Fjármálaeftirlitið (FME) gerði í janúar 2019 athugasemd við að Arion banki hefði ekki metið með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi og að þær upplýsingar hafi ekki verið uppfærðar með reglulegum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka gerðu ráð fyrir. Eftirlitið gerði einnig athugasemd um að Arion banki hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni í tilviki erlends viðskiptavinar, það taldi að reglubundið eftirlit bankans með viðskiptavinum hafi ekki fullnægt kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka né að verklag í tengslum við uppfærslu á upplýsingum um viðskiptavini hafi ekki verið fullnægt. Þá taldi FME að skýrslur Arion banka um grunsamlegar og óvenjulegar færslur hefðu ekki verið fullnægjandi.
Athugasemdirnar voru gerðar í kjölfar þess að FME framkvæmdi athugun á aðgerðum Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Sú athugun hófst með bréfi sem sent var til bankans 3. október 2018. Niðurstaða athugunarinnar lá fyrir í janúar 2019 og var hún byggð á gögnum og upplýsinga miðað við stöðuna eins og hún var á þeim tíma sem athugunin hófst. Niðurstaðan var ekki birt fyrr en 29. maí, að beiðni Arion banka, sem vildi fá að bregðast við úrbótakröfum áður en að hún yrði gerð opinber.
Arion hefur sent áætlun um úrbætur
Í athuguninni var tekið úrtak 27 viðskiptavina Arion banka og framkvæmd áreiðanleikakönnunnar bankans á þeim könnuð. Í niðurstöðu athugunarinnar, sem birt var á miðvikudag á vef FME, segir að eftirlitið hafi gert „athugasemd við að bankinn hefði ekki metið með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi[...]Þá var gerð athugasemd við að upplýsingar um raunverulega eigendur hefðu ekki verið uppfærðar eða upplýsingar ekki verið uppfærðar með reglulegum hætti.“
Þá var gerð athugasemd við að reglubundið eftirlit Arion banka með viðskiptavinum hefði ekki fullnægt kröfum laga, en þess er þó getið að bankinn hafði hafið innleiðingu á nýju kerfi vegna reglubundins eftirlits þegar athugunin fór fram. „Einnig var gerð athugasemd við að verklag í tengslum við uppfærslu á upplýsingum um viðskiptavini hefði ekki fullnægt 6. gr. þágildandi laga nr. 64/2006. Loks var gerð athugasemd við að skýrslur bankans um grunsamlegar og óvenjulegar færslur hefðu ekki verið fullnægjandi, sbr. 3. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 17. gr. þágildandi laga nr. 64/2006.“
Í kjölfar þess að niðurstaðan lá fyrir óskaði FME eftir því við Arion banka að hann fæli innri endurskoðanda sínum að meta úrbætur sem bankinn gerði í kjölfar athuganarinnar og að hann myndi skila skýrslu til eftirlitsins um hvernig þær yrðu framkvæmdar.
Í niðurstöðuskjali FME segir: „ Í skýrslunni kemur fram að bankinn hafi brugðist við öllum útbótakröfum og teljist úrbótum við athugasemdunum lokið í öllum tilfellum nema einu, en bankinn vinnur að því að ljúka úrbótum í tengslum við reglubundið eftirlit. Bankinn hefur sent Fjármálaeftirlitinu áætlun um úrbætur og mun Fjármálaeftirlitið fylgja þeim eftir. Rétt er að taka fram að með hliðsjón af eðli athugunar Fjármálaeftirlitsins og þeirra athugasemda sem gerðar voru féllst stofnunin á beiðni Arion banka hf. um að tilkynning um niðurstöðu athugunarinnar yrði ekki birt fyrr en innri endurskoðun bankans hefði skilað skýrslu um úrbæturnar.“
Ísland fékk falleinkunn
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um slakar varnir Íslendinga gegn peningaþvætti undanfarin misseri. Í byrjun janúar greindi Kjarninn frá því að í fyrravor hafi Ísland fengið aðvörun. Annað hvort myndu stjórnvöld þar taka sig til og innleiða almennilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eða landið myndi verða sett á lista alþjóðlegu samtakanna Financial Action Task Force (FATF) um ósamvinnuþýð ríki.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, var spurður af því í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut 3. október síðastliðinn hvort aðgerðir Íslendinga til að koma í veg fyrir að peningaþvætti hefðu verið viðunandi á undanförnum árum. „Þessu eru auðsvarað,“ sagði Ólafur, „nei það er það ekki.“
Í úttekt samtakanna á stöðu mála Íslandi, sem var gerð opinber í apríl 2018, fengu varnir Íslands gegn peningaþvætti falleinkunn. Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.
Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.
Ný lög tóku gildi
Skýrsla FATF ýtti verulega við málum hérlendis. Það þurfti að bregðast við þessum athugasemdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins yrði tekin upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í desember 2018.
Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, lagði fram frumvarp um ný heildarlög 5. nóvember síðastliðinn. Málið var afgreitt frá efnahags- og viðskiptanefnd 12. desember og síðari tvær umræður kláraðar daginn án annarra ræðuhalda en Brynjars Níelssonar, sem mælti fyrir nefndaráliti um málið sem fulltrúar alla flokka skrifuðu undir.
Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gildi þann 1. janúar 2019.
Í greinargerð með frumvarpinu sagði að nauðsynlegt yrði að fara í heildarendurskoðun á gildandi lögum þar sem gera þarf verulegar úrbætur á lögunum til að uppfylla þær lágmarkskröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi.
Enn á eftir að koma í ljós hvort að hertar aðgerðir Íslendinga muni duga FATF.