Þrátt fyrir erfiðar og óvenjulegar þinglokaviðræður, málþóf og afgreiðslu nokkurra mála þar sem tekist hefur verið á um grundvallarmálefni þá virðist stöðugleiki ríkja í íslenskum stjórnmálum. Fjölflokkakerfi, þar sem átta til níu flokkar hið minnsta, keppa um hylli kjósenda hefur fest sig í sessi og blokkir sem skilgreinast að mestu eftir frjálslyndi og íhaldssemi farnar að myndast innan þess kerfis. Fylgi flokka virðist, að minnsta kosti undanfarna mánuði, fyrst og síðast færast til innan slíkra blokka.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fengu samtals 52,8 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum. Þeir fengu umtalsverðan byr í seglin fyrstu mánuðina eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð í lok nóvember 2017. Fram á vor 2018 var stuðningur við hana yfir 50 prósent og samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks að jafnaði líka.
Athygli vekur að Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki vera að tapa neinu fylgi á átökum innan hans vegna þriðja orkupakkans svokallaða, en fjölmargir fyrirferðamiklir flokksmenn hafa gagnrýnt afstöðu flokksins í málinu harðlega á opinberum vettvangi. Hinir tveir stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, eru hins vegar að tapa umtalsverðu fylgi milli kannana.
Stóra andstaðan með meira fylgi en ríkisstjórnin
Í samningaviðræðum um þinglok undanfarnar vikur hefur ríkisstjórnin þurft að semja við tvær mismunandi stjórnarandstöður. Önnur hefur samanstaðið af Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Flokki fólksins. Síðastnefndi flokkurinn er reyndar hugmyndafræði ólíkur þremur fyrstnefndu og oft með andstæðar meiningar í grundvallarmálum. Það sást ágætlega til að mynda þegar kosið var um að lengja heimilt þungunarrof til 22 viku meðgöngu og í afstöðu til þriðja orkupakkans. Þessir fjórir flokkar mældust með meira fylgi en ríkisstjórnarflokkarnir þrír í nýjustu könnun MMR, eða 42,5 prósent fylgi.
Séu þeir þrír frjálslyndu miðjuflokkar – Samfylking, Píratar og Viðreisn – sem starfa saman í meirihlutasamstarfi í borgarstjórn Reykjavíkur, starfa þétt saman í stjórnarandstöðu á þingi og vilji er til staðar á meðal forystumanna þeirra um að mynda grunn að næstu ríkisstjórn, þá mælist samanlagt fylgi þeirra 38,3 prósent, eða rúmlega tíu prósentustigum meira en í síðustu kosningum. Fylgi þessara þriggja flokka hefur því aukist um tæp 37 prósent það sem af er kjörtímabili.
Ef niðurstaða kosninga yrði í samræmi við nýjustu könnun MMR myndu þessir flokkar nær örugglega geta myndað ríkisstjórn með Vinstri grænum og endurtekið þar með mynstrið sem er til staðar í Reykjavík, jafnvel þótt slík ríkisstjórn næði ekki að vera með meirihluta atkvæða á bakvið sig.
Mikið dautt fylgi eins og er
Ástæðu þess er meðal annars að finna í því að hvorki Sósíalistaflokkur Íslands (4,4 prósent fylgi) né Flokkur fólksins (4,2 prósent fylgi) næði að kljúfa fimm prósent þröskuldinn að óbreyttu. Auk þess segjast 1,3 prósent aðspurðra í nýjustu könnun MMR að þeir myndu kjósa aðra flokka en þá níu sem annað hvort eiga sæti á Alþingi eða eru nálægt því að mælast með mann þar inni. Samanlagt myndu því tæplega tíu prósent atkvæða falla niður dauð ef niðurstaða kosninga yrði í samræmi við könnun á fylgi flokka nú í júní.
Miðflokkur haggast varla
Miðflokkurinn er sá flokkur sem mesta athygli hefur fengið á stjórnmálasviðinu undanfarin misseri. Flokkurinn hefur staðið einn fyrir fordæmalausu málþófi vegna þriðja orkupakkans og nú er umræða vegna hans orðin sú lengsta í þingsögunni. Það er merkilegt í ljósi þess að sex flokkar, með 52 af 63 þingmönnum, styðja innleiðingu hans.
Miðflokkurinn virðist einnig ætla að skerpa á íhaldssamri sérstöku sinni í ýmsum öðrum málum. Hann lýsti til að mynda yfir andstöðu í málum eins og breytingum á lögum um þungunarrof, gegn tilurð ráðgjafastofu innflytjenda, hlutleysi gagnvart frumvarpi um lækkun virðisaukaskatts á tíðarvörur og nú síðast gerði hann veður út af frumvarpi um kynrænt sjálfræði þegar verið var að semja um þinglok. Ekkert af þessu virðist vera að skila flokknum neinni fylgisaukningu og þvert á móti skreppur fylgið aðeins saman milli kannana, þótt vart sé um marktæka breytingu að ræða. Alls segjast 10,6 prósent kjósenda fylgja Miðflokknum að málum sem er aðeins minna en í síðustu kosningum þegar flokkurinn fékk 10,9 prósent atkvæða.
Sá flokkur sem stendur hugmyndafræðilega næst Miðflokknum er Flokkur fólksins, þótt Klausturmálið og eftirköst þess hafi líkast til gert samstarf þeirra á milli ómögulegt. Samanlagt fylgi þeirra tveggja mælist nú 14,8 prósent en var 17,8 prósent í kosningunum í október 2017.