Stuðningur við ríkisstjórnina mestur hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks
Fleiri væntanlegir kjósendur Vinstri grænna styðja ríkisstjórnina en þeir sem segjast ætla að kjósa Framsóknarflokkinn. Stuðningur við hana á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins hefur aukist síðustu vikur. Stuðningur við ríkisstjórnina eykst eftir því sem fólk verður eldra og tekjur þeirra hækka. Einungis rúmlega 30 prósent tekjulægstu landsmanna styðja hana.
Fleiri væntanlegir kjósendur Vinstri grænna styðja ríkisstjórnina en þeir sem segjast ætla að kjósa Framsóknarflokkinn. Stuðningur við hana á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins hefur aukist síðustu vikur. Stuðningur við ríkisstjórnina eykst eftir því sem fólk verður eldra og tekjur þeirra hækka. Einungis rúmlega 30 prósent tekjulægstu landsmanna styðja hana.
Alls segjast 94,4 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins styðja sitjandi ríkisstjórn undir forsætis Katrínar Jakobsdóttur. Stuðningur kjósenda hans hefur aukist síðustu vikur, á sama tíma og átök vegna þriðja orkupakkans á meðal flokksmanna Sjálfstæðisflokks hafa orðið harkalegri.
Þetta kemur fram í gögnum sem Kjarninn hefur fengið hjá MMR um hvernig stuðningur við ríkisstjórn skiptist á milli flokka og hópa. Gögnin ná yfir tvær síðustu fylgiskannanir sem MMR hefur gert, sem birtar voru 14. júní og 29. maí.
Í gær birti MMR könnun sem sýndi að 48 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru andvígir því að þriðji orkupakki Evrópusambandsins taki gildi á Íslandi. Þingflokkur og forysta flokksins styður hins vegar innleiðinguna, líkt og hinir stjórnarflokkarnir og mikill meirihluti stjórnarandstöðunnar, og til stendur að afgreiða hana í lög í byrjun september. Andstaða kjósenda Sjálfstæðisflokksins við orkupakkamálið virðist hvorki minnka stuðning þeirra við ríkisstjórnina né hafa nein áhrif á fylgi flokksins. Það hefur vart haggast frá því í apríl.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist þó umtalsvert minna en það sem hann fékk upp úr kjörkössunum í október 2017. Þá kusu 25,2 prósent kjósenda flokkinn en fylgi hans í síðustu tveimur fylgiskönnunum MMR mælist 21,8 prósent.
Minni stuðningur hjá kjósendum VG og Framsóknar
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist minni hjá kjósendum hinna stjórnarflokkanna tveggja, Vinstri grænna og Framsóknar, en hjá Sjálfstæðisflokknum. Á meðal stuðningsmanna Vinstri grænna mælist stuðningur við ríkisstjórn undir forsæti formanns flokksins 85,2 prósent. Þess má þó geta að fylgi Vinstri grænna heilt yfir hefur dalað umtalsvert frá síðustu kosningum, þegar flokkurinn fékk 16,9 prósent atkvæða. Fylgi flokksins samkvæmt samanlögðum niðurstöðum síðustu tveggja kannana MMR mælist 12,6 prósent. Því hefur flokkurinn tapað um fjórðungi kjósenda sinna frá því í október 2017, miðað við niðurstöðu kannana.
Kjósendur Framsóknarflokksins eru ólíklegastir allra kjósenda stjórnarflokka til að styðja ríkisstjórnina. Alls segjast 80,2 prósent þeirra gera slíkt sem þýðir að fimmtungur kjósenda flokksins eru henni mótfallnir. Framsóknarflokkurinn hefur einnig glatað umtalsverðum fjölda kjósenda frá síðustu kosningunum, þegar flokkurinn fékk 10,7 prósent atkvæða. Samkvæmt gögnum úr síðustu tveimur könnunum MMR er fylgi flokksins nú 8,6 prósent, eða um fimmtungi minna en í kosningunum 2017.
Vart þarf að koma á óvart að meginþorri kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna fimm styðja ekki ríkisstjórnina. Það eru helst kjósendur Viðreisnar sem virðast sumir hverjir ánægðir með hana, en 30 prósent þeirra segjast styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Ríkisstjórn eldra fólksins
Alls mælist stuðningur við ríkisstjórnina 42,7 prósent samkvæmt könnununum tveimur og hann kemur, líkt og áður sagði, að langmestu leyti frá væntanlegum kjósendum stjórnarflokkanna þriggja.
Stuðningur við ríkisstjórnina er hins vegar mjög breytilegur eftir aldri, búsetu, tekjum og menntun.
Hjá landsmönnum yngri en þrítugum nýtur ríkisstjórnin einungis stuðnings 29,3 prósent kjósenda. Stuðningurinn eykst síðan jafnt og þétt eftir því sem að kjósendur verða eldri og mælist mestur hjá 68 ára og eldri. Alls segjast 51,6 prósent landsmanna í þeim aldurshópi styðja ríkisstjórnina.
Hún nýtur líka yfirburðarstuðnings á Austurlandi, þar sem 56 prósent aðspurðra segjast styðja hana. Minnstur er stuðningurinn hins vegar á Norðurlandi þar sem hann mælist 37,2 prósent.
Þeir sem eru með háskólamenntun eru líklegastir til að vera ánægðir með ríkisstjórnina. Alls segjast 52,3 prósent þeirra styðja hana. Stuðningurinn eykst eftir því sem menntun er meiri.
Þá eru ríkisstjórnin mun vinsælli hjá tekjuhærri hópum landsins en þeim sem minna hafa á milli handanna. Þegar tekjulægsti hópurinn er skoðaður, sá sem hefur undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði, kemur í ljós að einungis 30,9 prósent þeirra sem tilheyra þeim hópi styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Stuðningurinn hækkar svo eftir því sem tekjur aukast og nær hámarki hjá þeim sem eru með yfir 1,2 milljónir króna í heimilistekjur á mánuði. Alls segjast 55,2 prósent þess hóps styðja ríkisstjórnina.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars