Bakkavararbræður metnir á 89 milljarða króna

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru á meðal ríkustu manna Bretlands samkvæmt nýlegri úttekt. Undirstaða hins mikla auðs þeirra eru hlutabréf í Bakkavör, sem þeir misstu frá sér um tíma til íslenskra lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja en náðu yfirráðum á ný yfir á árinu 2016. Frá því að íslensku sjóðirnir seldu og þar til að Bakkavör var skráð á markað um ári síðar margfaldaðist virði félagsins.

Ágúst og Lýður Guð­munds­syn­ir, oft­ast kenndir við Bakka­vör, eru í 247. sæti yfir rík­ustu menn Bret­lands sam­kvæmt nýbirtum árlegum lista The Sunday Times. Bræð­urnir falla um 50. sæti á list­anum milli ára vegna þess að hluta­bréf í Bakka­vör, sem er skráð á hluta­bréfa­markað í Bret­landi, lækk­uðu um fjórð­ung milli ára.

Alls er sam­eig­in­legur auður bræðr­anna tveggja met­inn á 560 millj­ónir punda, 89 millj­arða króna, sam­kvæmt úttekt­inni. Í fyrra, þegar Ágúst og Lýður sátu í 197. sæti list­ans, voru þeir metnir á 700 millj­ónir punda, eða 111,3 millj­arða króna á núvirði. Auður þeirra hefur því skroppið saman um 22,3 millj­arða króna milli ára. Árið áður, 2017, hafði auð­ur­inn hins vegar vaxið gríð­ar­lega, eða um 550 millj­ónir punda, sem á núvirði er 87,5 millj­arðar króna. Á því ári einu saman stukku bræð­urnir upp um 688 sæti á lista The Sunday Times.

Í umfjöllun The Sunday Times um Bakka­var­ar­bræð­urna segir að Ágúst, sem er 54 ára, og Lýð­ur, sem er 51 árs, hafi alls hagn­ast um 158 millj­ónir punda, 25,1 millj­arð króna, með því að selja hluta­bréf í Bakka­vör þegar félagið var skráð á markað í Bret­landi á árinu 2017. Auk þess eigi þeir enn um helm­ing hluta­fjár í Bakka­vör, en mark­aðsvirði félags­ins í heild er nú um 702 millj­arðar króna, auk ann­ars konar eigna.

Bakka­vör er einn af stærstu fram­leið­endur örbylgju­mál­tíða og ann­arra til­búna rétta sem seldar eru til stærstu mat­vöru­versl­ana­keðja Bret­lands, á borð við Tesco, Marks & Spencer, Waitrose og Sains­bury. Hjá sam­stæð­unni starfa yfir 19 þús­und manns.

Voru stærstu eig­endur Kaup­þings

Bræð­urnir voru þunga­vigt­ar­leik­menn í íslensku við­skipta­lífi á bólu­ár­unum fyrir hrun. Þeir höfðu árum saman byggt upp mat­væla­fyr­ir­tækið Bakka­vör, sem þeir stofn­uðu á Sel­tjarn­ar­nesi á níunda ára­tugn­um, auk þess sem bræð­urnir höfðu breitt vel úr sér; voru stærstu ein­stöku eig­endur Kaup­þings, keyptu Sím­ann af rík­inu í stærstu einka­væð­ingu Íslands­sög­unn­ar, áttu trygg­inga­fé­lagið VÍS, fjár­mögn­un­ar­fyr­ir­tækið Lýs­ingu og meira að segja sinn eigin fjöl­mið­il, Við­skipta­blað­ið, sem þá var far­inn að koma út fjórum sinnum í viku og var með tugi starfs­manna inn­an­borðs.

Umsvif bræðr­anna fyrir hrun voru flest í gegnum fjár­fest­inga­fé­lagið Existu, mömmu und­ir­liggj­andi félag­anna, sem var skráð á markað en þeir áttu stærstan hluta í og stýrðu.

Dag­inn eftir fall Kaup­þings, snemma í októ­ber 2008, var 40 pró­sent hlutur Existu í Bakka­vör færður til nýs félags í eigu Ágústs og Lýðs, ELL 182 ehf. Félagið greiddi 8,4 millj­arða króna fyrir hlut­inn. Við­skiptin voru fjár­mögnuð með selj­enda­láni frá Existu. Ekki var greint frá því opin­ber­lega þegar þau áttu sér stað. Exista var almenn­ings­fé­lag þegar þetta var ákveðið í eigu þús­unda hlut­hafa. Ágúst og Lýð­ur, ásamt sam­starfs­mönnum sín­um, héldu um alla þræði í Existu á þessum tíma. Þegar upp komst um söl­una á hlutnum í Bakka­vör og að hún hefði verið fjár­mögnuð af Existu lét Ágúst meðal ann­ars hafa eftir sér í fréttum Stöðvar 2 að sú gagn­rýni sem hefði komið fram á kaupin væri ein­vörð­ungu til komin vegna van­þekk­ingar á mál­inu. „Þessi aðgerð er ein­göngu til þess fallin að eignir Bakka­varar út um allan heim hald­ist í höndum Íslend­inga og kröfu­hafar hafi aðgang að þeim“. Salan var hins vegar ógild á end­an­um, að und­ir­lagi kröfu­hafa, sem höfðu ekki sömu sýn og bræð­urnir á mál­ið. Sér­stakur sak­sókn­ari rann­sak­aði einnig söl­una. Það mál var síðar fellt niður og ekki þótti til­efni til að ákæra í því.

Staða Bakka­varar á þessum tíma var þannig að félagið var að nið­ur­lotum komið og þurfti á fjár­hags­legri end­ur­skipu­lagn­ingu að halda. Hinn mikli vöxt­ur, sem fólst aðal­lega í því að kaupa upp önnur fyr­ir­tæki í mat­væla­iðn­aði, oft á yfir­verði, hafði skilið Bakka­vör eftir afar skuld­sett.

Misstu eign­ar­hlut en réðu samt

Það flækti málið enn frekar að sumir lána­samn­ing­arnir við erlenda banka voru þess eðlis að þeir voru bundnir við að Lýður og Ágúst myndu stjórna Bakka­vör. Það þýddi að ef þeir misstu eign­ar­hlut sinn þá þyrftu þeir samt að stýra sam­steyp­unni áfram. Auk þess virð­ast bræð­urnir alltaf hafa haft mikið traust hjá þeim erlendu bönkum sem lánað hafa þeim fé. Full­trúar þeirra sögðu beint út við íslenska kröfu­hafa að þeir treystu engum á Íslandi nema Lýð og Ágústi.

Enn frek­ari flækjur urðu til vegna skulda­bréfa­út­gáfu Bakka­var­ar Group. Til ein­föld­unar er lík­lega best að útskýra upp­setn­ingu Bakka­var­ar-­sam­stæð­unnar þannig að rekstr­ar­fé­lagið Bakka­vör, sem átti eignir út um allan heim, skap­aði tekjur henn­ar. Rekstr­ar­fé­lagið og allar und­ir­liggj­andi eignir þess voru einnig veð­settar fyrir mörg hund­ruð milljón punda lánum sem Bakka­vör hafði tek­ið, að mestu leyti hjá erlendum stór­bönkum og Kaup­þingi, til að geta stækkað jafn hratt og raun bar vitni.

Fyrir ofan rekstr­ar­fé­lagið í skipu­rit­inu var síðan móð­ur­fé­lagið Bakka­vör Group. Það var í raun aðeins eign­ar­halds­fé­lag sem átti hlut í rekstr­ar­fé­lag­inu Bakka­vör. Þrátt fyrir að allar und­ir­liggj­andi eignir sam­stæð­unnar væru veð­settar fjár­mála­stofn­unum réðst Bakka­vör Group í útgáfu á margar millj­arða króna skulda­bréfa­flokki sem jók á skuldir sam­stæð­unn­ar.

Íslenskir líf­eyr­is­sjóðir og aðrir fag­fjár­festar keyptu alla útgáf­una. Þegar allt fór á hlið­ina hjá bræðr­un­um, Existu og Bakka­vör vökn­uðu þessir skulda­bréfa­kaup­endur upp við að þeir voru svo aft­ar­lega í kröfu­hafaröð­inni í Bakka­vör að lík­leg­ast myndu þeir aldrei fá krónu upp í kröfur sín­ar. Þannig skap­að­ist hvati til að reyna að semja á þann hátt að það myndi skila líf­eyr­is­sjóð­unum og öðrum kröfu­höfum Bakka­varar Group ein­hverju til baka.

Á grunni þess­ara hvata gerði Bakka­vör Group nauða­samn­ing í upp­hafi árs 2010. Í honum fólst að kröfu­haf­ar, að mestu leyti Arion banki og skulda­bréfa­eig­endur á borð við líf­eyr­is­sjóð­ina, tóku yfir félagið en bræðr­unum var gefið tæki­færi til að greiða kröfu­höf­unum til baka fyrir mitt ár 2014. Gengi það eftir myndu bræð­urnir fá 25 pró­senta eign­ar­hlut í Bakka­vör.

Bakka­vör Group var stærsta fyr­ir­tæki á Íslandi miðað við veltu árið 2011. Þá nam velta fyr­ir­tæk­is­ins 312 millj­örðum króna og var um 20 millj­örðum króna meiri en hjá Act­a­vis Group, hinum alþjóð­lega ris­anum sem var með höf­uð­stöðvar á Íslandi á þessum tíma. Nú hafa höf­uð­stöðvar beggja fyr­ir­tækj­anna verið færðar úr landi. Til að átta sig á stærð­argráðunni var þriðja stærsta fyr­ir­tæki lands­ins á þeim tíma Mar­el. Velta þess árið 2011 var um 108 millj­arðar króna, eða um þriðj­ungur af því sem Bakka­vör Group velti. Það var því aug­ljós­lega eftir miklu að slægj­ast með því að ná yfir­ráðum yfir Bakka­vör Group.

Slæmur rekstur tryggði fjórð­ungs­hlut

Í upp­hafi árs 2012 var orðið aug­ljóst að for­sendur nauða­samn­ing­anna myndu ekki halda. Hrá­vöru­verð hafði hækkað mikið mán­uð­ina á undan og inn­kaup fyr­ir­tækja innan Bakka­var­ar­sam­stæð­unnar þyngst. Á sama tíma gekk erf­ið­lega fyrir Bakka­vör að velta þessum hækk­unum út í verð á þeim vörum sem sam­steypan fram­leið­ir. Því var ákveðið að breyta kröfum í nýtt hluta­fé. Til að fá bræð­urna til að sam­þykkja þá aðgerð, sem ella hefðu getað haldið Bakka­vör í her­kví fram á sum­arið 2014, var fall­ist á að leyfa þeim að kaupa fjórð­ungs­hlut í félag­inu.

Á aðal­fundi Bakka­varar Group í maí 2012 voru þessar breyt­ingar og ýmsar aðrar sam­þykkt­ar. Í stuttu málið yrði kröfum kröfu­hafa Bakka­varar Group breytt í hlutafé í breska rekstr­ar­fé­lagi sam­stæð­unn­ar, íslenska Bakka­vör Group yrði slitið og bræð­urnir myndu fá að kaupa fjórð­ungs­hlut í breska félag­inu og hlut­hafa­sam­komu­lag sem tryggði þeim meiri­hluta stjórn­ar­manna í Bakka­vör, sem gert hafði verið í aðdrag­anda nauða­samn­inga árið 2010, yrði fellt úr gildi.

Fjórð­ungs­hlut­inn fengu bræð­urnir að kaupa á fjóra millj­arða króna. Innra virði Bakka­varar miðað við eig­in­fjár­stöðu sam­stæð­unnar var um 20 millj­arðar króna og því ljóst að bræð­urnir voru að greiða minna en eina krónu fyrir hverja nafn­virðis krónu. Þeir voru sem sagt að fá góðan samn­ing.

Sá góði vilji sem kröfu­haf­arnir sýndu bræðr­unum á þessum aðal­fundi vakti athygli. Mesta athygli vakti lík­leg­ast að líf­eyr­is­sjóð­irn­ir, sem voru stórir kröfu­haf­ar, hafi sam­þykkt þessa nið­ur­stöðu. Bræð­urnir Lýður og Ágúst höfðu nefni­lega kostað þá meira fé en nokkur ann­ar.

Auk þess virð­ast margir innan líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins vera sam­mála um að skulda­bréfa­út­gáfa Bakka­varar Group hafi verið ein sví­virði­leg­asta mis­notkun á trú­girni og oft á tíðum barns­legri ein­feldni sjóð­anna sem átti sér stað fyrir hrun. Bréfin voru enda seld á tóma skel þar sem allar und­ir­liggj­andi eignir Bakka­varar Group voru veð­settar upp í topp hjá öðrum kröfu­höf­um. Þá er ótalin sú til­raun þeirra að reyna að halda eignum sínum á kostnað kröfu­hafa.

Í kjöl­far aðal­fund­ar­ins fóru bræð­urnir á fullt í að kaupa hlutafé ann­arra hlut­hafa. Og þeir buð­ust til að greiða þeim í reiðu­fé. Til­boðið á þeim tíma var um 70 aurar á hverja nafn­virð­is­krónu. Þeir sem að mál­inu komu á sínum tíma full­yrða að féð sem bræð­urnir buðu hafi ekki verið lánsfé frá fjár­mála­stofn­un­um. Mikið var því rætt um hvaðan þeir hefðu fengið slíka fjár­muni, enda virt­ust þeir til­búnir með marga millj­arða króna í hand­rað­an­um.

Miklar arð­greiðslur til aflands­fé­laga

Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart að Lýður og Ágúst væru með mikið fé á milli hand­anna. Hol­lenska félagið sem þeir áttu, Bakka­bra­edur Hold­ings B.V., sem hélt á eign­ar­hlutum þeirra í Existu og Bakka­vör, hafði greitt þeim miklar arð­greiðslur á upp­gangs­ár­unum fyrir hrun. Í skýrslu rann­sókn­ar­nefndar Alþingis kom fram að það félag hefði verið á meðal þeirra aðila sem þáðu hæstar arð­greiðslur allra félaga í eigu Íslend­inga á þessum tíma. Alls fékk félagið tæpa níu millj­arða króna í arð­greiðslur á árunum 2005 til 2007.

Ágúst og Lýður voru á meðal stærstu eigenda Kaupþings fyrir bankahrun.
Mynd: Úr safni

Afar erfitt hefur verið að nálg­ast upp­lýs­ingar um hvernig þeim arð­greiðslum var ráð­staf­að. DV greindi frá því vorið 2013 að félagið væri enn starf­andi en skuld­aði um 67 millj­arða króna í lok árs 2011. Eignir þess voru nán­ast eng­ar. Undir öllum eðli­legum kring­um­stæðum væri svona félagi, sem aug­ljós­lega var ein­vörð­ungu til utan um hluta­bréfa­eign í Existu sem nú er verð­laus, slit­ið. Í frétt DV kom fram að sam­kvæmt hol­lenskum lögum þurfi tveir kröfu­hafar félaga þar í landi að krefj­ast gjald­þrots yfir því. Eini kröfu­hafi Bakka­bra­edur Hold­ing B.V. sem vitað er um er Arion banki. Bank­inn hafði reynt að ganga á hol­lenska félagið en ekk­ert gengið vegna þessa ákvæðis lag­anna. Bræð­urnir áttu hol­lenska félagið í gegnum kýp­verskt félag, Bakka­bra­edur Hold­ing Stra­tegic Invest­ments Limited. Mikil banka­leynd hefur ríkt á Kýpur og nán­ast ómögu­legt hefur reynst að verða sér úti um árs­reikn­inga félaga sem eru skráð þar.

Í Panama­skjöl­unum

Kjarn­inn greindi frá því um miðjan maí 2016 að Bakka­var­ar­bræð­urnir áttu að minnsta kosti sex félög sem skráð eru til heim­ilis á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um. Þær upp­lýs­ingar eru fengnar úr Panama­skjöl­un­um. Litlar sem engar upp­lýs­ingar eru um hvers konar starf­semi er í félög­unum í skjöl­un­um. Þar er ekki að finna neina lána­samn­inga þeirra við önnur félög, yfir­lit yfir hverjar eignir félag­anna sex hafa verið né hver til­gangur þeirra er. Kjarn­inn sendi Ágústi og Lýð, og Bjarn­freði Ólafs­syni, spurn­ingar um félögin sex í aðdrag­anda þess að málið var opin­ber­að. Þar var meðal ann­ars spurst fyrir um hvaða eignir væru í umræddum félög­um, hvort upp­runi þeirra fjár­muna sem þar eru vistaðir hafi verið á Íslandi og hvort fé hafi farið úr þeim til félaga eða ein­stak­linga á Íslandi.

Þar var einnig spurt hvort eignir félag­anna sex hefðu verið á meðal þeirra eigna sem upp­gefnar voru í skuldupp­gjörum bræðr­anna og félaga í þeirra eigu við kröfu­hafa sem fram hafi farið á und­an­förnum árum. Spurt var af hverju félögin væru með heim­il­is­festi á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um, hvar þau hafi greitt skatta og gjöld og hvort allir skattar og gjöld hafi verið greidd­ir. Engin svör bár­ust við fyr­ir­spurn Kjarn­ans.

Gegn­sæið er þó meira á Íslandi en á Kýpur og í Panama. Í gegnum opin­ber gögn sem send voru inn til fyr­ir­tækja­skrár var því hægt að bræð­urnir virt­ust hafa aðgang að miklu fé. Og þeir komu með það heim til Íslands í unn­vörp­um.

Nýttu sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina

Leiðin sem bræð­urnir not­uðu til að koma fénu heim var fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands. Virði evr­anna sem þeir áttu í erlendum félögum hafði þegar auk­ist um 50 pró­sent í krónum talið vegna geng­is­falls íslensku krón­unnar og fjár­fest­ing­ar­leiðin bauð upp á um 20 pró­senta við­bót­ar­virð­is­aukn­ingu. Þeir voru því mættir á bruna­út­sölu.

Tvö félög í eigu bræðranna, Korkur Invest og BV Fin­ance, voru nýtt í þennan gjörn­ing. BV Fin­ance kom með 463 millj­ónir króna í júlí 2012 og Korkur gaf síðan út skulda­bréf upp á þrjá millj­arða króna í ágúst sama ár og var með heim­ild til að gefa út að minnsta kosti millj­arð til við­bót­ar. Til að fá að taka þátt í fjár­fest­ing­ar­leið­inni þarf að koma með sömu upp­hæð inn í landið án afslátt­ar. Því er ljóst að Lýður og Ágúst fluttu mikið fé inn í íslenskt hag­kerfi árið 2012.

Bræðr­unum varð strax ágengt í þeirri við­leitni sinni að bæta vel við fjórð­ungs­hlut­inn sem þeir fengu til að byrja með. Líf­eyr­is­sjóður Starfs­manna rík­is­ins seldi þeim strax sinn hlut. Haukur Haf­steins­son, fram­kvæmda­stjóri sjóðs­ins, sagði við Frétta­blaðið að til­boðið hefði komið í gegnum ótengdan aðila og að trún­aður ríkti um efni hans fyrst um sinn. Lýður og Ágúst voru ekki þeir einu sem söfn­uðu sér hlutum á þessum tíma, en þeir voru langstór­tæk­ast­ir. Þeir settu sig í sam­band við nokkur smærri fjár­mála­fyr­ir­tæki og létu þau leggja inn til­boð fyrir sig og altalað var á mark­aðnum hverjir stæðu að baki þeim.

Þann 27. sept­em­ber 2012 var síðan hald­inn hlut­hafa­fundur í Bakka­vör Group til að slíta félag­inu. Þegar kom að honum áttu bræð­urnir þegar rúm­lega 30 pró­sent í rekstr­ar­fé­lag­inu sem undir því hvíldi, og ber nú nafnið Bakka­vör Group. Á meðal þeirra aðila sem höfðu einnig selt þeim eign­ar­hluti var þrotabú Glitn­is. Verðið sem þeir voru farnir að greiða fyrir hvern hlut fór þó hægt og bít­andi hækk­andi og var komið yfir eina krónu fyrir hverja nafn­virð­is­krónu.

Í kjöl­far slit­anna mátti ekki lengur stunda við­skipti með „gömlu“ hluta­bréfin í Bakka­vör án und­an­þágu Seðla­bank­ans heldur þurftu slík við­skipti að fara fram í Bret­landi og með hluti í breska rekstr­ar­fé­lag­inu Bakka­vör. Áður en það gerð­ist bættu Lýður og Ágúst þó dug­lega við sig. Þeir keyptu meðal ann­ars hluti Íslands­sjóða (sjóðs­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækis í eigu Íslands­banka), MP banka og minni líf­eyr­is­sjóða. Verðið sem þeir greiddu fyrir var komið upp í meira en 1,5 krónur á hlut. Alls náðu bræð­urnir að tryggja sér um 38 pró­senta hlut með þessum hætti. Þeir sem þekkja vel til á mark­aðnum voru sam­mála um að með­al­verð í öllum þessum við­skiptum hafi verið um ein króna á hlut. Sam­kvæmt því hafa bræð­urnir greitt um átta millj­arða króna fyrir 38 pró­senta hlut sinn.

Þegar Bakka­var­ar­bræður hófu gegnd­ar­laus upp­kaup á hlutum í Bakka­vör mynd­aði hópur íslenskra aðila, fyrrum kröfu­hafa Bakka­varar sem hafði tapað gríð­ar­legum fjár­hæðum á við­skiptum við félag­ið, blokk á móti bræðr­unum með rúm­lega 50 pró­sent eign­ar­hlut. Á meðal þeirra sem til­heyrðu þeirri blokk eru Arion banki, sem átti um 34 pró­sent, Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna og Gildi líf­eyr­is­sjóð­ur. Auk þess voru Almenni líf­eyr­is­sjóð­ur­inn, Sam­ein­aði líf­eyr­is­sjóð­ur­inn og Stafir líf­eyr­is­sjóðir hluti af blokk­inni. For­svars­menn hennar hafa sagt að það sé væg­ast sagt ólík­legt að nokkur þeirra muni selja hlut sinn til bræðr­anna. Aðrir eig­endur í Bakka­vör eru meðal ann­ars vog­un­ar­sjóð­ur­inn Burlington Loan Mana­gement Ltd. sem eign­að­ist um fimm pró­senta hlut með upp­kaupum á kröfum og hluta­fé. Sá sjóður er einnig á meðal stærstu eig­enda Klakka, sem áður hét Exista.

Sögðu norna­veiðar eiga sér stað á Íslandi

Ástandið á milli þess­ara blokka var lengi vel, væg­ast sagt, eld­fimt. Það end­ur­spegl­að­ist vel á fyrsta stjórn­ar­fund­inum sem hald­inn var í Bakka­vör eftir að gamla móð­ur­fé­lag­inu var slitið haustið 2012. Arion-blokkin gerði þar kröfu um að fá að skipa stjórn­ar­for­mann félags­ins, en Lýður Guð­munds­son sat þá í því sæti. Fyrir því færði hún tvenns konar rök: Í fyrsta lagi gengi ekki að bræð­urnir héldu tveimur valda­mestu stöð­unum innan Bakka­var­ar-­sam­stæð­unn­ar, en Ágúst er for­stjóri henn­ar. Í öðru lagi töldu aðilar í blokk­inni í besta falli óþægi­legt að Lýður sæti sem stjórn­ar­for­maður vegna ákæru sem sér­stakur sak­sókn­ari gaf út á hendur honum vegna hluta­fjár­aukn­ingar í Existu, sem hann hlaut síðar dóm. Arion-blokkin taldi að sú staða gæti skaðað félagið í Bret­landi og því væri það Bakka­vör ekki til fram­dráttar að hann gegndi stöð­unni á meðan málið væri leitt til lykta. Bræð­urnir hafa á hinn bóg­inn selt þá sögu í Bret­landi, með góðum árangri, að norna­veiðar eigi sér stað á Íslandi. Þar þurfi að hengja ein­hvern fyrir það sem gerð­ist og þeir, ásamt öðrum, séu fórn­ar­lamb þeirrar kröfu.

Þeir voru ekki sáttir við til­lög­una og bentu á að þeir, sem stærstu ein­stöku eig­endur Bakka­var­ar, ættu rétt á for­manns­sæt­in­u. 

Frá árinu 2013 var unnið að end­ur­fjár­mögnun Bakka­var­ar. Þegar henni yrði lokið átti alltaf að setja félagið í sölu­ferli. Ljóst var á sam­tölum við þá sem höfðu komið að rekstri Bakka­varar fyrir hönd fyrrum kröfu­hafa félags­ins að þá myndu bræð­urnir vilja finna ein­hvern sem er þeim hlið­hollur til að kaupa hlut Arion banka og líf­eyr­is­sjóð­anna. Þeir sem voru stærstir í þeirri blokk sögðu hins vegar alltaf í einka­sam­tölum að þeir myndu vilja selja hæst­bjóð­anda, og ræddu þá um sam­keppn­is­að­ila Bakka­varar á borð við Greencore eða Two Sisters, sem myndu ná ein­hverri sam­þætt­ingu í rekstri sínum með kaup­un­um.

