Ríkir og fátækir kjósa mjög mismunandi á Íslandi
Búseta, menntun og tekjur skipta miklu máli þegar stuðningur við stjórnmálaflokka er greindur. Tekjuhæstu hópar landsins myndu kjósa sér allt annars konar ríkisstjórn en þeir sem hafa lægstu tekjurnar. Háskólamenntað fólk hallar sér mun frekar að frjálslyndum flokkum en landsbyggðin mun frekar að íhaldssamari og rótgrónari flokkum.
Ef kjósendur sem búa á Austurlandi myndu einir ráða því hvaða flokkar fengu atkvæði hérlendis myndu Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fá 70,5 prósent allra greiddra atkvæða, í stað 41,1 prósent.
Ef einungis þeir sem eru með háskólapróf fengu að kjósa myndi sameiginlegt fylgi Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar vera 61,3 prósent í stað 49,2 prósent.
Ef einungis fólk sem væri með heimilistekjur yfir 1,2 milljón króna á mánuði hefði kosningarétt væru Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn ekki langt frá því að geta myndað tveggja flokka meirihluta með 44,3 prósent atkvæða, í stað þess að flokkarnir mælast með 30,7 prósent fylgi heilt fyrir þegar allir tekjuhópar eru taldir með. Að sama skapi væri líklega hægt að mynda meirihlutastjórn Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólksins ef einungis þeir sem eru með lægstu tekjurnar – undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði – fengu að greiða atkvæði. Samanlagt fylgi þeirra þriggja væri 49,6 prósent hjá þeim tekjuhópi, en heilt yfir er það 31 prósent.
Þetta er meðal þess sem má lesa út úr gögnum sem Kjarninn hefur fengið hjá MMR og sýna stuðning við stjórnmálaflokka eftir landshlutum, menntun og heimilistekjum. Gögnin eru úr síðustu tveimur könnunum sem MMR hefur gert á fylgi flokka, sem birtar voru í lok maí og um miðjan júní. Samanlagður fjöldi svara í þeim var 1.914 og fjöldi þeirra sem tóku afstöðu var 1.529.
Tekjur ráðandi breyta í stuðningi við Sjálfstæðisflokk
Sjálfstæðisflokkurinn nýtur afgerandi meira fylgis eftir því sem tekjur kjósenda eru hærri. Þannig segjast 15,3 prósent þeirra sem eru með undir 400 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur að þau myndu kjósa flokkinn. Síðan fer stuðningur við hann stighækkandi og mælist hlutfallslega langmestur hjá þeim heimilum sem eru með 1,2 milljónir króna í tekjur eða meira.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins eftir landshlutum er þannig að á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ⅔ hluti landsmanna býr nýtur hann stuðnings 21,2 prósent kjósenda. Hlutfallslega mælist fylgi flokksins mest á Suðurlandi, þar sem 26 prósent kjósenda styðja hann, en minnst á Norðurlandi, þar sem fylgið mælist 20,2 prósent.
Menntun virðist ekki hafa mikið áhrif á fylgi stærsta stjórnmálaflokks landsins. Það er nokkuð jafn eftir því hver æðsta menntun viðkomandi er.
Heilt yfir nýtur Sjálfstæðisflokkurinn 21,8 prósent fylgis samkvæmt samanlögðum niðurstöðum síðustu tveggja kannana MMR á fylgi stjórnmálaflokka, sem gerðar voru í maí og júní.
Lágtekjufólk styður helst Pírata
Píratar eru flokkur lágtekjufólksins á Íslandi. Ef einungis þeir sem væru með undir 400 þúsund krónur á mánuði í heimilstekjur myndu kjósa þá væru Píratar stærsti flokkur landsins með 22,1 prósent fylgi. Í öðrum tekjuhópum mælist stuðningur við flokkinn 11,3 til 14,9 prósent.
Stuðningur við Pírata er langmestur á höfuðborgarsvæðinu (16,3 prósent) og á Vesturlandi/Vestfjörðum (14,7 prósent). Á móti mælist hann mjög lítill á Austurlandi þar sem einungis 4,4 prósent kjósenda segja að þeir myndu kjósa flokkinn.
Menntun virðist ekki skipta máli þegar kjósendahópur Pírata er greindur. Flokkurinn nýtur mest stuðnings hjá háskólamenntuðum (14,9 prósent) en minnst hjá þeim sem hafa lokið skyldunámi í grunnskóla (12,5 prósent).
Allt í allt mældist fylgi Pírata í síðustu tveimur könnunum MMR 14,2 prósent, sem gerir flokkinn að næst stærsta stjórnmálaflokki landsins á eftir Sjálfstæðisflokknum.
Háskólamenntaðir millitekjuhópar kjósa Samfylkingu
Samfylkingin er flokkur sem sækir helst fylgi sitt til millitekjuhópa. Hann nýtur minni stuðnings en heildarfylgi segir til um hjá þeim kjósendum sem eru með heimilistekjur undir 400 þúsund krónur á mánuði og þeim sem eru með meira en 1,2 milljónir króna á mánuði í tekjur.
Hjá þeim heimilum sem eru með 400 til 1.199 þúsund krónur í heildartekjur á mánuði mælist fylgi flokksins hins vegar 14,8 til 16,4 prósent.
Flokkurinn er samkeppnishæfur um fylgi í öllum landshlutum en minnst mælist fylgi hans á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða 10,1 prósent. Mest mælist það hins vegar á Austurlandi, eða 15,4 prósent, sem er lítið eitt minna en fylgið á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 14,1 prósent kjósenda styðja Samfylkinguna.
Menntun er breyta sem skiptir miklu máli þegar fólk ákveður hvort það kjósi Samfylkinguna eða ekki. Þannig segjast 16,5 prósent þeirra sem eru með háskólanám sem æðstu menntun styðja flokkinn en 11,2 prósent þeirra sem hafa mest lokið skyldunámi.
Heildarfylgi Samfylkingarinnar, samkvæmt samanlögðum niðurstöðum síðustu tveggja kannana MMR á fylgi stjórnmálaflokka, sem gerðar voru í maí og júní, mældist 13,5 prósent.
Vinstri græn vinsælust hjá lægsta tekjuhópnum
Vinstri græn njóta ekki mikilla vinsælda hjá þeim hópi kjósenda sem hefur mestar tekjurnar. Einungis 8,6 prósent einstaklinga sem búa á heimilum með yfir 1,2 milljónir króna í mánaðartekjur myndu kjósa flokkinn í dag. Vinstri græn eru hins vegar sá flokkur sem flestir með tekjur undir 400 þúsund krónur á mánuði myndu kjósa, en þar mælist fylgi flokksins 18,5 prósent.
Fylgi Vinstri grænna mælist mest á Norðurlandi (16,2 prósent) og meira á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi/Vestfjörðum en heildarfylgi segir til um. Flokkurinn á hins vegar í sýnilegum vandræðum með að ná til kjósenda á Austurlandi (8,0 prósent fylgi) og á Suðurlandi (6,3 prósent fylgi).
Vinstri græn eru með minni hlutfallslegan stuðning hjá þeim sem eru mest með grunnskóla- eða framhaldsskólamenntun en heilt yfir. Hjá þeim sem eru háskólamenntaðir mælist fylgið hins vegar umtalsvert umfram heildarfylgi. Alls segjast 15,9 prósent þeirra sem eru með slíka að þeir myndu kjósa Vinstri græn ef kosið yrði í dag.
Vinstri græn eru ansi langt frá 16,9 prósent kjörfylgi sínu í könnunum um þessar mundir. Fylgi flokksins samkvæmt samanlagðri niðurstöðu úr síðustu tveimur könnunum MMR mælist 12,6 prósent.
Miðflokkurinn er stærsti flokkurinn á Austurlandi
Miðflokkurinn virðist ná til allra tekjuhópa nokkuð jafnt. Mestur er stuðningurinn hjá lægri millitekjuhópnum (11,6 prósent) og minnstur hjá hátekjuhópnum sem hefur yfir 1,2 milljón króna í mánaðartekjur á heimili (8,4 prósent).
Hann er þó mjög klárlega flokkur sem á meira erindi við kjósendur í hinum dreifðari byggðum en í höfuðborginni og nágrannasveitarfélögum hennar. Á Austurlandi mælist Miðflokkurinn stærsti flokkurinn með 24,2 prósent fylgi, aðeins meira en fylgi bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mælist með. Stuðningur við hann er einnig mikill á Suðurlandi þar sem fylgið mælist 17,3 prósent. Einungis Sjálfstæðisflokkurinn, sem er mjög sterkur í þeim landshluta, er þar stærri.
Heilt yfir mældist fylgi Miðflokksins í könnununum tveimr 10,7 prósent, sem er mjög nálægt kjörfylgi flokksins.
Vel stætt háskólafólk í borginni styður Viðreisn
Viðreisn er mjög augljóslega valkostur sem nýtur vinsælda í hæsta tekjuhópnum, þeim sem hefur yfir 1,2 milljónir króna í heimilistekjur á mánuði. Þar mælist fylgi flokksins 14,6 prósent. Að sama skapi er fylgi flokksins hjá þeim sem þéna samanlagt undir 400 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur mjög lítið, eða 5,9 prósent.
Það blasir líka við að Viðreisn er flokkur sem nær mun betur til háskólamenntaðra en annnarra. Alls segjast 14 prósent háskólamenntaðra að þeir myndu kjósa flokkinn en einungis 3,8 prósent þeirra sem eru með grunnskólamenntun sem æðstu menntun.
Þá er stuðningur við Viðreisn líka afgerandi mestur á höfuðborgarsvæðinu. Það segjast 11,4 prósent að þeir myndu kjósa flokkinn. Stuðningurinn er einnig umtalsverður á Vesturlandi/Vestfjörðum þar sem Viðreisn mælist með 9,5 prósent fylgi. Á Austurlandi (0,0 prósent), Norðurlandi (2,5 prósent) og Suðurlandi (3,4 prósent) virðist erindi Viðreisnar hins vegar ekki vera mikið.
Alls mældist heildarfylgi Viðreisnar í könnununum tveimur sem birtar voru í maí og júní vera 8,9 prósent.
Framsókn er landsbyggðarflokkur
Framsóknarflokkurinn yrði minnsti flokkurinn á Alþingi ef kosið yrði í dag, samkvæmt tölum úr könnunum MMR sem framkvæmdar voru í maí og júní. Flokkurinn myndi fá 8,6 prósent atkvæða, og því er ekki marktækur munur á fylgi hans og Viðreisnar, og yrði sá síðasti til að fara yfir fimm prósent þröskuldinn sem þarf undir nánast öllum kringumstæðum að komast yfir til að ná inn þingmanni.
Fylgis flokksins er nokkuð svipað í milli- og hátekjuhópunum en hann nýtur minnst fylgis allra flokka sem mældir eru hjá þeim sem eru með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði. Einungis 2,7 prósent þeirra sem tilheyra þeim hópi myndu kjósa Framsókn í dag.
Framsóknarflokkurinn er hins vegar sterkur hjá þeim sem hafa lokið skyldunámi í grunnskóla og engu öðru námi, og myndi fá 12,3 prósent atkvæða ef einungis slíkir væru á kjörskrá. Að sama skapi segjast 7,3 prósent þeirra sem eru með háskólapróf að þeir myndu kjósa Framsókn.
Það kemur varla mikið á óvart að stuðningur við Framsóknarflokkinn er umtalsvert meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Hann er næst stærsti flokkurinn á Suðurlandi og Norðurlandi, og sá þriðji stærsti á Austurlandi þar sem munurinn á honum og Sjálfstæðisflokknum, sem er í öðru sæti, er þó vart nokkur. Fylgið þar er á bilinu 17,5 til 23,1 prósent. Framsókn er einnig með meira fylgi en heildarfylgi flokksins segir til um á Vesturlandi/Vestfjörðum, þar sem 13,5 prósent segja að þeir myndu kjósa flokkinn.
Á höfuðborgarsvæðinu mælist staðan hins vegar svört. Einungis 4,5 prósent allra kjósenda í þremur risastórum kjördæmum (Reykjavíkur norður og suður og Suðvesturkjördæmi) segja að þeir myndu kjósa Framsóknarflokkinn ef kosið yrði í dag.
Nær einungis lágtekjufólk kýs Flokk fólksins
Flokkur fólksins myndi ekki ná inn á þing ef kosið yrði í dag. Samkvæmt síðustu tveimur könnunum MMR væri fylgi flokks Ingu Sæland 4,2 prósent. Það kemur lítið á óvart að stuðningur hennar er mestur hjá tekjulægstu hópunum. Raunar mælist hann nær enginn hjá hærri millitekjufólki og hátekjufólki. Þá er fylgi Flokks fólksins nær einungis bundið við fólk sem hefur lokið mest grunnskólaprófi. Einungis 0,9 prósent háskólamenntaðra segja að þeir myndu kjósa flokkinn. Athygli vekur að stuðningur við Flokk fólksins er mestur á Norðurlandi (8,9 prósent) en mælist enginn á Austurlandi og Vesturlandi/Vestfjörðum.
Sósíalistaflokkurinn er að mælast með svipað fylgi, eða 4,0 prósent. Stuðningur við hann er mestur hjá tekjulægstum og í lægri millitekjuhópnum og nánast einvörðungu bundinn við höfuðborgarsvæðið (5,4 prósent). Menntun virðist hins vegar ekki vera mikilvæg breyta á meðal kjósenda Sósíalistaflokksins. Stuðningur við flokkinn er nokkuð jafn eftir menntunarstigi.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars