Samkomulag um þinglok náðist loks í dag. Það gerðist eftir að saman náðist milli ríkisstjórnarflokkanna og Miðflokksins um hvernig haldið verður á frekari umfjöllun um þriðja orkupakkann. Auk þess samdist um að fresta gildistöku frumvarps um innflutning á hráu kjöti.
Orkupakkinn verður tekinn fyrir samkvæmt umsaminni málsmeðferð í ágúst og gildistaka afnáms á hömlur á innflutning á frosnu kjöti mun frestast um tvo mánuði.
Engin sérfræðinganefnd skipuð
Samkomulagið er í megindráttum það sama og lá fyrir í lok síðustu viku, en sú breyting er á að krafa Miðflokksins um að skipa sérfræðinganefnd með fulltrúum allra flokka til að fara yfir þriðja orkupakkann, sem hluti þingflokks Sjálfstæðismanna gat ekki sætt sig við, var felld út.
Eftir að hafa staðið í ræðupúlti Alþingis í vel á annað hundrað klukkustundir hefur Miðflokkurinn samið um að...
Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Tuesday, June 18, 2019
Nú verður engin sérfræðinganefnd skipuð nema að Miðflokkurinn ákveði að skipa sína eigin.
Málið hefur leitt af sér mikil átök innan Sjálfstæðisflokksins og nokkrir þungavigtarþingmenn og ráðherrar hafa tekið mjög einarða afstöðu í því sem hefur ekki verið vinsæl alls staðar. Þar ber helst að nefna Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar og dómsmála, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, formann utanríkismálanefndar.
Þau hafa öll lagt umtalsvert undir í stuðningi sínum við framgang málsins á þingi, tekið erfiða slagi og látið skoða það frá mörgum hliðum af allskyns sérfræðingum. Hluti þingflokksins gat því ekki sætt sig við það að gera ætti alla þá vinnu merkingarlausa með því að skipa nýja nefnd til að fara yfir sömu hluti aftur. Það myndi draga úr trúverðugleika ferilsins.
Heimildir Kjarnans herma að Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, og Bergþór Ólason, varaformaður þingflokks Miðflokksins, hafi unnið að lausn síðustu daga. Bergþór var lengi í Sjálfstæðisflokknum og var um tíma aðstoðarmaður ráðherra flokksins. Hann hefur því persónuleg tengsl við marga þar innanborðs sem geta liðkað fyrir lausn mála.
Í morgun voru flestir viðmælendur Kjarnans á þeirri skoðun að niðurstaða væri í augsýn og síðdegis var greint frá því að samkomulag væri í höfn.
Samkvæmt því mun þingstörfum að öllum líkindum ljúka í lok þessarar viku og þingmenn þá komast í sumarfrí.
Hverjir unnu?
Á fimmtudag lá fyrir samkomulag milli fjögurra stjórnarandstöðuflokka og ríkisstjórnarinnar um hvernig þinglokum ætti að vera háttað. Innan þeirra flokka; Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Flokks fólksins, var sú skoðun ráðandi að það fælist ákveðinn sigur í því að láta ríkisstjórnina gera sérstakt samkomulag við Miðflokkinn. Með því væri það gert skýrt að hann væri hennar vandamál, ekki meirihluta stjórnarandstöðunnar, sem vill lítið vita af Miðflokknum. Lítið gekk þó hjá flokkunum að stöðva það mál sem mest hafði verið lagt upp með að reyna að stöðva, frumvarp um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits. Það frumvarp verður afgreitt. Líklegt er að hluti þingmanna Samfylkingar og Viðreisnar hið minnsta muni greiða atkvæði gegn því.
Sú staða sem kom upp í lok síðustu viku, þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, héldu að samkomulag væri í höfn, en að láta það svo stranda í þingflokki Sjálfstæðisflokks, var ríkisstjórnarflokkunum erfið. Þeir leystu þó úr henni yfir helgina.
Viðmælendur innan stjórnarliðsins telja að þeir geti hrósað ákveðnum sigri. Ríkisstjórnin hafi fengið í gegn nær öll sín mál, utan Þjóðarsjóðs sem þorri stjórnarandstöðu hafði sett sig upp á móti. Auk þess hafi náðst að semja um hvernig málsmeðferð orkupakkamálsins verði háttað í ágúst. Þá verði haldnir þrír fundir í utanríkismálanefnd þar sem Miðflokknum gefst kostur á að leggja fram nýjar upplýsingar. Síðan verði málið einfaldlega afgreitt áður en haustþing verður sett í september. Enn sem komið er virðist andstaðan við málið vera bundin við níu þingmenn Miðflokksins, tvo þingmenn Flokks fólksins og Jón Þór Ólafsson, þingmann Pírata. Það er því nokkuð ljóst að málið verður að óbreyttu samþykkt með miklum meirihluta greiddra atkvæða.
Miðflokkurinn hefur hrósað sigri vegna þess að með fordæmalausu málþófi sínu, og síbreytilegum kröfum í þingloksviðræðum, hafi honum tekist að taka til sín umtalsvert dagskrárvald og látið umræðuna snúast um sig. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði við RÚV í dag að nú gæfist tækifæri til að skoða orkupakkamálið betur. „Þó að einhverjir Sjálfstæðismenn hafi ekki viljað skipa þessa formlegu nefnd þá verður hægt að vinna í þessu í sumar og leggja niðurstöðurnar fyrir utanríkismálanefnd, það er mjög jákvætt.“
Þau tvö mál sem hann samdi um frestun á njóta þó eftir sem áður yfirburðarstuðnings í þinginu og verða afgreidd. Orkupakkamálið á framhaldsþingi í sumarlok.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars