Tólf mánaða verðbólga hækkaði á milli mánaða og mælist nú 3,3 prósent. Hún mældist 2,9 prósent við síðustu mælingu fyrir mánuði síðan. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Á meðal þess sem gerst hefur frá því að síðasta mæling á tólf mánaða verðbólgu var birt er gjaldþrot WOW air í lok mars mánaðar. Í frétt Hagstofunnar segir að verð frá flugfargjöldum til útlanda hafi hækkað um 20,6 prósent milli mánaða. „Gjaldþrot fyrirtækis í farþegaflugi til og frá Íslandi um síðustu mánaðamót hafði áhrif á niðurstöðu mælingar á vísitölu neysluverðs nú. Auk þess er algengt að sjá hærri flugfargjöld í kringum páska. Mælingin tekur tillit verðs á helstu flugleiðum milli Íslands og Evrópu annars vegar og Íslands og Norður-Ameríku hins vegar. Mælt er verð hjá helstu þjónustuveitendum á hverri leið og gert ráð fyrir að ferðast sé frá Íslandi og aftur til baka.“
Hafði lækkað síðustu mánuði
Verðbólgan hækkaði skarpt á síðari hluta ársins 2018 og mældist 3,7 prósent í desember síðastliðnum. Hún hjaðnaði síðan hratt í byrjun árs og fór aftur undir þrjú prósentustig í síðasta mánuði.
Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent. Vel hefur gengið á undanförnum árum að halda verðbólgunni undir því markmiði. Verðbólgan fór undir 2,5 prósent markmiðið í febrúar 2014 og hélst þar þangað til í mars í fyrra.
Frá febrúar 2014 hefur verðbólga mælst þrjú prósent eða hérlendis í fimm mánuði, þ.e. frá nóvember 2018 og fram í febrúar síðastliðinn og svo nú, þegar hún mælist 3,3 prósent.
Verðbólga hefur áhrif á lán heimila
Þróun verðbólgu skiptir íslensk heimili miklu máli þar sem þorri lána þeirra eru verðtryggð. Það þýðir að þróun verðbólgu hefur áhrif á þróun lána þeirra. Því meiri verðbólga því hærri verðbætur leggjast á lánin, og því meira þarf að greiða til baka af höfuðstól þess.
Í skýrslu sem Íslandsbanki vann og birti í október í fyrra kom fram að 77 prósent heildarskulda íslenskra heimila væru verðtryggðar.
Slík lán hafa verið hagkvæmasti kosturinn sem boðist hefur íslenskum neytendum á undanförnum árum þar sem verðbólga hefur, líkt og áður sagði, að mestu verið við eða undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands síðastliðinn fimm ár.
Samhliða hafa lánskjör batnað umtalsvert, þótt þau séu enn langt frá því að vera á pari við það sem er í boði hjá öðrum þjóðum sem Ísland ber sig saman við. Þannig eru vextir á ódýrustu verðtryggðu lánunum sem bera breytilega vexti nú 2,15 prósent og alls bjóða níu íslenskir lífeyrissjóðir sjóðsfélögum sínum slík lán með vöxtum sem eru undir þremur prósentum. Hægt er að skoða samanburð á húsnæðislánum sem eru í boði á síðunni Herborg.is.
Verðtryggðir breytilegir vextir hjá bönkunum þremur eru hins vegar á bilinu 3,55 til 3,89 prósent. Ódýrastir hjá ríkisbankanum Landsbanka og dýrastir hjá Arion banka.