Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir er í 91. sæti yfir ríkustu menn Bretlands samkvæmt nýbirtum lista The Sunday Times. Alls er auður hans metinn á 1.654 milljónir punda, eða 263 milljarða króna.
Auður Björgólfs Thor jókst um 98 milljónir punda, 15,6 milljarða króna, á síðasta ári. Björgólfur Thor er því eini íslenski milljarðamæringurinn í pundum talið.
Líkast til er Björgólfur Thor sá Íslendingur sem best hefur tekist að endurheimta þá eignastöðu sem hann var með fyrir bankahrunið. Á árinu 2007 var hann í 23. sæti á lista The Sunday Times yfir ríkustu menn Bretlands og í 29. sæti í árslok 2008. Þá var auður hans metinn á 2.070 milljónir punda, eða 329,1 milljarð króna á núvirði.
Mjög fyrirferðamikill fyrir bankahrun
Á þeim tíma var Björgólfur Thor þekktastur fyrir fjárfestingar í lyfjaiðnaði og fjarskiptafyrirtækjum, og stærsta einstaka eign hans var hlutur í lyfjarisanum Actavis. Auk þess var Björgólfur Thor vitanlega afar umsvifamikill á Íslandi þar sem hann átti, ásamt föður sínum og öðrum viðskiptafélaga, kjölfestuhlut í Landsbanka Íslands um nokkurra ára skeið.
Fjármálahrunið setti hins vegar veldi Björgólfs Thors í tvísýna stöðu þar sem hann var í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldum sem námu minnst 40 milljörðum króna.
Skömmu eftir hrun hófust viðræður milli Björgólfs Thors og trúnaðarmanna hans, og síðar fulltrúa lánardrottna sem áttu kröfu á Björgólf Thor og félög hans.
Í ágúst 2014 var síðan tilkynnt að skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar væri lokið og að hann hefði greitt kröfuhöfum sínum, að mestu stórum alþjóðlegum bönkum, samtals um 1.200 milljarða króna. Þessi uppgjör tryggði honum mikinn auð þar sem hann fékk að halda góðum eignarhluta í Actavis að því loknu. Sá eignarhluti hefur gert Björgólf Thor ævintýralega ríkan á ný. Björgólfur Thor gaf árið 2015 út bók um fall sitt og endurkomu. Kjarninn birti umfjöllun um bókina skömmu eftir að hún kom út.
Var einnig á lista Forbes
Björgólfur Thor birtist einnig á lista tímaritsins Forbes yfir ríkustu menn heims fyrr á þessu ári. Þar sat hann í 1.116 sæti og fór upp um 90 sæti milli ára.
Í umfjöllun The Sunday Times segir að á meðal nýjustu fjárfestinga Björgólfs Thors séu meðal annars kaup á hlut í Atai Life Sciences, fyrirtæki sem staðsett er í Þýskalandi og vonast til þess að geta fundið leiðir til að nota ofskynjunarlyf til að lækna geðsjúkdóma.