Þegar Már Guðmundsson var endurskipaður seðlabankastjóri
Ritstjóri Morgunblaðsins hefur opinberað að fjármála- og efnahagsráðherra hafi bæði gefið það til kynna og sagt ýmsum frá því að hann ætlaði sér ekki að endurskipa Má Guðmundsson sem seðlabankastjóra árið 2014. Þegar hann hafi gert það hafi ráðherrann greint ritstjóranum frá því að skipunin stæði í hæsta lagi til eins árs. Mikil ólga var í Seðlabankanum á þessum tíma vegna meintrar aðfarar að sjálfstæði hans.
Í febrúar 2014 var mikil ólga á meðal starfsmanna Seðlabanka Íslands vegna annars vegar mikillar gagnrýni ráðamanna og fulltrúa þeirra á störf bankans í tengslum við skuldaleiðréttinguna. Sú gagnrýni var harðast sett fram af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þá forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins.
Þann 19. febrúar 2014 tilkynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Má Guðmundssyni seðlabankastjóra að staða hans yrði auglýst til umsóknar, en fimm ára skipunartími Más átti að renna út í júlí sama ár. Heimild var fyrir því að láta skipun Más endurnýjast sjálfkrafa um önnur fimm ár þar sem seðlabankastjórar mega sitja tvö fimm ára tímabil. Þessi dagur í febrúar var síðasti dagurinn sem Bjarni gat ákveðið að auglýsa stöðuna. Daginn eftir hefði ráðning Más endurnýjast sjálfkrafa samkvæmt lögum.
Í fréttaskýringu Kjarnans kom fram að margir viðmælenda hans innan Seðlabanka Íslands óttuðust að ákvörðunin um að auglýsa stöðu seðlabankastjóra lausa til umsóknar væri tilraun til að ganga gegn sjálfstæði bankans og faglegri yfirstjórn hans vegna greiningar hans á áhrifum skuldaleiðréttingarinnar, stærsta einstaka kosningamáli Sigmundar Davíðs og Framsóknarflokksins á þessum tíma. Sumir lykilmanna voru sannfærðir að um hefndaraðgerð væri að ræða. Auk þess stæði til að færa fyrirkomulag yfirstjórnar bankans til þess horfs sem var fyrir hrun, þegar bankastjórarnir voru þrír og hefð hafði skapast fyrir því að stjórnmálamenn væru á meðal þeirra. Skýrustu dæmin um það voru Finnur Ingólfsson, fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, og Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, sem gegndi stöðu formanns bankastjórnar fram á árið 2009.
Opinbera skýringin sem gefin var á því að staðan yrði auglýst var þó önnur. Stjórnvöld höfðu boðað endurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands, og sérstaklega á fyrirkomulagi yfirstjórnar hans, og ætluðu að skipa starfshóp til að leggja mat á æskilegar breytingar. Æskilegt þætti að þau hefðu meira svigrúm en þau töldu að væri til staðar ef Már yrði skipaður í fimm ár til viðbótar.
Í sérstakri umræðu sem fór fram á Alþingi vegna þessa þriðjudaginn 25. febrúar 2014 kom þó fram í máli Bjarna að ólíklegt væri að frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabankann myndi verða lagt fram þá um vorið. Vandséð var því að auglýsing á stöðu hans hefði skapað það svigrúm sem vísað var í sem ástæðu fyrir auglýsingu á starfi hans.
Það áttu síðan eftir að líða rúm fimm ár þangað til að lög um breytingar á Seðlabanka Íslands voru á endanum samþykkt. Það gerðist í liðinni viku þegar slík lög, sem fela í sér sameiningu hans við Fjármálaeftirlitið og fjölgun í yfirstjórn bankans. Samkvæmt lögunum verður einn aðalseðlabankastjóri en þrír varaseðlabankastjórar. Einn mun leiða málefni er varða peningastefnu, einn leiða málefni er varða fjármálastöðugleika og einn leiða málefni er varða fjármálaeftirlit. Varaseðlabankastjórar fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits verða skipaðir eftir tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra. Seðlabankastjórinn og varaseðlabankastjórinn sem fer með peningastefnuna verða skipaðir af forsætisráðherra.
Vöruðu við afleiðingum
Már, og aðrir lykilmenn innan Seðlabanka Íslands, komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í nóvember 2013 og sögðu þar að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs yrði mögulega lækkuð niður í ruslflokk ef sjálfstæði bankans yrði haft að engu og hann skikkaður til að fjármagna skuldaleiðréttingahugmyndir ríkisstjórnarinnar, eins og þá hafði verið viðrað, en framkvæmdin var þá ófjármögnuð. Á endanum var fjármagnið í hana, alls 72,2 milljarðar króna, tekið úr ríkissjóði.
Sigmundur Davíð, þáverandi forsætisráðherra, brást mjög hart við þessum yfirlýsingum Seðlabankans og sagði í sjónvarpsviðtali 18. nóvember sama át að bankinn væri að stunda pólitík frekar en að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Það ætti ekki við um alla sem þar ynnu en nokkrir starfsmenn væru í stöðugri pólitík. Á Viðskiptaþingi, sem fór fram 12. febrúar 2014, flutti Sigmundur Davíð svo þrumuræðu, en sama dag hafði komið fram greining peningastefnunefndar Seðlabanka ÍSlands á mögulegum áhrifum skuldaleiðréttingarinnar á efnahagshorfur. Þar voru áhrifin metin meiri en ráðamenn höfðu sagt þegar þeir kynntu „Leiðréttinguna“ í nóvember árið áður. Í ræðu sinni furðaði Sigmundur Davíð sig á forgangsröðun Seðlabankans og að hann skyldi leggja í mikla vinnu við slíka greiningu „óumbeðinn“. Í frægu sjónvarpsviðtali við Gísla Martein Baldursson, sem fram fór 16. febrúar 2014, sagði Sigmundur Davíð að hann hefði um nokkurt skeið verið ósammála mörgu í stefnu Seðlabankans og að það væri mikilvægara að standa vörð um sjálfstæði hans ef önnur ríkisstjórn en sú sem hann leiddi væri við stjórnvölinn.
Ummæli forsætisráðherrans ollu mikilli reiði á meðal starfsmanna Seðlabankans. Viðmælendur Kjarnans á þeim tíma sögðu að ekki væri hægt að túlka þau öðruvísi en sem alvarlega aðför að sjálfstæði bankans. Auk þess hefðu ummælin vegið að trúverðugleika Seðlabanka Íslands. Þegar við bættist, þremur dögum eftir viðtalið, að Má Guðmundssyni var greint frá því að auglýsa ætti stöðu hans lausa til umsóknar, jókst reiði hluta lykilstarfsmanna til muna. Í samtölum sem blaðamenn Kjarnans áttu við slíka á þessum tíma kom fram að margir þeirra væru að íhuga að segja starfi sínu lausu vegna væringanna.
Líkti brotthvarfi sínu við krossfestingu
Skipan Más Guðmundssonar í stöðu seðlabankastjóra, sem gerð var í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, var ætið þyrnir í síðu margra á hægri væng stjórnmálanna. Már hefur aldrei notið sérstakra vinsælda þar og hefur oft verið skotspónn nafnlausra níðvettvanga þess hólfs stjórnmálanna, bæði á vef og í þeim prentmiðlum sem ganga í takt við þau stjórnmál, sérstaklega með vísun í það að hann hefði aðhyllst marxisma á yngri árum og ætti sér sögu í Alþýðubandalaginu.
Þá hefur sú ákvörðun vinstristjórnarinnar að breyta lögum um Seðlabanka Íslands, sem fól meðal annars í sér að seðlabankastjórum var fækkað úr þremur í einn, ætið verið séð sem bein aðför að Davíð Oddssyni í kreðsum hans. Eina ástæða lagabreytinganna hafi verið að losna við hann úr bankanum, sem gerðist í tíð minnihlutastjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar, sem sat með liðsinni Framsóknarflokks Sigmundar Davíðs, snemma árs 2009 og áður en fyrstu þingkosningar eftirhrunsáranna fóru fram.
Davíð tjáði sig um þessi málalok í frægri ræðu sem hann hélt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok mars 2009. Þar sagði hann meðal annars Jóhönnu Sigurðardóttur vera dálítið eins og álfur út úr hól, að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, ætti drengjamet í að leka upplýsingum í fjölmiðla og líkti starfslokum sínum í Seðlabankanum við krossfestingu Krists. „Þeir þrjótar sem krossfestu Krist létu tvo óbótamenn sitthvoru megin við hann á krossinum. En þegar verklausa minnihlutastjórnin hengdi þrjótinn Davíð, voru það tveir strangheiðarlegir og vandaðir heiðursmenn, sem fengu grátt að gjalda manninum til samlætis[...]Sú lágkúrulega aðgerð sem var gerð til þess að hið pólitíska endaræði yrði ekki eins áberandi er til vitnis um hversu lýðræðisþroski þessa fólks er lítill[...]Útrásarvíkingarnir sem settu Ísland á hliðina áttu eina sameiginlega ósk og hún var að koma Davíð Oddssyni úr Seðlabankanum. Þessa ósk flýtti vinstri stjórnin sér í að uppfylla, væntanlega í þakklætisskyni við víkingana fyrir vel unnin störf í þjóðarþágu."
Davíð segir Bjarna hafa hringt
Már Guðmundsson var á endanum endurskipaður í stól seðlabankastjóri í ágúst 2014 og boðaðar breytingar á yfirstjórn Seðlabankans gengu ekki í gegn. Það vakti þó athygli að þegar Már var endurskipaður þá gaf hann út yfirlýsingu sem birt var á vef bankans.
Í henni sagði að í skipunarbréfi sínu hefði fjármála- og efnahagsráðherra vakið athygli á því að vinna við heildarendurskoðun laga um Seðlabankann væri hafin. Má væri það ljóst að þær breytingar gæti haft í för með sér að endurráðið yrði í yfirstjórn bankans. „Ég tel í þessu sambandi rétt að upplýsa að ég hef í nokkur ár haft hug á að skoða möguleikann á að hverfa á ný til starfa erlendis áður en aldursmörk hamla um of. Ég taldi ekki heppilegt að gera það nú í ljósi ástandsins og verkefnastöðunnar í Seðlabankanum auk fjölskylduaðstæðna. Þetta mun breytast á næstu misserum. Það er því óvíst að ég myndi sækjast eftir endurráðningu komi til slíks ferlis vegna breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands á næstu misserum.“
Um síðustu helgi, tæpum fimm árum eftir að Már var endurráðin, á meðan að frumvörp um breytingar á Seðlabanka Íslands voru enn ósamþykkt á Alþingi og degi áður en Kjarninn greindi fyrstur miðla frá því hvaða fjórir umsækjendur hafi verið metnist hæfastir í kapphlaupinu um að verða eftirmaður Más, birtist Reykjavíkurbréf í Morgunblaðinu skrifað af Davíð Oddssyni. Þar greindi hann frá því að Bjarni Benediktsson hefði „bæði gefið til kynna og sagt ýmsum frá að hann ætlaði sér ekki að endurskipa Má Guðmundsson þegar að því kom árið 2014. Þegar að þessu dró var ráðherrann staddur fyrir norðan, sennilega á Siglufirði, og hringdi í menn og upplýsti þá, og þar á meðal ritstjóra Morgunblaðsins, að vegna óvænts flækjustigs sem upp hefði komið (sem ekki verður farið út í hér) hefði hann ekki náð að gera breytingarnar sem hann hefði margboðað. Hann myndi því skipa Má og skipunarbréfið gæfi til kynna að það yrði til fimm ára. Hins vegar væri sameiginlegur skilningur á því að skipunin stæði í hæsta lagi til eins árs.
Ekki voru endilega allir mjög trúaðir á þennan málatilbúnað. En samkvæmt minnispunktunum sagði ráðherrann efnislega á þessa leið: Þessu mega menn treysta og Már gerir sér grein fyrir þessu og mun birta yfirlýsingu sem í raun staðfestir það sem ég er að segja.“
Sú yfirlýsing var rakin hér að ofan.
Tók fimm ár að endurskoða lögin
Már hætti þó ekki áður en skipunartími hans leið. Þegar hann lætur af störfum í ágúst næstkomandi verða tíu ár liðin frá því að hann tók við stöðunni. Ýmislegt spilaði inn í þá niðurstöðu. Í fyrsta lagi gegndi Seðlabankinn mjög mikilvægu hlutverki í samkomulagi sem gert var við kröfuhafa föllnu bankanna árið 2015 og það var pólitískt mat að rétt væri að Már myndi ljúka þeirri vinnu sem leiddi svo til þess að fjármagnshöft voru rýmkuð.
Í öðru lagi fóru íslensk stjórnmál á hliðina í aprílbyrjun 2016 þegar Panamaskjölin voru opinberuð, Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra og nýjar kosningar voru boðaðar um haustið. Illa gekk að mynda ríkisstjórn eftir þær kosningar og þegar hún varð loks að veruleika í janúar 2017 var búið að færa málefni Seðlabanka Íslands frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu yfir til forsætisráðuneytisins þar sem Bjarni Benediktsson kom sér fyrir. Ríkisstjórn hans sat þó einungis í átta mánuði.
Sú næsta, undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, tók við völdum í lok nóvember 2017. Í stjórnarmyndunarviðræðunum var tekist á um hvar málefni Seðlabanka Íslands ættu að vera. Bjarni vildi fá þau aftur yfir í fjármála- og efnahagsráðuneytið en Katrín vildi halda þeim í forsætisráðuneytinu. Á endanum hafði hún betur en þegar frumvarp um breytingar á Seðlabanka Íslands kom loksins fram í mars 2019 fólst í því að skipum nýrrar yfirstjórnar yrði skipt á milli forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.
Þegar frumvarpið varð loks að lögum, skömmu eftir miðnætti 20. júní síðastliðinn, var ljóst að það tæki því ekki að Már Guðmundsson myndi hætta áður en að skipunartími hans liði undir lok, enda innan við tveir mánuðir eftir af honum.
Efaðist um raunverulegt framboð af kandidötum
Í viðtali við sjónvarpsþáttinn 21 á Hringbraut í mars 2018 sagði Már að hann hafi ætlað sér að losa fjármagnshöftin áður en hann hætti. Eftir stæði „smá aflandskrónustabbi“ sem tæki lungann af árinu 2019 að klára.
Þar sagði Már einnig að honum hlakkaði mjög til að hætta og að fólk geti ekki lengur setið lengi í stóli seðlabankastjóra. „Mitt mat er það að í gamla daga var hægt að vera 30 ár í starfi sem þessu. En það er ekki hægt lengur. Það er tími fyrir allt.“
Már sagði enn fremur að þótt nægt framboð væri af fólki sem taldi sig geta orðið næsti seðlabankastjóri þá væri ekki víst að raunverulegt framboð af kandídötum í starfið væri mikið.
Alls sóttu 16 manns um stöðu seðlabankastjóra þegar hún var auglýst. Kjarninn greindi frá því fyrstur miðla 16. júní síðastliðinn að fjórir umsækjendur hefðu verið metnir mjög vel hæfir af hæfisnefnd. Því stendur valið á næsta seðlabankastjóra á milli þeirra nema eitthvað breytist vegna athugasemda annarra umsækjenda við hæfismat nefndarinnar.
Þeir fjórir sem metnir voru mjög vel hæfir eru Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Jón Daníelsson, prófessor við LSE í London, og Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra og fyrrverandi aðalhagfræðingur og aðstoðarseðlabankastjóri. Allir hafa þeir doktorspróf í hagfræði.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði