Frelsi fjölmiðla til þess að greina frá því sem fram fer í dómsal verður að óbreyttu skert verði frumvarp um ný lög um meðferð einkamála samþykkt. Breytingartillaga sem þingmenn úr þremur stjórnarandstöðuflokkum: Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn, lögðu fram í allsherjar- og menntamálanefnd þess efnis að heimilt yrði að hljóðrita, taka myndir, streyma mynd og hljóði og greina frá því sem sakborningur og vitni skýra frá við skýrslutöku á meðan á henni stendur, með tilteknum frávikum, var felld af meirihluta nefndarinnar.
Bæði Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna höfðu lagst eindregið gegn því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Það höfðu báðar sjónvarpsfréttastofur landsins, einnig gert.
Í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar, sem þingmenn stjórnarflokka mynda ásamt nefndarmanni úr Miðflokknum, segir að meirihlutinn sé þeirrar skoðunar að ofangreint markmið verð að engu ef vitni getur fylgst með skýrslugjöf annarra utan dómsalar í beinni útsendingu. „Meirihlutinn telur að þeir hagsmunir sem eru í húfi í þessum efnum séu mun veigameiri en þeir sem felast í því að unnt verði að greina frá því sem sagt er í skýrslutökum í samtíma[...]Meirihlutinn telur framangreint ekki brjóta í bága við regluna um að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði, enda er ekki verið að takmarka möguleika fjölmiðla eða annarra til að sækja þinghald og fylgjast með því sem þar fer fram.“
Taldi að læra hefði átt af hruninu
Í umsögn Blaðamannafélags Íslands um málið kom fram að það legðist alfarið gegn ákvæðum „í frumvarpinu sem varða frekari hömlur á fjölmiðla til að greina frá því sem fram fer í réttarsölum landsins og getur ekki látið hjá líða að lýsa furðu sinni á þessum tilraunum stjórnvalda til að leggja stein í götu þess að þinghald sé fyrir opnum tjöldum.“
Þar sagði enn fremur: „Dómsmál rata ekki í fréttir nema þau séu fréttnæm og þau eru fréttnæm vegna þess að þau varða mikilvæga hagsmuni í samfélaginu í víðasta samhengi. Hagsmunum hverra hefði það þjónað ef umfjöllun um svonefnd hrunmál í fjölmiðlum hefði verið bundin þeim takmörkunum sem greinir í frumvarpinu? Klárlega ekki hagsmunum íslensks almennings sem bar herkostnaðinn af vanhelgu klíkusambandi viðskipta og stjórnmála í íslensku samfélagi! Þegar horft er í baksýnisspegilinn til þessa tíma er það kannski einmitt yfirgengilegt siðleysið sem sker í augun. Ekkert er betur til þess fallið að vinna bug á siðleysi og klíkumyndunum en gagnsæi og við höfum ekki gagnsæið ef við leggjum stein í götu um ræðunnar um fram það sem brýna nauðsyn ber til.“
Gegn hagsmunum almennings
Í umsögn Félags fréttamanna, sem margir starfsmenn fréttastofu RÚV tilheyra, sagði að meginreglan á Íslandi sé sú að réttarhöld, ekki síst í sakamálum, skulu háð í heyranda hljóði og fyrir opnum tjöldum. „Ein grunnforsenda lýðræðislegrar umræðu er að almenningur hafi aðgang að réttum upplýsingum til að geta mótað sér upplýstar skoðanir á málefnum líðandi stundar. Félagið telur það varða hagsmuni almennings að koma á framfæri upplýsingum um sakborninga og afbrot þeirra. Hagsmunir almennings eru sérstaklega ríkir hvað þetta varðar ef um er að ræða stjórnmálamenn sem brotið hafa af sér.“
Þá taldi félagið að rökin fyrir áðurnefndum breytingum stæðust ekki skoðun. „Ef þeim er ætlað að koma í veg fyrir réttarspjöll nægir ekki að hindra fréttaflutning af málinu. Vitni, sakborningar eða aðrir aðilar máls geta fengið upplýsingar um það sem fer fram í dómsal frá öðrum en fjölmiðlum. Félag fréttamanna telur að frumvarpið dragi úr getu fréttastofu RÚV til þess að sinna þeirri lögbundnu eftirlitsskyldu sinni að veita dómskerfinu aðhald. Dómsvaldið verður að vera sjálfstætt og varið frá öllum pólitískum áhrifum. Þar af leiðandi er aðhald fjölmiðla og almennings lykilatriði. Öll takmörkun á fréttaflutningi af dómsmálum, umfram það sem er nauðsyn krefur þarf því að byggja á sterkum og veigamiklum rökum.“
Fréttastofa RÚV skilaði einnig sérstakri umsögn, sem Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri skrifaði undir. Þar sagði m.a. að það skjóti „ skökku við að á sama tíma og stjórnvöld vilja efla tjáningarfrelsið og frelsi fjölmiðla standi til að hefta möguleika fjölmiðla til að fjalla um dómsmál og málefni dómstóla.“ Fréttastofan lagðist eindregið gegn því að frumvarpið yrði samþykkt með ofangreindum takmörkunum.
Breytingartillögu hafnað
Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar tók upp afstöðu fjölmiðlanna og fagfélaga þeirra. Í áliti hans sagði að umræðan um hvort að takmarka ætti hljóðupptökur, myndatökur og samtímaendursagnir í dómsal væri mjög mikilvæg. „Þar vegast á sjónarmið um réttaröryggi og friðhelgi sakborninga, aðstandenda og vitna annars vegar og mikilvægi opinberrar og gegnsærrar dómsýslu og frjálsrar fjölmiðlunar í almannaþágu hins vegar. Á Íslandi er meginreglan sú að upptökur í dómsal eru bannaðar en dómara er heimilt að veita undanþágu frá því banni ef sérstaklega stendur á. Með 2. og 18. gr. frumvarpsins er þessum reglum breytt þannig að óheimilt verði að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku á meðan á henni stendur.“
Þessu lagðist minnihlutinn gegn og lagði til að frumvarpinu yrði breytt þannig að samtímafrásögn fjölmiðla úr dómssal yrði áfram háð þeim takmörkunum að dómari gæti sérstaklega bannað hana ef sérstaklega stæði á eða hætta þætti á réttarspjöllum, í stað þess að bannið yrði almennt.
Þessari breytingartillögu var hafnað.
Frumvarpið hefur enn ekki verið afgreitt sem lög en það á eftir að fara til þriðju umræðu áður en af því verður.