Mynd: Birgir Þór Harðarson

Eldri kjósendur yfirgefa Sjálfstæðisflokk – Yngri kjósendum Pírata fækkar

Samfylkingin sækir langmest af fylgi sínu til elstu kjósenda landsins en á í vandræðum með að heilla fólk undir þrítugu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagað stöðu sína hjá ungu fólki en misst mikið fylgi hjá eldri Íslendingum. Ef einungis fólk á þrítugsaldri myndi fá að kjósa þá væru Píratar stærsti flokkur landsins. Miðaldra fólk er hins vegar hrifið af Miðflokknum.

Þegar Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn var langstærsti flokkur lands­ins ára­tugum sam­an, og fékk oft­ast nær 35 til 40 pró­sent atkvæða, hafði flokk­ur­inn yfir­burða­stöðu á meðal ungs fólks. Það breytt­ist eftir hrunið og í könnun MMR sem gerð var í októ­ber 2016, nokkrum dögum fyrir kosn­ingar það árið, kom fram að fylgi hans hjá fólki undir þrí­tugu væri ein­ungis 18 pró­sent. Ungt fólk var á þeim tíma sá ald­urs­hópur sem Sjálf­stæð­is­flokknum gekk verst að sann­færa að kjósa sig. Eftir því sem fólk varð eldra, því lík­legra var það til að setja X við D. Og mestur var stuðn­ing­ur­inn hjá eldri en 68 ára.

Í áður­nefndri könnun MMR frá því í októ­ber 2016 kom fram að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, sem þá mæld­ist með 25 pró­sent fylgi, fengi 34 pró­sent af fylgi sínu frá kjós­endum sem voru 68 ára og eldri.

Í gögnum sem Kjarn­inn hefur fengið frá MMR, og sýna ald­urs­dreif­ingu fylgis sam­kvæmt síð­ustu tveimur könnun fyr­ir­tæk­is­ins, er stuðn­ingur við Sjálf­stæð­is­flokk­inn í þeim ald­urs­flokki búinn að helm­ing­ast frá 2016. Alls segj­ast 17,1 pró­sent aðspurðra í honum ætla að kjósa Sjálf­stæð­is­flokk­inn í dag. Því má tala um hrun í fylgi flokks­ins í elsta ald­urs­hópn­um.

Heild­ar­fylgi flokks­ins er mælist þó minna í dag en það gerði 2016, og nokkuð undir kjör­fylgi í kosn­ing­unum 2017. Alls sögð­ust að með­al­tali 21,8 pró­sent þátt­tak­enda í könn­unum MMR sem birtar voru í lok maí og miðjan júní að þeir myndu kjósa Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Hann er samt sem áður stærsti flokkur lands­ins, líkt og hann hefur nær alltaf ver­ið. ­Sam­an­lagður fjöldi svara í könn­un­unum tveimur var 1.914 og fjöldi þeirra sem tóku afstöðu var 1.529.

Sam­fylk­ingin væri stærst ef kjós­endur væru allir á eft­ir­launa­aldri

Alls eru fjórir flokkar sem mæl­ast með hlut­falls­legt fylgi sem er mun hærra í þessum ald­urs­hópi, eldri en 68 ára, en heild­ar­fylgi þeirra segir til um. Lang­mestur er mun­ur­inn hjá Sam­fylk­ing­unni, sem væri stærsti flokkur lands­ins ef ein­ungis fólk á eft­ir­launa­aldri myndi kjósa, með 24,9 pró­sent fylgi. Til sam­an­burðar er mælist fylgi flokks­ins heilt yfir í síð­ustu tveimur könn­unum 13,5 pró­sent.

Árið 2016 var stuðn­ingur við Sam­fylk­ing­una líka mestur hjá elsta ald­urs­hópnum og óx eftir því sem kjós­endur voru eldri. Þá var flokk­ur­inn hins vegar að glíma við það að detta nán­ast út af þingi og heild­ar­fylgi hans mæld­ist 6,1 pró­sent, eða tæp­lega helm­ingur þess sem fylgis sem flokk­ur­inn mælist með í dag. Nokkrum vikum fyrir kosn­ing­arnar 2016 sögð­ust eitt pró­sent lands­manna undir þrí­tugu ætla að kjósa Sam­fylk­ing­una.

Aðrir flokkar sem njóta vin­sælda hjá elstu Íslend­ing­unum umfram vænt heild­ar­fylgi eru Vinstri græn (18,6 pró­sent í þeim ald­urs­hópi en 12,6 pró­sent heilt yfir), Fram­sókn­ar­flokkur (10,5 pró­sent í þeim ald­urs­hópi en 8,6 pró­sent heilt yfir) og Flokkur fólks­ins (7,3 pró­sent í þeim ald­urs­hópi en 4,2 pró­sent heilt yfir).

Fylgi Pírata hjá ungu fólk dregst veru­lega saman

Jákvæð­ustu frétt­irnar fyrir Sjálf­stæð­is­flokk­inn eru þær að staða hans hjá fólki undir þrí­tugu hefur lag­ast lít­il­lega. Nú segj­ast 18,5 pró­sent þeirra sem til­heyra þeim ald­urs­hópi að þeir myndu kjósa Sjálf­stæð­is­flokk­inn ef kosið yrði í dag. Flokk­ur­inn hefur aukið hlut­deild sína í ungum kjós­endum þrátt fyrir að heild­ar­fylgi hans mælist nú lægra en 2016.

Píratar eru sá flokkur sem nýtur mestrar hylli kjós­enda undir þrí­tugu, þótt for­skot flokks­ins á Sjálf­stæð­is­flokk sé innan skekkju­marka. Alls segj­ast 18,7 pró­sent þeirra sem eru á aldr­inum 18 til 29 ára að þeir myndu kjósa Pírata ef kosið yrði í dag, miðað við útkomu síð­ustu tveggja fylgiskann­ana.

Stuðn­ingur þeirra hjá ald­urs­hópnum hefur dreg­ist veru­lega saman á und­an­förnum tveimur árum. Í októ­ber 2016 sagð­ist þriðji hver kjós­andi undir þrí­tugu að hann ætl­aði að kjósa Pírata.

Fyrir þess­ari breyt­ingu eru tvær ástæð­ur: mun færri segj­ast ætla að kjósa Pírata í dag en ætl­uðu að gera það í októ­ber 2016 og stuðn­ings­menn flokks­ins eru nú aðeins norm­al­dreifð­ari en þá.

Alls eru fjórir flokkar sem njóta meiri stuðn­ings hjá fólki undir þrí­tugu en heild­ar­fylgi þeirra segir til um. Auk Pírata eru það Vinstri græn (með 14,4 pró­sent fylgi í þeim ald­urs­hóp en 12,6 pró­sent heilt yfir), Við­reisn (10,9 pró­sent í þeim ald­urs­hópi en 8,9 pró­sent heilt yfir) og Sós­í­alista­flokkur Íslands (6,1 pró­sent í þeim ald­urs­hópi en 4,0 pró­sent heilt yfir).

Þeir flokkar sem eru með umtals­vert minni stuðn­ing hjá fólki undir þrí­tugu en heilt yfir er, auk Sjálf­stæð­is­flokks, Sam­fylk­ingin (11,0 pró­sent í þeim ald­urs­hópi en 13,5 pró­sent heilt yfir) Mið­flokk­ur­inn (7,0 pró­sent í þeim ald­urs­hópi en 10,7 pró­sent heilt yfir) og Flokkur fólks­ins (3,5 pró­sent í  þeim ald­urs­hópi en 4,2 pró­sent heilt yfir).

Flokkar mið­aldra fólks­ins

Sá ald­urs­hópur sem tekst að vera næst heild­ar­fylgi flokka í sinni afstöðu eru lands­menn á fer­tugs- og fimm­tugs­aldri. Þar standa Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Sam­fylk­ingin aðeins verr en heilt yfir og Við­reisn Píratar aðeins betur en aðrir flokkar eru að mestu á mjög svip­uðum slóðum hvað varðar fylgi hjá hópnum og heild­ar­fylgið segir til um.

Þegar kemur að því að skoða ald­urs­hóp­inn 50 til 67 ára er þó uppi önnur staða. Þar vekur mesta athygli hvað Mið­flokk­ur­inn og Sjálf­stæð­is­flokkur skera sig úr hvað varðar styrk­leika. Um er að ræða sterkasta ald­urs­hóp­inn hjá báðum þeim flokk­um. Flestir frá fimm­tugu og fram á eft­ir­launa­ald­ur­inn segja að þau myndu kjósa Sjálf­stæð­is­flokk­inn, eða 25,6 pró­sent, en heil 17,5 pró­sent segja að þau myndu kjósa Mið­flokk­inn. Þetta er eini ald­urs­hóp­ur­inn þar sem Mið­flokk­ur­inn mælist með hlut­falls­lega meiri stuðn­ing en heild­ar­fylgi hans, 10,7 pró­sent, mælist.

Sam­fylk­ingin og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn eru líka með meira hlut­falls­legt fylgi hjá þessum ald­urs­hópi en heild­ar­fylgi segir til um en þar munar mun minna en hjá tveimur áður­nefndu flokk­un­um.

Vinstri græn (6,8 pró­sent) og Við­reisn (5,9 pró­sent) virð­ast hins vegar eiga lítið upp á pall­borðið hjá kjós­endum frá fimm­tugu og fram á eft­ir­launa­ald­ur.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar