Ísland er með mestu losun frá hagkerfi á einstakling innan ESB og EFTA svæðisins samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 2016. Þar af er um þriðjungur af allri losun Íslands frá framleiðslu málma.
Í takt við aukna umhverfisvitund og stefnumótun í umhverfismálum kolefnisjafna sífellt fleiri einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir sig. Engu að síður eru engin lög eða reglugerðir sem skilgreina kolefnisjöfnun. Álverin eru ekki undanskilin þróuninni og virðast hafa með háleit markmið að minnka losun. Til að mynda skrifuðu fyrir stuttu fulltrúar frá ríkisstjórninni, stóriðjunni og Orkuveitu Reykjavíkur undir viljayfirlýsingu um CarbFix.
Samkvæmt yfirlýsingunni verður kannað til hlítar hvort aðferðin geti orðið raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega, til þess að draga úr losun CO2 frá stóriðju Íslands. CarbFix aðferðin felst í því að CO2 er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500 til 800 metra dýpi í basaltjarðlög, þar sem CO2 binst varanlega í berggrunninum í formi steinda. Varðandi hvort CarbFix sé kolefnisjöfnun segir í svari Umhverfisstofnunar að CarbFix sé vissulega kolefnisbinding en flóknara væri að flokka CarbFix sem kolefnisjöfnun.
„Á meðan við notum ál að þá framleiðum við það“
Í viðtali við Kastljós sagðist Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, finna fyrir miklum vilja til breytinga. Í viðtalinu kom fram að vísindamenn á vegum Orkuveitu Reykjavíkur hafi um árabil þróað CarbFix aðferð sem breytir koltvísýringi í grjót. Rio Tinto, Elkem, Fjarðaál, PCC á Bakka og Norðurál hafa tekið aðferðina upp á sína arma og ætla að kanna hvort aðferðin geti orðið raunhæfur kostur fyrir þau.
„Þetta kostar auðvitað. En þá auðvitað skiptir máli að líta líka til þess að losunarheimildirnar kosta líka mikið og verð fyrir þær hafa hækkað,“ sagði ráðherra. Í viðtalinu kemur fram að gagnrýnendur bendi á að aðferðin sé dýr og krefjist mikils vatns. Það þurfi 25 tonn af vatni til að binda 1 tonn af koltvísýringi. „Mér finnst einfalda sýnin í raun og veru vera sú að á meðan að við notum ál að þá framleiðum við það og auðvitað snýst það um að við séum að við reynum að minnka okkar neyslu almennt og það er það sem við þurfum að gera hvort sem við erum hér í þessu samfélagi eða annars staðar,“ sagði Þórdís Kolbrún.
„Það er þannig að ál fyrirtækin hafa minnkað losun um 75 prósent frá árinu 1990. Það er auðvitað mjög mikill árangur. Þetta gerðu fyrirtækin án nokkurra stjórnvaldsaðgerða, þannig að það að minnka losun er alltaf markmiðið,“ bætti ráðherra við.
„En við munum í framtíðinni áfram framleiða ál. Til dæmis er það þannig að rafbílar eru í meira mæli búnir til úr áli. Við erum öll að nota vörur sem eru búnar til úr áli og í þeirri framleiðslu að þá skiptir orkuvinnslan svo miklu máli og hér er hún hreinni heldur en mjög víða annars staðar og það, ég trúi því að það verði okkar samkeppnisforskot þegar fram líða stundir,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Koltvísýringslosun eykst
Samkvæmt tölum Hagstofunnar var Ísland með mestu losun koltvísýring frá hagkerfi á einstakling innan ESB og EFTA svæðisins árið 2016.
Losunin kemur að stærstum hluta frá flugi og framleiðslu málma. Þá kemur fram á vefsvæði Hagstofunnar að losun frá málmframleiðslu kemur ekki til vegna bruna á eldsneyti, heldur notkunar kola í rafskautum.
Einnig kemur fram að koltvísýringslosun frá hagkerfinu á einstakling hafi farið vaxandi frá árinu 2016.
Umhverfisstefnur álveranna
Öll álver á Íslandi hafa sett sér umhverfisstefnu ef miðað er við upplýsingar á heimasvæðum þeirra. Á vefsíðu Alcoa Fjarðaáls er fyrirtækið sagt starfa í sátt við umhverfið. Álverið sé eitt það tæknilega fullkomnasta og noti „aðeins besta tæknibúnað sem völ er á til að lágmarka umhverfisáhrif vegna starfseminnar.“ Samkvæmt vefsíðunni er styrkur losunar undir viðmiðunarmörkum. Fjarðaál endurvinnur einnig skautleifar, álgjall og aukaafurðir og stefna á engan úrgang, til að mynda er flúor sem hreinsaður er við útblástur álversins endurnýttur í álkerin.
Á vefsvæði Rio Tinto segir að í víðu samhengi sé ál umhverfisvænn málmur, sérstaklega þar sem endurnýtanlegir orkugjafar séu nýttir til framleiðslunnar. Rio Tinto heldur grænt bókhald og segir álverið sig vera frumkvöðla á sviði umhverfisstjórnunar og í birtingu umhverfisupplýsinga úr rekstrinum.
Norðurál er eitt þeirra íslensku fyrirtækja og stofnana sem skrifuðu undir yfirlýsingu um loftslagsmál í tengslum við loftslagsráðstefnuna í París, að því er kemur fram á heimasíðu álversins. Jafnframt segir að þar með hafi fyrirtækið skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Norðurál endurvinnur 75 prósent alls úrgangs og ætlar sér að draga úr hlutfalli óflokkaðs úrgangs.
Álverið ábyrgur þegn í samfélaginu
Á vefsíðu Umhverfisstofnunar má sjá graf um losun Íslands. Þar sést að hlutur iðnaðarferla hefur hækkað mjög frá árinu 2004 á meðan hlutfall landbúnaðar stendur því næst í stað.
Í samtali Kjarnans við Steinunni Dögg Steinsen, framkvæmdastjóri öryggis- og umhverfissviðs Norðuráls, segir hún umhverfisstefnu Norðuráls skiptast í þrjú yfirmarkmið, losun til lofts, förgunar á föstum efnum og svo þátttöku starfsfólks. „Umhverfisstefnan gengur út á að við erum ábyrgur þegn í þessu samfélagi,“ segir hún og segir Norðurál setja sér mælanleg markmið.
Aðspurð hvort hægt sé að tala um umhverfisvænt ál gefið að framleiðsla málma sé 30 prósent af útblæstri Íslands svarar Steinunn því játandi. „Já, ef þú berð saman ál og ál. Þetta er spurning um við hvað þú ert að bera þig saman við,“ segir hún. „Ef við tökum til dæmis sjampó. Eitt sjampó hérna og annað við hliðina og ekkert sjampó er kannski umhverfisvænt en þú ert að velja þér umhverfisvænna sjampóið.“
Umhverfisvænt ál miðað við önnur ál
„Ef maður skoðar söguna frá 1967, þegar við komumst að því að við höfum aðgengi að þessari orku, þá er rafgreining orkufrekasta framleiðsluferlið. Ef við tökum okkur út fyrir Íslands þá er losunin að búa til orku aðalmálið hvað svo sem þú notar orkuna í,“ bætti hún við.
Þegar maður talar um umhverfisvænt ál þá er það miðað við önnur ál
„Þegar maður talar um umhverfisvænt ál þá er það miðað við önnur ál,“ sagði Steinunn. Aðspurð hvort Norðurál ætli að draga úr losun á næstu árum svaraði Steinunn því játandi, annaðhvort að draga úr losun eða binda, það væru þær tvær leiðir sem væri verið að skoða. „Annað væri að finna leið, sem væri vænlegri kostur að vera með skaut sem losa ekki CO2. Verkefnið sem við erum að vinna með orkuveitunni, Elkem og Rio Tinto gengur út á að dæla CO2 ofan í jörðina“ og að verkefnið gangi út á að kanna hvort það sé fýsilegt til niðurdælingu. Steinunn bætir við að styrkurinn af koltvísýring á hvert rúmmál sé afar lágur hjá álverum.
Steinunn segir Norðurál ekki kolefnisjafna sig þar sem það væru engar aðferðir að gera það í dag en þau ætli sér að vera búin að því fyrir 2040. „Það sem við stefnum að er þessi niðurdæling. Þá tekurðu CO2 og setur það til baka. Þetta er eins og soda stream tæki, þú dælir því eins og sódavatni niður í jörðina aftur. Orkuveitan hefur gert þetta á Hellisheiði.“
Steinunn segir að CarbFix sé þó ekki að minnka losun heldur að binda losun. „Hitt verkið gengur út á að minnka losun varðar skautin að gera þau hlutlaus. Norðurál er ekki hluti af því heldur er það unnið í Kanada.“
Engar reglugerðir eða lög um skilgreiningu á kolefnisjöfnun
Engar reglugerðir eða lög eru til um skilgreiningu á kolefnisjöfnun. Því eru engin lög eða reglugerðir um hvað flokkist sem kolefnisjöfnun, að því er kemur fram í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn Kjarnans.
Tvö fyrirtæki og sjóðir bjóða upp á kolefnisjöfnun á Íslandi, það eru Votlendissjóður og Kolviður. Í svari frá Umhverfisstofnun við fyrirspurn Kjarnans er ekki vitað um fleiri fyrirtæki eða sjóði sem bjóði upp á kolefnisjöfnun önnur en hin fyrrgreindu. 300 einstaklingar hafa kolefnisjafnað sig það sem af er ári hjá Kolviði og 96 einstaklingar hjá Votlendissjóði.
Samkvæmt ábendingu frá Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur hjá Orkuveitu Reykjavíkur er CarbFix þó ekki kolefnisjöfnun heldur kolefnisbinding. Jafnframt er CarbFix aðferðin viðurkennd sem bindingaraðferð af Milliríkjanefnd um loftslagsmál (IPCC).
Hvati ef CarbFix kostar minna en losunarheimildir
Árni Finnson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að samtökin hafi ekki gefið út neina formlega yfirlýsingu varðandi CarbFix en „hvað Orkuveituna varðar lítur þetta vel út. Koltvísýringurinn fer aldrei út úr framleiðsluferlinu heldur er bundinn í bergi. Þá verður engin losun og ekki þarf að fanga kolefnið úr andrúmsloftinu líkt og sums staðar er gert eða reynt að gera til að koma CO2 fyrir í t.d. gömlum olíuborholum í Norðursjónum,“ segir Árni og bætir við að norsk stjórnvöld hafi lagt mikla fjármuni í rannsóknir á þeim möguleika.
Langsamlega best þó væri ef áliðnaðurinn gæti framleitt ál án þess að valda losun á gróðurhúsalofttegundum
Árni leggur áherslu á að forsendur þess að CarbFix verkefnið gangi upp sé að verð fyrir hvert losað tonn sé um 25 Evrur eða meira. Í dag sé verðið 27 Evrur á hvert tonn á markaði. Í dag sé verðið 27 evrur á tonnið hjá Losunarmarkaði Evrópu, eða ETS (EU Emissions Trading System) sem stóriðjan heyrir undir. „Hvati stóriðjufyrirtækjanna væri þá að CarbFix kostaði minna en að kaupa losunarheimildir innan ETS. Hvort unnt er að yfirstíga tæknilegar hindranir er önnur saga,“ segir hann.
„Miðað við að kostnaður vegna losunar gróðurhúsalofttegunda fari vaxandi innan ESB gæti verið mikill sparnaður fyrir Alcoa að nýta aðferð CarbFix,“ segir Árni. „Langsamlega best þó væri ef áliðnaðurinn gæti framleitt ál án þess að valda losun á gróðurhúsalofttegundum“ og telur Árni það vel hægt.
„Þrátt fyrir að áliðnaðurinn hafi reynt að draga úr losun eins og kostur er með núverandi tækni er vandamálið enn að notast er við kolarafskaut við bræðslu á áli. Við það losnar mikið mikið af CO2 og öðrum gróðurhúsalofttegundum. Vitaskuld er hægt að nota öðru vísi rafskaut en sú framleiðsluaðferð er enn of dýr, segja álfyrirtækin,“ bætir hann við að lokum.