Jarðvarmi slhf, félag í eigu 14 íslenska lífeyrissjóð, keypti í dag hlut Innergex í HS Orku á 299,9 milljónir dali, eða 37,3 milljarða króna á núvirði. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Innergex til kanadísku kauphallarinnar í dag.
Innergex hefur þar með selt sænsku félagið Magma Sweden til Jarðvarma en Magma á 53,9 prósent hlut í félaginu. Með varð Jarðvarmi eigandi allra hluta í HS Orku, eina íslenska orkufyrirtækinu sem er í einkaeigu eftir að hafa gengið inn í sölu á hlut fjárfestingarsjóðsins ORK fyrr á þessu ári. Samanlagt greiddi Jarðvarmi 47 milljarða króna fyrir hlutina, en þeir nema 66,6 prósent af útgefnu hlutafé í HS Orku. Jarðvarmi var að nýta kauprétt sinn á hlutum í HS Orku en félagið átti áður 33,4 prósent hlut.
Í kjölfarið seldi Jarðvarmi síðan helming hlutafjár í HS orku til breska sjóðsstýringarfyrirtækisins Ancala Partners, sem sérhæfir sig í innviðafjárfestingum í Evrópu og er að stóru leyti fjármagnað af breskum lífeyrissjóðum. Áður en að það var gert tók Jarðvarmi þó 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu út úr orkufyrirtæki og seldi til nýs félags í eigu íslenskra lífeyrissjóða, Blávarma slhf, á 15 milljarða króna. Miðað við það verð er heildarvirði Bláa lónsins 50 milljarðar króna.
Telja spennandi tíma framundan
Í fréttatilkynningu er haft eftir Davíð Rúdólfssyni, stjórnarformanni Jarðvarma og Blávarma, að með viðskiptunum skapist stöðugleiki um eignarhald HS Orku til framtíðar. „Sérfræðiþekking Ancala á sviði endurnýjanlegrar orku og sameiginleg sýn okkar á þau tækifæri sem eru til staðar fyrir HS Orku til lengri tíma gerir Ancala að ákjósanlegum meðeiganda. Fram undan eru spennandi tækifæri við frekari uppbyggingu HS Orku. Þá er Bláa Lónið kjölfesta í íslenskri ferðaþjónustu sem hefur byggt upp sterkt alþjóðlegt vörumerki. Uppbygging síðustu ára skapar tækifæri til enn frekari vaxtar sem eigendur Blávarma hyggjast taka fullan þátt í.“
Lee Mellor, einn meðeiganda Ancala Partners, segir að í rekstri HS Orku deili Ancala og Jarðvarmi sameiginlegri hugmyndafræði þar sem áhersla er lögð á stuðning við stjórnendur, frekari fjárfestingar og samstarf til langs tíma. „HS Orka er ákjósanlegur grunnur til að vinna að frekari verkefnum á hinum áhugaverða vettvangi endurnýjanlegrar orku á Íslandi. Við hlökkum til samstarfsins við Jarðvarma og við stjórnendur HS Orku.“
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir að það sé fagnaðarefni að sölunni sé lokið. „Félagið verður í eigu tveggja öflugra og traustra hluthafa sem hafa skýr áform um stuðning við það og uppbyggingu þess til langframa. Jarðvarmi hefur verið hluthafi í félaginu frá árinu 2011 og stutt það afar vel. Við hlökkum til samstarfs við hluthafana við áframhaldandi uppbyggingu og rekstur félagsins. Viðskiptin eru enn fremur jákvæður vitnisburður um þróun félagsins og það góða starf sem hæft starfsfólk okkar vinnur.“
Aðkomu Beaty fer að ljúka
Með sölunni á Magma Energy Sweden til Jarðvarma lýkur áratugalangri, og um tíma afar umdeildri, aðkomu Kanadamannsins Ross Beaty og fyrirtækja sem hann hefur komið að að þessu þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins.
Beaty, sem hefur verið stjórnarformaður HS Orku árum saman, leiddi uppkaup sænska skúffufyrirtækisins Magma Energy Sweden á hlutum í HS Orku á árunum 2009 og 2010. Þrátt fyrir mikinn pólitískan mótþróa, og umræður um hvort ríkið gæti gengið inn í kaupin eða komið í veg fyrir þau á annan hátt, þá náði hann að kaupa alls 98,53 prósent hlut í orkufyrirtækinu á alls um 33 milljarða króna.
Miðað við verðmiðann sem er á sölunni til Jarðvarma þá er heildarvirði HS Orku nú um 69 milljarðar króna. Fyrirtækið hefur því reynst ágætis fjárfesting fyrir þá sem keyptu það á sínum tíma.
Fyrirtæki Beaty fór síðan í gegnum sameiningar og endaði undir hatti Innergex, sem gekk frá sölunni á hlut sínum í HS Orku í dag.