Mynd: úr safni

Sjálfstæði Grænlands mun verða

Hin 22 ára Aki-Matilda Høegh-Dam er grænlenskur sjálfstæðissinni og komst inn á danskt þing í nýafstöðnum kosningum.

Nýafstaðnar kosningar til danska þingsins þeyttu hinni 22 ára grænlensku Aki-Matilda Høegh-Dam inn á þing. Aki hefur heillað Grænlendinga upp úr skónum og hún er alls kostar óhrædd við að láta skoðun sína í ljós. Aki ræddi við blaðamann Kjarnans um kosningabaráttuna og helstu kosningamál sín: sjálfstæði Grænlands og að berjast gegn barnamisnotkun.

Aki er í grænlenska flokknum Siumut sem fékk 29,4 prósenta atkvæða í kosningunum. Fékk Aki 3.467 atkvæði persónulega, næst á eftir henni var fyrrum forsætisráðherra Grænlands, Aleqa Hammond, með 1.607 atkvæði og komst hún því ekki inn.

Hún segir að í kosningabaráttunni hafi ýmsar tilfinningar komið upp, spenna, hamingja og stress. „Í kosningabaráttunni var mikil áhersla á félagsleg málefni líkt og barnamisnotkun. Ég varð mjög tilfinningarík og á einum tímapunkti byrjaði rödd mín að titra. Ég gat sem betur fer yfirstigið það.“

Við verðum að halda áfram

Baráttan um þingsætin á Grænlandi var hörð, en meginumræða baráttunnar í Grænlandi í ár var um barnamisnotkun. Aki segir umræðuna hafa byrjað eftir að danska heimildarmyndin, Byen hvor børn forsvinder, kom út.

„Ég er glöð að vissu leyti að heimildarmyndin hafi verið gefið út því við verðum að halda áfram að tala um málefnið.“

Aki telur að viss þöggun hafi átt sér stað á danska þinginu og meðal dönsku ríkisstjórnarinnar um barnamisnotkun. „Ég vona að við höldum áfram að tala um þetta mál. Jafnvel þó það væri engin heimildarmynd verðum við að halda áfram að tala um þetta þangað til engin börn verða fyrir kynferðisofbeldi. Við verðum að halda áfram ef við viljum breytingar,“ segir hún.

Þingmaðurinn bendir á að ýmsar danskar stofnanir hafi barist gegn kynferðisofbeldi gegn börnum en þær séu að keppast um fjármagn sín á milli. Hún telur að þetta sé málefni sem ekki ætti að þurfa að keppast um. „Í fyrra voru mótmæli í Nuuk gegn kynferðisofbeldi gegn börnum en enginn hlustaði á okkur sem er mjög sárt. Það var meira að segja grænlensk heimildarmynd gerð um málið en hún fékk ekki viðurkenningu í Danmörku. Ég er ósátt með að það hafi þurft danska mynd til þess, en ég er glöð að fólk hafi byrjað að hlusta.“

Mynd: úr safni

Aki segir mikla umræðu hafa skapast um kynferðisofbeldi í Grænlandi. „Gukki Nuka er ein af mínum fyrirmyndum sem stóð upp og sagði frá kynferðisofbeldi sem hann varð fyrir,“ segir hún. Vinkona hennar hafi einnig búið til myndband þar sem hún sagði frá sögu sinni. Vinkona hennar varð fyrir kynferðisofbeldi og eignaðist barn einungis tólf ára gömul. Hún þurfti síðar að gefa barnið frá sér.

„Þetta kom mér á óvart því ég hafði ekki hugmynd um að hún hefði farið í gegnum þetta. Það fær mann til að skilja að jafnvel þótt maður sé nákominn einhverjum veit maður aldrei hvað fólk hefur gengið í gegnum,“ því sé mikilvægt að tala um málin ef við viljum stöðva misnotkun að mati Aki.

Lög gegn kynferðisofbeldi of slök

„Danska þingið ber ábyrgð á lögum um sakamál. Lög um sakamál eru of slök sem er eitt af því sem við þurfum að berjast fyrir. Jafnvel þótt ásetningurinn sé góður þá virka þau ekki í okkar menningu. Grænlendingar til forna voru afar harðir af sér, þeir vildu fá auga fyrir auga. Það passar ekki með núverandi lögum um sakamál.“

„Við verðum að breyta lögunum svo börn þurfi ekki að sjá gerendur sína mánuði eða tveimur seinna. Þau höfðu hugrekkið til að segja frá misnotkuninni, gerendurnir voru fundir sekir en eru svo lausir allra mála tveimur mánuðum seinna,“ segir Aki.

Dönsk yfirvöld bera ábyrgð

Aki segir jafnréttismál vera eitt af hennar helstu baráttumálum. Hún bendir á að til dæmis fái grænlenskir lögregluþjónar minna greitt en danskir og að lögreglumál séu á ábyrgð danskra yfirvalda. „Ég legg áherslu á hið daglega líf, hvernig við getum bætt það. Dönsk stjórnvöld bera ábyrgð á 36 málefnum sem viðkoma Grænlandi beint. Mörg þeirra hafa verið vanrækt sem skapar mörg vandamál fyrir okkar lífsviðurværi,“ segir hún.

„Ef efnahagur okkar blómstrar er mikilvægt að hafa meiri viðskiptatengsl við önnur ríki. Jafnvel þótt við getum átt í viðskiptum við aðrar þjóðir, þá verða viðskiptin fyrst að fara í gegnum Danmörku. Þetta skapar ýmis vandamál, til dæmis fyrir frumkvöðla.“

Annað vandamál sé öryggi á sjó. Að sögn Aki hafa dönsk yfirvöld skipt út ýmsum bátum sem eiga að sjá um sjóöryggi og björgun út fyrir minni báta. Ýmsum Grænlendingum hafi verið sagt upp í kjölfarið. „Röksemdir danskra stjórnvalda er nútímavæðing [...] við þurfum nútímavæðingu en við þurfum líka stærri báta.“

Verðum að undirbúa okkur undir sjálfstæði

Aki segist munu berjast fyrir sjálfstæði Grænlands. Hins vegar séu fyrrnefnd málefni nátengd sjálfstæðisbaráttunni. „Við viljum opna okkur fyrir heiminum. Við viljum berjast fyrir okkar eigin utanríkisstefnu“ sem sé nú undir Danmörku komin.

„Ef við viljum vera sjálfstæð verðum við að vera tilbúin fyrir sjálfstæði. Við þurfum að tengjast restinni af heiminum sem er það sem sjálfstæði snýst um. Við viljum vera alþjóðlegri sem er það sem fólk misskilur varðandi sjálfstæði og fullveldi. Það snýst ekki bara um að fjarlægja okkur frá Danmörku heldur að færa okkur nær öðrum þjóðum,“ segir Aki. „Við viljum þróa viðskiptakerfið okkar, þróa utanríkisstefnu okkar, því það eykur möguleika okkar á öruggari leið til sjálfstæðis.“

Sjálfstæði mun verða

„Við þurfum að tala um hvað við meinum með sjálfstæði, því við eigum í raun ekki í þeim samræðum. Við þurfum á stjórnarskrá og borgararétti að halda. Við þurfum að hugsa um svoleiðis hluti. Ef við byrjum ekki að undirbúa okkur getum við ekki gert þetta.“

„Við verðum að opna okkur fyrir restinni af heiminum. Við verðum að bæta samskiptin við Danmörku,“ segir hún.

„Sjálfstæði mun verða. Næstum allir grænlenskir flokkar vilja fullveldi á einhverjum tímapunkti. Það er mikilvægt að danskur almenningur viti af því og móðgist ekki. Samskipti okkar verða heilbrigðari og jafnari ef um er að ræða tvö fullvalda ríki.“

Sló út Aleqa Hammond

Í kosningunum sló Aki út fyrrum forsætisráðherra Grænlands, Aleqa Hammond sem kom henni ekki á óvart. „Hún er mjög hæfileikarík kona, hún fór í baráttuna ein síns liðs en það er flokkurinn sem fær atkvæðin að lokum. Ég var með þremur öðrum frambjóðendum og við fengum öll mörg atkvæði. Að því leyti kom þetta mér ekki á óvart.“

Aki er mikill Íslandsvinur og vonar að hún heimsæki Ísland bráðlega. „Vonandi kemst ég á Arctic Circle (Hringborð norðurslóða). Það er frábær vettvangur til að tengjast fólki sem hefur áhuga á norðurslóðum,“ sagði hún að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal