalsvert af annarra manna peningum.
Einn slíkur fjárfestafundur fór fram 8. apríl. Á meðal þeirra sem sátu hann voru, samkvæmt heimildum Kjarnans Pálmi Haraldsson, fyrrverandi eigandi Iceland Express Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestirinn Guðni Eiríksson, Bogi Guðmundsson, stjórnarformaður Bustravel Iceland, fulltrúi úr eigendahópi Keahótela og ýmsir aðrir tengdir íslenskri ferðaþjónustu. Alls voru vel á annan tug aðila á fundinum þegar teymið sem var á vegum Skúla og Arctica Finance, ráðgjafa hans, var með talið.
Upprunalega á að gera þetta með því að nota fimm Airbus-vélar en strax á næsta ári á þeim að fjölga í sjö og svo í tíu vorið 2021. Samkvæmt áætlun á hið nýja WOW air að geta flutt tæplega 600 þúsund farþega á síðari helming þessa árs, um 1,5 milljónir á næsta ári og rúmlega tvær milljónir árið 2021. Til samanburðar flutti WOW air 3,5 milljónir farþegar í fyrra.
Til þess að láta þessa hugmynd ganga upp þá hafa Skúli og teymið hans, ásamt fulltrúum frá Arctica Finance, verið að funda með fjölmörgum fjárfestum síðustu vikurnar. Þeim vantar nefnilega 40 milljónir dali, um 4,8 milljarða króna, til að láta dæmið ganga upp. Ef einhver er tilbúinn að leggja þeim til það fé eru Skúli og lykilstjórnendurnir tilbúnir að láta viðkomandi eftir 49 prósent í endurreistu flugfélagi á móti 51 prósent hlut Skúla og hópsins í kringum hann. Sá hópur skuldbindur sig líka til að taka á sig 30 prósent launalækkun frá því sem áður var. Væntanlegir fjárfestar fá einnig svokallaðan „fyrstur inn, fyrstur út“ fyrirvara, sem þýðir að þeir fá fjárfestingu sína endurgreidda að fullu áður en að hlutafénu verður skipt upp milli þeirra og WOW-hópsins.
Enn sem komið er hefur ekki hlaupið á snærið hjá Skúla og félögum og líkurnar á því að WOW air verði endurreist minnka með hverjum deginum sem líður.