Tvær konur tilnefndar í æðstu stöður Evrópusambandsins
Christine Lagarde og Ursula von der Leyen hafa verið tilnefndar sem seðlabankastjóri Evrópu og forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Fái þær stöðurnar verða tvær konur í æðstu stöðum Evrópusambandsins í fyrsta skipti..
Hin þýska Ursula von der Leyen hefur verið tilnefnd sem forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og hin franska Christine Lagarde sem seðlabankastjóri Evrópu, að því er kemur fram í frétt BBC. Enn á atkvæðagreiðsla um tilnefningu þeirra eftir að fara í gegnum Evrópuþingið, en fái þær stöðurnar verða tvær konur í æðstu stöðum Evrópusambandsins í fyrsta skipti.
Hljóti van der Leyen stöðuna mun hún taka við af Jean-Claude Juncker sem hefur verið forseti framkvæmdastjórnar ESB frá 2014. Ursula von der Leyen hefur stuðning bæði Angelu Merkel og Emmanuel Macron. Ursula von der Leyen er hagfræðingur frá London School of Economics og lærði enn fremur læknisfræði í Hanover. Hún er einnig í sama stjórnmálaflokki og Merkel í Þýskalandi.
Verði Lagarde skipuð mun hún taka við af Mario Draghi en Lagarde er núverandi yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún hefur einnig stuðning Merkel og Macron. Lagarde er lögfræðingur að mennt og meistari í stjórnmálafræði frá Stjórnmálaskóla Aix en Provence. Hún var enn fremur viðskiptaráðherra Frakklands árið 2005 og fjármálaráðherra árið 2007.
Forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, er tilnefndur sem forseti leiðtogaráðs Evrópu og Josep Borrell sem æðsti fulltrúa sambandsins í utanríkis- og öryggismálum, að því er kemur fram í frétt BBC.
Hvernig fer valið fram?
21 ríki þurfa að samþykkja nýjan forseta framkvæmdastjórnar ásamt því að mannfjöldi þeirra ríkja þarf að vera fulltrúi 65 prósent heildarmannfjölda Evrópusambandsins.
Evrópuþingið getur haft áhrif á valið með því að tilnefna Spitzenkandídat. Hver og einn stjórnmálahópur innan þingsins stingur upp á einum einstakling til að taka að sér hlutverkið. Forseti framkvæmdastjórnarinnar verður sá Spitzenkandídat sem kemur úr flokknum með flest sæti eða sá sem nokkrir flokkar hafa fylkt sér bak við.Áhyggjur eru uppi að tilnefningarnar verði ekki samþykktar í Evrópuþinginu þar sem enginn þeirra einstaklinga í nýju stöðunum eru „Spitzenkandídatar.“ Auk þess er töluverð gagnrýni að öll þau sem tilnefnd voru í æðstu stöðurnar hafi verið Vestur-Evrópubúar en enginn frá Austur-Evrópu.
Ekki er þó um formlegt ferli að ræða þar sem ekki eru reglurnar skráðar í neinn sáttmála. Um er því að ræða venju fremur en reglu. Evrópuþingið gæti mögulega komið í veg fyrir að þær hljóti störfin vegna óánægju sinnar.
Hvað gerir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins?
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samanstendur af einum nefndarmanni frá hverju meðlimaríki Evrópusambandsins, því eru alls 28 nefndarmenn. Forseti framkvæmdastjórnarinnar ákveður auk þess hvaða nefndarmaður mun bera ábyrgð á hvaða málefni innan stjórnarinnar.
Framkvæmdastjórnin stingur upp á nýjum Evrópulögum við Evrópuþingið ásamt því sem hún kemur nýrri lögleiðingu í framkvæmd. Jafnframt kemur hún ákvörðunum Ráðherraráðs Evrópu í framkvæmd og sér framkvæmdastjórnin um fjárhagsáætlun Evrópusambandsins.
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópu er að vissu leiti talsmaður Evrópusambandsins innan alþjóðastofnana, sérstaklega þegar kemur að viðskiptum og mannúðarstörfum. Enn fremur fer forsetinn fyrir samningsnefnd um alþjóðasamninga ESB.
Hvað gerir seðlabanki Evrópu?
Seðlabanki Evrópu vinnur að öllu sem við kemur Evrunni, miðar að því að halda verðum stöðugum, ásamt því að leiða og framfylgja efnahags- og peningastefnu ESB. Bankinn ákveður einnig vexti innan evrusvæðisins.
Seðlabankinn ber einnig ábyrgð á að eftirlit með fjármálamörkuðum og -stofnunum sé framfylgt af yfirvöldum meðlimaríkja ESB. Hann vinnur einnig með öllum seðlabönkum meðlimaríkja ESB.