Tíðavörur loks viðurkenndar sem nauðsyn

„Hvers vegna er verið að skatt­leggja á mér legið?“ spurði Heiða Krist­ín Helga­dótt­ir, þingmaður Bjartrar framtíðar, Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra í nóvember 2015. Nú rúmum þremur árum seinna hefur Alþingi samþykkt að lækka virðisaukaskatt á tíðavörum úr 24 prósentum í 11 prósent.

Alþingi hefur samþykkt að lækka virðisaukaskatt á tíðavörum úr efra þrepi niður í það neðra. Virðisaukaskattur á tíðavörur á borð við dömubindi, túrtappa og álfabikar, lækka því úr 24 prósentum í 11 prósent. Skattlagning tíðavara hefur lengi verið til umræðu hér á landi en frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram þrisvar á Alþingi frá árinu 2015. 

Umræðan á Alþingi kemur í kjölfar þess að á undanförnum árum hafa konur hér á landi og víða um heim krafist þess að stjórnvöld afnemi svokallaðan túrskatt. Túrskattur er skattlagning á tíðavörur á borð við dömubindi og túrtappar en víða um heim eru þessar vörur skattlagðar sem munaðarvörur í stað nauðsynjavara. Vakin hefur verið athygli á því að það að fara á blæðingar sé ekki val og það skjóti því í skökku við að skattleggja þær vörur sem nauðsynlegar eru flestum konum og öðru fólki sem fer á blæðingar sem munað.

Barist fyrir afnámi túrskattsins víða um heim

Nokkur lönd hafa nú þegar afnumið eða lækkað skatt á tíðavörum. Þar á meðal er Kenía en það var fyrsta landið í heimi til afnema skatt á tíðarvörum árið 2004. Önnur lönd sem fylgt hafa á eftir eru Kanada, Írland, Indland og Ástralía. Tíu ríki í Bandaríkjunum hafa einnig lagt af túrskattinn þar á meðal New York fylki og Flórída fylki. 

Í Evrópusambandinu eru Bretland og Kýpur með lægsta skatthlutfallið á tíðavörum í Evrópusambandinu eða í kringum 5 prósent. Aðgerðarsinnar í Bretlandi hafa hins vegar barist fyrir því að skatturinn sé afnumin og skrifuðu 300.000 manns undir undirskriftasöfnun þess efnis. Samkvæmt lögum Evrópusambandsins er hinsvegar bannað að afnema skatt á neysluvörur og því hafa bresk stjórnvöld lofað að lækka túrskattinn í kjölfar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Þangað til rennur skatturinn af tíðavörum í sérstakan sjóð til styrktar heilsu kvenna þar í landi. 

Mynd: Statista

Í Sviss og á Spáni standa nú yfir umræður um skattalækkun á tíðavörum en Sviss stefnir á að lækka túrskattinn niður í 2,5 prósent og Spánn niður í 4 prósent. Fyrir rúmum þremur árum samþykktu frönsk stjórnvöld að lækka skattlagningu á tíðavörum úr 20 prósentum í 5,5 prósent. 

Enn skattleggja þó meirihluti ríkja í Evrópu tíðavörur. Í Ungverjalandi er túrskatturinn hæstur í 27 prósentum, Norðurlöndin fylgja þar þó fast eftir en þar er hann 25 prósent. Þar á eftir kemur Þýskaland með 19 prósent túrskatt. Þá er Írland eina landið sem hefur afnumið álagningu á hreinlætisvörum kvenna.

„Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið?“

Túrskatturinn svokallaður hefur einnig lengi verið til umræðu hér á landi en frumvarp Þórhildar Sunnu, sem samþykkt var á Alþingi á dögunum, var þriðja frumvarpið sem lagt er fram um málið á Alþingi. Fyrsta frumvarpið var lagt fram af átta þingmönnum, allt karlar, í desember 2015 í kjölfar ræðu Heiðu Kristínar Helgadóttir, þingmanns Bjartrar framtíðar, á Alþingi skömmu áður sem vakti mikla athygli. 

Bjarni Benediktsson, fjármálmálaráðherra, hafði í nóvember 2015 kynnt aðgerðir á Alþingi um breytingar á virðisaukaskattkerfinu og af­nám ýmissa vöru­gjalda. Þar á meðal var að virðisaukaskattur á smokka, blei­ur og bleiu­fóður yrði lækkaður en skatt­ur­inn á dömu­bindi, túr­tappa og aðrar hrein­lætis­vör­ur kvenna stóð í stað í 24 prósentum. Heiða Kristín beindi því fyrirspurn til Bjarna í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi og spurði einfaldlega hvers vegna væri verið að skattleggja á henni legið.


Í svari við fyr­ir­spurn Heiðu Krist­ín­ar sagði Bjarni að breyt­ing­ar á virðis­auka­skatt­kerf­inu hafi verið ætlað að létta barna­fjöl­skyld­um inn­kaup. Kerfið yrði aldrei full­gert og alltaf væri hægt að tína til vör­ur sem hægt væri að færa rök fyr­ir því að ættu að vera í hærra eða lægra skattþrepi. Á móti benti Heiða Krist­ín á að ein­mitt þessar vörur, dömubindi og túrtappar, gætu orðið til þess að hjálpa barna­fjöl­skyld­um enda væru þær mikið notaðar af mæðrum. 

