Endurmetnar afkomuhorfur hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, gera ráð fyrir að afkoma hins opinbera – ríkis og sveitarfélaga – versni að óbreyttu um 40 til 46 milljarða króna á ári.
Höggið er mest á ríkið en ef ekkert verður að gert mun afkoma ríkissjóðs verða 35 milljónum krónum lakari í ár en fyrri afkomuhorfur gerðu ráð fyrir. Sama yrði upp á teningnum á næsta ári.
Til að bregðast við þessari stöðu hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagt fram tillögu um breytingu á fimm ára fjármálastefnu stjórnvalda. Í henni segir að nauðsynlegt verði að grípa til ráðstafana til að bæta afkomu ríkissjóðs. Að óbreyttu megi gera ráð fyrir því að umfang slikra ráðstafana geti numið um sjö milljörðum króna á næsta ári til 25 milljarða króna að þremur árum liðnum. „Þannig endurspegli afkomumarkmið endurskoðaðrar fjármálaáætlunar lægri afkomu í ljósi breyttra efnahagshorfa en jafnframt það stefnumið stjórnvalda að rekstur ríkissjóðs fari ekki í halla við núverandi aðstæður.“
Þetta kemur fram í tillögu um breytingu á fjármálastefnu sem fjármála- og efnahagsráðherra birti í gær.
WOW air og loðnubrestur
Ástæður þess að endurskoða þarf fjármálaáætlun, sem þó var einungis lögð fram í mars síðastliðnum, ætti að vera flestum augljós. Gjaldþrot WOW air í lok mars, sem er lykilbreyta í að gert sé ráð fyrir ellefu prósent fækkun ferðamanna á árinu 2019, er þar lykilbreyta ásamt algjörum aflabresti í loðnuveiðum sem mun leiða til 18 milljarða króna minni útflutnings en árið 2018.
Þessi staða hefur leitt til þess að hagvaxtarspár hafa farið úr því að vera jákvæðar í að vera neikvæðar. Hagstofa Íslands spáir nú 0,2 prósent samdrætti á Íslandi í ár en Seðlabanki Íslands er enn svartsýnni og spáir 0,4 prósent samdrætti. Seðlabankinn hefur auk þess bent á, í fráviksgreiningum í nýjasta hefti Peningamála, að frekari áföll í ferðaþjónustu og áhrif af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, geti aukið neikvæð áhrif umtalsvert á skömmum tíma.
- Tillagan um endurskoðun fjármálastefnunnar, sem birt var í gær, tekur við af þessari þróun. Helstu áherslur hennar eru að:
- Aðhaldsstig opinberra fjármála auki ekki á samdrátt eða hjöðnun hagvaxtar umfram þá aðlögun sem hagkerfið er að ganga í gegnum.
- Gerðar verði viðeigandi afkomubætandi ráðstafanir til að varna því að halli myndist á starfsemi hins opinbera.
- Aðlögun stefnunnar verði ekki það veigamikil að víkja þurfi tímabundið frá tölusettum fjármálareglum laga um opinber fjármál.
- Fellt verði inn í endurskoðaða fjármálastefnu nokkurt svigrúm fyrir lakari framvindu í efnahagsforsendum en áætlunargerðin er reist á, sem ekki verði gengið á af öðrum ástæðum.
- Felldur verði inn í stefnuna ásetningur um að ef efnahagsframvindan verður hagfelldari en nú er spáð verði afgangur á afkomu aukinn í samræmi við auknar tekjur af meiri hagvexti.
Aldrei betri aðstæður til að bregðast við
Í niðurlagi greinargerðar sem fylgir áætluninni er farið yfir að það sé nú gerlegt að bregðast við samdrætti með hætti sem líkast til hefur aldrei áður verið í Íslandssögunni. Þ.e. að staða þjóðarbúsins sé svo sterk að hægt verði að stuðla að mjúkri lendingu og hraðri upprisu inn í næsta hagvaxtarskeið. „Það að gerlegt sé að bregðast við erfiðari aðstæðum en áður var miðað við án þess að afkoma hins opinbera verði neikvæð er til marks um trausta stöðu þjóðarbúsins og þann innri styrk ríkisfjármálanna sem tekist hefur að byggja upp. Þær umbætur í hagkerfinu sem stjórnvöld hafa staðið fyrir á síðustu árum og misserum gera það að verkum að hagkerfið og hið opinbera eru mun betur í stakk búin en áður til að mæta tímabundinni ágjöf.“
Þar segir einnig að samfellt og þróttmikið hagvaxtarskeið undanfarin átta ár hafi skilað heimilunum meiri kaupmáttaraukningu en dæmi séu um áður. „Heimili og fyrirtæki hafa nýtt sér vaxtarskeiðið til að lækka skuldir sínar svo um munar og hafa nú borð fyrir báru. Skuldir sem ríkissjóður axlaði í tengslum við endurreisn fjármálakerfisins hafa verið greiddar upp að fullu og aðrar skuldir vegna hallareksturs í kjölfar falls bankakerfisins hafa einnig verið lækkaðar mikið. Við það og með endurfjármögnun lána á langtum hagstæðari kjörum en boðist hafa til þessa hefur vaxtabyrði ríkissjóðs lækkað til muna. Vegna þessa góða árangurs er hið opinbera nú í ágætri stöðu til að standa af sér tímabundinn mótvind á meðan hagkerfið aðlagast breyttum skilyrðum og fær viðspyrnu fyrir nýtt hagvaxtarskeið.“