Alls lækkaði heildarumfang aflandskrónueigna úr 83,2 milljörðum króna hinn 4. mars 2019 í 68,5 milljarða króna í lok dags 23. maí síðastliðins. Umfangið lækkaði því um 14,7 milljarða króna á tæpum þremur mánuðum. Því voru tæplega 17 prósent aflandskróna færðar út úr íslensku hagkerfi eftir að lög voru samþykkt sem gerðu það að verkum að þær væru lausar. Eigendur meginþorra krónanna völdu að fjárfesta áfram á Íslandi. Þær fjárfestingar eru í innlánum og innstæðubréfum Seðlabanka Íslands, ríkisskuldabréfum, öðrum verðbréfum eða hlutdeildarskírteinum í fjárfestingarsjóðum.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, um málið. Svarið byggir á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.
Seðlabankinn lagði áherslu á að frumvarp yrði samþykkt
Í lok febrúar stóð til að afgreiða frumvarp sem átti að heimila Seðlabanka Íslands að beita þrenns konar heimildum við losun aflandskrónueigna og fól auk þess í sér breytingar á bráðabirgðaákvæði laga um gjaldeyrismál sem varðaði reglur um bindinu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris.
Ástæðan væri sú að þá væri gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa. Ef frumvarpið yrði ekki afgreitt fyrir þann tíma myndi umfang aflandskrónueigna í lausu fé aukast um næstum 70 prósent eða um 25 milljarða króna.
Í umsögn Seðlabanka Íslands sagði enn fremur: „Við það eykst hætta á að stórir aflandskrónueigendur, sem átt hafa sín bréf í samfelldu eignarhaldi frá því fyrir höft og taldir hafa verið líklegir til að endurfjárfesta í íslenskum skuldabréfum þegar þeirra bréf koma á gjalddaga þann 26. febrúar muni í stað þess leita út þegar þeir losna af bundnum reikningum. Það mun hafa tvenns konar áhrif. Í fyrsta lagi mun Seðlabankinn þurfa að eyða mun meiri forða til að koma í veg fyrir gengisfall í tengslum við losun aflandskróna. Í öðru lagi mun draga meira úr framboði erlends fjár á innlendum skuldabréfamarkaði en reiknað var með þegar frumvarpið var samið. Markaðsaðilar hafa kvartað undan skorti á slíku framboði í tengslum við bindingu fjármagnsstreymis inn á skuldabréfamarkað.“
Málþóf í febrúar
Miðflokkurinn lagðist í málþóf á Alþingi gegn því að frumvarpið yrði samþykkt og tafði með því afgreiðslu þess. Þingmenn flokksins héldu því fram að með frumvarpinu væri ríkið að gefa eftir tugi milljarða króna og að skapa hættulegt fordæmi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, sagði að sú upphæð sem hægt væri að sækja til eigenda þessara eigna gæti hæglega numið tugum milljarða króna.
Málþófið varð til þess að frumvarpið var ekki samþykkt fyrr en 28. febrúar og lögin tóku ekki gildi fyrr en 5. mars.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tók einnig til máls og sagði að hann undraðist að ekki væri bros á öllum andlitum til að fagna fyrirhugaðri samþykkt. Það væri stórkostlegt að Ísland væri komið í slíka stöðu og allar ríkisstjórnir frá árinu 2008, frá tíma neyðarlaganna, gætu unað vel við sinn hlut.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í viðtali við sjónvarpsþáttinn 21 á Hringbraut í byrjun mars síðastliðins að útflæðisáhyggjurnar hefðu ekki raungerst. „Okkar von er sú að þetta hafi verið nægjanlega tímanlega til að hún muni ekki raungerast. Auðvitað var þarna einn stór aðili, sem vill bara gjarnan vera hér áfram og er ekki vogunarsjóður á neinn hátt, meira svona gamaldags fjárfestingarsjóður og frekar hægfara í öllu og veltir öllu nákvæmlega fyrir sér. Hann er núna ennþá að skoða þessa stöðu og það er vel opið að hann fari ekki út.“
Samkvæmt svörum fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar hafa eigendur meginþorra aflandskrónanna sem gefnar voru frjálsar í mars ákveðið að halda þeim á Íslandi. Rúmlega 82 prósent þeirra eru hér enn.