Hvað?
Ríkisstarfsmenn hafa verið leiðandi í launaþróun á undanförnum árum. Sumir slíkir hópar hafa hækkað í launum um tugi prósenta í einu. Frægasta dæmið um slíkt var þegar kjararáð ákvað að opinbera, á kjördag 2016, að laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra yrðu hækkuð umtalsvert. Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir.
Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Skömmu áður, eða um sumarið 2016, höfðu laun skrifstofustjóra í ráðuneytum, og laun aðstoðarmanna ráðherra sem miða við skrifstofustjóralaunin, verið hækkuð um allt að 35 prósent. Þau urðu þá um 1,2 milljónir króna á mánuði.
Til viðbótar höfðu laun ýmissa forstjóra ríkisfyrirtækja hækkað um tugi prósenta eftir að ákvörðun um þau var færð undan kjararáði um mitt ár 2017, og yfir til pólitískt skipaðra stjórna fyrirtækjanna. Þessar hækkanir gerðust þrátt fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði beint þeim tilmælum til stjórna fyrirtækjanna að hækka launin ekki óhoflega.
Af hverju?
Það stóðu yfir viðkvæmar kjaraviðræður og ljóst að allar kröfur verkalýðshreyfinga myndu taka mið af þeim gríðarlegu hækkunum sem orðið höfðu á launum æðstu embættismanna og forstjóra landsins, sem voru þó þegar með ein hæstu laun í íslensku samfélagi fyrir þær hækkanir.
Fyrir lá að íslenskt efnahagslíf myndi ekki ráða við slíkar hækkanir þvert yfir allan skalann og því var skýrt krafa sett fram um að undið yrði ofan af hinum miklu hækkunum, annars yrði erfitt að ná saman við gerð kjarasamninga. Litið var á hækkanirnar sem hreina sjálftöku.
Hver varð niðurstaðan?
Hún var allskonar. Þann 13. mars síðastliðinn var birt bréf Lárusar Blöndal, formanns Bankasýslu ríkisins, og Jóns Gunnars Gunnarssonar, forstjóra stofnunarinnar, til Bjarna Benediktssonar. Í því kom fram að laun bankastjóra ríkisbankanna, Íslandsbanka og Landsbankans, yrðu lækkuð. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka mun fá 3,65 milljónir króna á mánuði eftir þá lækkun, en laun hennar árið 2018 voru 5,3 milljónir króna.
Kastljósið hafði verið mjög á tveimur ríkisforstjórum sem höfðu fengið ríflegar launahækkanir. Annar þeirra var Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Laun hans hækkuðu um 43,3 prósent frá miðju ári 2017, úr 1,75 milljónum króna í 2,5 milljónir króna á mánuði. Björn Óli missti starf sitt sem forstjóri Isavia fyrr í þessum mánuði.
Stjórnarformaður Isavia á þessum tíma var Ingimundur Sigurpálsson. Hann var líka forstjóri Íslandspósts, ríkisfyrirtækis sem glímdi við gríðarlega rekstrarerfiðleika og þurfti meðal annars að fá mörg hundruð milljón króna lán hið minnsta frá ríkissjóði í lok síðasta árs til að lifa af. Lán sem fyrirtækið getur ekki greitt til baka. Þrátt fyrir þessa stöðu var ákveðið að hækka laun Ingimundar tvívegis á síðasta ári. Þau voru í mars 2.052 þúsund krónur á mánuði og höfðu hækkað um tæp 43 prósent frá miðju ári 2017, þegar þau voru 1.436 þúsund krónur á mánuði. Ingimundur hætti sem forstjóri Íslandspósts um miðjan mars.
Þá ákvað Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrr í apríl að gera tvær breytingar á frumvarpi til breytinga á lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, sem er nú til meðferðar Alþingis.
Auk þess er lagt til að ákvæði um heimild ráðherra til að hækka laun 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á launum 1. júlí verði fellt út en ákvæðið er í nokkrum greinum frumvarpsins.
En ekki hefur verið þverpólitískur vilji hjá þingmönnum og ráðherrum um að draga einfaldlega til baka þær miklu hækkanir sem þeir fengu á kjördag 2016.