Frumvarp þingmannanna hlaut þó ekki afgreiðslu á Alþingi og var lagt aftur fram af varaþingmanni Pírata Oktavíu Hrund Jónsdóttir í mars 2017 en það frumvarp hlaut ekki heldur afgreiðslu.

Ekki lengur skattlagt sem munaðarvara 

Þann 11. júní síðastliðinn samþykkti Alþingi loks frumvarp um að lækka virðisaukaskatt á tíðavörur og getnaðarvarnir úr efra þrepi í það neðra. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem lagt var fram af þingmönnum Pírata, Samfylkingar, Miðflokksins og Flokks fólksins. Við gildistöku laganna mun virðisaukaskattur á tíðavörur á borð við dömubindi, túrtappa og álfabikar, lækka úr 24 prósentum í 11 prósent.  

Auk þess munu allar tegundir getnaðarvarna falla í lægra þrep virðisaukaskatts. Í greinargerð frumvarpsins segir að markmið frumvarpsins sé að stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara, ásamt því að jafna aðstöðumun notanda mismunandi forma getnaðarvarna. 

„Með þessum leiðréttingum færist Ísland nær þeirri þróun sem hefur orðið í öðrum ríkjum með tilliti til aðgengis að nauðsynlegum hreinlætisvörum og getnaðarvörnum á undanförnum árum. Á móti skilar bætt lýðheilsa sparnaði í heilbrigðiskerfinu,“ segir í greinargerðinni.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Bára Huld Beck

Sjálfsögð og eðlileg breyting

Þórhildur Sunna lagði frumvarpið fram í september í fyrra, frumvarpið gekk síðan til efnahags- og viðskiptanefndar í nóvember og óskaði nefndin eftir umsögnum um málið. Fjórum umsögnum var skilað inn, þar á meðal frá Kvenréttindafélagi Íslands og Femínistafélagi Háskóla Íslands.

Kvenréttindafélag Íslands lýsti yfir stuðningi við frumvarpið í umsögn sinni og sagði félagið breytinguna vera sjálfsagða og eðlilega. „Tíðavörur og getnaðarvarnir eru nauðsynjavörur ekki lúxusvörur og virðisaukaskattlagning ætti að taka tillit til þess. Tíðavörur og getnaðarvörur eru vörur sem nauðsynlegar eru flestum konum og öðru fólki sem fer á blæðingar og kostnaður við þær fellur aðallega á konur.“ 

Auk þess benti félagið á að í núgildandi lögum falla smokkar í lægra þrep virðisaukaskatts og að félagið taldi það jafnréttismál að getnaðarvarnir sem nýttar eru af konum séu í sama skattþrepi.

Munar um tæplega 40 milljónir á ári 

Í umsögn Femínistafélag Háskóla Íslands kom fram að félagið fagni því að frumvarpið væri komið í efnislega umræðu eftir að hafa fylgst með framgangi þess í tvö ár. Félagið benti á að frumvarpið væri stórt skref í þá átt að létta efnahagslega byrði kvenna.

„Hver mánuður skiptir íslenskar konur máli þegar kemur að kostnaði tengdum getnaðarvörnum og tíðavörum. Sú einfalda aðgerð að færa getnaðarvarnir og tíðavörur úr efra virðisaukaskattsþrepinu niður í það neðra er stórt skref í áttina að því að létta þá efnahagslegu byrgði kvenna sem þær bera umfram karlmenn líffræði sinnar vegna,“ segir í umsögninni.

Að meðaltali eyðir kona, og annað fólks sem fer á blæðingar, 2535 dögum af ævi sinni á á túr. Ef gert er ráð fyrir að kona verji um 2.000 krónum á mánuði í tíðavörur þá nemur upphæðin um 26.000 krónum á ári. Kostnaður kvenna vegna vegna tíðavara nemur því nærri 1,2 milljónir króna yfir ævina ef miðað er við kona hafi blæðingar í 45 ár af ævi sinni. 

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að enginn kostnaður er áætlaður vegna þessara lagabreytinga, en áætlað tekjutap ríkissjóðs er um 37,9 milljónir króna á ári vegna lækkun virðisaukaskatts á tíðavörum og um fjórar milljónir vegna getnaðarvarna.

Kom til umræða að fella virðisaukaskattinn niður með öllu 

Í nefndaráliti efnahags- og atvinnu nefndarinnar segir að við umfjöllun málsins í nefndinni hafi komið til umræðu hvort tilefni væri til þess að fella virðisaukaskatt af þeim vörum sem frumvarpið varðaði niður með öllu. Hins vegar taldi nefndin að þar sem ekki hafi tíðkast að undanþiggja neysluvörur virðisaukaskatti með öllu hér á landi þá krefðist slík breyting ítarlegri skoðunar. 

Femínistafélag Háskóla Íslands fjallaði um túrfátækt (e.period poverty) í umsögn sinni um frumvarpið. Túrfátækt er þegar stúlkur og konur verða af þátttöku í samfélaginu vegna þess að þær hafi ekki aðgang að tíðavörum sökum fátæktar. 

Túrfátækt hefur meðal annars verið til umræðu í Bretlandi en samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á vegum samtakanna Plan International U, hefur ein af hverjum tíu stúlkum í Bretlandi, á aldrinum 14 til 21 árs, ekki efni á tíðavörum. Auk þess sýna rannsóknir samtakanna að 49 prósent stúlkna á þessum aldri hafa misst dag úr skóla vegna blæðinga. 

Stúlkur á Indlandi mótmæla skömminni sem fylgir því að fara á túr þar í landi.
EPA

Í mars á þessu ári tilkynnti ríkisstjórn Bretlands að ríkið muni fjármagna tíðavörur í öllum breskum grunnskólum og menntaskólum. Aðgerðarsinnin Amika George,sem barist hefur verið útrýmingu túrfátæktar í Bretland, sagði í samtali við BBC að ákvörðun stjórnvalda muni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á fjölda stúlkna. Ríkisstjórn Skotlands tilkynnti jafnframt í fyrra að ríkið myndi veita 5,2 milljóna punda til að bjóða upp á tíðarvörur í skólanum, menntaskólum og háskólum.

Grace Meng, þingkona demókrata, lagði fram tvö frumvörp um túrfátækt í fulltrúadeild bandaríska þingsins í fyrra. Fyrra frumvarpið var lagt fram með það fyrir augum að draga úr þeim kostnaði sem fylgir því að fara á blæðingar. Þar á meðal lagði hún til að skylda fyrirtæki með meira en 100 starfsmenn að bjóða upp á tíðavörur á salernum sínum. Hitt frumvarpið sneri að skyldu framleiðenda að taka fram innihaldsefni í slíkum vörum. 

„Áhugi á málefninu eykst með hverjum degi. Í raun snýst þetta um jafnræði og aðgengi,“ sagði Meng í samtali við New York Times.

Takmörkum ekki þátttöku helmings þjóðarinnar með lélegu aðgengi að hreinlætisvörum

Femínistafélag Háskóla Íslands segir í umsögn sinni að hér á landi sé ekki hægt að álykta að vandamál túrfátæktar sé öðruvísi hér farið en í viðmiðunarlöndum. Félagið lagði því til að Alþingi myndi breyta skilgreiningunni á hugtakinu fullbúin snyrting í lögum um hollustuhætti. Í núverandi reglugerð Umhverfisráðuneytisins um hollustuhætti er fullbúin snyrting skilgreind á eftirfarandi hátt: ,,Fullbúin snyrting er sérstakt snyrtiherbergi með vatnssalerni og handlaug með heitu og köldu vatni, spegli, sápu og handþurrkum.” 

Að mati félagsins eru tíðavörur nauðsynlegar hreinlætisvörur sem aðgengilegar ættu að vera á öllum snyrtingum, hvort sem það er gegn gjaldi eður ei. „Eðlilegast teljum við vera að sama gjaldfrjálsa aðgengi væri að þeim eins og að salernispappír og sápu,“ segir í umsögninni

Þá segir félagið að fjöldi skóla og vinnustaða bjóða þegar upp á einnota tíðavörur á snyrtingum sínum og hafi það gefist mjög vel. Félagið lagði því til að hugtakið ,,fullbúin snyrting” yrði skilgreint í lögum á eftirfarandi hátt: ,,Fullbúin snyrting er sérstakt snyrtiherbergi með vatnssalerni og handlaug með heitu og köldu vatni, spegli, sápu, salernispappír, einnota tíðavörum, og handþurrkum.’’ 

Að mati Femínistafélags HÍ eru tíðavörur nauðsynlegar hreinlætisvörur sem aðgengilegar ættu að vera á öllum snyrtingum, hvort sem það er gegn gjaldi eður ei

Félagið segir að þetta gæti orðið til þess að konur sem fari óvænt á blæðingar geti brugðist við þeim í nærumhverfi sínum. „Við teljum að þetta skref myndi gera almenningsrými á Íslandi að rýmum sem gera frekar ráð fyrir konum og líkömum þeirra í samfélaginu. Þetta myndi verða til þess að stúlkur og konur sem upplifa túrfátækt gætu stundað nám, vinnu, og frístundir áhyggjulausar. Einnig yrði þetta til þess að konur sem fari óvænt á blæðingar geti brugðist við þeim í nærumhverfi sínu án þess að þurfa að fara utan skóla, vinnustaðar, eða þess rýmis þar sem þær eru í leit að tíðavörum,“ segir í umsögninni.

Að lokum segir í umsögninni að félagið vonist til þess að með þessum tillögum geti Ísland tekið ákvörðun um að vera framsýnt kvenvinsamlegt samfélag á heimsmælikvarða. „Sem gerir ráð fyrir því að konur getu verið fullir þátttakendur á öllum sviðum samfélagsins og að við takmörkum þátttöku helmings þjóðarinnar ekki við lélegt aðgengi að hreinlætisvörum.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar