Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, í samráði við fulltrúa allra annarra flokka sem sæti eiga á Alþingi, hefur ákveðið að fela Félagsvísindastofnun HÍ að kanna viðhorf Íslendinga til stjórnarskrárinnar og endurskoðunar hennar.
Í frétt á vef Stjórnarráðs Íslands vegna þessa segir að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hafi komið fram að ríkisstjórnin vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs og á könnunin að vera liður í því. „Meginmarkmiðið með viðhorfskönnuninni er að draga fram sameiginleg grunngildi íslensku þjóðarinnar, að kanna viðhorf til tillagna sem komið hafa fram á undanförnum árum að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins og kortleggja sýn almennings á þau viðfangsefni stjórnarskrárendurskoðunar sem tekin eru fyrir á þessu kjörtímabili.“
Þjóðaratkvæði árið 2012
Þann 20. október 2012 var kosið um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Um var að ræða alls sex spurningar en sú fyrsta var hvort viðkomandi vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Alls sögðu 64,2 prósent þeirra sem greiddu atkvæði já við þeirri spurningu. Kjörsókn var 49 prósent. Þrátt fyrir þetta hefur ný stjórnarskrá ekki tekið gildi, tæplega sjö árum síðar.
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem birt var þann 30. nóvember 2017 segir að ríkisstjórnin vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og að nefnd um málið muni hefja störf í upphafi nýs þings. „Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“
Í febrúar 2018 skipaði forsætisráðherra nefnd um stjórnarskrármál sem skipuð er öllum formönnum þingflokkanna. Markmið nefndarinnar er að leggjast í heildarendurskoðun á stjórnarskránni.
Bjarni telur ekki þörf á heildarendurskoðun
Á sjöunda fundi nefndarinnar, þann 8. október 2018 tilkynnti Bjarni Benediktsson nefndinni að hann vildi láta færa til bókar að hann telji þess ekki þörf að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni heldur vinna áfram með helstu ákvæði, auðlindir, umhverfi, þjóðaratkvæði og framsalsákvæði. I fundargerð fundarins er haft eftir Bjarna að hann beri „samt virðingu fyrir að menn sjái þetta með mismunandi hætti en hann telji að hópurinn sé kominn á kaf í umræðu um atriði sem séu fyrir utan það sem hann telji þörf á að ræða.“
Vinna nefndarinnar hefur þó haldið áfram og Katrín sagði það síðast í Kastljósi í gær að hún bindi vonir við að það muni takast að endurskoða hluta stjórnarskrárinnar á þessu kjörtímabili svo að hægt verði að samþykkja þær breytingar í byrjun þess næsta. Hún bindi einnig vonir við að heildarendurskoðun nái að eiga sér stað á næstu tveimur kjörtímabilum.
Fyrstu skrefin í þessa átt voru stigin í maí síðastliðnum þegar tvö frumvörp voru sett inn samráðsgátt stjórnvalda sem varða breytingar á stjórnarskránni. Annars vegar er um að ræða frumvarp um umhverfisvernd og hins vegar frumvarp um auðlindir í náttúru Íslands. Frumvörpin verða til umsagnar til 30. júní, og getur fólk skilað athugasemdum fyrir þann tíma.
Í frumvarpinu þar sem fjallað er um auðlindir í náttúru Íslands, er lögð til breyting sem er orðuð svo: „Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“
Meirihluti fylgjandi nýrri stjórnarskrá
Kannanir sýna að meirihluti landsmanna er fylgjandi því að Íslendingar fá nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 18. til 22. október 2018 kom fram að 34 prósent aðspurðra töldu það vera mjög mikilvægt að landsmenn fái nýja stjórnarskrá, 18 prósent kváðu það frekar mikilvægt, 19 prósent hvorki mikilvægt né lítilvægt, 11 prósent frekar lítilvægt og 18 prósent mjög lítilvægt. Því töldu 52 prósent landsmanna það mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá en 29 prósent að það væri lítilvægt.
Hlutfall þeirra sem kváðu breytingar á stjórnarskrá mjög mikilvægar fór vaxandi með auknum aldri en 41 prósent þeirra 68 ára og eldri sagði mjög mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá, samanborið við 28 prósent þeirra 18 til 29 ára.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins, eða 54 prósent, voru líklegri en þeir búsettir á landsbyggðinni, 48 prósent, til að telja stjórnarskrárbreytingar mikilvægar.
Stuðningsfólk Pírata (90 prósent), Flokks fólksins (85 prósent) og Samfylkingar (83 prósent) reyndist líklegast til að segja það mikilvægt að landsmenn fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (66 prósent), Miðflokks (60 prósent) og Framsóknarflokks (41 prósent) reyndist líklegast til að segja það lítilvægt.