Og þannig stóðu mál þangað til snemma árs 2016.

Eru þátt­tak­endur í íslensku við­skipta­lífi

Í jan­úar 2016 var send til­kynn­ing til fjöl­miðla um að BG12 ehf., félag í eigu Arion banka, Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna, Gildi líf­eyr­is­sjóðs, fleiri minni líf­eyr­is­sjóða og fag­fjár­festa hefði selt 46 pró­sent hlut sinn í breska félag­inu Bakka­vör Group til félags sem er í eigu bræðr­anna Ágústs og Lýðs og banda­rískra fjár­fest­inga­sjóða í stýr­ingu hjá The Baupost­Group L.L.C. Kaup­verðið nam 147 millj­ónum punda, eða 27,3 millj­örðum króna. Sam­ein­aði líf­eyr­is­sjóð­ur­inn og dótt­ur­fé­lag Klakka seldu jafn­framt sinn fimm pró­sent hlut í Bakka­vör Group og má ætla að kaup­verðið hafi verið um þrír millj­arðar króna. Kaup­endur skuld­bundu sig til að leggja fram kauptil­boð í alla aðra útistand­andi hluti í félag­inu, rétt um ell­efu pró­sent, á sömu kjör­um.

Bræð­urnir og með­fjár­festar þeirra höfðu því eign­ast 89 pró­sent í Bakka­vör og skuld­bundið sig til að kaupa þau ell­efu pró­sent sem upp á vant­ar. Kaup­verðið á þeim hluta var um 6,5 millj­arðar króna.

Ágúst og Lýð­ur, ásamt með­fjar­festum sín­um, voru því að kaupa 62 pró­sent hlut í Bakka­vör á 36,8 millj­arða króna. Áður höfðu þeir eign­ast 38 pró­sent fyrir átta millj­arða króna. Virði Bakka­varar hafði því tæp­lega þre­fald­ast frá því að Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins og fleiri seldu bræðr­unum hlut sinn í Bakka­vör Group árið 2012.

Bræð­urnir höfðu end­ur­heimt fyr­ir­tækið sem þeir stofn­uðu á Suð­ur­nesj­unum á níunda ára­tug síð­ustu aldar end­ur­skipu­lagt, end­ur­fjár­magnað og án þess að upp­runa­legir kröfu­hafar þess hafi fengið nema brota­brot af þeim pen­ingum sem þeir lán­uðu eða fjár­festu í félag­inu til baka.

Og 2017 Bakka­vör skráð á markað í Bret­landi. Þá nam verð­mið­inn á því meira en þre­­földu kaup­verði af BG12 ehf., eða rúm­­lega einum millj­­arði punda, jafn­­virði um 159 millj­­arða króna á núvirði.

Bræð­urnir hafa líka stundað við­skipti á Íslandi. Haustið 2017 keyptu þeir, Kvika og hópur ann­arra einka­fjár­festa, færslu­hirð­ing­ar­fyr­ir­tækið Korta­þjón­ust­una á eina krónu eftir að það hafði ratað í alvar­legan lausa­fjár­vanda vegna gjald­þrots breska flug­fé­lags­ins Mon­arch. Sam­hliða lagði þessi hópur fyr­ir­tæk­inu til um 1,5 millj­arð króna í nýtt hluta­fé.

Eft­ir­hrunsárin hafa þó ekki bara verið ein stans­laus sig­ur­ganga. Lýður hlaut átta mán­aða fang­els­is­dóm fyrir sinn hlut í því að senda ranga til­­kynn­ingu til fyr­ir­tækja­­skrár í hinu svo­­kall­aða Exista-­­máli. Þá var til­­kynnt um hluta­fjár­­aukn­ingu upp á 50 millj­­arða í lok árs 2008, en aðeins var greitt fyrir það um einn millj­­arður króna.

Þessi umfjöllun byggir að hluta á bók­inni Kaupt­hink­ing – Bank­inn sem átti sig sjálfur, sem kom út haustið 2018. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar