Bára Huld Beck

Ríkir og fátækir kjósa mjög mismunandi á Íslandi

Búseta, menntun og tekjur skipta miklu máli þegar stuðningur við stjórnmálaflokka er greindur. Tekjuhæstu hópar landsins myndu kjósa sér allt annars konar ríkisstjórn en þeir sem hafa lægstu tekjurnar. Háskólamenntað fólk hallar sér mun frekar að frjálslyndum flokkum en landsbyggðin mun frekar að íhaldssamari og rótgrónari flokkum.

Ef kjós­endur sem búa á Aust­ur­landi myndu einir ráða því hvaða flokkar fengu atkvæði hér­lendis myndu Mið­flokk­ur­inn, Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fá 70,5 pró­sent allra greiddra atkvæða, í stað 41,1 pró­sent.

Ef ein­ungis þeir sem eru með háskóla­próf fengu að kjósa myndi sam­eig­in­legt fylgi Sam­fylk­ing­ar, Vinstri grænna, Pírata og Við­reisnar vera 61,3 pró­sent í stað 49,2 pró­sent.

Ef ein­ungis fólk sem væri með heim­il­is­tekjur yfir 1,2 milljón króna á mán­uði hefði kosn­inga­rétt væru Sjálf­stæð­is­flokkur og Við­reisn ekki langt frá því að geta myndað tveggja flokka meiri­hluta með 44,3 pró­sent atkvæða, í stað þess að flokk­arnir mæl­ast með 30,7 pró­sent fylgi heilt fyrir þegar allir tekju­hópar eru taldir með. Að sama skapi væri lík­lega hægt að mynda meiri­hluta­stjórn Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólks­ins ef ein­ungis þeir sem eru með lægstu tekj­urnar – undir 400 þús­und krónur í heim­il­is­tekjur á mán­uði – fengu að greiða atkvæði. Sam­an­lagt fylgi þeirra þriggja væri 49,6 pró­sent hjá þeim tekju­hópi, en heilt yfir er það 31 pró­sent.

Þetta er meðal þess sem má lesa út úr gögnum sem Kjarn­inn hefur fengið hjá MMR og sýna stuðn­ing við stjórn­mála­flokka eftir lands­hlut­um, menntun og heim­il­is­tekj­um. Gögnin eru úr síð­ustu tveimur könn­unum sem MMR hefur gert á fylgi flokka, sem birtar voru í lok maí og um miðjan júní. Sam­an­lagður fjöldi svara í þeim var 1.914 og fjöldi þeirra sem tóku afstöðu var 1.529.

Tekjur ráð­andi breyta í stuðn­ingi við Sjálf­stæð­is­flokk

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn nýtur afger­andi meira fylgis eftir því sem tekjur kjós­enda eru hærri. Þannig segj­ast 15,3 pró­sent þeirra sem eru með undir 400 þús­und krónur á mán­uði í heim­il­is­tekjur að þau myndu kjósa flokk­inn. Síðan fer stuðn­ingur við hann stig­hækk­andi og mælist hlut­falls­lega lang­mestur hjá þeim heim­ilum sem eru með 1,2 millj­ónir króna í tekjur eða meira.

Fylgi Sjálf­stæð­is­flokks­ins eftir lands­hlutum er þannig að á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, þar sem ⅔ hluti lands­manna býr nýtur hann stuðn­ings 21,2 pró­sent kjós­enda. Hlut­falls­lega mælist fylgi flokks­ins mest á Suð­ur­landi, þar sem 26 pró­sent kjós­enda styðja hann, en minnst á Norð­ur­landi, þar sem fylgið mælist 20,2 pró­sent.

Menntun virð­ist ekki hafa mikið áhrif á fylgi stærsta stjórn­mála­flokks lands­ins. Það er nokkuð jafn eftir því hver æðsta menntun við­kom­andi er.

Heilt yfir nýtur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn 21,8 pró­sent fylgis sam­kvæmt sam­an­lögðum nið­ur­stöðum síð­ustu tveggja kann­ana MMR á fylgi stjórn­mála­flokka, sem gerðar voru í maí og júní.

Lág­tekju­fólk styður helst Pírata

Píratar eru flokkur lág­tekju­fólks­ins á Íslandi. Ef ein­ungis þeir sem væru með undir 400 þús­und krónur á mán­uði í heim­ils­tekjur myndu kjósa þá væru Píratar stærsti flokkur lands­ins með 22,1 pró­sent fylgi. Í öðrum tekju­hópum mælist stuðn­ingur við flokk­inn 11,3 til 14,9 pró­sent.

Stuðn­ingur við Pírata er lang­mestur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu (16,3 pró­sent) og á Vest­ur­land­i/Vest­fjörðum (14,7 pró­sent). Á móti mælist hann mjög lít­ill á Aust­ur­landi þar sem ein­ungis 4,4 pró­sent kjós­enda segja að þeir myndu kjósa flokk­inn.

Menntun virð­ist ekki skipta máli þegar kjós­enda­hópur Pírata er greind­ur. Flokk­ur­inn nýtur mest stuðn­ings hjá háskóla­mennt­uðum (14,9 pró­sent) en minnst hjá þeim sem hafa lokið skyldu­námi í grunn­skóla (12,5 pró­sent).

Allt í allt mæld­ist fylgi Pírata í síð­ustu tveimur könn­unum MMR 14,2 pró­sent, sem gerir flokk­inn að næst stærsta stjórn­mála­flokki lands­ins á eftir Sjálf­stæð­is­flokkn­um.

Háskóla­mennt­aðir milli­tekju­hópar kjósa Sam­fylk­ingu

Sam­fylk­ingin er flokkur sem sækir helst fylgi sitt til milli­tekju­hópa. Hann nýtur minni stuðn­ings en heild­ar­fylgi segir til um hjá þeim kjós­endum sem eru með heim­il­is­tekjur undir 400 þús­und krónur á mán­uði og þeim sem eru með meira en 1,2 millj­ónir króna á mán­uði í tekj­ur.

Hjá þeim heim­ilum sem eru með 400 til 1.199 þús­und krónur í heild­ar­tekjur á mán­uði mælist fylgi flokks­ins hins vegar 14,8 til 16,4 pró­sent.

Flokk­ur­inn er sam­keppn­is­hæfur um fylgi í öllum lands­hlutum en minnst mælist fylgi hans á Vest­ur­landi og Vest­fjörð­um, eða 10,1 pró­sent. Mest mælist það hins vegar á Aust­ur­landi, eða 15,4 pró­sent, sem er lítið eitt minna en fylgið á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, þar sem 14,1 pró­sent kjós­enda styðja Sam­fylk­ing­una.

Menntun er breyta sem skiptir miklu máli þegar fólk ákveður hvort það kjósi Sam­fylk­ing­una eða ekki. Þannig segj­ast 16,5 pró­sent þeirra sem eru með háskóla­nám sem æðstu menntun styðja flokk­inn en 11,2 pró­sent þeirra sem hafa mest lokið skyldu­námi.

Heild­ar­fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sam­kvæmt sam­an­lögðum nið­ur­stöðum síð­ustu tveggja kann­ana MMR á fylgi stjórn­mála­flokka, sem gerðar voru í maí og júní, mæld­ist 13,5 pró­sent.

Vinstri græn vin­sælust hjá lægsta tekju­hópnum

Vinstri græn njóta ekki mik­illa vin­sælda hjá þeim hópi kjós­enda sem hefur mestar tekj­urn­ar. Ein­ungis 8,6 pró­sent ein­stak­linga sem búa á heim­ilum með yfir 1,2 millj­ónir króna í mán­að­ar­tekjur myndu kjósa flokk­inn í dag. Vinstri græn eru hins vegar sá flokkur sem flestir með tekjur undir 400 þús­und krónur á mán­uði myndu kjósa, en þar mælist fylgi flokks­ins 18,5 pró­sent.

Fylgi Vinstri grænna mælist mest á Norð­ur­landi (16,2 pró­sent) og meira á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og á Vest­ur­land­i/Vest­fjörðum en heild­ar­fylgi segir til um. Flokk­ur­inn á hins vegar í sýni­legum vand­ræðum með að ná til kjós­enda á Aust­ur­landi (8,0 pró­sent fylgi) og á Suð­ur­landi (6,3 pró­sent fylg­i).

Vinstri græn eru með minni hlut­falls­legan stuðn­ing hjá þeim sem eru mest með grunn­skóla- eða fram­halds­skóla­menntun en heilt yfir. Hjá þeim sem eru háskóla­mennt­aðir mælist fylgið hins vegar umtals­vert umfram heild­ar­fylgi. Alls segj­ast 15,9 pró­sent þeirra sem eru með slíka að þeir myndu kjósa Vinstri græn ef kosið yrði í dag.

Vinstri græn eru ansi langt frá 16,9 pró­sent kjör­fylgi sínu í könn­unum um þessar mund­ir. Fylgi flokks­ins sam­kvæmt sam­an­lagðri nið­ur­stöðu úr síð­ustu tveimur könn­unum MMR mælist 12,6 pró­sent.

Mið­flokk­ur­inn er stærsti flokk­ur­inn á Aust­ur­landi

Mið­flokk­ur­inn virð­ist ná til allra tekju­hópa nokkuð jafnt. Mestur er stuðn­ing­ur­inn hjá lægri milli­tekju­hópnum (11,6 pró­sent) og minnstur hjá hátekju­hópnum sem hefur yfir 1,2 milljón króna í mán­að­ar­tekjur á heim­ili (8,4 pró­sent).

Hann er þó mjög klár­lega flokkur sem á meira erindi við kjós­endur í hinum dreifð­ari byggðum en í höf­uð­borg­inni og nágranna­sveit­ar­fé­lögum henn­ar. Á Aust­ur­landi mælist Mið­flokk­ur­inn stærsti flokk­ur­inn með 24,2 pró­sent fylgi, aðeins meira en fylgi bæði Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokkur mælist með. Stuðn­ingur við hann er einnig mik­ill á Suð­ur­landi þar sem fylgið mælist 17,3 pró­sent. Ein­ungis Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, sem er mjög sterkur í þeim lands­hluta, er þar stærri.

Heilt yfir mæld­ist fylgi Mið­flokks­ins í könn­un­unum tveimr 10,7 pró­sent, sem er mjög nálægt kjör­fylgi flokks­ins.

Vel stætt háskóla­fólk í borg­inni styður Við­reisn

Við­reisn er mjög aug­ljós­lega val­kostur sem nýtur vin­sælda í hæsta tekju­hópn­um, þeim sem hefur yfir 1,2 millj­ónir króna í heim­il­is­tekjur á mán­uði. Þar mælist fylgi flokks­ins 14,6 pró­sent. Að sama skapi er fylgi flokks­ins hjá þeim sem þéna sam­an­lagt undir 400 þús­und krónur á mán­uði í heim­il­is­tekjur mjög lít­ið, eða 5,9 pró­sent.

Viðreisn, flokkur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, og Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar á upp á pallborðið hjá tekjuháum landsmönnum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Það blasir líka við að Við­reisn er flokkur sem nær mun betur til háskóla­mennt­aðra en annnarra. Alls segj­ast 14 pró­sent háskóla­mennt­aðra að þeir myndu kjósa flokk­inn en ein­ungis 3,8 pró­sent þeirra sem eru með grunn­skóla­menntun sem æðstu mennt­un.

Þá er stuðn­ingur við Við­reisn líka afger­andi mestur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Það segj­ast 11,4 pró­sent að þeir myndu kjósa flokk­inn. Stuðn­ing­ur­inn er einnig umtals­verður á Vest­ur­land­i/Vest­fjörðum þar sem Við­reisn mælist með 9,5 pró­sent fylgi. Á Aust­ur­landi (0,0 pró­sent), Norð­ur­landi (2,5 pró­sent) og Suð­ur­landi (3,4 pró­sent) virð­ist erindi Við­reisnar hins vegar ekki vera mik­ið.

Alls mæld­ist heild­ar­fylgi Við­reisnar í könn­un­unum tveimur sem birtar voru í maí og júní vera 8,9 pró­sent.

Fram­sókn er lands­byggð­ar­flokkur

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn yrði minnsti flokk­ur­inn á Alþingi ef kosið yrði í dag, sam­kvæmt tölum úr könn­unum MMR sem fram­kvæmdar voru í maí og júní. Flokk­ur­inn myndi fá 8,6 pró­sent atkvæða, og því er ekki mark­tækur munur á fylgi hans og Við­reisn­ar, og yrði sá síð­asti til að fara yfir fimm pró­sent þrösk­uld­inn sem þarf undir nán­ast öllum kring­um­stæðum að kom­ast yfir til að ná inn þing­manni.

Fylgis flokks­ins er nokkuð svipað í milli- og hátekju­hóp­unum en hann nýtur minnst fylgis allra flokka sem mældir eru hjá þeim sem eru með undir 400 þús­und krónur í heim­il­is­tekjur á mán­uði. Ein­ungis 2,7 pró­sent þeirra sem til­heyra þeim hópi myndu kjósa Fram­sókn í dag.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er hins vegar sterkur hjá þeim sem hafa lokið skyldu­námi í grunn­skóla og engu öðru námi, og myndi fá 12,3 pró­sent atkvæða ef ein­ungis slíkir væru á kjör­skrá. Að sama skapi segj­ast 7,3 pró­sent þeirra sem eru með háskóla­próf að þeir myndu kjósa Fram­sókn.

Það kemur varla mikið á óvart að stuðn­ingur við Fram­sókn­ar­flokk­inn er umtals­vert meiri á lands­byggð­inni en á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Hann er næst stærsti flokk­ur­inn á Suð­ur­landi og Norð­ur­landi, og sá þriðji stærsti á Aust­ur­landi þar sem mun­ur­inn á honum og Sjálf­stæð­is­flokkn­um, sem er í öðru sæti, er þó vart nokk­ur. Fylgið þar er á bil­inu 17,5 til 23,1 pró­sent. Fram­sókn er einnig með meira fylgi en heild­ar­fylgi flokks­ins segir til um á Vest­ur­land­i/Vest­fjörð­um, þar sem 13,5 pró­sent segja að þeir myndu kjósa flokk­inn.

Á höf­uð­borg­ar­svæð­inu mælist staðan hins vegar svört. Ein­ungis 4,5 pró­sent allra kjós­enda í þremur risa­stórum kjör­dæmum (Reykja­víkur norður og suður og Suð­vest­ur­kjör­dæmi) segja að þeir myndu kjósa Fram­sókn­ar­flokk­inn ef kosið yrði í dag.

Nær ein­ungis lág­tekju­fólk kýs Flokk fólks­ins

Flokkur fólks­ins myndi ekki ná inn á þing ef kosið yrði í dag. Sam­kvæmt síð­ustu tveimur könn­unum MMR væri fylgi flokks Ingu Sæland 4,2 pró­sent. Það kemur lítið á óvart að stuðn­ingur hennar er mestur hjá tekju­lægstu hóp­un­um. Raunar mælist hann nær eng­inn hjá hærri milli­tekju­fólki og hátekju­fólki. Þá er fylgi Flokks fólks­ins nær ein­ungis bundið við fólk sem hefur lokið mest grunn­skóla­prófi. Ein­ungis 0,9 pró­sent háskóla­mennt­aðra segja að þeir myndu kjósa flokk­inn. Athygli vekur að stuðn­ingur við Flokk fólks­ins er mestur á Norð­ur­landi (8,9 pró­sent) en mælist eng­inn á Aust­ur­landi og Vest­ur­land­i/Vest­fjörð­um.

Sós­í­alista­flokk­ur­inn er að mæl­ast með svipað fylgi, eða 4,0 pró­sent. Stuðn­ingur við hann er mestur hjá tekju­lægstum og í lægri milli­tekju­hópnum og nán­ast ein­vörð­ungu bund­inn við höf­uð­borg­ar­svæðið (5,4 pró­sent). Menntun virð­ist hins vegar ekki vera mik­il­væg breyta á meðal kjós­enda Sós­í­alista­flokks­ins. Stuðn­ingur við flokk­inn er nokkuð jafn eftir mennt­un­ar­stigi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar