Eldri kjósendur yfirgefa Sjálfstæðisflokk – Yngri kjósendum Pírata fækkar
Samfylkingin sækir langmest af fylgi sínu til elstu kjósenda landsins en á í vandræðum með að heilla fólk undir þrítugu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagað stöðu sína hjá ungu fólki en misst mikið fylgi hjá eldri Íslendingum. Ef einungis fólk á þrítugsaldri myndi fá að kjósa þá væru Píratar stærsti flokkur landsins. Miðaldra fólk er hins vegar hrifið af Miðflokknum.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var langstærsti flokkur landsins áratugum saman, og fékk oftast nær 35 til 40 prósent atkvæða, hafði flokkurinn yfirburðastöðu á meðal ungs fólks. Það breyttist eftir hrunið og í könnun MMR sem gerð var í október 2016, nokkrum dögum fyrir kosningar það árið, kom fram að fylgi hans hjá fólki undir þrítugu væri einungis 18 prósent. Ungt fólk var á þeim tíma sá aldurshópur sem Sjálfstæðisflokknum gekk verst að sannfæra að kjósa sig. Eftir því sem fólk varð eldra, því líklegra var það til að setja X við D. Og mestur var stuðningurinn hjá eldri en 68 ára.
Í áðurnefndri könnun MMR frá því í október 2016 kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn, sem þá mældist með 25 prósent fylgi, fengi 34 prósent af fylgi sínu frá kjósendum sem voru 68 ára og eldri.
Í gögnum sem Kjarninn hefur fengið frá MMR, og sýna aldursdreifingu fylgis samkvæmt síðustu tveimur könnun fyrirtækisins, er stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn í þeim aldursflokki búinn að helmingast frá 2016. Alls segjast 17,1 prósent aðspurðra í honum ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í dag. Því má tala um hrun í fylgi flokksins í elsta aldurshópnum.
Heildarfylgi flokksins er mælist þó minna í dag en það gerði 2016, og nokkuð undir kjörfylgi í kosningunum 2017. Alls sögðust að meðaltali 21,8 prósent þátttakenda í könnunum MMR sem birtar voru í lok maí og miðjan júní að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hann er samt sem áður stærsti flokkur landsins, líkt og hann hefur nær alltaf verið. Samanlagður fjöldi svara í könnununum tveimur var 1.914 og fjöldi þeirra sem tóku afstöðu var 1.529.
Samfylkingin væri stærst ef kjósendur væru allir á eftirlaunaaldri
Alls eru fjórir flokkar sem mælast með hlutfallslegt fylgi sem er mun hærra í þessum aldurshópi, eldri en 68 ára, en heildarfylgi þeirra segir til um. Langmestur er munurinn hjá Samfylkingunni, sem væri stærsti flokkur landsins ef einungis fólk á eftirlaunaaldri myndi kjósa, með 24,9 prósent fylgi. Til samanburðar er mælist fylgi flokksins heilt yfir í síðustu tveimur könnunum 13,5 prósent.
Árið 2016 var stuðningur við Samfylkinguna líka mestur hjá elsta aldurshópnum og óx eftir því sem kjósendur voru eldri. Þá var flokkurinn hins vegar að glíma við það að detta nánast út af þingi og heildarfylgi hans mældist 6,1 prósent, eða tæplega helmingur þess sem fylgis sem flokkurinn mælist með í dag. Nokkrum vikum fyrir kosningarnar 2016 sögðust eitt prósent landsmanna undir þrítugu ætla að kjósa Samfylkinguna.
Aðrir flokkar sem njóta vinsælda hjá elstu Íslendingunum umfram vænt heildarfylgi eru Vinstri græn (18,6 prósent í þeim aldurshópi en 12,6 prósent heilt yfir), Framsóknarflokkur (10,5 prósent í þeim aldurshópi en 8,6 prósent heilt yfir) og Flokkur fólksins (7,3 prósent í þeim aldurshópi en 4,2 prósent heilt yfir).
Fylgi Pírata hjá ungu fólk dregst verulega saman
Jákvæðustu fréttirnar fyrir Sjálfstæðisflokkinn eru þær að staða hans hjá fólki undir þrítugu hefur lagast lítillega. Nú segjast 18,5 prósent þeirra sem tilheyra þeim aldurshópi að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði í dag. Flokkurinn hefur aukið hlutdeild sína í ungum kjósendum þrátt fyrir að heildarfylgi hans mælist nú lægra en 2016.
Píratar eru sá flokkur sem nýtur mestrar hylli kjósenda undir þrítugu, þótt forskot flokksins á Sjálfstæðisflokk sé innan skekkjumarka. Alls segjast 18,7 prósent þeirra sem eru á aldrinum 18 til 29 ára að þeir myndu kjósa Pírata ef kosið yrði í dag, miðað við útkomu síðustu tveggja fylgiskannana.
Stuðningur þeirra hjá aldurshópnum hefur dregist verulega saman á undanförnum tveimur árum. Í október 2016 sagðist þriðji hver kjósandi undir þrítugu að hann ætlaði að kjósa Pírata.
Fyrir þessari breytingu eru tvær ástæður: mun færri segjast ætla að kjósa Pírata í dag en ætluðu að gera það í október 2016 og stuðningsmenn flokksins eru nú aðeins normaldreifðari en þá.
Alls eru fjórir flokkar sem njóta meiri stuðnings hjá fólki undir þrítugu en heildarfylgi þeirra segir til um. Auk Pírata eru það Vinstri græn (með 14,4 prósent fylgi í þeim aldurshóp en 12,6 prósent heilt yfir), Viðreisn (10,9 prósent í þeim aldurshópi en 8,9 prósent heilt yfir) og Sósíalistaflokkur Íslands (6,1 prósent í þeim aldurshópi en 4,0 prósent heilt yfir).
Þeir flokkar sem eru með umtalsvert minni stuðning hjá fólki undir þrítugu en heilt yfir er, auk Sjálfstæðisflokks, Samfylkingin (11,0 prósent í þeim aldurshópi en 13,5 prósent heilt yfir) Miðflokkurinn (7,0 prósent í þeim aldurshópi en 10,7 prósent heilt yfir) og Flokkur fólksins (3,5 prósent í þeim aldurshópi en 4,2 prósent heilt yfir).
Flokkar miðaldra fólksins
Sá aldurshópur sem tekst að vera næst heildarfylgi flokka í sinni afstöðu eru landsmenn á fertugs- og fimmtugsaldri. Þar standa Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin aðeins verr en heilt yfir og Viðreisn Píratar aðeins betur en aðrir flokkar eru að mestu á mjög svipuðum slóðum hvað varðar fylgi hjá hópnum og heildarfylgið segir til um.
Þegar kemur að því að skoða aldurshópinn 50 til 67 ára er þó uppi önnur staða. Þar vekur mesta athygli hvað Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkur skera sig úr hvað varðar styrkleika. Um er að ræða sterkasta aldurshópinn hjá báðum þeim flokkum. Flestir frá fimmtugu og fram á eftirlaunaaldurinn segja að þau myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða 25,6 prósent, en heil 17,5 prósent segja að þau myndu kjósa Miðflokkinn. Þetta er eini aldurshópurinn þar sem Miðflokkurinn mælist með hlutfallslega meiri stuðning en heildarfylgi hans, 10,7 prósent, mælist.
Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn eru líka með meira hlutfallslegt fylgi hjá þessum aldurshópi en heildarfylgi segir til um en þar munar mun minna en hjá tveimur áðurnefndu flokkunum.
Vinstri græn (6,8 prósent) og Viðreisn (5,9 prósent) virðast hins vegar eiga lítið upp á pallborðið hjá kjósendum frá fimmtugu og fram á eftirlaunaaldur.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars