Mynd: Bára Huld Beck Alþingi - Janúar 2018
Mynd: Bára Huld Beck

Þriðji orkupakkinn og kjarasamningar hafa lítil áhrif á fylgi flokka

Engar merkjanlegar breytingar eru á fylgi stjórnmálaflokka milli mánaða, þrátt fyrir að kjarasamningum við rúmlega helming vinnumarkaðar hafi verið lokið og að þriðji orkupakkinn hafi átt hið pólitíska svið vikum saman. Klausturflokkarnir hafa tapað þriðjungi af fylgi sínu og það virðist ekki vera að skila sér til baka.

Svo virð­ist sem stór mál sem taka mikið pláss á vett­vangi stjórn­mál­anna, gerð kjara­samn­inga við stærstu verka­lýðs­fé­lög lands­ins og átök um þriðja orku­pakk­ann, hafi lítil sem engin áhrif á fylgi flokka.

Í nýj­ustu könnun Gallup, sem birt var um helg­ina, kemur fram að sam­eig­in­legt fylgi stjórn­ar­flokk­anna mælist 44,9 pró­sent, eða 0,7 pró­sentu­stigum minna en fyrir mán­uði. Sam­eig­in­legt fylgi þeirra þriggja stjórn­ar­and­stöðu­flokka sem eru fylgj­andi inn­leið­ingu þriðja orku­pakk­ans mælist nú 38,3 pró­sent en var 37,8 pró­sent í lok mars.

Fylgi þeirra tveggja flokka á þingi sem eru yfir­lýst á móti þriðja orku­pakk­an­um, Mið­flokks­ins og Flokks fólks­ins, stendur nán­ast í stað milli mán­aða. Það mælist nú 12,4 pró­sent en var 12,6 pró­sent í síð­ustu mæl­ingu á und­an.

Eina mark­verða breyt­ingin sem könnun Gallup sýnir er auk­inn stuðn­ingur við rík­is­stjórn­ina, og þar getur hlut­verk hennar í að loka erf­iðum kjara­samn­ingum hafa verið ráð­andi breyta. Stuðn­ingur við hana mælist nú 51,6 pró­sent og hefur ekki mælst svo hár frá því í júní í fyrra. Aukin stuðn­ing við rík­is­stjórn virð­ist þó ekki skila sér í auknu fylgi við rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þrjá.

Stjórn­ar­flokk­arnir tapa en innan skekkju­marka

Nokkur stöð­ug­leiki hefur ríkt í fylgi flokka síð­ast­liðið ár og virð­ist fylgið fyrst og síð­ast fær­ast á milli blokka, form­legra og óform­legra, sem mynd­ast hafa á átta flokka Alþingi. Þó virð­ist vera að atkvæði geti blætt milli Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks ann­ars vegar og Mið­flokks og Flokks fólks­ins hins veg­ar. Dæmi um það sáust í fyrra­haust.

Fylgi stjórn­ar­flokk­anna þriggja: Vinstri grænna, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks, mæld­ist 49,0 pró­sent fyrir ári síðan en mælist nú 44,9 pró­sent.

Mun­ur­inn þar á virð­ist að mestu leyti markast á upp­gangi Sós­í­alista­flokks Íslands, sem bauð í fyrsta sinn fram í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum í fyrra og náði inn einum manni. Hann virð­ist að mestu taka fylgi af Vinstri grænum og mælist nú með 3,6 pró­sent fylgi.

Í nýj­ustu könn­un­inni dregst sam­eig­in­legt fylgi stjórn­ar­flokk­anna þriggja saman um 0,6 pró­sent, sem er innan skekkju­marka. Vinstri græn bæta við sig 1,7 pró­sentu­stigi og myndu fá 13,3 pró­sent atkvæða. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn (23,5 pró­sent) og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn (8,0 pró­sent) tapa hins vegar báðir lít­il­lega fylgi milli kann­ana. Ef áfram fer sem horfir munu stjórn­ar­flokk­arnir þrír eiga í erf­ið­leikum með að end­ur­nýja stjórn­ar­sam­starf sitt.

Mjög stöðugt fylgi miðju­flokka í and­stöðu

Sam­eig­in­legt fylgi Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Við­reisn­ar, þriggja flokka sem vinna umtals­vert saman og hafa for­ystu­menn þeirra hafa ámálgað að ættu að mynda hluta næstu rík­is­stjórn­ar, virð­ist líka vera afar stöðugt. Það mælist nú 38,3 pró­sent en var 37,8 pró­sent í síð­ustu mæl­ingu á und­an, sem er breyt­ing innan skekkju­marka.

Fyrir einu ári síðan var fylgi flokk­ana þriggja 37,4 pró­sent sam­kvæmt mæl­ingum Gallup eða mjög svipað og það mælist nú. Ef kosið yrði í dag það gætu þessir þrír flokkar vel við unað enda mælist sam­eig­in­legt fylgi þeirra 10,3 pró­sentu­stigum hærra en það sem flokk­arnir þrír fengu í kosn­ing­unum haustið 2017.

Sam­fylk­ingin (16,2 pró­sent) mælist stærst flokk­ana þriggja, Píratar (11,1 pró­sent) koma þar á eftir en vart er mæl­an­legur munur á fylgi þeirra og Við­reisnar (11,0 pró­sent).

Hafa misst þriðj­ung af fylgi sínu

Hinir tveir flokk­arnir í stjórn­ar­and­stöðu, Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins, eiga mun oftar mál­efna­lega sam­leið en aðrir flokkar sem til­heyra henni. Hún hefur birst mjög skýrt í nokkrum málum síð­ustu miss­eri, sér­stak­lega í and­stöðu við þriðja orku­pakk­ann og frum­varp um þung­un­ar­rof.

Þrátt fyrir umtals­verða fyr­ir­ferð þeirra mála sem flokk­arnir leggja mikla áherslu á í umræð­unni þá skilar það þeim ekki neinni fylg­is­aukn­ingu. Sam­eig­in­legt fylgi þeirra tveggja mælist nú 12,4 pró­sent og Flokkur fólks­ins (4,0 pró­sent) myndi ekki ná manni inn á þing ef kosið yrði í dag. Mið­flokk­ur­inn mælist með 8,9 pró­sent fylgi sem undir kjör­fylgi flokks­ins í síð­ustu kosn­ing­um. Í þeim kosn­ing­um, sem fram fóru í októ­ber 2017, fengu Flokkur fólks­ins og Mið­flokk­ur­inn saman 17,8 pró­sent atkvæða. Flokk­arnir tveir hafa því saman tapað um þriðj­ungi atkvæði sinna það sem af er kjör­tíma­bili.

Sam­eig­in­legt fylgi flokk­anna tveggja er nán­ast það sama nú og það mæld­ist fyrir um ári síð­an, í maí 2018, þegar það mæld­ist 12,1 pró­sent.

Klaustur skil­aði fylg­inu til baka til stjórn­ar­flokka

Vendi­punktur varð í íslenskum stjórn­málum með hinu svo­kall­aða Klaust­urs­máli, sem var opin­berað í lok nóv­em­ber í fyrra. Í því voru opin­ber­aðar upp­tökur af drukknu tali sex þing­manna, tveimur úr Flokki fólks­ins og fjórum úr Mið­flokkn­um, á Klaustur Bar 20. nóv­em­ber 2018 þar sem þeir ræddu meðal ann­ars útdeil­ingu sendi­herra­emb­ætta og póli­tíska greiða ásamt því að ræða með niðr­andi, og á stundum kyn­ferð­is­leg­um, hætti um aðra stjórn­mála­menn, fatl­aða og sam­kyn­hneigða.

Þegar Klaust­ur­málið varð hafði mælst skriður á fylgi Mið­flokks­ins og Flokks fólks­ins og sam­eig­in­legt fylgi þeirra hafði risið jafnt og þétt í nokkrum könn­unum í röð, mest á kostnað rík­is­stjórn­ar­flokk­anna. Í nóv­em­ber mæld­ist það 18,2 pró­sent, eða rétt yfir kjör­fylgi þeirra. Fylgi Mið­flokks­ins var mun meira á þeim tíma, eða 12 pró­sent, en Flokkur fólks­ins var að mæl­ast nokkuð örugg­lega inni á þingi með 6,2 pró­sent fylgi.

Ljóst er að málið hefur kostað flokk­anna umtals­vert fylgi, eða um þriðj­ung, og lítið virð­ist ganga, að minnsta kosti enn sem komið er, að ná því til baka. Á þessu virð­ast stjórn­ar­flokk­arnir þrír græða en sam­eig­in­legt fylgi þeirra var komið niður í 41,5 pró­sent fyrir Klaust­urs­málið en mælist nú, líkt og áður sagði, 44,9 pró­sent. Auk þess virð­ist hluti fylg­is­ins skila sér til Sós­í­alista­flokks­ins.

Miðju­blokk Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Við­reisnar virð­ist hins vegar ekki verða fyrir neinum telj­andi áhrifum af mál­inu, þrátt fyrir að þing­maður Sam­fylk­ing­ar­innar hafi skömmu síðar verið sendur í leyfi fyrir að hafa beitt blaða­mann kyn­ferð­is­legri áreitni og með því brotið siða­reglur flokks­ins. Hann er nú snú­inn aftur til starfa.

Sam­eig­in­legt fylgi flokk­anna þriggja mæld­ist 38,7 pró­sent áður en að Klaust­urs­málið kom upp en mælist nú, líkt og áður sagði, 38,3 pró­sent sem er munur innan skekkju­marka.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar