Lífeyrissjóðir landsins lánuðu 18,5 prósent meira til sjóðsfélaga sinna til íbúðarkaupa á fyrsta ársfjórðungi ársins 2019 en þeir gerðu á sama tímabili í fyrra. Alls námu ný útlán, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, lífeyrissjóða til sjóðsfélaga sinna 25,6 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019. Á sama tímabili í fyrra námu ný útlán 21,6 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um stöðu lífeyrissjóðakerfisins sem birtar voru fyrir helgi.
Um er að ræða viðsnúning frá þeirri stöðu sem var uppi í útlánum lífeyrissjóða á fyrsta ársfjórðungi í fyrra, en þá drógust samanlögð ný útlán saman um 1,7 milljarð króna frá því sem þau höfðu verið á sama tíma árið 2017.
Hlutfall óverðtryggðra lána eykst
Sögulega séð þá hafa Íslendingar fyrst og síðast tekið verðtryggð húsnæðislán. Sú þróun hefur haldið áfram á undanförnum árum þrátt fyrir að framboð af óverðtryggðum lánum hafi stóraukist. Verðtryggðu lánin hafa hins vegar, mörg hver, bæði verið ódýrari og afborganir af þeim viðráðanlegri á undanförnum árum vegna þess að verðbólga hefur haldist mjög lág á íslenskan mælikvarða og vextir lána hafa lækkað mjög mikið á fáum árum.
Verðbólgan var undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá því í febrúar 2014 og fram á síðasta haust og hefur síðan haldist um og yfir þrjú prósent. Sem stendur mælist hún 3,3 prósent. Lægstu verðtryggðu húsnæðislána sem bjóðast nú eru hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum (2,15 prósent) og Lífeyrissjóði verzlunarmanna (2,18 prósent). Það eru lægstu vextir sem boðið hefur verið upp á hérlendis. Alls bjóða níu íslenskir lífeyrissjóðir upp á verðtryggða húsnæðislánavexti sem eru undir þremur prósentum.
Í október 2018 voru til að mynd 77 prósent af heildarskuldum heimila verðtryggðar. Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018 voru verðtryggð útlán lífeyrissjóðanna í fullkomnum takti við það hlutfall. Þ.e. 77 prósent nýrra útlána sjóðanna voru verðtryggð lán. Í ár hefur hins vegar orðið viðsnúningur á því og á fyrstu þremur mánuðum ársins voru 58 prósent nýrra útlána verðtryggð.
Hafa lækkað veðhlutfall sitt
Þrír stærstu lífeyrissjóðirnir landsins: Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) eru umsvifamestir í veitingu húsnæðislána. Þeir hafa hins vegar allir lækkað veðhlutfall sitt frá því sem það var hæst eftir að þeir hófu fulla sókn inn á íbúðalánamarkað að nýju haustið 2015.
Gildi lífeyrissjóður lækkaði veðhlutfall sjóðsfélagslána sinna niður í 70 prósent um síðustu áramót. Lífeyrissjóður verszlunarmanna lækkaði veðhlutfall á sjóðsfélagslánum sínum úr 75 í 70 prósent sumarið 2017. LSR lækkaði sitt lánshlutfall með sama hætti í fyrra.
Þegar Gildi lækkaði sitt veðhlutfall í byrjun árs sagði sjóðurinn að ákvörðunin byggði meðal annars á varúðarsjónarmiði vegna mikilla verðhækkana á fasteignamarkaði á undanförnum árum, og hins vegar vegna aukinnar ásóknar í lán hjá Gildi. Heimildir Kjarnans herma að sú ásókn hefði aukist umtalsvert eftir að hinir tveir stóru lífeyrissjóðirnir sem lána sjóðsfélögum til íbúðarkaupa lækkuðu veðhlutfall sitt niður í 70 prósent.